laugardagur, júlí 13, 2024

Hver er maðurinn?

Hvaða maður er á þessari mynd? 
Mér finnst ég eiga að vita það en er búin að leita að myndum af öllum sem mér dettur í hug en þetta er ekki Kafka, Steinn Steinar, Davíð Stefánsson, Grímur Tomsen og … já, ég er búin að googla fleiri en þetta er ekki neinn þeirra.

Veist þú hver þetta er?


Vitavörðurinn kveður.

Dagur tvö - Bakkaflöt á Akureyri

Vindur sem var ekki í kortunum vakti okkur en hjólin voru öll standi. Þau stóðu líka allan daginn um Hofsós, fyrir Tröllaskaga, á meðan við klöppuðum geitum og grísum. Á Siglufirði lögðum við hjólunum í skjóli og borðuðum pizzur áður en við héldum áfram suður í gegnum göng sem gerðu sum okkar drulluskítug. Bara sum hjól og suma galla, sérlega merkilegt.
Ég var með farþega. Sú sem á hjólið sem fór á undan okkur í bæinn. Það gekk ágætlega og það var svo lítið mál fyrir hjólið að bera okkur báðar að ég var sífellt að líta í spegla á til að fullvissa mig um að hún sæti ennþá fyrir aftan mig. Sætið er hins vegar ekki sérlega þægilegt og ekkert sissybar þannig að hún var orðin frekar þreytt þegar við komum á áfangastað þó að ég reyndi að keyra slétt.
Hópurinn fór í kvöldmat á Strikið en við fórum þrjú á Sykurverk og hittumst seinna um kvöldið á Lundabar. Einstakur og skemmtilegur samkomustaður. 

Jájá, þetta bara orðið að ferðasögu. Gaman að því. 
Og ein mynd:


Gunna og grísin.

Það var bíll frá RÚV á staðnum en þó að ég hafi aldrei snert grís áður og grísirnir þrír eltu Gunnu þegar hún var búin að kjassa þá - og þeir smakkað á henni - þótti það ekkert fréttnæmt. 

Aftur er ég fegin að hafa ekki lagt blaðamennskuna fyrir mig. Ég er ekki með neitt fréttanef.

Lifið heil.

föstudagur, júlí 12, 2024

Dagur eitt

Í dag rigndi á okkur. Það blés. Svo komum við í Staðarskála og þar var bara vindur.
Það fór kúpling í Línakradal. Það kom trailer á leið súpur frá Sauðárkróki og náði í hjólið. Við fengum okkur kaffi á North West á meðan við biðum. Ég fékk mér kaffi, Gummi fékk sér eplagos.
Við hjóluðum í andi öflugum kviðum yfir Vatnsskarðið en lentum heilu og höldu á Bakkaflöt og sólin skein.

Góður dagur og margir, margir dagar framundan með frábærum ferðafélögum.









Góðar stundir.

fimmtudagur, júlí 11, 2024

Stóraferðin 2024

Á morgun leggja Skutlur og makar af stað í árlega mótorhjólaferð sem verður að þessu sinni sex nætur.

Við frestuðum brottför um klukkutíma til að vera ekki að leggja af stað í grenjandi rigningu en við munum ekki hjóla norður í þurru á morgun.


Það er alveg ástæða fyrir því að Skutlur eru eini mótorhjólaklúbbur landsins sem hjólar í merktum pollagöllum.

En þetta verður gaman!


Góðar stundir.

miðvikudagur, júlí 10, 2024

Annar frídagur

Í dag fagnaði Lúna þriggja ára afmæli og Birtir, sem er hundur frænda míns, varð fjögurra ára. Lúna var í pössun hjá okkur í nótt og við fórum í langan göngutúr með Blíðu í morgun í tilefni dagsins.
Auðvitað tók ég mynd:

Þær eru viljandi að vera aulalegar á þessari mynd. Getur ekki verið tilviljun að þær séu báðar svo sætar en myndast svona asnalega.

Ég hef aldrei hitt Birti en ég bauðst samt til að passa hann ef þau vantaði aupair fyrir hann - bauð honum sem sagt ekki pössun heima hjá mér. Það yrði allt fokhelt. Blíða er alls ekki hrifin af öðrum hundum þó að hún umberi Lúnu.

Ég hjálpaði líka við að skipta um dekkið á mótorhjólinu mínu. Alltaf að kæra eitthvað nýtt.

Góðar stundir.

þriðjudagur, júlí 09, 2024

Frídagur

Í dag var ég í fríi og ég ætlaði að gera alls konar.

Það tókst ekki og munaði minnstu að ég færi að sofa án þess að blogga. 

Og ég varð að nota freeze streak í fyrsta sinn í Duolingo vegna þess að ég byrjaði ekki á æfingu dagsins fyrr en 23:59.

Ég er algerlega að rúlla þessu fríi upp!
Gleymdu því að ég muni ekki lykilorðin mín. Ég man ekki einu sinni hvar ég vinn!

Hasta mañana.

sunnudagur, júlí 07, 2024

Komin heim …

… eftir algerlega frábæra helgi.

Strax farin að hlakka til næsta árs.

Ljúfa drauma.

laugardagur, júlí 06, 2024

Landsmótið

Var að fatta að ég steingleymdi að blogga í gær. Það var greinilega svo afskaplega gaman á Landsmótinu. 

Það er jafngaman í dag.
Ég blogga bara tvisvar einhvern næstu daga.

Skutlur, mótorhjólaklúbburinn minn, voru að vinna búningakeppnina rétt áðan - við vorum rosalegar! Sérlega áberandi og … eftirminnilegar.

Núna er verið að draga í happdrættinu - Gummi er búinn að vinna tvo vinninga.

Ég bíð spennt!




Lifum fyrir burrið.

fimmtudagur, júlí 04, 2024

Sniglar 40 ára

Í Varmalandi í Borgarfirðinum er verið að fagna 40 ára afmæli Sniglanna á Landsmóti þessa helgi.

Helgin verður frábær, staðurinn er flottur, veðurspáin er góð og það bara þannig að þegar mótorhjólafólk hittist er gaman. 

Fimmtudagar á Landsmóti eru alltaf skemmtilegir og í kvöld er Sniglabandið að spila. Ég tók myndband af stemningunni á dansgólfinu en það er ekki í boði að hlaða því beint upp á þessu síðu þannig að þið fáið bara skjáskot úr myndbandinu.




Passaðu uppá mótorhjólafólk, passaðu mig, líttu tvisvar.

miðvikudagur, júlí 03, 2024

Frí

Það er merkilegt hvað höfuðið fer í frí löngu áður en fríið byrjar.

Ég ætla að leggja mig fram um að gleyma öllum lykilorðum næstu tvær vikurnar. Það er sönnun á að fríið hafi verið nægilega langt. 

Segi ég sjálfri mér.


Góðar stundir.

þriðjudagur, júlí 02, 2024

Umferðamál

Það hafa orðið of mörg slys undanfarið. Óvarlega farið, akstur undir áhrifum og vegakerfið er ekkert sérstakt.

Ég fór samt að velta fyrir mér áðan hvort það sé ekki bara vegna þess að ég þekki fólk sem hefur orðið fyrir áhrifum á ömurlegum slysum? Er ég mögulega farin að vera gömul og líklegri til að bölsótast yfir hlutum sem hafa verið ömurlegir lengi?

Pæling. Ég er ekki viss.

Lifið heil.

mánudagur, júlí 01, 2024

Kosningar

Að hugsa sér að þurfa að kjósa í Bandaríkjunum haustið 2024 og hafa, í augnablikinu, val um glæpamann og mann sem ætti að hafa vit á að draga sig í hlé. 

Ég er á því að það sé betra að taka erfiðar ákvarðanir áður en þær eru teknar fyrir mig. Ég vona til dæmis: 
- að ég hafi vit á að hætta að keyra þegar það er komið gott
- að ég lifi enn svo spennandi lífi að það sé ekki óhuggulegt að taka ákvörðun um að hætta að vinna
- að ég bjóði mig ekki fram í verkefni sem ég mun ekki koma til með að ráða við vegna hópþrýstings eða lélegrar sjálfsþekkingar
- að ég komi til með að þekkja minn vitjunartíma

Líklega er það flókið. 
Ég hef látið hrífast með aðstæðum og samþykkt hluti sem ég hefði ekki gert við aðrar aðstæður. 
Látið undan hópþrýstingi. Það gera það mögulega flestir einhvern tímann en það væri óskandi að leiðtogi heimsálfu hefði vit á að gera það ekki.

Þetta verður eitthvað í haust.

Lifið heil.

sunnudagur, júní 30, 2024

Árið hálfnað

Á morgun er 1. júlí og þá er árið hálfnað. Ekki endilega nákvæmlega hálfnað en mánaðarlega hálfnað. Sex mánuðir búnir og sex eftir.

Hvernig var fyrri hluti ársins? Hvernig vel ég að seinni hlutinn verði? Hvað gerðist gott síðustu sex mánuði? Hverju hefði ég viljað breyta? Hvað lærði ég undanfarna sex mánuði sem ég get nýtt mér til að gera næstu sex mánuði betri? Hvað vil ég gera aftur? Hvaða mistök gerði ég? Hefði ég getað komið í veg fyrir þau? Get ég borið kennsl á mistök áður en ég geri þau næstu sex mánuði? Hvernig ætla wg að gera næstu sex mánuði eftirminnilega? Hvað langar mig til að gera til gera hvern dag góðan? Mun ég hætta að blogga daglega fyrsta vetrardag eins og ég ætlaði þegar ég hóf þessa tilraun fyrsta sumardaginn? Hverjar voru bestu bækur ár sem ég las síðustu sex mánuði? Hvað var það skemmtilegasta sem ég gerði? Hvað er ég að fara að gera skemmtilegt á næstunni? Hvað ætla ég að hafa í matinn Anna kvöld?

Allt góðar spurningar. 
Ég ætla að sofa á þeim.

Takk fyrir fyrst sex.

laugardagur, júní 29, 2024

Finnska tónlistargetraunin

Spyrjið mig eða spyrjið google frænku.

Mæli með henni á öllum mannamótum - og líka Tartýum ef þið eruð svo heppin að fá boð í slík.

Góðar stundir 

Tarty 4

Þessa helgi er Tarty 4 haldið í Götu hjá Guðrúnu Erlu Skutlu og Einari Hrolli Sleipnismanni. Þerta er fjórða árið sem þessir öðlingur bjóða okkur heim til sín í Götu og þetta eru bestu partý ársins.

Útieldhús, pallur með þaki, kamínur, tónlist, æðislegur matur, frábær félagsskapur og alltaf gaman.

Ég er svo afskaplega þakklát fyrir að geta og mega kalla þau vini mína. 
Megið þið öll eiga eins góða vini og Guðrún Erla og Einar eru vinum sínum.

Góðar stundir.

fimmtudagur, júní 27, 2024

Náttúrumeðferð

Síðan 2015 hef ég verið hluti af evrópsku og alþjóðlegu náttúrumeðferðarsamfélagi. Fólkið sem sinnir náttúrumeðferð er dásamlegt fólk. Mig langar til að hitta þau og umgangast daglega en mig langar líka til að skrifa og á meðan ég er enn að finna tíma til að ná heilum nætursvefni á veturna þegar ég er í skólanum líka þá verð ég að sleppa einhverju.

Þess vegna fór ég ekki á GATE4 2024 sem var haldið síðustu helgi í Lettlandi. En ég fékk bol og buff frá bestu vinkonu minni sem fór og skein eins og stjarna.

Ég var hins vegar á IATC9/GATE3 sem var haldið í Noregi fyrir tveimur árum. Algerlega frábær ráðstefna sem situr enn í mér. 
Síðan þá hafa tvö, Alex frá Spáni og Þýskalandi og Carina frá Noregi, unnið að því að gefa út allar greinarnar frá ráðstefnunni og eru að biðja fólk um að styðja útgáfuna. 700 blaðsíður, verður aðgengileg á netinu og troðfull af ótrúlega áhugaverðu efni.
Núna í fyrsta sinn vildi ég að einhver kíkti hingað til vitavarðarins en ég ætla samt að setja inn hlekkinn á fjaröflunarsíðuna:

Verið með og breytið heiminum.

Lífið heil.

miðvikudagur, júní 26, 2024

Alíslenskir froskar

Það eru víst froskar í Garðabæ, ekki bara prinsar.

Einu sinni átti ég frosk. Það var alveg óvart. Ég samþykkti að passa Magnús fyrir vinkonu mína sem var með hann heima hjá sér í lítilli stúdíóíbúð ásamt tveimur köttum. Kettirnir voru afskaplega hrifnir af froskinum en það var ekki gagnkvæmt þannig að Magnús flutti til mín. 
Það átti að vera tímabundið en hvorki vinkona mín né fyrri eigandi sóttu hann. Magnús var hjá mér lengi en ég bjó líka með ketti þannig að hann endaði heima hjá mömmu og pabba. 
Magnús var ágætt gæludýr en ekki beint skemmtilegur. Það kom löngu seinna í ljós að eigandinn hét víst Magnús ekki froskurinn og ég hef ekki hugmynd um hvað hann kallaði Magnús áður en hann sendi hann í ævilanga pössun til ókunnugra.

Ég vissi bara tvennt um Magnús þegar ég tók hann að mér. Ekki þrennt því ég klikkaði alveg á að spyrja hvað hann var kallaður.
Í fyrsta lagi að hann borðaði lifandi fæðu, orma og maðka til dæmis eða rækjur í bandi sem var hægt að sveifla til eins og þær væru lifandi.
Í öðru lagi að einu sinni hafi verið keyptur annar froskur svo Magnús yrði ekki einmana. Hann var einn í búrinu þegar ég fékk hann og fékk að vera einn áfram því Magnús át þennan félaga sinn. 

Hann óttaðist greinilega ekki að vera einmana.
Pabbi fyrirgaf Magnúsi aldrei að vera mannætufroskur og skipti sér aldrei af honum.

Eitt að lokum.
Ég reyndi aldrei að kyssa Magnús. 

Góðar stundir.

þriðjudagur, júní 25, 2024

Hinsti spölurinn

Í dag fylgdi ég manninum sem kenndi mér að hjóla hinsta spölinn.
Ég talaði ekki oft við hann eftir að ég varð fullorðin, leiðir okkar lágu sjaldan saman, en þegar ég var barn og unglingur man ég eftir mörgum samtölum um alls konar. Hann var eiginmaður vinkonu mömmu og ég þekki tvo yngri syni hans, af fimm systkinum, ágætlega.
Hann sagði mér frá traktorum og skrítnum dýrum í útlöndum. Hann vissi alls konar um mótorhjól, kunni að fljúga flugvélum og hafði séð öll lönd heimsins ofan frá, sem mér fannst stórmerkilegt.

Ég veit ekki hvers vegna hann hafði þolinmæði fyrir mér en hann var óeigingjarn á tíma sinn og hluti. Hann átti öll möguleg verkfæri og tæki. Hann gerði einu sinni gat í leðurbelti fyrir mig með al (sem ég hafði aldrei áður heyrt um) og lánaði mér vírklippur þegar mig vantaði svoleiðis í einhverju dúfnakofaævintýri.
Honum fannst heldur ekki mikið mál að lána mér hjól. Lítið blátt og rautt hjálpar dekkja laust hjól á þykkum hvítum dekkjum sem synir hans áttu en hann leyfði mér líka að nota það.
Ég man ennþá tilfinninguna þegar ég lyfti fótunum af malbikinu, hélt jafnvægi og byrjaði að stíga pedalana.
Algert og fullkomið frelsi. 

Ég held ég hafi aldrei þakkað honum fyrir að kenna mér að hjóla og víkka sjóndeildarhring minn.

Hvíl í friði L.S.S.

mánudagur, júní 24, 2024

Öpp

Ég er með nokkur öpp í símanum. Hugsanlega of mörg? Stundum næ ég í app, nota það einu sinni og svo dagar það uppi. Oft opna ég það aldrei aftur en eyði því ekki fyrr en eftir dúk og disk.
Ég notaði til dæmis alltaf bara norsku veðurspána en var með nokkur önnur sem virkuðu aldrei. Líklega orðin úreld en ég lokaði þeim alltaf bara aftur og opnaði annað app, án þess að eyða því sem virkaði ekki. 
Ef til vill bjóst ég við að það myndi batna ef ég léti það bíða?

En, núna er ég búin að finna algerlega frábært app sem ég vona að haldi áfram að vera frábært. Það heitir Betra veður.

Mæli með því.
Reikna líka með betra veðri með þetta í vasanum.

Kveðja vitavörðurinn

sunnudagur, júní 23, 2024

Sviss

Í haust fer ég til Sviss með fleira fólki. Við ætlum að leigja okkur mótorhjól og ferðast um, ekkert ákveðið ennþá annað en flugið til Zurich og hjólin. Ég verð á Ducati Multistrada. Hef aldrei prófað þannig en geri ráð fyrir að það verði ótrúlega gott hjól. Ég er sannfærð um að ferðin verði frábær.
Þess helgi byrjuðum við aðeins að ferðast á Google Maps. Höfum aldrei gert það áður því yfirleitt kaupum við bara flug, vitum nokkur vegin í hvaða átt við ætlum þegar við lendum og leggjum af stað. 
Kemur í ljós hvort er betra en gæti skeð að það lengi ferðalagið að gera þetta svona? Og ég fæ að sjá miklu meira en ef við hefðum bara valið átt því ég skoða svo mikið af myndum.

En ég ætla samt í ferðalagið. 
Ég er með ímyndunarafl en mig langar til að finna lyktina. Hún finnst ekki af myndum.

Lifið heil.

laugardagur, júní 22, 2024

Instagram live

Tvö sem eru með mér í ritlistinni opnuðu á beint instagram streymi áðan úr pottinum sem þau voru í vestur á Ströndum. 
Karólínu var boðið að vera í Steinshúsi á Nauteyri og bauð Sölva með sér. Þau voru með ljóðaupplestur og listamannaspjall í beinni útsendingu úr pottinum. Á morgun verða þau með upplestur einhvers staðar sem hluti af Snæfjallahátíðinni sem er verið að halda í fyrsta sinn þessa helgi. Kannski stefni ég á að mæta á hana næstu Jónsmessuhelgi?
Það hljómar í það minnsta vel að stefna á eitthvað ferðalag að ári liðnu í tilefni af sumarsólstöðum (laugardagur) og Jónsmessunni (þriðjudagur).

Gott plan!

Og góðar stundir.

föstudagur, júní 21, 2024

Grímuklætt söngfólk

Á föstudögum eru þættir á Stöð tvö með grímuklæddu fólki. Þau eru í svakalega íburðamiklum og flottum búningum á meðan þau syngja og svo giska dómararnir á hver þau eru.
Ég hef stundum horft með mömmu og dáumst bæði að búningunum og atriðunum sem eru sum sérlega flott.
Við reynum samt aldrei að giska hver er undir grímunni. Það skiptir engu máli. Við þekkjum þetta fólk ekkert frekar án grímunnar.
Það hljóta að vera fleiri eins og við. Þessi þáttur er keyptur, textaður og sýndur á besta tíma fyrir fólk sem kann að meta búninga. 
Ég skil hvers vegna Íslendingar halda bæði uppá Hrekkjavöku og Öskudag.

Góðar stundir

fimmtudagur, júní 20, 2024

Bókin

Mér var sagt að það væri 50% afsláttur í Bókinni þessa dagana. 

Ætli það sé ekki eins og fyrir nammifíkil að vita að það af 50% afslætti á nammibarnum?

Ég þarf ekki fleiri bækur.
Ég þarf ekki fleiri bækur.
Ég þarf ekki fleiri bækur.
Ég þarf ekki fleiri bækur.

En er hægt að eiga of margar bækur?

Kannski ef þær væru allar leiðinlegar?


Góðar stundir


miðvikudagur, júní 19, 2024

Bókablogg

Hef aðeins verið að velta fyrir mér að skrifa bókablogg en er ekki komin að neinni niðurstöðu. Helst hugsa ég að ég myndu ekki nenna að pikka svo mikið inn í símann - ég er líka alltaf að gera einhverjar klaufalegar innsláttarvillur.

Kannski blogga ég um bækurnar sem ég les ef ég bæ að logga mig inn hingað í tölvunni.

Kannski ekki.

Lífið er svo spennandi!

Lifið heil

þriðjudagur, júní 18, 2024

Þriðjudagur

Vegna þess að 17. júní var í gær, á mánudegi þá er þetta bara fjögurra daga vinnuvika. Ég hef hlakkað til hennar. Það eru bara þrír vinnudagar eftir.

Ég kann vel við vinnuna mína, ég vinn með algerlega frábæru fólki og vinnan er skemmtileg en mér finnst hún fækka tímunum sem ég hef á hverjum degi til að gera aðra hluti. 

Á morgun fer ég að vísu aðeins fyrr úr vinnunni en það er til að fara til kvensjúkdómalæknis og ég væri alveg til í að sleppa við það.

En annað kvöld verða bara tveir vinnudagar eftir í þessari viku.

Ætli vitaverðir verði þreyttir á sinni vinnu líka?


Lifið heil 

mánudagur, júní 17, 2024

Þjóðhátíð og egg

Þjóðhátíðardagurinn minn var bæði venjulegur og óvenjulegur en hvorki þjóð- né hátíðlegur.

Ég umpottaði blóm og bætti klifrugrindum í pottinn því plantan er klifurplanta og alltaf að leita sér að stöngulfestu (þar sem hún er hvorki með hendur né fætur leitar hún ekki með þeim).

Svo borðuðum við brauðbollur og skúffuköku sem við keyptum til að styrkja dóttur vinkonu minnar. Þær mæðgur eru að fara í keppnisferðalag til Danmerkur í ágúst þar sem sú yngri mun keppa í klifri. Treysti á að hún finni bæði hand- og fótfestu því hún er ekki planta.

Við færðum húsgögn aftur því við börum ekki alveg sátt við feng súíið. Þetta er betra núna.

Svefnsófinn er enn stór og leitar sér mögulega að tímabundnu fóstri.

Við pöntuðum gistingu fyrir væntanleg ferðalög á meðan við borðuðum páskaegg sem gleymdist.

Og þegar við komum heim um kvöldmatarleytið var búið að grýta húsið með eggjum. Núna vildi ég að ég vissi hvort þetta hafi verið prakkarastik, umhverfisvænn þjóðhátíðarflugeldur eða á ég óvin sem tímir samt lífrænum brúneggjum á mig? Lífræn egg eru afskaplega úthverfa- og efri millistéttarlegt vopn þannig að ég velti fyrir mér hvort ég hafi mætti í veislu í eins kjól og önnur? Eða tekið óvart uppáhaldsskáp í sundi? Eða ræktinni? Borðað síðustu snittuna? Eða ekki verið nægilega dugleg við að skera fíflana úr garðinum? Ég var reyndar að lesa að það eigi að láta þá í friði því býflugur leita í þá og þeir lækna jarðveginn og skila af sér mikilvægum efnum í moldina. Kannski missti ég þráðinn í samtali og fór að tala um eitthvað ótengt umræðuefninu og móðgaði manneskju sem mundi eftir mér þegar hún gekk framhjá húsinu mínu með lífrænu eggin sín í fjölnotapokanum sem var keyptur til að styrkja viðskiptalán til kvenna í landi þar sem konum bjóðast fá eða engin tækifæri?

Eða hanfahófskennt prakkarastik algerlega ótengt mér og minni framkomu?

Gleðilega hátíð.
Splatt!

sunnudagur, júní 16, 2024

Af stærðum

Einu sinni keypti pabbi sjónvarp. Hann var að vísu sá eini sem keypti sjónvörp þegar ég var að alast upp en þau voru öll skynsamlega stór og pössuðu í sjónvarpsherbergið, sem við kölluðum Gryfjuna því það lágu sex tröppur niður í hana úr stofunni. Þegar hann keypti sjónvarpið sem ég er að hugsa um valdi hann skjá með góðri upplausn og það sem honum fannst vera meðalstórt í búðinni. Heim komið leið honum eins og hann sæti á fyrsta bekk í bíói. Skjárinn var risastór og sófinn svo nálægt að honum fannst hann alltaf vera að hreyfa höfuðið til að sjá allt sem var að gerast. 
Hann hafði líka töluverðar áhyggjur af því að það væri tilgerðarlegt að vera með svona stóran flatskjá.

Stjúpdóttir mín flytur aftur heim um mánaðamótin og ætlar í HR í vetur. Þegar hún flutti út keyptum við svefnsófa í herbergið hennar svo hún ætti alltaf samastað hér ef hún vildi, þyrfti eða væri á landinu í einhvern tíma. Þetta er fínn sófi en ekki endilega góður til lengri tíma þannig að hún kemur með rúmið sitt þegar hún flytur inn.

Þessi sófi er núna kominn inn í stofu og það er ekki lengur hægt að skipta um skoðun. Það er ekkert pláss til þess. Mér fannst hann aldrei svona stór áður. Hann var alls ekki svona stór í Húsgagnahöllinni. Hann var frekar stór í herberginu en hann var augljóslega samt bara tveggja sæta sófi undir glugganum. 
Núna er hann á miðju stofugólfinu og ég er viss um að hann sé bæði þriggja sæta og tæplega tveggja metra hár. 
Hann byrgir útsýni út á götu.

Svefnsófinn okkar er ekki tilgerðarlegur. Hann er of stór, það borgar sig pottþétt ekki að móðga hann. Hann er líka ábyggilega skapvondur eins og gerist þegar fólk tekur stera.

Ég vona bara að ég venjist honum eins vel og pabbi vandist skjánum sínum og ég ætla að hugsa vel um hann. Það er ekki honum að kenna hvað hann er stór.

Kær kveðja,
Vitavörðurinn og sterasófinn

laugardagur, júní 15, 2024

Sturlungadagurinn

Í dag var árlegi hjólarúntur Sturlunga. Algerlega frábært veður og meira að segja hlýr vindur á Suðurstrandarveginum. 

Þessi mynd er ekki síðan í dag en vegna þess hvað hún er flott tók Unnur Magna ljósmyndari hana ábyggilega.




Öll komu heil heim

föstudagur, júní 14, 2024

Fleiri orðapælingar

Við tölum um stuttbuxur og stuttermaboli. Hvers vegna er ekki samræmi í því? Hvers vegna notum við ekki orðin stuttbolur eða stuttskálmabuxur?

Lífið heil

fimmtudagur, júní 13, 2024

Strandlengjan

Í dag fór ég að velta fyrir mér af hverju við förum ekki niður á strönd á Íslandi. Við erum vissulega með Strandvegi í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Vík, Garðabæ og á Sauðárkrók. Það eru líka Strandgötur í Hafnarfirði, Sandgerði, Neskaupstað, Ólafsfirði, Patreksfirði, Tálknafirði og Eskifirði og á Akureyri, Stokkseyri og Hvammstanga (fleiri?) en tölum við um ströndina? Mér er sagt að Akranesingar fari á ströndina þegar þeir fara niður á Langasand en fara ekki allir hinir Íslendingarnir, hringinn í kringum landið, niður í fjöru? 

Hafa einhverjir Íslendingar farið í fjöruferð á Tene?


Sólarkveðjur, sandur og ajór.

miðvikudagur, júní 12, 2024

Dagurinn hennar mömmu

Mamma á afmæli í dag og auðvitað söng ég fyrir hana. Ég dansaði meira að segja smá en ég dansa fyrir hana á hverju einasta kvöldi svo það var ekki sérstaklega í tilefni dagsins. 

Allt sem mig langar til að skrifa í tilefni dagsins þvælist í höfðinu á mér og ég ætla að láta nægja að óska mömmu innilega til hamingju með daginn sinn.

Fagnið hverju ári og gleðjist með fólkinu ykkar 

þriðjudagur, júní 11, 2024

Skúli Óskarsson

Þegar ég var þriggja ára setti Skúli Óskarsson heimsmet í kraftlyftingum. Hann var frægur og mér fannst hann algerlega æðislegur. Ég átti úrklippubók og safnaði myndum af honum og límdi fallegustu límmiðana mína á blaðsíðurnar. Mér er sagt að ég hafi gengið um með þessa bók og sýnt fólki hana í óspurðum fréttum. Með þessum orðum: “finnst þér hann ekki ógeðslegur?” 

Held ekki að það hafi varla verið mín eigin orð því mér hefur alltaf fundist hann frábær. Sjarmerandi. Fyndinn og myndarlegur en núna er hann fallinn frá. Það hefði verið gaman að hitta hann í eigin persónu en ég hef gert það að lífsreglu að hitta helst ekki átrúnaðargoð mín. Ég kýs að upphefja þau á þann hátt að engin manneskja getur staðið undir því.


Blessuð verði minning Skúla Óskarssonar 

mánudagur, júní 10, 2024

Aphantasia

Það sjá allir hlutina mismunandi fyrir sér en ég gerði alltaf ráð fyrir að það gætu allir séð eitthvað fyrir sér. Ég get ímyndað mér lyktir og hljóð og snertingu og bragð líka. Það getur verið listir nema kannski þegar ég finn bragð af einhverjum mat sem ég er ekki búin að búa til en er viss um að muni smakkast vel. Það gengur ekki alltaf upp en er samt yfirleitt tilraunarinnar virði.

Ég var hins vegar að læra um eitthvað sem heitir aphantasia. Fólk með aphantasíu getur ekki séð hluti á fyrir sér. Það sér ekki mynd af tjaldi og finnur lyktina af grasinu í fortjaldinu eða sér litinn innaní því eða getur fundið fyrir hitanum þegar sólin fer að skína. Það bara vantar. Ef ég væri með aphantasíu myndi ég ekki sjá Blíðu fyrir mér þegar ég hugsa um hana heldur orðið Blíða. Orðið sjálft.

Mér finnst afskaplega erfitt að ímynda mér þetta þrátt fyrir að vera einstaklega góð í að sjá hlutina fyrir mér. Þegar ég reyni að sjá Blíðu fyrir mér sem orðið Blíða sé ég litla nefið á henni stinga sér útum ð-ið eða að naga kommuna yfir í-inu.

Stórmerkilegt alveg.


Lifið heil.

sunnudagur, júní 09, 2024

Loksins mótorhjólaveður

Það komu nokkrir góðir dagar í maí en síðan er búið að vera ansi kalt. Auðvitað er hægt að klæða sig betur en ef eg klæði mig of mikið finnst mér erfitt að hreyfa mig og það er einfaldlega ekki eins gaman og að rúnta um í smá hita. Það þarf ekki að vera sól en helst ekki rigning.

Já. Ég á pollagalla en aftur, það er skemmtilegra að hjóla þegar það er gott veður. Eins og í dag. 

Sem betur fer átti ég erindi á Eyrabakka á opnun sýningarinnar hennar Nínu um Konurnar á Eyrabakka
Mæli með, bæði sýningunni og bókinni.

Góðar stundir.

laugardagur, júní 08, 2024

Innsæi

Í dag fór ég í útskrift hjá frænda mínum. Ég þekki hann ekki mikið en hann er sérlega frambærilegur og ég er þessi gamla frænka sem fylgist með honum á samfélagsmiðlum mömmu hans og kaupi alls konar þegar hann er að safna fyrir keppnisferðalögum. Eins og gamlar frænkur eiga að gera.

Hann hefur mikinn áhuga á Ásatrú og ég hjálpaði honum aðeins með verkefni tengt henni síðasta vetur. Ég var þess vegna búin að ákveða hvaða bók mig langaði til að gefa honum en þegar ég hélt á henni fannst mér hún ekki vera rétta gjöfin. Mér fannst hún alls ekki passa en gat ekki sagt hvers vegna ekki. Hann gæti sótt hana á bókasafn, hún var ábyggilega úrelt, kannski var hann bara spenntur fyrir Ásatrú útaf þessu eina verkefni?

En ef innsæið sagði mér að þessi bók myndi ekki virka hvað ætti ég þá að gefa honum? Skartgrip auðvitað!

Einmitt. Ég hef jafnmikið vit á skartgripum og snákar hafa á skóm. Mér gekk hins vegar ekkert að fá mig ofan af þessari skartgripahugmynd. 
Þannig að ég fór að leita. 
Að skartgrip fyrir 16 ára strák. 
Rökrétt. 

Alls ekki.

Í veislunni í dag spurði föðurbróðir minn útskriftarfrænda minn hvað hann ætlaði að gera í haust. Svarið kom án hiks. Hann langar til að verða gullsmiður.

Innsæi mitt klikkaði ekki í dag

Kannski er vitavörðurinn skyggn?

Hlustið með lifrinni, inn, út, inn, inn, út.

föstudagur, júní 07, 2024

Nýfædd börn

Ég man þegar frændsystkini mín fæddust og mér finnst alls ekki langt síðan. Vitsmunalega veit ég að þau eru öll að verða ansi fullorðin en tilfinningalega eru þau ennþá svo lítil að það er hægt að lyfta þeim og alls ekkert skrítið að stinga uppá að fara í einhvern leik eða lita. Þegar ég hitti þau eru þau fullorðin.

Þrjú frændsystkini eiga núna sín eigin börn sem þýðir d ég er bæði afa- og ömmusystir. Það er magnað.

Nýjasti ættingi minn fæddist síðastliðna nótt, stór, sterkur og sprækur. Velkominn í heiminn elsku frændi.

Lifið heil

fimmtudagur, júní 06, 2024

Geymslur

Hvernig ákveðum við hverju við viljum halda og hvernig ákveðum við hvað er óþarfi?

Vitavörðurinn spyr.

Það virðast allir vera með þetta á hreinu.

Góðar stundir

miðvikudagur, júní 05, 2024

Japönsk orð

Í kvöld fór ég í bíó og sá Snertingu, nýju mynd Baltasars Kormáks eftir samnefndri bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þetta var afskaplega falleg mynd og ég mæli með því að sjá hana. Alls ekki eins sorgleg og ég bjóst við og ég þurfti varla að nóta tissjúin sem ég fór með.

Eitt það merkilegasta við myndina var hversu líkur Tom Hanks mér fannst Egill Ólafsson vera. Aftur og aftur fannst mér ég vera að horfa á Hollywood mynd með Tom Hanks í aðalhlutverki, ekki íslenska mynd. 

Á næstu önn fer ég á námskeið þar sem ég læri að skrifa um menningarafurðir almennilega. Þá geri ég kannski aðra tilraun til skrifa um þessa mynd.

En í kvöld ætla ég að láta að nægja að skrifa um japönsk orð. Eitt sem var minnst á í myndinni var kodokushi, óttinn við að deyja án þess að hafa einhvern hjá sér. Annað orð var hibakusha, fórnarlamb kjarnorkuárásir. 

Ég á mér nokkur uppáhalds japönsk orð sem þýða eitthvað ákveðið en eru ekki til nema sem setningar í öðrum tungumálum. Eitt þeirra er tsundoku. Þau eru fleiri en ég er líka afskaplega þreytt og þyrfti að fletta upp stafsetningunni.

Góðar stundir


þriðjudagur, júní 04, 2024

Vinahópar

Ég hitti gamla vini í gær. Þau eru auðvitað alls ekki gömul, það er bara langt síðan við vorum að hittast reglulega. Daglega er líklega betra orð því í minningunni vorum við alltaf saman.

Vinahópurinn hittist í jarðarför. Ég hef nokkrum sinnum sagt við fólk, og meint það innilega, að ég hefði viljað hitta það við aðrar aðstæður. Jarðarfarir eru einmitt samkomur sem er erfitt að fagna því að vinahópurinn sé samankominn á ný öllum þessum árum seinna.

Ég veit hvers vegna fullorðið fólk hittir vini sína ekki eins oft og unglingar. Við erum að vinna og sinna heimilum og fjölskyldum. Við höfum tekið að okkur alls konar ábyrgðir í vinnu og félagsstörfum sem tæma batteríin þannig að okkur dettur kannski síður í hug að hringja í vin á virku kvöldi og stinga uppá ísbíltúr eða fjöruferð. Við veljum farveginn sem líf okkar flæðir eftir, meðvitað eða ómeðvitað, og þegar við höfum gert það sem við erum að gera nægilega lengi hafa bankarnir slípast til. Straumurinn hefur grafið sig niður og við flæðum sjaldan, jafnvel aldrei, yfir bakkana og búum til litlar sprænur sem við getum leyft okkur að fljóta eftir með gömlum vin eða vinkonu. Ekki nema við skipuleggjum það með fyirvara og höggvum skarð í bakkann til að hleypa okkur úr straumnum eina og eina kvöldstund. 

Stundum er skarðið hoggið fyrir okkur og við sameinumst gömlum vinum eitt síðdegi og syrgjum eitt okkar sem við munum aldrei hitta aftur.

Mig langar til að flæða yfir bakka mína oftar. Helst af öllu vil ég ráða því sjálf, hitta skemmtilegt fólk við gleðilegar aðstæður og upplifa samverustundir sem koma í veg fyrir að ég fari öll aftur í sama farveginn.


Njótið dagsins og farið í bíltúr

mánudagur, júní 03, 2024

Ástarsögufélagið

Ég er einn af stofnmeðlimum Ástarsögufélagsins. Í kvöld hitti ég tvær úr því ágæta félagi og maður lifandi hvað það er margt spennandi á döfinni.

Ég mun án efa skrifa um það á þessa síðu því eitthvað verður vitavörðurinn að hvísla að vindinum. 

Lifið heil

sunnudagur, júní 02, 2024

Lýðræði

Þá er kominn nýr forseti sem ég er viss um að muni standa sig vel. Þau hefðu öll staðið sig með prýði og vissulega hefði forsetaembættið farið uppá annað level í glæsileika ef Ásdís Rán hefði unnið.
Viktor hefði kannski eignast stærri frysti. Kannski góð hugmynd, kannski ekki.




Undanfarnar vikur hef ég oft heyrt að fólki finnist fáránlegt hvað mörgum hafi dottið í hug að bjóða sig fram. Mér finnst það hins vegar frábært.
Það er ekki aðeins aðdáunarvert að fólk hafi hugrekki til að heyja kosningabaráttu í heimi þar sem öllum finnst þeir hafa rétt á að segja hvað sem er - virk í athugasemdum hafa fengið að pikka sig södd undanfarið. Heldur líka hvað lýðræðið er nálægt okkur og öll geta boðið sig fram sem finnst að rödd þeirra eigi að heyrast.

Ég er ekki ósátt við Höllu Tómasdóttur sem forseta, hún er vel máli farin, kemur vel fyrir og er frambærilegur fulltrúi þjóðarinnar en. Það er eitt smá en.
Í lýðræði höfum við öll rödd en er strategískt atkvæði lýðræðislegt? Er lýðræðislegt að kjósa þann sem kannanir sýna að kemur næst þeim frambjóðanda sem þú vilt ekki að verðu forseti? Og hverjir voru spurðir í þessum könnunum? Ég þekki engan sem fékk símtal eða tölvupóst með spurningum um hvern þau hyggðust kjósa. Ég hef verið að gera könnun á því nefnilega, óvísindalega auðvitað og með hreinu slembiúrtaki úr þeim hóp sem ég hitti daglega.

Ég veit það ekki, ég veit ekkert um pólitík, en sýna niðurstöðurnar raunverulegan hug þjóðarinnar?

Þetta eru of margir pólitískar færslur. Dag eftir dag. Þeim verður að linna og ég er því samþykk.

Góðar stundir

Kosninganótt

Ég er ekki að fylgjast með tölunum en er frekar spennt að sjá hver verður forseti þegar ég vakna á morgun. Ekki mikið spennt. Ekki eins og ég eigi afmæli á morgun en smá spennt.

Stundum vildi ég að ég hefði meiri áhuga á pólitík en í sannleika sagt vantar hana í mig. Það er ekkert við stjórnmál sem mér finnst spennandi nema mögulega í sjónvarpsþáttum þar sem er búið að slípa og pússa og þjappa alls konar málum í hálftíma langan úrdrátt. Stjórnmálasaga er líka ágæt, þegar það er hægt að lesa um atburði á nokkrum blaðsíðum sem var marga mánuði eða ár að raungerast.

Það er á svona kvöldum, þegar ég ætti að vera vakandi og spennt, sem ég er svo ánægð að hafa hætt í fjölmiðlafræði. Það skiptir mig ekki máli hvenær ég fæ að heyra fréttirnar, það sem gerist gerist.

Megi einhver fambjóðandi vinna.

föstudagur, maí 31, 2024

Mér er létt

Það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði fréttasíðu í morgun var frétt um Hermann Ólafsson útvegsbónda á Stað við Grindavík.

Hann tók við kindum og rekur nú rolluhótel.
Það er til hitt fólk.



Það gleður mig.

Lifið heil

fimmtudagur, maí 30, 2024

Forsetakosningar, dýr og ábyrgð

Við munum kjósa nýjan forseta á laugardaginn. Það gaus í gær við Sýlingafell. Það er ekkert annað í fréttunum og ég er alltaf að hugsa um kindurnar sem eru fastar í Grindavík.
Ég þori ekki að reyna að komast að því hvort það sé búið að bjarga þeim eða ekki því ég óttast að þær eru enn lokaðar inni, einar og vanræktar með lömbin sín. Eru þær allar bornar? Ég skil að bændur vilji vera heima, í sínum eigin fjárhúsunum, í sauðburðinum en hefði ekki verið hægt að gera einhverjar ráðstafanir? Hefðu þeir ekki mátt vera heima áfram? Manneskjur bera ábyrgð á húsdýrunum sínum því við rænum getu þeirra til að bera ábyrgð á sjálfum sér með því að gera þau okkar. 

Mannskepnan er samt ekkert sérlega góð í að taka ábyrgð. 

Í mörg hundruð á ræktuðum við dúfur og gerðum þær að þjónum okkar. Létum þær fljúga með skilaboð langar vegalengdir og þær sem voru háðastar manneskjum fengu að lifa. Kynslóð fram af kynslóð ræktuðum við frelsið úr dúfum og gleymdum þeim svo þegar póstþjónusta kom til sögunar. Hentum þeim frá okkur því við fengum nýrra og betra dót.

Núna eru dúfur kallaðar fljúgandi rottur í stórborgum og við þolum ekki að þær eru sífellt að betla mat. Hvað eiga þær annað að gera? Þær voru ræktaðar til að leita til manneskjunnar eftir mat. Við ræktuðum frelsið úr þeim.
Líffræðilega kunna þær ekkert annað og það er okkur að kenna.

Ég tek ábyrgð á því að þessi færsla var ekkert um kosningarnar eins og til stóð. Ég skrifa kannski um þær á morgun.

Takið ábyrgð og verið almennilegt fólk

miðvikudagur, maí 29, 2024

Rúmur mánuður

Ég hef bloggað daglega í rúman mánuð. Sumar færslurnar hafa verið afleitar, aðrar ágætar. Sumt hef ég hugsað í einhvern tíma annað ekki nema í nokkrar mínútur. Flest hefur hvarflað að mér þegar ég er að velta fyrir mér um hvað ég eigi að skrifa.

Þegar ég opna forritið á kvöldið man ég nefnilega sjaldnast allt það sniðuga sem mér datt í hug um daginn og ætlaði að blogga um.

Markmið næsta mánaðar er að skrifa hjá mér það sem mér dettur í hug í staðinn fyrir að finna uppá einhverju þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin og man að ég á eftir að blogga.

Gott plan.
Stefni á að fylgja því að mestu.

Sjáum til og verið sæl og blessuð.

þriðjudagur, maí 28, 2024

Daglegt líf

Það eru ekki alltaf jólin. Sem betur fer. Hvernig stæðu bankareikningarnir okkar ef svo væri? Við myndum heldur ekkert njóta jólanna, þau yrðu hversdags.

Ein sú mesta gæfa sem hverjum getur hlotnast er að mínu mati að geta hlakka til næsta dags. Það er ekki sjálfgefið. Það þarf ekki að hlakka til dagsins í heild en eitthvað hlýtur að vera tilhlökkunarefni?

Að fara í hreinan stuttermabol, að greiða sér án þess að greiða í gegnum flækju eða greiða sér til að losa flækju, við erum öll svo ólík. Að sjá hvernig veðrið verður. Að finna lyktina af öspunum. Að vekja hundinn og fagna þegar það bætist enn einn stolinn tennisbolti við dótakörfuna. Það gerist ekki á hverjum degi en þá eru jólin hjá Blíðu.

Ætli það sé í einhverjum sjálfshjálparbókum að skrifa þakklætisdagbók og hlakka til næstu hversdags-micro-jóla?

Góðar stundir

mánudagur, maí 27, 2024

Ný orð

Þegar ég er undir miklu álagi lendi ég stundum í því að nota röng orð. Ég er ekki ein um það. Að muna ekki orð getur meira að segja verið einkenni álags samkvæmt skólabókunum. Það getur sömuleiðis verið vísbending um alls konar taugasjúkdóma sem ég held ekki að hrjái mig því ég fer að hengja handklæðið aftur á ofninn inná baði og ekki hitagrindina um leið og ég fer að sofa betur.

En mér finnst líka gaman að nota ný orð sem mér finnst að ættu að vera til því þau eru svo lýsandi.

Bjartskýjað þegar það sér ekki til sólar í gegnum þykk ský en birta sólarinnar sést samt í gegnum skýin.

Steinaber á er nánast þurr á.

Trampólínfokrok er óvænt rok á árstíma þegar ekki er vanalega búist við stormi og engum dettur í hug að festa lausamuni. Það er líka bæði gaman að segja og skrifa trampólínfokrok.

Og fleiri. Ég læt ykkur vita.

Lifið heil og notið orðin ykkar.

sunnudagur, maí 26, 2024

Sunnudagskvöld

Helgin var svakalega skemmtileg.

Brúðkaup á föstudag, dásamlegt fólk, fyndin skemmtiatriði, æðislegur matur og ástin, öll þessi ást.

Furðusagnahátíð og allt fólkið þar. Mikið óskaplega er þessi bókmenntakimi prýddur fallegum mennskum blómum.

Ég er engu nær um hvað mig langar til að skrifa en ég verð alltaf vissari um að ég muni gera það. Öðruvísi en til þess að skila inn verkefnum.

En næsta vika er heilir fimm dagar. 
Langt síðan síðast og þrjár vikur í næstu fjögurra daga helgi. 
Það verður í lagi. Ég mun auðveldlega lifa á þessari helgi fram að næstu.


Góðar stundir

laugardagur, maí 25, 2024

IceCon 2024

Í dag tók ég í fyrsta sinn þátt í Furðusagnahátíð og skemmti mér konunglega. Ég var ekki viss um að komast og skráði mig bara í morgun en núna er ég áskrifandi að fréttabréfinu og ætla að taka helgina frá um leið og dagsetningar fyrir hátíðina 2026 verður ákveðin.

Fyrir áhugasama lesendur vitavarðarins getið þið séð upplýsingar á heimasíðu hátíðarinnar.

The past can not be changed but history can change and is changed by those that tell the story - umorðuð ummæli Kirsty Logan í pallborðsumræðum um söguna (sagnfræði).

Góðar stundir

föstudagur, maí 24, 2024

Brúðkaup Kristófers og Emie Jane

Í dag 24. maí fór ég í brúðkaup Kristófers og Emie Jane. Veðrið var hrikalegt, slagveður og trampólínfokrok en allt annað var hlýtt og notalegt, rómantískt og fallegt.
Ég er þreytt í kinnunum af að brosa og óska dásamlegu brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn og hvort annað.




fimmtudagur, maí 23, 2024

Speculative non fiction

Í haust er ég vonandi að fara á námskeið þar sem við lærum um speculative non fiction. Þar sem ég er strax komin í smá fráhvörf frá skólanum (það er komin heil vika) og finnst erfitt að það sé ekkert að gerast á Canvas (skólasmáforritinu) hef ég verið að skoða speculative non fiction. 

Eins og fólk gerir til að undirbúa næstu önn. 

Þetta hefur ekki einu sinni verið viðburðasnauð vika.

Ég væri líklega búin að kaupa skólabækurnar ef ég hefði ekki haft neitt að gera.

Hvað myndi ég gera allan daginn ef ég hefði ekkert að gera?


Góðar stundir


miðvikudagur, maí 22, 2024

Hallgrímskirkja

Ég var að klára að lesa Þetta rauða, það er ástin eftir Rögnu Sigurðardóttur. Við vorum að tala um verk hennar síðasta laugardag og ég hafði aldrei lesið neitt en er að breyta því. Ég byrjaði á Vinkonur eftir sama höfund áðan. Allt annar bragur á henni en hún byrjar vel og ég get líka mælt með þeirri sem ég var að klára.

Það stendur alltaf til hjá mér að skrifa nokkur orð um bækur sem ég hef verið að lesa en mér finnst það afskaplega erfitt. Hvernig er hægt að gera heilli bók skil í nikkrum orðum? Ef ég klára bókina kann ég að meta hana, í um það bil 98% tilfella. 2% bóka les ég því ég hef einsett mér að gefast ekki upp af einhverjum ástæðum en ég trúi því að lífið sé of stutt fyrir vondar bækur.

Þar sem þetta er ekki bókagagnrýni (ég mun gera það einn daginn en þangað til get ég sagt að ég las Þetta rauða, það er ástin alla, án einhvers utanaðkomandi þrýstings) ætla ég að skrifa um eitt sem ég fattaði þegar ég var að lesa.

Bókin gerist að mestu leyti í París en sumar senurnar eru á Íslandi. Elsa aðalpersónan segir líka frönskum vinum sínum frá Íslandi. Simone de Beauvoir er að skrifa bækurnar sínar, Picasso heldur málverkasýningu með Françoise Gilot upp á arminn og stríðið hefur áhrif á vöruframboð á Íslandi þannig að sögutíminn er í kringum 1950.
Elsa segir að það búi 140 þúsund manns á Íslandi og að Hallgrímskirkjan sé í byggingu. Ég fletti kirkjunni upp og komst að því að hún var vígð 1986. 
Það var byrjað að byggja hana 1945. 
Það er fullt af fólki eldra en fyrsta skóflustungan að Hallgrímskirkju og mín kynslóð er líklega sú fyrsta sem hefur litið á þessa kirkju sem órjúfanlegan hluta af Reykjavík.

Mér fannst þetta merkilegt og vildi endilega deila þessu með vindinum.

Vitavörðurinn kveður, lifið heil


þriðjudagur, maí 21, 2024

Páskaliljur

Páskaliljurnar í garðinum mínum eru loksins farnar að blómstra og það er ekki langt í túlípanana.
Spurning hvort þeir verði á undan fíflunum sem skreyta grasflötina?

Þá er ég að tala um fíflin sem blómstra og breytast í biðukollur. Ekki fíflin sem skreyta margar æðstu stöður samfélagsins.

Góðar stundir

mánudagur, maí 20, 2024

Hvítasunnuhelgin

Það var líklega 1993.
Við mamma vorum einar heima. 
Pabbi var í veiðiferð með vinum sínum og bróðir minn farinn í sveitina. Systur mínar voru báðar fluttar að heiman.

Veðrið var ömurlegt. Rokið þeytti rigningardropum sem voru allir yfir 30 í BMI í gluggana og þakið söng. Pabbi norpaði edrú á árbakka einhvers staðar og króksetti orma. Bróðir minn treysti á að hesturinn rataði heim yfir Héraðsvötnin í myrkrabyl sem skall fyrirvaralaust á.

Við mamma vörðum allri helginni saman í þögn. Þegar við töluðum saman endurtókum við hvað þetta var notalegt. 
Við vissum hvorki hvað var að gerast við ánna né fyrir norðan.
Við lásum bækur. 
Mamma málaði og ég skrifaði. 
Við borðuðum vatnsmelónur og vínber og ristað brauð.

Þetta var ein besta helgi sem ég hef upplifað á ævinni.



Lifið heil og njótið augnablikanna.

sunnudagur, maí 19, 2024

Deyfðarskrun

Ástæðan fyrir því að mig langar til að viðhalda þessu bloggi er meðal annars vegna þess að ég er með óþol fyrir samfélagsmiðlunum. Á sama tíma legg ég mig fram um að vera virk á þeim því ég er alltaf að gefa út bækur. “Alltaf” hljómar feikilega fullorðinslega en ég er líka alltaf hluti af hóp og hef átt fjórar sögur í fjórum bókum á einu og hálfu ári. 
Við höfum líka alltaf verið mörg um að auglýsa bækurnar en einn daginn mun ég standa ein að útgáfu, mögulega með útgáfufyrirtæki sem bakhjarl en sjálfsútgáfa er alltaf möguleg. Tölfræðin er nefnilega ekki hliðholl nýjum rithöfundum og aðeins um 1% innsendra handrita (óumbeðinna handrita) er LESIÐ. Ekki rætt um samning eða ritsjórn eða útgáfu. Langflest handrit sem eru send til forlaga eru sjálfkrafa flokkuð óopnuð í pósthólf merkt “óþekktur sendandi” eða “með óumbeðnu wordskjali” eða “handrit eftir óþekkt wannabe sem telur sig hafa ferska rödd og hefur heyrt of oft að það sé ekkert ómögulegt og telur sig hafa eitthvað uppá dekk að gera” … mögulega er pósthólfið einfaldlega merkt “rusl”.

En, ef þú kemur þér á framfæri gætu líkurnar aukist. Ef þú ert með sögur í safnritum, lest upp í útgáfuhófum, tranar þér fram á samfélagsmiðlum, sendir handrit í samkeppnir og heldur alltaf áfram að skrifa verður mögulega tekið eftir þér. Þá hafa forlögin kannski samband við þig.

Vá, hvað þessi síðasta setning er tvíræð.

En já. Ég þoli ekki glansmyndina og deyfðarskrunið sem stimplast inn í undirmeðvitundina og hefur áhrif á okkur eins og allur annar áróður. 
Samt geri ég nákvæmlega það sama hér á þessu bloggi og mér býður við að gera þar. 

Ég skrifa ekki um það sem heldur fyrir mér vöku. 
Ég skrifa ekki um kvíða eða vanlíðan eða það sem ég skammast mín fyrir. 
Ég skrifa ekki um tilfinningakrísurnar sem framkalla niðurgang. Ég er nefnilega ein af þeim sem finn fyrir tilfinningum í maganum og hef alltaf öfundað fólk sem nagar bara neglurnar undir álagi. Það hlýtur að vera betra að stinga höndunum í vasana en að vera föst á dollunni heilu og hálfu sólarhringana. 

Líf annarra virðist alltaf vera betra en mitt þegar ég skoða samfélagsmiðla. 
Ég geri sjálf í því að láta líta út fyrir að mitt líf sé bara þrælfínt þakka þér kærlega fyrir á mínum miðlum - klikkaði að vísu aðeins á að auglýsa ferðina til Korfú.
En ég fór í alvöru. 
Þó að ég hafi ekki sett inn neinar myndir. En ég setti mynd á þessa síðu sem undirstrikar það sem ég er að segja. Ég skrifa bara um hið góða.

Líf okkar allra er auðvitað alls konar. Það kemur ekki öllum allt við og líklega væri afskaplega leiðinlegt að fylgjast með gráum hversdagsleika allra í kringum okkur. Fá að vita í smáatriðum um eðlismassa, tíðni áferð hægða, meðtaka upplýsingar um líkþorn, exem, flösu og styðja náungann í baráttunni við andremmu, svitalykt og táfýlu. 
Auðvitað kúkum við öll rósailm og vöknum með eplakinnar. 
Sérstaklega áhrifavaldar.

En kannski ætti ég að vera hugrakkari hér?
Kannski ætti ég að birta skáldaðan texta? 
Óritskoðuð, ógagnrýnd verk í vinnslu?

Eða halda mig við gulan mat og hversdagsheimspeki?


Hvíl í friði elsku M.M.

laugardagur, maí 18, 2024

Vinkonur

 Í dag hitti ég hóp af stelpum sem ég hef kynnst í ritlistarnáminu. Við spjölluðum í næstum fimm klukkutíma og ég hefði viljað vera lengur með þeim. 

Ég hef stundum kviðið því að klára námið en eftir svona daga veit ég að það verður allt í lagi.


Góðar stundir, með þökkum fyrir lestur og söng

föstudagur, maí 17, 2024

23 færslur í röð

Mér datt í hug að telja hvað ég væri búin að blogga í marga daga í röð. Þetta er 23. dagurinn.

Ef ég væri pabbi myndi ég sleppa því að skrifa í dag því hann hafði mikla óbeit á tölunni 23. Að vísu eru þetta ekki alveg 23 dagar í röð því ég klikkaði á þriðjudaginn (þegar ég var í endurskoðunargírnum fyrir happdrættið og steingleymdi blogginu). Þannig að ég er ekki að steypa mér í ógæfu með að skrifa þetta og ég held ég sé ekki að fara að skrifa neitt sem þolir ekki dagsljós. Ég er ekki mikið í því hvort sem dagurinn er venjulegur eða óhappadagur.

Pabbi forðaðist allt sem tengdist 23, dagsetningar, sætisnúmer, hótelherbergi og hann tók meðvitað aldrei ákvörðun þann 23. hvers mánaðar.

Konan sem var gjaldkeri í fyrirtækinu hans bað hann aldrei um að skrifa undir neitt eða spurði hann álits þann 23. Hún skildi hann. Talan sem hún forðaðist var 11. Hún gerði aldrei neitt mikilvægt 11. hvers mánaðar, sat ekki í sæti númer 11 og gisti ekki á hótelherbergi númer 11. Hennar forðun var samt meiri en pabba því hún forðaðist líka allar tölur sem gengu upp í 11 - 22, 33, 44 o.s.frv. Mögulega því hún vann við tölur allan daginn.

Ég held ég eigi ekki óhappatölu en ég er hrifin af tölunni 49 og öllum hinum sem ganga upp í 7. Veit ekki hvað það er? Kannski vegna þess að framburðurinn á 7 er svo gerólíkur tölunni:

Sjö - 7

Get ekki útskýrt það ef þú sérð það ekki. 
Ekki í stuttu máli að minnsta kosti.


Lifið heil og góðar stundir

fimmtudagur, maí 16, 2024

Veik eður ei

Mér er búið að líða sérkennilega í allan dag og veit ekki hvort það sé vegna þess að ég er að verða veik eða einfaldlega þreytt. 
Ég veit ekki einu sinni hvar “ég finn til” … afskaplega skrítin tilfinning. 

Var í vinnunni, er búin að æfa pólskuna mína og núna ég ætla snemma að sofa.

Góða nótt

miðvikudagur, maí 15, 2024

Útgáfuhófi lokið

Mikið svakalega eru útgáfupartý skemmtileg!

Ég er meyr og ánægð og stolt og glöð og sátt og þakklát. Ég er þakklát fyrir óteljandi margt í kvöld og nei, ég fékk mér ekki of mikið af veitingunum. Þetta eru sannar tilfinningar.

Ég er þakklát fyrir að þekkja og vinna með svona frábæru fólki, fyrir að þetta hafi tekist hjá okkur. Þakklát fyrir Hörpu Rún kennara okkar sem leiddi okkur í gegnum allt ferlið og studdi okkur fallega, faglega og dyggilega. Þakklát fyrir að svo margir hafi komið í kvöld, keypt happadrættismiða og keypt bókina. Ég er þakklát fyrir alla sem komu til að styðja mig og fyrir að fá gjöf frá yndislegri stelpu til að veita mér innblástur í áframhaldandi skrif.

Það er gaman að vera rithöfundur og ég stefni á fleiri kvöld eins og í kvöld.

Takk öll aftur og góðar stundir 

14. maí þann 15.

Í gær steingleymdi ég að blogga. Ég var upptekin við að fá nöfn og fjölda happdrættismiða til að stemma við upphæðina sem hefur safnast á reikningnum okkar fyrir útgáfu Gestabókar. 

Ég er ekki endurskoðandi. Það gekk ekki að finna villuna þannig að ég byrjaði uppá nýtt. Þá kom allt rétt og ég gat farið að sofa.

Ég skil ekki hvernig ég endaði sem gjaldkeri.

En fyrst ég gleymdi gærdeginum mun ég í dag blogga bæði fyrir og eftir útgáfuhófið.

mánudagur, maí 13, 2024

Millilending, Prag

Vissir þú að Prag er rökréttur millilendingarstaður þegar flugvél fer frá Korfú til Íslands?

Ég vissi það ekki. Af hverju lendir þarf leiguflugvél í sérferð að millilenda? Já, til að taka bensín.

Flugfélagið er tékkneskt.

Ég er viss um að þetta verði allt í lagi. Fullkomlega eðlilegt að dæla bensíni á flugvél með um það bil 200 farþegum … var það ekki einu sinni alveg stranglega bannað?

Mögulega er ég óviss með framkvæmdirnar því í vélinni hef ég verið að hlusta á The Gulag Archipelago  eftir Aleksandr Solzhenitsyn og við erum núna komin austur fyrir járntjaldið.

En við erum á leið heim.
Við verðum komin heim eftir nokkra klukkutíma.


Góðar stundir

sunnudagur, maí 12, 2024

Að skipta um tungumál

Eins og ég skrifaði um daginn hef ég verið að nota Duolingu daglega undanfarið. Síðustu 219 dagana til að vera nákvæm.
Ég hef verið að læra grísku því það er mikilvægt að geta sagt að kóngulær drekki mjólk og að ég sé í mínum eigin nærfötum. Ég hef ekkert notað grísku síðan ég kom til Korfú en í kvöld lærði ég orðið Φλοίσβος (borið fram: fleezvos) sem þýðir öldugjálfur. Ég lærði það ekki á Duolingo samt.

Núna er ég að velta fyrir mér hvenær ég skipti yfir í pólsku því næst stefni ég á ráðstefnu í Pólland í október. Skipti ég daginn eftir að ég kem heim? Strax í kvöld? Daginn sem ég fer heim?

Þar sem ég skrifa þetta man ég að ég er að fara í eina ferð fyrir október. Í september fer ég til Sviss í mótorhjólaferð … ætti ég að læra þýsku þangað til? Hvað ef við tökum stefnuna á Ítalíu? Eða Frakkland?

Það er erfitt að hafa svona mikið val og of lítinn tíma til að læra.


Lifið heil

laugardagur, maí 11, 2024

Gleðilega árshátíð

Í kvöld er árshátíð í vinnunni minni. Við fögnum á gríðarlega fallegum stað og mig langar til að vera lengur.

Opa!




föstudagur, maí 10, 2024

Sögunni skilað

Það tókst. Ég kom endinum á söguna og vona að hún gangi upp sem smásaga. Ég er löngu búin að lesa hana of oft til að bera skynbragð á hvort hún sé góð eða ekki en ég hef átt sérlega erfitt með hana af mörgum ástæðum.
Þar sem ég er í ritlist sótti ég um að fá að skrifa skáldaðan texta í staðinn fyrir heimildaritgerð. Ég óttaðist að heimildaritgerð í heimspeki yrði mér ofviða. Þessi saga var mögulega erfiðari. Við vorum að lesa verk eftir alls konar heimspekinga (námskeiðið hét Sálgreiningu, heimspeki og menning) og ég ákvað að snúa útúr. Já. Stærstu hugsuðir aldarinnar og ég var með stæla. Ég bjó til nýjan heim með sömu kenningunum og lita samfélagið okkar en ég breytti þeim. Í staðinn fyrir að manneskjan sé til dæmis metin út frá kyni, kynþætti, aldri og þess háttar var virði manneskjunnar reiknað út frá framlegð til samfélagsins. Til að ganga lengra með kynleysið þérast allir og eru óskaplega formlegir … mér fannst það skemmtileg hugmynd. Þangað til ég fór að skrifa … ég lærði aldrei að þéra, varð að læra það. Það er líka rosalega erfitt að skrifa án þess að nota hún og hann. Erfiðara en ég hélt.
Það sem var enn erfiðara var að skrifa um heim án þess að útskýra hann. Leyfa öllu að flæða fram án þess að infodömpa allri baksögunni. Það er allt eins og það er en ég útskýri ekki neitt. Í lokaútgáfunni er samt ein manneskja sem er gersamlega óþolandi því hún segir alltaf hið augljósa. Hefði viljað sleppa henni, gera hana í það minnsta skemmtilegri eða viðkunnanlegri en þá hefði ekki verið nein leið til að koma öllu fyrir í 4000 orðum. 

Sagan er nákvæmlega 4000 orð.
Og ég er búin að skila.

Nú á ég skilið góðar stundir.
Með þökkum fyrir lestur og söng.

fimmtudagur, maí 09, 2024

Endir

Mér gengur ekki að enda söguna mína og ég á að skila henni á morgun. Hversu opinn má endir smásögu vera? Hversu mikið eyðileggur lélegur endir fyrir góðri sögu? Ef sagan er lokaverkefni í heimspekinámskeiði er í lagi að skilja alla enda eftir lausa? Má ég enda á spurningu? Hver ætti að svara henni? Hver spyr?

Hvað þarf að standa hér til að það teljist sem bloggfærsla?

Lifið heil

miðvikudagur, maí 08, 2024

Breytingar

Í vinnunni hitti ég fólk daglega sem þarf að takast á við miklar breytingar. Umrótarbreytingar og ég tala um þær. Hlusta á fólk tala um það sem hefur breyst, gott og vont, og hvað fólk er sjálft að gera til að breytast. Aðlagast breytingunum.

Ég tala um breytingar á fyrirlestrum. Ég minnist yfirleitt á þær í öllum fyrirlestrum og ég held fyrirlestur tvisvar á önn sem heitir einfaldlega Breytingar. Ég grínast með að uppáhalds spakmæli mitt sé:

Ef ekkert breytist breytist ekkert

Einu sinni skrifaði ég það á pappakassa sem ég notaði fyrir bókahillu eftir að líf mitt breyttist töluvert. Það var til að auðvelda sjálfri mér nýju kringumstæðurnar. Sannfær mig um að það væri gott að hlutirnir breyttust. 
Þá eins og núna hataði ég breytingar. Ég þoli þær ekki. 

Það fylgir því að lifa að breytast. Vissulega kýs ég frekar að breytast en að deyja en ég væri til í að það væri ekki annað hvort eða.


Góðar stundir

þriðjudagur, maí 07, 2024

Gestabók

Ég hef verið í námskeiðinu Á þrykk þessa önn og lokaverkefnið okkar er útgefin bók. Á námskeiðinu skrifum við bók, ritstýrum, prófarkarlesum, setjum bókina upp, veljum forsíðumynd, pappír, hönnum allt, fjármögnum, auglýsum (@gestabok_), seljum og höldum útgáfuhóf. 

Bekkurinn gerir þetta saman en eins og í öllum hópverkefnum eru sumir sem draga vagninn og aðrir sitja í honum. Þessa önn hef ég verið einhvers staðar á milli, hvorki dregið vagninn né setið í honum. 
Suma daga hef ég hreinlega haft nóg með að verða ekki undir honum.

En ég hef selt slatta af happdrættismiðum og það er enn hægt að kaupa miða.



Þér er boðið!! Happdrætti til styrktar útgáfu vorbókar ritlistarnema - Gestabók 🥂

Hátt í hundrað vinningar í boði - listaverk, leikhúsmiðar, bækur fyrir börn og fullorðna og margt fleira.

Miðaverð er 1.500 kr. Hægt er að skrá sig í happdrættið með því að millifæra á reikninginn hér að neðan og skrifa athugasemd á þessa færslu eða senda skilaboð á Gestabók á Facebook eða Instagram. Einnig má senda skilaboð beint á höfunda bókarinnar.

Kennitala: 451012-0960
Bankareikningur: 0133-15-007037


… hvíslaði vitavörðurinn að vindinum


Lifið heil

mánudagur, maí 06, 2024

Gleymni

Því meira sem er að gera hjá mér því gleymnari verð ég. Það á líklega við um flesta en ég var að velta fyrir mér áðan hvort það sé eitthvað hlutfall verkefna sem er eðlilegt að gleymist? Svona eins og Dunbar kenningin um félagsleg samskipti. Það hefur verið reynt að afsanna hana en í rúm 30 ár hefur hún staðist allar prófanir. Dunbar kenningin er sú að manneskjan getur verið í eðlilegum, daglegum samskiptum við um það bil 150 einstaklinga og sinnt um það bil  fimm nánari samskiptum.

Hver ætli talan sé varðandi verkefni? Hversu mörg verkefni getur einstaklingurinn munað eftir áður en hann fer að gleyma? Hverjar eru breyturnar sem hafa áhrif? Stærð verkefnanna? Fjölbreytni þeirra? Umhverfisþættir? Truflanir? Þreyta? Innri áreiti og andlegir þættir?

Þá er ég að tala um meðal manneskju sem er ekki á þeim stað að vita ekki hvort hún sé að koma eða fara ef hún er í úlpunni.

Kannski rannsaka ég þetta þegar ég er orðin stór. Kannski skrifaði ég um þessar vangaveltur í kvöld til að ég myndi síður gleyma því.

Góðar stundir.

sunnudagur, maí 05, 2024

Cinco de mayo

Ég var að lesa um cinco de mayo því ég var ekki alveg viss hverju væri verið að fagna. 
Merkileg lesning. 
Þjóðhátíðardagur Mexíkó er 16. september því 1810 lýsti Miguel Hidalgo yfir sjálfstæði landsins frá Spáni. 5. maí er til að minnast sigurs Mexíkó á her Frakka árið 1862 í bardaga við Puebla. Dagurinn er einmitt líka kallaður Dagur Puebla bardagans. 
2000 Mexíkóar á móti 6000 Frökkum, 100 Mexíkanar létust og 500 Frakkar. Sigurinn var ímyndar-sigur mexíkönsku þjóðarinnar á Frakklandi og leiddi að lokum til þess að Benito Juárez forseti komst aftur til valda, með aðstoð Bandaríkjanna. 

5. maí er helst fagnað í Bandaríkjunum, eiginlega ekkert í Mexíkó (nema í borginni Puebla), með hefðbundnum mat, tónlist, dansi og fjölskylduskemmtunum. Ástæðan fyrir því að þessi dagur er svona merkilegur í Bandaríkjunum er sú að sigur Mexíkana á stórveldinu Frakklandi hafði áhrif á bardagaþrek hermanna í borgarastyrkjöldinni sem þá geisaði norðan landamæranna. Ef þeir geta það í Puebla getum við það líka!

Þannig er það.

Þýðir ekkert að fara til Mexíkó í maí sem sagt og búast við skrúðgöngum.

Gott að vita, lifið heil

laugardagur, maí 04, 2024

4. maí 2024

Í dag er alþjóðlegi kvenhjóladagurinn og Skutlurnar fagna því. Við erum mótorhjólaklúbbur og við erum stelpur, það er no brainer.

Mögulega hefði ég átt að ljúka daglega blogginu mínu af áður en ég fór að skála fyrir vel heppnuðum degi? En dagurinn var sérlega vel heppnaður. Tæplega fjörtíu konur á jafnmörgum hjólum, tvö löggumótorhjól (takk kærlega Bjössi og Matti!), það rigndi ekki og pylsur í Auðbrekkunni. 

Unnur Magna magnaða tók myndir og Kittý ofurskutla og kílómetradrottning bjó líka til myndband.

Núna er veisla og ég ætla að snúa mér að henni.


Skál og lifið heil!

föstudagur, maí 03, 2024

Lystigarðurinn

Ég var að hugsa í dag um hvernig ég skrifa. Mér finnst ég oft ráfa frá einum punkti til annars, skoða þetta og hitt, pæli í þessu og hinu en kemst aldrei að beinni niðurstöðu.
Mögulega eru þessar vangaveltur tengdar því að mér tekst ekki að skrifa góðan endi á smásögu sem ég er að skrifa í heimspeki námskeiði (spurðu mig endilega hvernig er að vera í svona skemmtilegu námi). 
Sagan er of stór fyrir plássið sem hún fær (4000 orð) en ég er samt að reyna að troða henni í það rými.

Um helgina lítur út fyrir að ég þurfi að drepa einhverjar elskur mínar …




fimmtudagur, maí 02, 2024

Illa þetta og hitt

Ég vakna snemma á morgnanna og fer út að labba með Blíðu. Á virkum dögum kem ég oft við í Orkunni á Dalvegi og fæ mér kaffi á leiðinni á heiðina og spjalla stundum við starfsmennina sem eru á næturvakt. Þegar Iceland Engihjalla var opið á næturnar kom ég iðuleg við þar og kynntist starfsmönnunum. Það myndast sérstakt samband milli fólks sem er vakandi á nóttunni og núna kemur fyrir að ég hitti þau annars staðar sem er líka skemmtilegt. Gaman að labba inn í Nettó í Mjóddinni og fá knús frá portúgalskri stelpu sem ég veit ekki hvað heitir. Ég var greinilega mikið í Iceland á nóttunni.
Í morgun fór ég á Dalveginn. Þegar ég labba inn stendur maður mín megin við afgreiðsluborðið og er að segja frá upplifun sinni af einhverju bílabraski. Strákurinn sem er á vaktinni þessa vikuna sat við bílalúguna og haka hans hvíldi á hnefa vinstri handar. Hann var næstum með lokuð augun og leit ekki út fyrir að vera að hlusta á einræðu mannsins. Strákurinn er yfirleitt afskaplega indæll og nennir alltaf að spjalla við alla. Ég hugsaði með mér að sögumaðurinn hlyti að hafa verið lengi við afgreiðsluborðið fyrst starfsmaðurinn var alveg hættur að sýna viðbrögð. 

Ég gekk að afgreiðslukassanum, strákurinn stóð upp, afgreiddi mig orðalaust og settist aftur við bíllúgugluggann. Það er eina sætið sem er í boði í búðinni. Ég var með heyrnartólin mín að hlusta á sögu þegar ég gekk inn en þegar ég kem að kaffivélinni var ég orðin forvitin að heyra um hvað hinn viðskiptavinurinn var að tala. Ég má vera forvitin um miðja nótt, það er hollt varnarviðbragð líkama míns að vita hverjir eru í kringum mig þegar það eru fáir á ferli.

Ég henti einhverjum áttahundruð kalli í boðið. Hann var illa skrítinn, maðurinn. Hann vissi greinilega alveg hvað ég var að gera og ég vissi hvað ég var að gera. Það þarf eitthvað annað til að ég viti ekki hvað ég er að gera. Þetta var illa vel úthugsað skilurðu.

Svo kom löng þögn. Ég gaut augunum á starfsmanninn sem væri undir venjulegum kringumstæðum búinn að svara einhverju. Ekki orð og hann sat enn eins og hann væri sofandi við gluggann.

Þetta er einmitt eitthvað annað. Það verður einfaldlega að gera eitthvað við menn sem eru svona illa ómeðvitaðir um hvernig allt virkar.

Kaffið mitt var tilbúið og ég gat ekki legið lengur á hleri. Þegar ég gekk út var maðurinn enn að nota “illa” til áhersluauka og ég sá að bílalúgan var opin. Fyrir utan hana sat maður í bíl og var greinilega að tala við illa klára manninn inn í búðinni.

Er þetta eitthvað sem fólk gerir bara? Talar við félaga sína í gegnum bílalúgu á bensínstöð sem hvorugur vinnur á klukkan fimm á fimmtudagsmorgni?

Mér finnst það illa steikt.


Góðar stundir

miðvikudagur, maí 01, 2024

þriðjudagur, apríl 30, 2024

Duolingo

Ég hef verið að fikta við að nota tungumálaforritið Duolingo í nokkur ár. Ég er með langan lista af tungumálum sem ég hef prufað, nokkrir dagar af finnsku, smá klingonska, smá tímabil á ítölsku og aðeins prufað pólsku og frönsku og þýsku en kann ekki neitt í neinu tungumáli. Lærði að vísu alveg slatta í spænsku og undanfarnar vikur hef ég verið að læra grísku því ég er að fara til Korfú bráðum. Það sem mér finnst merkilegt er hvað orðaforðinn er mismunandi á ólíkum tungumálum. Á pólsku borða hestar epli en á grísku drekka köngulær mjólk. Spánverjar virðast vera sérlega hrifnir af pennum.

Síðan ég náði í forritið hef ég reglulega gleymt því í margar vikur í röð en svo opnað það aftur og haldið áfram.

Síðustu 207 dagana hef ef notað Duolingo á hverjum einasta degi. Ekki misst út einn dag.

Mér finnst það mjög töff, mikil einurð, samviskusemi og dugnaður að gera eitthvað annað en sinna líkamlegum þörfum í rúmt hálft ár!

Ζήστε καλά και να είστε ευτυχιομένοι

mánudagur, apríl 29, 2024

Hversdagsleg heimspeki

Hvað spyrjum við margra spurninga á dag?

Hvað fáum við mörg svör?

Telst þetta sem bloggfærsla?


Góða nótt 

sunnudagur, apríl 28, 2024

Sjálfsævisögur

Síðasta vor skrifaði ég drög að sjálfsævisögu í námskeiði hjá Oddnýju Eir Ævarsdóttur rithöfundi. Þetta námskeið var algerlega frábært og hún er bæði stórkostleg manneskja og kennari. Ég held að ég muni vinna áfram með drögin einn daginn en þegar ég var að skrifa fannst mér alltaf svo skrítið að vera að skrifa um atburðina sem fleiri en ég upplifðu. Mér fannst erfitt að skrifa bara um það sem mér sjálfri fannst án þess að spyrja aðra hver þeirra upplifun hefði verið.

Upplifun allra er mismunandi, skynþröskuldur ólíkur, fyrri reynsla litar það sem við sjáum og heyrum en samt tölum við um raunveruleika. Hver nákvæmlega er raunveruleikinn þegar við notum öll okkar eigin skynfæri til að finna fyrir honum? Er eitthvað til sem er satt, alveg satt og alltaf satt? Getum við notað orð til að lýsa öllu? Þurfum við alltaf að hafa samanburð til að skilja?

Ætti ég kannski að blogga fyrr um daginn til að skrifa skýrari og betri texta?

Lifið heil og hugsið málið 


laugardagur, apríl 27, 2024

Mávur eða máfur

Það má nota bæði f og v til að skrifa orðið. V er algengara en mér finnst f fallegra.

Mér finnast máfar líka fallegir fuglar en þeir eru svo mikil skaðræðis kvikindi að ég viðurkenni það almennt ekki. Mér eins t stundum betra að þegja um ákveðna hluti en að fá yfir mig fyrirlestrinum hvað þetta eða hitt sé grimmt, ömurlegt, hávært eða ógeðslegt.
Ég er sammála eiginlega öllu um máta. Það er eitthvað miskunnarlaust við þá, eigingjarna og hættulegt en á sama tíma finnst mér þeir fallegir, hreinir, sterkir og bjarteygðir.

Þegar ég var lítil gáfu granny og grandad máfunum alltaf afganginn af hádegismatnum. Þau kölluðu einn þeirra alltaf Bossy, risastór fugl sem óð í gegnum fugla þvögu á til að ná bestu bitunum og réðst jafnvel á hina máfana til að koma sér betur fyrir. Máfarnir eru óaðskiljanlegur hluti hljóð-myndarinnar í Lerwick þannig að ég finn bæði fyrir heimþrá og nostalgíu þegar ég heyri þá garga. Hljóð þeirra ylja mér.

Ég var að sjá að ég er ekki eini aðdáandi máfa og söngs þeirra. Kannski fer ég að segja frá ást minni á þessum fuglum? Þessi frétt er svo skemmtileg og hún gladdi mig, það eru haldin Evrópumeistaramót í máfaeftirhermun. Mikið er heimurinn fjölbreyttur.

Hlustið á máfana og hugsið til mín 

föstudagur, apríl 26, 2024

Gulur matur

Mamma og hinar konurnar borðuðu kjúklingasnitsel á Frúarganginum í kvöld, með kartöflum, gulum baunum og bernaissósu. Hún fékk sér ábót sem gerist ekki oft en henni fannst maturinn góður. Þær voru fleiri sem þáðu ábót.

Ég sat hjá henni eins og venjulega en í kvöld velti ég fyrir mér hvort það væri einhver gulur matur sem mér þætti ekki góður.
Gular baunir, snitsel, kartöflur, franskar, melóna, mangó, ananas, kartöflumús, bernaissósa, bananar, grasker, ostur, kornflex, ostapopp, osta snakk, egg, gul epli, jackfruit, pasta og rófur. Allt gott.
Mér dettur ekki fleira í hug.
Ég er ekki hrifin af sítrónum en mjög hrifin af límonaði, sítrónusorbet, sítrónuköku og sítrónunammi. Telst það með?

Ábrystur. Hann er svakalega vondur og mögulega eini guli maturinn sem mér finnst alls ekki góður?

Góðar stundir og gleðilega helgi

fimmtudagur, apríl 25, 2024

Gleðilegt sumar



Við lögðum af stað í morgungönguna á heiðinni með fallegan gulan kastbolta með bandi sem ég keypti í gæludýrabúð. Blíða er ekki með þann bolta á þessari mynd. Hún er með tennisbolta sem hún fann einhvers staðar á leiðinni. Líklega þar sem hún skildi nýja boltann sinn eftir. 
Göngutúrinn var aðeins lengri en venjulega, því bæði er veðrið svakalega gott og það er frídagur, en þegar við komum aftur að bílnum var hún komin með tvo tennisbolta.

Blíða á risastórt boltasafn sem hún hefur vandað sig við að stækka undanfarin ár. Ekki einn einasti þeirra hefur verið keyptur.

Blíða með hluta safnsins


Dásamlegi ljúfi hundurinn minn er sértækur plokkari sem trúir á endurnýtingu.


Góðar stundir og njótið dagsins

sunnudagur, apríl 21, 2024

Sumarplanið

Það kom færsla inn á síðurnar sem ég fylgi á Facebook tengdar náminu mínu í ritlist fyrir nokkrum vikum. 

Og áður en ég held áfram. Já, ég er í námi. Aftur. Nei, ég er ekki búin að læra nóg. Já, þetta er mastersnám og já, ég er í fullri vinnu. Loks, annað nei, ég hef aldrei verið í námi án þess að vera í fullri vinnu en ég er hins vegar á fullu að endurforrita sjálfa mig. Ég er alveg búin að eyða nokkrum sjálfvirkum forritum en þetta með vinnuna er frekar neðarlega í kjarnanum og verður að bíða betri tíma.

Færslan var ein, síðurnar sem koma til greina nokkrar, en ég finn færsluna ekki núna. Mögulega var henni eytt því höfundurinn var óviss um skynsemi þess að blogga? Eða að blogga opinberlega? Færslan var krækja á nýja bloggsíðu og ég las fyrsta og eina póstinn. Mér fannst hann góður og umhugsunarverður. Ég byrjaði sjálf að blogga árið 2003 þegar ég var svo feimin að ég leit varla upp og var ekki viss um að ég hefði nokkuð uppá dekk að gera, hvað þá fram á ritvöllinn. Árið 2024 vinn ég við að tala við ókunnuga og halda fyrirlestra og er langt komin með mastersnám í ritlist.

Ég setti ekki slóð á bloggið mitt, þessa síðu, í athugasemdir við færsluna en hef verið að hugsa um blogg síðan og hef ákveðið að halda áfram. 

Það er svo oft sem ég upplifi eitthvað sem mér finnst skemmtilegt eða spennandi en hef ekki lyst á að setja það á samfélagsmiðla. Mig langar ekki til að orðin mín verði deyfðarskruni (e. doom scrolling) að bráð. 
Nei, það er miklu betra að setja færslu hingað þar sem enginn mun koma til með að lesa. Eins og að vera loksins orðin vitavörður og skrifa fyrir vindinn í staðinn fyrir að yfirgnæfa kliðinn á Lækjartorgi.

Lifið heil og góðar stundir.