Hann hafði líka töluverðar áhyggjur af því að það væri tilgerðarlegt að vera með svona stóran flatskjá.
Stjúpdóttir mín flytur aftur heim um mánaðamótin og ætlar í HR í vetur. Þegar hún flutti út keyptum við svefnsófa í herbergið hennar svo hún ætti alltaf samastað hér ef hún vildi, þyrfti eða væri á landinu í einhvern tíma. Þetta er fínn sófi en ekki endilega góður til lengri tíma þannig að hún kemur með rúmið sitt þegar hún flytur inn.
Þessi sófi er núna kominn inn í stofu og það er ekki lengur hægt að skipta um skoðun. Það er ekkert pláss til þess. Mér fannst hann aldrei svona stór áður. Hann var alls ekki svona stór í Húsgagnahöllinni. Hann var frekar stór í herberginu en hann var augljóslega samt bara tveggja sæta sófi undir glugganum.
Núna er hann á miðju stofugólfinu og ég er viss um að hann sé bæði þriggja sæta og tæplega tveggja metra hár.
Hann byrgir útsýni út á götu.
Svefnsófinn okkar er ekki tilgerðarlegur. Hann er of stór, það borgar sig pottþétt ekki að móðga hann. Hann er líka ábyggilega skapvondur eins og gerist þegar fólk tekur stera.
Ég vona bara að ég venjist honum eins vel og pabbi vandist skjánum sínum og ég ætla að hugsa vel um hann. Það er ekki honum að kenna hvað hann er stór.
Kær kveðja,
Vitavörðurinn og sterasófinn
Engin ummæli:
Skrifa ummæli