þriðjudagur, maí 28, 2024

Daglegt líf

Það eru ekki alltaf jólin. Sem betur fer. Hvernig stæðu bankareikningarnir okkar ef svo væri? Við myndum heldur ekkert njóta jólanna, þau yrðu hversdags.

Ein sú mesta gæfa sem hverjum getur hlotnast er að mínu mati að geta hlakka til næsta dags. Það er ekki sjálfgefið. Það þarf ekki að hlakka til dagsins í heild en eitthvað hlýtur að vera tilhlökkunarefni?

Að fara í hreinan stuttermabol, að greiða sér án þess að greiða í gegnum flækju eða greiða sér til að losa flækju, við erum öll svo ólík. Að sjá hvernig veðrið verður. Að finna lyktina af öspunum. Að vekja hundinn og fagna þegar það bætist enn einn stolinn tennisbolti við dótakörfuna. Það gerist ekki á hverjum degi en þá eru jólin hjá Blíðu.

Ætli það sé í einhverjum sjálfshjálparbókum að skrifa þakklætisdagbók og hlakka til næstu hversdags-micro-jóla?

Góðar stundir

mánudagur, maí 27, 2024

Ný orð

Þegar ég er undir miklu álagi lendi ég stundum í því að nota röng orð. Ég er ekki ein um það. Að muna ekki orð getur meira að segja verið einkenni álags samkvæmt skólabókunum. Það getur sömuleiðis verið vísbending um alls konar taugasjúkdóma sem ég held ekki að hrjái mig því ég fer að hengja handklæðið aftur á ofninn inná baði og ekki hitagrindina um leið og ég fer að sofa betur.

En mér finnst líka gaman að nota ný orð sem mér finnst að ættu að vera til því þau eru svo lýsandi.

Bjartskýjað þegar það sér ekki til sólar í gegnum þykk ský en birta sólarinnar sést samt í gegnum skýin.

Steinaber á er nánast þurr á.

Trampólínfokrok er óvænt rok á árstíma þegar ekki er vanalega búist við stormi og engum dettur í hug að festa lausamuni. Það er líka bæði gaman að segja og skrifa trampólínfokrok.

Og fleiri. Ég læt ykkur vita.

Lifið heil og notið orðin ykkar.

sunnudagur, maí 26, 2024

Sunnudagskvöld

Helgin var svakalega skemmtileg.

Brúðkaup á föstudag, dásamlegt fólk, fyndin skemmtiatriði, æðislegur matur og ástin, öll þessi ást.

Furðusagnahátíð og allt fólkið þar. Kíkið óskaplega er þessi bókmenntakimi prýddur fallegum mennskum blómum.

Ég er engu nær um hvað mig langar til að skrifa en ég verð alltaf vissari að ég muni gera það. Öðruvísi en til þess að skila inn verkefnum.

En næsta vika er heilir fimm dagar. 
Langt síðan síðast og þrjár vikur í næstu fjögurra daga helgi. 
Það verður í lagi. Ég mun auðveldlega lifa á þessari helgi fram að næstu.


Góðar stundir

laugardagur, maí 25, 2024

IceCon 2024

Í dag tók ég í fyrsta sinn þátt í Furðusagnahátíð og skemmti mér konunglega. Ég var ekki viss um að komast og skráði mig bara í morgun en núna er ég áskrifandi að fréttabréfinu og ætla að taka helgina frá um leið og dagsetningar fyrir hátíðina 2026 verður ákveðin.

Fyrir áhugasama lesendur vitavarðarins getið þið séð upplýsingar á heimasíðu hátíðarinnar.

The past can not be changed but history can change and is changed by those that tell the story - umorðuð ummæli Kirsty Logan í pallborðsumræðum um söguna (sagnfræði).

Góðar stundir

föstudagur, maí 24, 2024

Brúðkaup Kristófers og Emie Jane

Í dag 24. maí fór ég í brúðkaup Kristófers og Emie Jane. Veðrið var hrikalegt, slagveður og trampólínfokrok en allt annað var hlýtt og notalegt, rómantískt og fallegt.
Ég er þreytt í kinnunum af að brosa og óska dásamlegu brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn og hvort annað.
fimmtudagur, maí 23, 2024

Speculative non fiction

Í haust er ég vonandi að fara á námskeið þar sem við lærum um speculative non fiction. Þar sem ég er strax komin í smá fráhvörf frá skólanum (það er komin heil vika) og finnst erfitt að það sé ekkert að gerast á Canvas (skólasmáforritinu) hef ég verið að skoða speculative non fiction. 

Eins og fólk gerir til að undirbúa næstu önn. 

Þetta hefur ekki einu sinni verið viðburðasnauð vika.

Ég væri líklega búin að kaupa skólabækurnar ef ég hefði ekki haft neitt að gera.

Hvað myndi ég gera allan daginn ef ég hefði ekkert að gera?


Góðar stundir


miðvikudagur, maí 22, 2024

Hallgrímskirkja

Ég var að klára að lesa Þetta rauða, það er ástin eftir Rögnu Sigurðardóttur. Við vorum að tala um verk hennar síðasta laugardag og ég hafði aldrei lesið neitt en er að breyta því. Ég byrjaði á Vinkonur eftir sama höfund áðan. Allt annar bragur á henni en hún byrjar vel og ég get líka mælt með þeirri sem ég var að klára.

Það stendur alltaf til hjá mér að skrifa nokkur orð um bækur sem ég hef verið að lesa en mér finnst það afskaplega erfitt. Hvernig er hægt að gera heilli bók skil í nikkrum orðum? Ef ég klára bókina kann ég að meta hana, í um það bil 98% tilfella. 2% bóka les ég því ég hef einsett mér að gefast ekki upp af einhverjum ástæðum en ég trúi því að lífið sé of stutt fyrir vondar bækur.

Þar sem þetta er ekki bókagagnrýni (ég mun gera það einn daginn en þangað til get ég sagt að ég las Þetta rauða, það er ástin alla, án einhvers utanaðkomandi þrýstings) ætla ég að skrifa um eitt sem ég fattaði þegar ég var að lesa.

Bókin gerist að mestu leyti í París en sumar senurnar eru á Íslandi. Elsa aðalpersónan segir líka frönskum vinum sínum frá Íslandi. Simone de Beauvoir er að skrifa bækurnar sínar, Picasso heldur málverkasýningu með Françoise Gilot upp á arminn og stríðið hefur áhrif á vöruframboð á Íslandi þannig að sögutíminn er í kringum 1950.
Elsa segir að það búi 140 þúsund manns á Íslandi og að Hallgrímskirkjan sé í byggingu. Ég fletti kirkjunni upp og komst að því að hún var vígð 1986. 
Það var byrjað að byggja hana 1945. 
Það er fullt af fólki eldra en fyrsta skóflustungan að Hallgrímskirkju og mín kynslóð er líklega sú fyrsta sem hefur litið á þessa kirkju sem órjúfanlegan hluta af Reykjavík.

Mér fannst þetta merkilegt og vildi endilega deila þessu með vindinum.

Vitavörðurinn kveður, lifið heil