þriðjudagur, mars 30, 2010




Naaaa ... ég hef ekki ennþá farið að sjá gosið af óviðráðanlegum orsökum en þar sem það er í tísku verð ég að eiga mynd af mér með gosinu er það ekki? Jafnvel að hugsa um að setja myndina sem prófíl mynd á Facebook en það mun væntanlega kosta það að ég þurfi að viðurkenna að ég hafi ekki farið að sjá gosið og að ef vel er að gáð er ég á stuttermabol á myndinni. Þá mun kannski einhver halda að ég sé einn af vitleysingunum sem varð að láta ná í sig vegna vanbúnaðar eða einhverjir sem trúa myndinni mun líða illa yfir að láta Windows Paint plata sig ... sjáum til :)

En ég mun fara að sjá gosið og sjóða mér egg á hrauninu ... kannski spagettí líka? ekki eins grand og Hótel Holt en sniðugt samt að borða heitt nesti á gosstaðnum er það ekki? ;)


Góðar stundir

föstudagur, mars 26, 2010

Heimasíminn er fundinn! :)

Ég er svo þakklát fyrir þetta blessaða eldgos og þegar ég fann símann varð ég enn þakklátari því annars hefði hann ekki fundist fyrr en ... ja, maí?

Síðan eldgosið hófst hef ég ekki heyrt orðið Icesave og þó að umfjöllun um gosið hafi verið fyrsta atriði allra frétta alla vikuna verður það seint þreytt því gosið er alltaf að breytast, færast, aukast, springa og spreyja - allt afskaplega spennandi :)

við vorum að tala um að kíkja á það í byrjun næstu viku, þegar helgarumferðin er búin og áður en næsta helgi byrjar og þegar veðrið er víst betra en það á að vera um helgina? þannig að ég fór að finna til dót og getiði hvað var á milli legghlífanna minna og göngusokkanna? Jú mikið rétt, heimasíminn! :)

Og ég man líka afhverju hann endaði þar :) ég var að tala í símann og það var ógeðslega kalt þannig að ég byrjaði að hita vatn í te og ætlaði að finna mér hlýja sokka til að hafa það kósí. Í því sem ég opnaði skúffuna með hlýju fötunum endaði símatalið og ég skipti símanum út fyrir þykka ullarsokka sem hafa samt ratað aftur í skúffuna án þess að ég hafi orðið símans vör - skemmtilegt ;)


En núna eru komnar reglur varðandi frágang símans og ætlast ég til þess að allir fylgi þeim eftir - sérstaklega Fídel sem er alltaf að blaðra í símann þegar ég er ekki heima ...


Góðar stundir og gleðilegt gos :)

miðvikudagur, mars 03, 2010

Það þýðir ekkert fyrir ykkur að ætla að hringja í heimasímann minn, ég er búin að týna honum. Aftur.

Ég man ekki fyrir mitt litla hvenær ég notaði hann síðast en hef grun um að það hafi verið á síðustu dagvaktartörn sem bakup-vekjaraklukka en hvað hefur orðið af honum eftir það vita himnarnir einir. Þetta hefur komið fyrir áður. Oftar en ég kæri mig um að upplýsa því ég bý ekki í stórri íbúð. Af einhverjum ástæðum legg ég þennan blessaða síma alltaf frá mér nákvæmlega þar sem samtalinu lýkur en fer ekki með hann þangað sem "hann á heima". Núna er hann sumsé batteríslaus og svarar ekki innkalli.

Hann gæti verið hvar sem er. Ég hef fundið hann frammá palli, í vasanum á sloppnum mínum (sem ég nota tvisvar á ári), inní frysti (honum varð ekki meint af ótrúlegt en satt), í sokkaskúffunni, í bókaskápnum, fataskápnum, eldhússkápnum, bakvið rúmið (sem gæti að vísu verið eftir að hafa notað hann sem vekjaraklukku), ofaní föndurkassa og hingað og þangað sem hann á ekkert erindi.

Ef hann finnst (ef ég hef ekki óvart hent honum sumsé) þá verða settar reglur um frágang símans á þessu heimili. Þangað til verðið þið að hringja í gemmsann eða sleppa því auðvitað :)

Lifið heil

mánudagur, mars 01, 2010

Þorrablótið heppnaðist barasta alveg ágætlega :) ég skemmti mér mjög vel og allir sem mættu og ég hef talað við síðan sömuleiðis ... en ef ég tengist þessum undirbúningi aftur á næsta ári á einhvern hátt þá ætla ég að sleppa súrmatnum (öllu nema pungunum, þeir kláruðust) og vera bara með "venjulegan" þorramat. Þessi súrmatur er fáránlega dýr og ég sá ekki að hann hefði vakið mikla lukku á þorrablótinu ... ég borða hann ekki þannig að ég bjó til súpu fyrir mig og þá sem vildu smakka (ég er ekki að kalla annað fólk gikki, bara mig). Það virtust flestir vera mjög hrifnir af þessari súpu og það fór miklu meira af henni en súrmatnum þannig að næst verður súpa og harðfiskur, rúgbrauð, flatkökur, hangikjöt og súrir pungar þannig að það megi kalla þetta þorrablót ;)


annars er það að frétta af mér að ég er orðin hálfopinber bloggari! Ég var nefnilega beðin um að vera með á Eyjubloggi um bíómyndir :) ég fæ að skrifa um rómantískar gamanmyndir því ... já, ég þjáist satt að segja af smávegis skvísuræmnablæti ... en það er ekkert að því þegar einhver er tilbúinn að borga í bíó fyrir mig ;)

ég ætla sumsé í bíó í vikunni en núna er ég að hnoða saman grein um Waitress - hún er ein af nýju uppáhaldsmyndunum mínum. Keri Russel sem ég þoldi ekki sem Felicity brillerar sem kúguð eiginkona sem dreymir um að strjúka að heiman. Hún fattar svo að hún er ólétt (eftir að eiginmannsfíflið hennar fyllti hana eitt kvöldið) og fellur fyrir kvensjúkdómalækninum sínum ... og bakar guðdómlega góðar bökur sem flytja þá sem borða þær á æðra plan og nefnir þær eftir atburðum í lífi sínu, samanber Bad Baby Pie AKA I Don't Want Earl's Baby Pie - þær breyttu nafninu í Bad Baby því það gekk ekki að skrifa hitt nafnið á matseðil dagsins ;)

... og núna er ég búin að skrifa slatta um myndina á tveim mínútum en er búin að vera að rembast við álíka langan texta miklu, miklu lengur á hinum staðnum ... fæ ekki skilið afhverju höfuðið á mér er svona feimið við Eyjuna en frjálst á Blogspot - þetta er nákvæmlega jafnopinberir miðlar!! fyrsta færslan á Bíóeyjunni var um The Proposal og það er varla að ég þekki stílinn hjá sjálfri mér því ég ritskoðaði allt sem ég sagði aftur og aftur og aftur ...

en hvað um það, þið getið fylgst með þessu hérna og ég held að þetta eigi eftir að vera mjög skemmtilegur vefur :)


Góðar stundir


P.S. skvísuræma er sumsé það sama og skvísuskrudda bara um bíómyndir ekki bækur, skvísuskrudda er íslenska orðið fyrir chicklit þannig að skvísuræman er þá íslenska orðið fyrir chickflick??? ég er ábyggilega ekki að búa þetta til en ég hef samt ekki séð þetta ræmu-orð neins staðar? skvísuskruddu-orðið fann ég hins vegar á blogginu hennar Sólrúnar og hún er massaklár þannig að það orð er pottþétt alvöru :)