laugardagur, október 23, 2010

Þá er ég byrjuð á nýrri törn og nei, ég fékk ekki að fara beint heim á sunnudagsmorgninum eins og ég vonaði heldur varð að vinna aðeins áfram. Merkilegt hvað það er auðvelt að vinna áfram á dagvöktum og kvöldvöktum en erfitt að halda áfram með næturvakt eftir að það er kominn dagur. Verður auðveldara eftir því sem líður á vaktina finnst mér en það er samt alveg ofsalega erfitt og þreytan sem kemur yfir mig er allt önnur eðlis en þreytan sem ég finn fyrir um kvöld eða eftir miðnætti. Skringilegt :)

Talandi um skringilegt þá dreymdi mig um daginn að ég væri með kameldýr og strút í skottinum á bílnum hans pabba en ég fer einmitt á honum þegar ég fer með Prins Kát og Frú Kolku í göngutúra. Kameldýrið var mjög rólegt og yfirvegað og hljóðlátt en strúturinn var alveg afskaplega erfiður og sprettharður og hávær ... svolítið eins og Frú Kolka og Prins Kátur :) en ég hafði aldrei hugsað um þau sem strút og kameldýr þannig að auðvitað fletti ég þessu upp á draumasíðunni en þar er ekkert minnst á strúta heldur bara fugla og páfugla og svo er bara talað um úlfalda ... en þar sem kameldýr er tegund af úlfalda þá gildir það væntanlega að þung byrði verði sett á mig en að ég muni komast vel undan henni ... jahá!

Og til að halda skringilegheitunum áfram þá er hérna ein drómedarafrétt frá Ástralíu sem er frekar skringileg ... einhvern vegin á ég erfitt með að ímynda mér drómedara eða kameldýr (eða einhvers konar úlfalda af tegundirnar eru fleiri??) að missa sig í ástarbríma. Úlfaldar eru einfaldlega ekkert sérstaklega sexý dýr finnst mér.

Góðar stundir

sunnudagur, október 17, 2010

Afhverju ertu að láta yfirmann þinn vera Skeletor í lúgunni?

Jamms, stundum get ég bara ekki svarað spurningum þjónustþega minna. Ekki vegna þess að mig langi ekki til þess heldur hef ég bara ekki hugmynd um hvað fólk er að meina :)

Fimmta næturvaktin og bara rétt rúmur klukkutími eftir, ef ég verð heppin. Gæti dregist eitthvað að komast heim en ég vona vona vona að ég fái að fara þegar vaktin mín klárast og þurfi ekki að vinna "inní" næstu. Kemur í ljós, það eru veikindi ...

Annars var okkur hvolpinum boðið að vera með á björgunarhundaæfingu í dag og við skemmtum okkur alveg konunglega :) Kátur fékk að elta fígúrant (?) og fékk í verðlaun að leika við ókunnuga hundakonu sem gaf honum lifrapylsu og svo fékk hann pylsu hjá öðrum sem var að hvetja hann til að gelta - ekki á hverjum degi sem aumingja kallinum er hrósað fyrir mælsku sína þannig að þetta var alveg frábært í alla staði :)

Við blotnuðum samt ansi mikið þrátt fyrir að hafa ekki verið allan daginn eins og allir hinir því ég leyfði mér nefnilega að sofa aðeins eftir næturvaktina, sem betur fer annars væri ég enn ónýtari núna en ég er. Hvolpurinn varð alveg tvöfaldur af feldbleytu og ég blotnaði í gegn næstum alls staðar þó ég hafi verið mjög vel klædd. Það ringdi hlussudropum, á hlið.

Núna sefur hvolpurinn inní hlýjunni og dreymir lifrapylsu og hundadót en ég er að vinna og hlusta á Skeletor/yfirmanninn semja tónverk á steypuveggina sem umkringja hann ...


Gæti samt auðviað verið verra ;)

föstudagur, október 15, 2010

Og þá hefst fjórða næturvaktin ... og stefnir í færslumet í október :)



Fór að sjá Finnska hestinn í kvöld og mér fannst sýningin alveg frábær :) hló mikið og oft og mæli barasta hiklaust með sýningunni ... sérstaklega fyrir þá sem eru ekki sannfærðir um að allt muni batna og verða gott með inngöngu Íslands í Evrópusambandi. Ódýrara að fara á leikrit en að heimsækja sjávarþorp eða sveitir landa sem verða hlýta öllum tilmælum frá Brussel, sama hve fáránlega þau eru, í enn meiri mæli en við þurfum nú þegar að gera ... en ég ætla ekki að ræða það hér hvað mér er illa við þessa sameinuðu Evrópu, ég verð bara pirruð :D

Ætla ekki að vera pirruð í nótt því þá get ég kannski ekki sofnað á morgun og ég verð að geta sofnað því dagurinn stefnir í að vera rosalega skemmtilegur og þá er ekkert gaman að vera þreytt og úrill ;)

Og til að gleðja mig var ég að rifja upp Madeira :) vorum að ræða vegakerfi hérna í vinnunni og ég mundi eftir jeppaferð sem við fórum í þegar við vorum úti og ég er ekki viss um að mágur minn sé ennþá alveg búin að jafna sig. Hann tók ábyggilega nokkur þúsund myndir þegar við vorum úti en ekki eina einustu í jeppaferðinni því hann sat frosinn frammí og hugsaði líklega um það eitt að lifa af bíltúrinn ekki einhverjar myndatökur ;) Hérna er mótorhjólablogg sem ég fann með myndum af vegunum á eyjunni, ekki eins slæmum og sumum sem við fórum þannig kannski skiljanlegt að Ási var fremur taugaóstyrkur á köflum?

Annars mæli ég með því að skoða bloggið hjá Orson ef þið hafið áhuga á mótorhjólaferðalögum eða ferðalögum alemnnt, hann tekur rosalega flottar myndir ;) Ég er aðeins búin að skoða bloggið (ok, aðallega myndirnar) en ég held að þetta sé bara einn gaur þó hann tali um sig sem Team Orson? Það er alltaf bara mynd af einu hjóli, einum matardisk og engu fólki ... hmmmm ... og bloggarinn virðist eiga fullt af peningum til að ferðast um og leigja mótorhjól útum allan heim.

Já, ég get vel hugsað mér að vera svoleiðis gaur ;)

En áfram til að gleðja þá mæli ég hiklaust með því að þið farið í sleðaferðalag niður brekkurnar í Funchal ef þið komist til Madeira - hérna eru nokkur myndbönd á YouTube af sleðaferðum :)


Lifið heil

fimmtudagur, október 14, 2010

Búin að vera að endurraða aðeins hérna á blogginu mínu, mér þykir of vænt um það til að leyfa því að grotna niður og verða "ónýtt" - kominn tími á viðhald sumsé ;)

Held líka að ég taki bloggið framyfir Facebook því þeir sem koma hingað og lesa hafa væntanlega áhuga á að koma hingað og lesa, þá er ég ekki að ausa persónulegum upplýsingum um mig yfir sakleysingja sem hafa kannski barasta engan áhuga á að vita hvað ég er að gera dagsdaglega ... EÐA hafa mikinn áhuga á því sem ég er að gera dagsdaglega??! Spurning :)

Er á annarri næturvaktinni, hálfu rólegri en síðasta nótt, sem er gott því ég meiddi mig í hnéinu í dag og er alveg draghölt. Finnst ég vera svolítið eins og Daniel Larusso í lokabardaganum þegar hann getur ekki stigið í fótinn þannig að hann gerir það eina í stöðunni, fer í trönustöðuna og vinnur bardagann!
En ekki hvað?! ... ég er að vísu að drepast í hægri fætinum en talandi um trönusparkið þá rakst ég á þessa færslu um hvort sparkið myndi virka í alvörunni eða ekki. Svona fyrir þau ykkar sem hafið áhuga. Ég ætla ekki að nota það í nótt. Sparkið sem sagt.

Annars dreymdi mig alveg rosalega furðulega í dag þegar ég náði loksins að sofna. Ég var í lest eða rosalega löngu húsi að leita að einhverju með manni sem ég þekki ekki en ég var greinilega afskaplega skotin í honum, í draumnum ... veit samt ekki alveg hvað heillaði því ég skildi hann ekki, ekki eitt einasta orð. Hann talaði ungversku eða tyrknesku eða eitthvað og var svona 15 árum yngri en ég og svona lítill og mjór og brothættur. En við vorum sumsé að leita að einhverju og þessi kærasti minn í draumnum átti að vera að hjálpa mér en hann hafði þann leiða ávana að stífla öll klósettin sem við komumst í tæri við þannig að ég varð alltaf að losa stífluna áður en við gátum haldið áfram. Þetta var samt ekkert ógeðslegur draumur því klósettin voru öll afskaplega hrein og fín og það var bara hreinn klósettpappír sem stíflaði þau, ekkert subb nema vatnið sem sullaðist um allt.

Þegar ég vakanði var draumurinn enn að væflast fyrir mér, var svo raunverulegur að ég var ekki viss hvort ég hefði kannski verið að leita að einhverju með manni sem ég skildi ekki þannig að ég gerði það sem ég geri yfirleitt þegar ég man draumana svona vel, ég kíkti á draumasíðuna en það er ekkert skráð undir að leita eða lest eða Ungverji EN það er til lukku að tala við útlending (stendur ekkert að hann þurfi að skilja þig eða þú hann) og ef við vorum í útlöndum (sem mér fannst eiginlega því allt umhverfið svo skringilegt, samanber að mér fannst ég vera í lest), þá verð ég að fara að taka ákvarðanir því ég er í ójafnvægi ... veit samt ekki hvort það gildir þar sem ég var bara í útlöndum en ekki í ferð? En svo að lokum er færsla um salerni:

Að dreyma salerni er fyrir andlegri hreinsun. Salernir [sic] sem flæðir upp úr er merki um að eitthvað sé að angra þig og að þú þurfir að líta í eigin barm og skoða hvað veldur. Sértu að þrífa salerni er merki um að þú þurfir að passa upp á skapið á næstunni.

og þetta getur barasta alveg passað, er þetta ekki nákvæmlega það sem ég var að blogga um síðustu nótt? ég er sumsé ekki berdreymin heldur dreymir mig það sem ég veit nú þegar bara í dularbúningi!

Áhugavert ;)

miðvikudagur, október 13, 2010

Ég er á fyrstu næturvakt af sex í nótt og mig langar ekki sérlega til að vera hérna.

Það er bankamaður í einum klefanum, fullorðinn gaur sem er að drepast úr frekju en kannast bara ekkert við það að hafa nokkurn tímann verið frekur, aldrei barasta. Jájá, ég myndi halda að það flokkaðist undir frekju að gala og berja og heimta og hóta í fleiri klukkutíma en auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér ;)

Svo gæti líka verið að ég sé pirruð á honum vegna þess að ég er svolítið pirruð í nótt? Hann eyminginn getur ekkert gert að því að hann sé óþolandi gerpi sem hagar sér eins og leikskólabarn, það er auðvitað áfengið í honum sem er að tala ... en hann ætti auðvitað að vita betur en að innbyrða það. En þar sem hann hefur ekki vit á því þá á ég að hafa vit á því að leiða hann hjá mér frekar en að pirrast. Get það bara ekki því ég er pirruð.

Ég þoli ekki þegar ég er alveg sannfærð um eitthvað sem er bull, ég þoli ekki þegar ég eigna öðrum tilfinningar án þess að spyrja viðkomandi að því hvort ég sé að eigna honum réttar tilfinningar og verð svo öll pirruð þegar ég (auðvitað!!) hef rangt fyrir mér og ég er leiðrétt, ég þoli ekki þegar ég gríp eitthvað á lofti en fatta svo að því var kastað en hefur ekki vængi (ok, þessi samlíking er ábyggilega aðeins of djúp til að meika sens en ég er að meina þegar einhver segir eitthvað og ég tek því á ákveðin hátt en það var ekki meint þannig, það var ekki "meint" yfir höfuð heldur bara sagt, í rælni, afþvíbara ... og ekkert á bakvið það), hættið að segja hluti sem þið meinið ekki!
Og fyrst ég er byrjuð á tuðinu þá ég þoli ekki að þurfa að bíða, mig langar ekki til að bíða eftir hlutunum, bara alls ekki neitt. Ég er fröken óþolinmóð þó ég láti ekki mikið á því bera alla jafnan. En ég veit líka að það væri ekkert gaman að neinu ef það gerðist allt strax, þá væri heldur ekki hægt að líta yfir farinn veg og dást að því hvað vinna og þrautseigja hefur skilað ef fólk þarf ekki að vinna og sýna þrautseigju til að fá hlutina ...

En ég ætla bara að anda með nefninu áfram og klára vaktina og fara svo heim til Fídels að sofa og vakna örugglega minna pirruð ... verð að minnsta kosti ekki mikið pirraðri ;)


Góðar stundir og spyrjið áður en þið ætlið öðrum ... spyrjið jafnvel ykkur sjálf ef þið eruð ekki viss :)

sunnudagur, október 03, 2010

Ég á við smá vandamál að stríða. Sumir myndu segja, bara eitt? eða bara smá? en ég er bara að tala um eitt tiltekið vandamál í þetta sinn:)
Og það er smá, að minnsta kosti miðað við hvað gengur og gerist ... þó er ég kannski ekki með besta viðmiðið miðað við vandamálin sem ég sé 18 daga í mánuði ... en já, þetta vandamál er ekkert mikið eða merkilegt eða óyfirstíganlegt.

Það tengist þessum 18 dögum í mánuði sem ég er að vinna. Hefur ekkert með vinnuna að gera miklu frekar dauðu stundirnar á milli þess sem ég sinni vinnunni og sit við tölvuna. Þá er ég logguð inn á Facebook og fletti henni stundum svona hingað og þangað, opna einn prófíl og sé að við eigum sameiginlega vini og opna annan prófíl og skoða hitt og þetta og svo er fólk að setja inn myndir og statusa og ... já, ég er svona laumu-stalker fjölda fólks án þess að ætla mér það.

Þetta væri kannski í lagi ef ég væri að kommenta á myndir sem ég skoða hjá fólki en ég geri það afskaplega sjaldan, en ég set oftar "like" á hitt og þetta ... en oftast statusa þannig að ég er hrædd um að fólk líti á mig sem einhvers konar Facebook-fíkil? sem ég er ekki því Facebook er bara ögn skemmtilegri afþreying en að leggja kapal og ég sakna þessi ekki baun á frívöktunum mínum ...

... og ekki að ég haldi að einhver sé í alvöru að eyða tíma í að spá hverjir séu fíklar og hverjir ekki en ætli það séu ekki allir að spá eitthvað í hverjir skoði efnið þeirra? og svo fær fólk eitt "like" frá mér á alls konar statusa sem eru um hitt og þetta. Síðan hitti ég fólk sem ég hef ekki talað við í lengri, lengri tíma og veit eitthvað fáránlega skringilegt um þeirra líf, að einhver hafi klárað að prjóna eitthvað eða skipt um dekk eða lent í einhverju sem ég slysaðist til að sjá því ég var á rólegri vakt daginn sem það gerðist en ég hef ekki hugmynd hvort viðkomandi eigi tvö eða þrjú börn eða hvað þau heita ... ;)

Bara að spá, því það sem ég ætlaði alltaf að blogga um voru hlutir sem ég hefði hugsanlega sett í status á Facebook ef mér hefði ekki þótt það of persónulegt og skrítið að auglýsa svona "opinberlega" en auðvitað er blogg ekkert minna opinbert. Mér bara finnst það ekki eins opinbert því færri lesa bloggið en laumast um á Facebook í skjóli nætur og myndu vita skringilega hluti um mig :)

Góðar stundir