þriðjudagur, maí 30, 2006


Fídel er illa við MGM ljónið ... hvernig veit Fídel að hljóðið er ljónahljóð? Er hann kannski bara hræddur því það kemur skyndilega eftir þögn? Það hlýtur eiginlega að vera því ég er nokkuð viss á að hann hafi aldrei hitt ljón þrátt fyrir að vera lífsreyndur miðaldra kisa:) Ég trúi ekki að MGM ljónið hljómi eins og eitthvað frumdýr sem genin í Fídel þekkja sem óvin. Ég þori að fullyrða að íslenski ruslatunnukisinn hafi aldrei nokkrum tíma í þróunarsögu sinni þurft að óttast ljón, síðast þegar ljón og íslenskir ruslatunnukisar hittust voru þeir báðir hreistruð og eldspúandi fornaldarskrímsli ... með vængi og svöruðu annað hvort nafninu Cringer eða Battle Cat:)

Þar sem ég er að ræða fornöld og jarðsöguleg tímabil þá vil ég leiðrétt einn misskilning sem ég veit ekki hversu útbreiddur er, Krítartímabilið er ekki nefnt svo vegna þess að risaeðlubein hafi fyrst fundist á eyjunni Krít:) Loftslagið var hlýtt að vísu eins og á eyjunni en Krítartímabilið er nefnt eftir risastórum krítarlögum við Bretland og meginland Evrópu ... ótrúlegt að hlusta á vitleysinu sem fólk röflar yfir kaffibollum! Þegar “hjólað í vinnuna” átakið var í gangi sagði einn snillingurinn við annan: “þetta er alveg ótrúlega vinsælt, það eru bara allir að hjóla í vinnuna! Í morgun á leiðinni á skrifstofuna hjólaði ég eftir Miklubrautinni og allir sem voru ekki í bílum voru að hjóla eða ganga eða bíða eftir strætó!!“ stórmerkilegt! Á Miklubrautinni! Jamms, það tóku sko allir þátt í þessu átaki, nema þeir sem voru á bílum auðvitað:)

Góðar stundir
Missti af því að fara á línuskauta í gærkvöldi en planið er að kíkja í kvöld ef hann helst þurr. Ég er samt hálfpartinn að vona að það fari að rigna vegna þess að ég er heigull og ... líkamlega-sérhlífin-þegar-kemur-að-því-að-meiða-mig:) það hlýtur að vera til eitthvað orð yfir þetta á íslensku annað en lífhrædd? ég er nefnilega ekkert sérlega lífhrædd yfirleitt en púkinn inní mér sem er sér um rófubeinið (því púkar eru með rófur, ekki stelpur) telur línuskauta verkfæri djöfulsins og kiprast saman af hræðslu (eða gleði, þetta er nú púki) við tilhugsunina;) afhverju var ég að kaupa mér nýja skauta um daginn? því þeir sem ég átti eru sérhannaðir til að skella skautaranum á bossann og ég hef fengið nægilega mikla reynslu í að detta, núna langar mig til að læra að skauta því ég veit að ég get þetta og mig langar alveg ofsalega að vera línuskautafær:) ég er samt ekki að hugsa um að kaupa mér nýjan fataskáp í sportvöruverslun og sannfærast um að íþróttatoppur virki sem frambærileg hversdagsföt! Ég vil bara geta rúllað áfram án þess að horfa á tásurnar á mér og titra í hnjánum:) Einarinn er líka búinn að koma með alveg snilldarhugmynd um hvernig ég geti verið með rasshlíf án þess að vera með "rasshlíf" sem ég er að hugsa um að notafæra mér - þá verða mér allir vegir færir!!

Góðar stundir

mánudagur, maí 29, 2006

Tölvan er komin heim

... en núna hef ég ekki tíma til að sinna henni;)

Lifið heil

miðvikudagur, maí 24, 2006

Nick Cave kemur aftur!!

Þá veit ég hvað ég verð að gera 16. september næstkomandi, alltaf gaman að gera plön þrjá mánuði fram í tímann ... myndi skrifa þetta í dagbókina mína en ég held ég gleymi ekki þessum tónleikum;)

í öðrum fréttum þá er tölvan mín í viðgerð og verður það kannski fram yfir helgi (viðgerðin tekur að meðaltali 3 virka daga og í þessari viku er að sjálfsögðu einn frídagur ... ég er með fráhvarfseinkenni en tölvuleysið hefur ekki staðið nema rúman sólarhring;)

ég er nördið sem bíð eftir að vinnan mín opnast á morgnanna ... var mætt hálftíma fyrir opnun í morgun en ég gat ekki sofið lengur vegna flókinna draumfara:) ég ákvað nefnilega að eiga kassann sem ég fékk gefins um daginn, ég er búin að mála hann og er núna að ákveða hvernig lokið á að vera ... ég er eiginlega búin að ákveða að skera keltneska "hnúta" í lokið þannig að ég er búin að vera að æfa mig í útskurði undanfarið ... ég er ekkert sérlega góð í að skera út ENNÞÁ en ég er viss um að þetta komi með tímanum;) en ég er sem sagt að æfa mig og það var þess vegna sem ég gat ekki sofið í alla nótt og mætt á skynsamlegum tíma í vinnuna í morgun, mig dreymdi að hnútarnir sem ég var að skera út væru aldrei kyrrir ... þeir vildu ekki fara ofan í viðinn heldur lyftust þeir alltaf upp af honum og mér fannst ég ekki vera að skera þá út heldur var ég að reyna að negla þá á lokið ... eftir þennan draum hef ég ákveðið að sleppa öllum pælingum um drekahöfuð og stafnlíkneskjur:)

Lifið heil

mánudagur, maí 22, 2006

Hrikalega voru Finnarnir flottir á laugardaginn! :)Eeeeeexxxxxxxxxbbbbbbbbbbbéééééééééééééé!

Góðar stundir

föstudagur, maí 19, 2006

Jæja, við keppum ekki á laugardaginn ... en það er í lagi því Lordi komst áfram og mér finnst þeir ótrúlega flottir!:)

Andlega uppgefin akkúrat núna ... ég er hætt að hugsa um að líkaminn þurfi meiri svefn því hann hefur verið þreyttur svo lengi ... ég held að þetta sé ofnæmislyfjunum að kenna þannig að ég get valið á milli þess að geta ekki andað og ekki náð að sofa eða ná að sofa en vera úrvinda allan daginn því mig dreymir svo mikið? ég kýs að anda auk þess eru draumarnir hin ágætasta skemmtun, í nótt dreymdi mig Gorka Morka skrípaher með kokkahúfur og á fiðruðum korsilettum a la Silvía Nótt:)

Einn brandari fær að fljóta með í lokin vegna þess að það er föstudagur:)

A crusty old Sergeant Major found himself at a gala event hosted by a local liberal arts college. There was no shortage of extremely young, idealistic ladies in attendance one of whom approached the Sergeant Major for conversation.

She said, "Excuse me, Sergeant Major, but you seem to be a very serious man. Is something bothering you?"

"Negative, ma'am," the Sergeant Major said, "Just serious by nature."

The young lady looked at his awards and decorations and said, "It looks like you have seen a lot of action."

The Sergeant Major's short reply was, "Yes, ma'am, a lot of action."

The young lady, tiring of trying to start up a conversation, said, "You know, you should lighten up a little. Relax and enjoy yourself."

The Sergeant Major just stared at her in his serious manner.

Finally the young lady said, "You know, I hope you don't take this the wrong way, but when is the last time you had sex?"

The Sergeant Major looked at her and replied, "1955."

She said, "Well, there you are. You really need to chill out and quit taking everything so seriously! I mean, no sex since 1955!" She took his hand and led him to a private room where she proceeded to "relax" him several times.

Afterwards, and panting for breath, she leaned against his bare chest and said, "Wow, you sure didn't forget much since 1955!"

The Sergeant Major, glancing at his watch, said in his matter-of-fact voice, "I hope not, it's only 2130 now."


Góðar stundir

fimmtudagur, maí 18, 2006

Töframaður tekst á við draumaverkefni

Töframaðurinn fífldjarfi, David Blaine, hefur nú að mestu jafnað sig á hrakförunum í vatnskúlunni á dögunum og er nú staddur hér á landi til að takast á við það sem hann kallar stærsta 'töfrabragð allra tíma'.

Blaine segist vart hafa trúað sínum eigin eyrum þegar honum var boðið að spreyta sig á verkefninu og segir það draum allra metnaðargjarnra töframanna að fá tækifæri sem þetta.

Blaine kom til landsins snemma í morgun og hefur þegar hafið undirbúning - en hann mun, standist hann læknisskoðun, stýra kosningabaráttu framsóknarflokksins í Reykjavík á lokasprettinum.


Baggalútur klikkar aldrei;)

Góðar stundir
Gleðilegan undanúrslitadag:)

símreikningurinn minn mun hækka í kvöld en ég er ekki alveg búin að ákveða hverjum það verður að kenna (auk mín) að hann hækki ... en það verður gaman:)

ég labbaði upp á fjall í gærmorgun fyrir vinnu, get því miður ekki sagt að við höfum farið alla leiðina upp en í nótt var ég fegin því ég ekki aðeins endurtók fjallgönguna heldur datt ég niður hlíðina að henni lokinni, ef ég hefði gengið alla leið uppá topp hefði fallið verið miklu hærra og ég gæti vel hafa sofið yfir mig því gangan tók langan tíma í alvörunni en miklu lengur í draumnum - það er ekki hægt að reima skónna sína þegar augun eru lokuð og þú nærð engum fókus ... kannski datt ég því ég gat ekki reimt? man það ekki en ég man að við Fídel lentum í árekstri í nótt og hann var að keyra!! Þegar löggan kom laug ég því að ég hefði verið að keyra með Fídel í fanginu en þeir trúðu mér ekki því ég hef "alltaf verið fyrirmyndarbílstjóri" en það vita allir að kettir eru "sífellt til vandræða" ... löggan var greinilega með fordóma fyrir köttum;)

Lifið heil

þriðjudagur, maí 16, 2006

Fyrst er áríðandi tilkynning frá Sjálfstæðismönnum í Tuborg (áður Árborg)

Eins og flestir ef ekki allir íbúar Tuborgar vita þá hefur eitt af stóru baráttumálum Sjálfstæðisflokksins í Tuborg fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í ár verið áhersla á að Hellisheiðin verði full-upplýst á næsta kjörtímabili... Þetta baráttumál er ekki lengur á stefnuskrá flokksins þar sem komið hefur í ljós að ljósastaurar geta hreinlega bara verið fyrir!!

og í öðrum fréttum þá er hjólið komið í lag þannig að ég kemst hraðar á milli staða sem er fínt því ég virðist alltaf eiga að vera annars staðar nokkrum mínútum eftir að ég hætti að eiga að vera þar sem ég var ... en ég gaf blóð í gær og fékk bréf frá gömlum vini í Frakklandi, lífið er barasta mjög fínt þrátt fyrir pikkles, kaos og uppnám:)

Góðar stundir

sunnudagur, maí 14, 2006

Það hvellsprakk á hjólinu mínu á leiðinni í vinnuna í morgun! Ég vissi ekki að svoleiðis gæti komið fyrir en ég heyrði bara svona "púfffTTTT" hljóð svo "SSSSSSSSSSSSSSSsssssssssss" og dekkið varð alveg loftlaust:) stórmerkilegt alveg hreint en ég datt ekki þó það sé komið sumar og það er orðið frekar langt síðan ég datt síðast - ég er væntanlega að spara mig fyrir línuskautana;)
ég tók dekkið af og keypti bætur á leiðinni heim þannig að núna er ég með ilmandi dekk (ég finn enga lykt sjálf en kettirnir eru einstaklega áhugasamir um þetta allt saman) og pakka af bótum heima hjá mér en er bara nýbúin að uppgötva stórkostlegan feil í áætluninni, ég get ekkert fundið gat í slöngu ef ég get ekki pumpað í hana er það nokkuð?

Sprengikveðjur

föstudagur, maí 12, 2006

Föstudagur ...

stundum vildi ég að hver færsla væri titluð eins og á sumum bloggum en "templateið" sem ég valdi mér býður ekki uppá það ... sem er fínt því þá neyðist ég ekki til að finna titil á hverja einustu færslu;) en þessi færsla er sönn, alvöru, hundrað prósent föstudagsfærsla:)

ég hef ekki getað sofið undanfarið og hef verið hálfsvefnlaus í rúmlega hálfan mánuð:( jú, ég sofna yfirleitt að lokum en þá er ég búin að snúa mér hundrað sinnum, reyna að sofna á sófanum, opna glugga, loka gluggum, opna útá svalir, loka aftur og núna um daginn flutti ég rúmið mitt úr svefnherberginu inní stofu því ég náði ekki andanum þegar ég reyndi að sofna, ég prófaði að fara út að hlaupa og ganga og hjóla til að þreyta mig almennilega líkamlega, prófaði að leysa Soduko gátur og teikna í þrívídd til að þreyta mig almennilega andlega, jú, þetta virkaði alveg, ég varð drulluþreytt en ég hef ekkert náð að hvílast:) í dag datt mér loksins í hug að taka stóran ofnæmislyfjaskammt og viti menn!! ég get andað, mér klæjar ekki í hálsinn og ekki í eyrun og mér svíður ekkert í augun:) ég á eftir að sofa eins og ungabarn í nótt sama hvar ég ákveð að sofa;) ég tók lyfin eftir að ég frétti að mælingar sýna fjórfalt magn frjókorna í Reykjavík miðað við venjulegan maí ... alltaf skemmtilegt þegar þegar vandamál leysast svona auðveldlega, verð greinilega að fylgjast betur með þessum mælingum í framtíðinni?? ég hef ábyggilega gert illt miklu, miklu verra með því að vera alltaf að reyna á mig í útiloftinu rétt fyrir háttinn ...

hvað um það ... í gær keypti ég mér nýja línuskauta:) ég held að þetta sé mynd af þeim, nema ég keypti auðvitað rauða því ég er svo mikil gella ... og svo voru þessir bláu líka búnir;) en ég er ekki alveg hundrað prósent viss því ég er ekki með skautana hérna hjá mér:) ég var sko hjólandi og keypti þá í Everest í Skeifunni þannig að Majan mín elskuleg, sem fór með mér til að auðvelda mér valið á réttu skautunum, ætlar að ná í þá á bílnum sínum á morgun:) það reyndist líka mjög góð hugmynd að skilja þá eftir í búðinni því við enduðum á því að hjóla upp í Salarhverfið í Kópavogi í heimsókn til systur Maju, mjög mikið uppá móti en næst þegar við förum verða brekkurnar ekki eins erfiðar því væntanlega munum við ekki villast á leiðinni eins og í gær;) hringurinn hefur verið 20-25 kílómetrar (ekki hægt að segja að við höfum farið "beinustu leiðina") og ég fór beint í afmæli til Hilmars eftir hjólatúrinn í gærkvöldi og ég fann það á fótunum mínum í dag að þeir hefðu alveg viljað sofa í nokkra klukkutíma í viðbót ... á leiðinni heim áðan kom ég við í Húsasmiðjunni útá Granda, Bónus á Laugavegi, kaffihúsinu (til að taka myndir ekki til að vinna;)), skilaði af mér pakka frá kollega mínum til sameiginlegs vinafólks okkar og pumpaði í dekkin á hjólinu á leiðinni heim ... mikið ofsalega var gott að setjast niður!:) ég hef varla staðið upp síðan ég kom heim en þyrfti að gera það ... þyrfti að gera eitthvað en mig langar bara til að fara að sofa;)

hvernig fer fólk að því að eiga tvö börn og gera ekki uppá milli þeirra? ég á í erfiðleikum með að gera ekki uppá milli kattanna, þegar einn malar finnst mér ég vera að vanrækja hinn en vil ekki hætta að klappa þeim sem malar til að klappa hinum því þá hættir hann að mala ... en samhæfingin mín er öll að koma til, ég er farin að geta leikið mér við tvo ketti samtímis með tveimur leikföngum og er ekki stórsködduð eftir leikinn;)

annars komst ég að svolitlu í dag sem kom mér í verulegt uppnám en það er ekkert sem ég get gert ... hafið þið einhverja skoðun á karma? haldið þið að fólk uppskeri eins og það sái í alvöru eins og orðatiltækaið segir?

þetta er vissulega föstudagsfærsla en vinnuvikan er ekki búin, ég verða að vinna á morgun og hinn og alla næstu viku og svo er ég að þjóna í veislu held ég á föstudagskvöldið eða á veitingastað, veit það ekki ennþá en vin minn bráðvantar fólk þetta kvöld og ég er að skoða eyjar í Adríahafi sem mig langar til að eyða peningum á í haust;)

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum ... hlýtur að vera komið sumar því þessi ljóðlína suðar í kollinum á mér:)

Lifið heil

fimmtudagur, maí 11, 2006

Þegar ég fór í vinnuna í morgun ... fyrir næstum því sólarhring síðan ... bjuggu fimm einstaklingar í húsinu mínu að staðaldri, þrír kvenkyns og tveir karlkyns. Aðra hvora helgi, sýnist mér, fjölgar okkur um næstum því helming því tveir krakkar, strákur og stelpa, mæta í kjallarann og kríta broskalla og parísa á hellurnar í garðinum. Núna nýkomin heim úr vinnunni heyrist mér á öllu að við séum orðnir sex íbúar í húsinu en hvort kynjahlutfallið sé ennþá okkur konunum í hag eða hvort karlarnir hafa náð okkur í fjölda veit ég ekki, það er ekki hægt að greina kyn nýfæddra barna á rödd þeirra:)

Á að gefa nágrönnum sínum sængurgjöf? væri það ekki viðeigandi? ég vona að það verði ekkert loftborað á morgun, börn þurfa ekki að vera fædd inní Vísindakirkjufjölskyldur til að verðskulda rólegheit fyrsta sólarhringinn sinn í heiminum ...

Þetta var merkileg vakt í kvöld ... vaskurinn stíflaðist, það varð að skipta um alla kútana þó við hefðum ekki selt sérstaklega mikinn bjór, ég sullaði öllum tegundum sulls á mig því ég mætti þreytt og varð þreyttari, ég braut glös, missti öskubakka, hitti ekki í ruslið, sprautaði rúðuúða framan í mig, brenndi mig á a) grillinu b) kaffivélinni c) sjóðandi heitu vatni, ég henti út tveim stykkjum af rónum, bað frænda tveggja krakka sem voru að klára samræmduprófinn í dag vinsamlegast um að yfirgefa svæðið ásamt krökkunum þegar klukkan var að verða miðnætti og krakkarnir höfðu hjálpað honum nægilega mikið með bjórinn hans (og ekki snert á kakóinu sínu) til að tilkynna mér hverju þau væru að fagna (samræmduprófalokum) og að ég væri besta vinkona þeirra "í öllum heiminum", ég rakst aftur á hel***** járnið í veggnum og fékk gat og mar á framhandlegginn (gerist að vísu fáránlega reglulega), klemmdi mig aftur á hel***** járninu þegar ég var að læsa húsinu (yfirleitt klemmi ég mig EÐA fæ marblett, ekki bæði), læsti mig úti og lyklana inni - eftir lokun, reif ruslapoka á leiðinni í ruslagáminn og var búin að hjóla heim þegar ég fattaði að ég hefði gleymt hjólahjálminum á tröppum kaffihúsins og varð að hjóla hjálmlaus aftur til baka til að ná í hann ... það var samt alveg í lagi því leiðin á kaffihúsið er öll niður á móti, leiðin heim hins vegar virtist þrisvar sinnum lengri en venjulega og var öll upp í móti ... hefði átt að skilja hjálminn eftir þarna því þá myndi ég hafa fullkomlega gilda afsökun fyrir því að kaupa mér nýjan:) þessi sem ég á er svona "alvöru" hjálmur, merktur TREK en hann er fáránlega óþægilegur og mér líður eins og skjaldböku með hann á höfðinu ... hann er straumlínulagaður til að ná meiri hraða en AFHVERJU er hann gerður straumlínulaga? ég held ég hafi aldrei farið nægilega hratt til að réttlæta lögunina samt hjóla ég á útopnu niður eina bröttustu brekku Reykjavíkur á hverjum morgni:) hjálmurinn á að passa og allar ólar eru rétt stilltar en ég hef komist að þeirri niðurstöðu að höfuðið sjálft sé ekki nægilega straumlínulagað frá náttúrunnar hendi til að þola lögun hjálmsins, ég er með ferkantaðan haus sem á að vera kyrr eða á rólegu rölti, þannig er ég hönnuð og þannig voru forfeður mínir hannaðir - hef ég minnst á það að forfeður mínir fyrir austan voru sumir hverjir með svo ferkantaðan haus að hestar báru þá ekki?

Góðar stundir

miðvikudagur, maí 10, 2006

Siðmenntaðar framkvæmdir hafa enn ekki hafist og loftborinn er enn í fullum gangi en góðu fréttirnar er að þeir hafa fundið neðanjarðarstöðuvatn í kjallaranum! Það er að minnsta kosti allt á floti þarna núna ... nema þeir ætli kannski að byggja sundlaug í staðinn fyrir sólskála?

Sem betur fer hef ég ekki þurft að þola þennan hávaða í allan dag og ég hef alltaf stoppað svo stutt heima þessa vikuna á meðan þeir eru að þessu, bara rétt til að tékka á póstinum og blogginu og skipta um föt svo er ég farin aftur, en aumingjans kisurnar eru í klessu og heimavinnandi og -verandi fólk er eflaust allt orðið heyrnalaust og gráhært ... verð að athuga hvernig hárið er á nágrönnunum næst þegar ég hitti þau, kisurnar eru greinilega alveg búnar að fá nóg og þurfa mikla athygli þannig að ég ætla að sinna þeim en ekki ykkur þangað til ég þarf að mæta aftur í vinnu:)

Með loftborskvejðu úr Þingholtunum

þriðjudagur, maí 09, 2006

Ég er búin að gleyma hvaða tannkrem mér finnst gott ... ég veit að þetta hljómar furðulega en ég man bara ekki fyrir mitt litla hvaða tannkrem það var sem mér fannst gott á bragðið:(

ástæðan fyrir því að ég man þetta ekki, ég veit að allir eiga að muna svona hluti um eigin smekk, en ég versla stundum í Bónus og þar eru ekki allar tannkremstegundir seldar en samt kaupi ég tannkrem þar þegar mitt er alveg að verða búið ... það er ekkert að þessum tegundum sem ég kaupi, mismunandi í hvert skipti held ég, en þær eru bara ekki eins góðar og mér finnst að tannkrem eigi að vera því ég veit að ég hef notað betra tannkrem um ævina en það sem er inná baði núna ... og betra en það sem ég keypti síðast líka ...

hvaða tannkrem notið þið? eruð þið sátt? hvar er það keypt?

Góðar stundir

mánudagur, maí 08, 2006

Komin heim eftir fyrsta 8 til 4 vinnudaginn:) já, krakkar mínir, það kom að því að ég væri að vinna venjulegan vinnutíma en núna kem ég heim á loftborstíma ... þetta er gallinn við að búa í hverfi þar sem alltaf er verið að gera upp hús, byggja við og laga garða ... um leið og vorar fara eigendur og íbúar af stað og allar helgar og öll kvöld má heyra óm framkvæmda þar sem flestir eru í fullri vinnu við að gera eitthvað allt annað á daginn og nota svo sumarfríið sitt í að sitja á nýjum palli við nýmálað hús með nýtt dren og nýtt þaki:) "ómur framkvæmda" er hugsanlega ekki alveg rétt lýsing á þessum dómsdagshávaða sem nístir merg og bein og gerir kettina að skjálfandi taugahrúgum en það er takmarkað mikið sem loftbor dugir, það hlýtur að koma að því að loftborshluti verksins klárist og siðmenntaðri framkvæmdir hefjast ... málingarvinna finnst mér til að mynda afskaplega siðmenntuð, þar eru menn hver með sitt vasadiskó/ipod og eina sem heyrist er létt skvamp þegar pensli er dýft í fötu ... þá er ég að meina þegar búið er að reisa stillansinn og það er ekki kaffitími og þegar allir starfmennirnir eru ekki á svipuðum aldri og hlusta ekki á svipaða tónlist í gettóblaster á sterum ... vonandi verður málingarteymið sem við ætlum að fá til að mála húsið okkar í sumar allir á mismunandi aldri, af mismunandi þjóðernum og með mismunandi tónlistarsmekk þannig að þeir hlusta hver á sína tónlist og tala ekki saman:) að sjálfsögðu er ég að grínast, þeir mega allir vera á sama aldri, hlusta á sömu tónlist, þeir mega meira að segja allir vera fyrrum þátttakendur í Herra Ísland ef þeir fara úr að ofan í vinnunni:) jamms, ég vil fá hálfbera hnakka á palla í kringum húsið mitt í sumar, við ætlum að mála það gult þannig að kannski að Gilzenegger vilji vera með? ég sá hann í auglýsingu um daginn í gulum jakkafötum að auglýsa gular síður þar sem hann var að mála hús gult, tilvalinn kandídat í gulhúsamálun finnst mér:)

en talandi um jakkaföt þá veit ég hvað varð um öll hvítu jakkfötin sem Herra Hafnarfjörður var að auglýsa um daginn:) Trabant keypti lagerinn og var í þeim á Manchestertónleikunum síðasta laugardag! Ég fékk boðsmiða, takk stelpur:) og þetta voru alveg ágætir tónleikar en þegar Elbow (hljómuðu eins og blanda af Coldplay og Sting-eftir-gráa-fiðringinn) byrjaði að spila fórum við heim til að spila Catan sem mér persónulega fannst miklu skemmtilegra:)

í gærkvöldi fórum við í Matador en enginn mundi reglurnar almennilega og Íris rústaði okkur Hilmari eftir að hafa unnið 20.000 króna sveitastyrk ... en Sigga var bankastjóri þannig að kannski voru brögð í tafli? man einhver hvað það þýðir að eiga allar götur í sama lit? kann einhver reglurnar í Matador? ef svo er þá er laust pláss næst þegar Matador verður tekið fram ... sem verður um leið og við Hilmar hættum að vera bitur:)

fyrstu útileikir sumarsins leystust upp í impróveseraðan skotbolta og klifrugrindarklifr ... ég vissi ekki að ég væri með vöðva í handakrikanum, alltaf gaman að læra eitthvað nýtt um líkamann sinn:)

Lifið heil

föstudagur, maí 05, 2006

Ég hálfskammast mín fyrir hvað ég er búin að þjálfa kettina vel ... Fídel er á sérfæði og má helst ekki borða annað en það sem dýralæknirinn leyfði, Seifur er líka á nokkurs konar sér-fæði, hann borðar allt sem hann sér:) en ég er búin að harðbanna honum að koma nálægt matnum hans Fídelar! Fídel nær aldrei að klára matinn sinn ... hann borðar eins og fugl, en ekki segja honum það;) Seifur klárar matinn sinn og reynir svo að borða það sem Fídel skildi eftir en ég stoppa hann alltaf af ... fyrst klappaði ég alltaf og tók matinn af honum, svo klappaði ég en þurfti ekki að taka af honum matinn, hann hætti bara að borða, en núna virðist ekkert þurfa að gera lengur ef ég er einhvers staðar nálægt ... á meðan ég pikka þetta hefur Seifur legið á eldhúsgólfinu og krækt sér í mylsnur af gólfinu í kringum sérfæðis-diskinn hans Fídelar ... mér finnst ekkert sérlega gott að kötturinn sé að borða af gólfinu en ég hugga mig við það að ef ég snéri mér undan án þess að fjarlægja diskinn myndi allt klárast á augnabliki, ég er búin að þjálfa kettina en þeir eru samt ekkert "þjálfaðir";)

Ég var að keyra áðan og útvarpið var stillt Kiss FM, klukkan var sex og þátturinn Sex til sjö átti að byrja. Þulurinn kynnti þáttinn en svo þagnaði útvarpið og ekkert heyrðist í hátt í mínútu svo heyrðist í útvarpsþulinum "tæknin er eitthvað að stríða þeim í Sex til sjö, það heyrist ekkert í míkrófónunum þeirra en þetta hlýtur að fara að koma, ekki hafa áhyggjur ..." ... hafið þið einhvern tímann haft áhyggjur af útsendingum og afsökuðum hléum? vissi ekki að ég ætti að hafa áhyggjur af slíku því hingað til hefur útsendingin alltaf byrjað aftur þegar tæknin hættir að vera stríðnispúki eða tæknimennirnir fatta hvaða snúra datt úr sambandi ... ég myndi kannski hafa áhyggjur ef útsending rofnaði alveg eftir að þulur hafi sagt "við rjúfum þessa beinu útsendingu frá síðustu mínútum úrslitaleiks Íslands og Brasilíu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu því aaaaaaaaarrrrrrrrrrrrgggggggggggggggggghhhhhhhhhhhhhhhh .... " jú, þá hefði ég áhyggjur, því ég myndi líklega aldrei horfa á beina útsendingu frá nokkrum fótboltaleik ótilneydd ...

Með ást og virðingu

fimmtudagur, maí 04, 2006

Ég hef ósjaldan haldið því fram að ég sé betri skriflega en í alvörunni en kannski er það ekki rétt hjá mér, jú ég roðna aldrei þegar ég skrifa ... yfirleitt ekki og þegar ég geri það þá er enginn sem horfir á mig þannig að ég roðna ekki meira vegna roðn-meðvitundarinnar ... og það er gott að roðna ekki (annars var stelpa sem ég þekki að segja mér í kvöld að hún hafi aldrei séð mig roðna ... hún man greinilega ekki eftir því þegar við vorum að kynnast, ég held ég hafi aldrei talað við ókunnugan einstakling án þess að roðna?:)) en svo var mér sagt um daginn að þegar fólk sem ég þekki les bloggið mitt heyrir það mig tala um leið og það les, það "sér" handahreyfingarnar sem ég nota alltaf þegar ég er að segja frá hlutum og það er það sem gerir bloggið mitt skemmtilegt ...

skoðanakönnun: "sérð" þú mig tala þegar þú lest bloggið mitt?

og já, ég ákvað í dag að framvegis skyldi ég svara öllum kommentum ... þessi ákvörðun er að vísu ekki afturvirk þannig að þið verðið öll að kommenta aftur til að fá svar:)

... takk samt fyrir öll kommentin, mér finnst alltaf gaman að fá svoleiðis ... og ef þú ert með blogg og hugsar "ég ætla ekki að kommenta því hún kommentar aldrei hjá mér" þá segi ég tveir mínusar gera ekki plús (nema í stærðfræði samkvæmt Írisinni, en stærðfræði hefur aldrei verið mín sterka hlið:)) fyrir utan það að yfirleitt les ég blogg þegar ég er að mynda í vinnunni og þá get ég ekki notað lyklaborðið;)

Lifið heil
Ég vona að þetta virki því þetta er frábær leið til að byrja nýjan dag:)Góðar stundir

miðvikudagur, maí 03, 2006

Woody Allen: snillingur eða leiðindapúki?

mér finnst hann leiðindapúki ... það finnst ekki öllum hann skemmtilegur

alltof mikil rigning úti og samkvæmt Bergþóri Pálssyni verður góð spretta í sumar

ég er stelpa ... hvorki gras né tilvonandi hey

kettirnir eru komnir inn af svölunum eftir að hafa fylgst með fuglunum í trjánum í allt kvöld

ég veit ekki ennþá hvað mér finnst um svani og ég náði að sofna í nótt ... en ég er fegin að þeir sitja ekki á grein fyrir utan gluggann hjá mér og hræða kettina

Lifið heil

þriðjudagur, maí 02, 2006
... hver hefur verið að bíða eftir hvítum jakkafötum? Herra Hafnarfjörður segir í auglýsingunum sínum að allir hafi verið að bíða eftir þeim en þeir hljóta að vera að ljúga því ég þekki engan sem bíður?

... bandarískt fólk er búið að fatta mæspeis því ég var að horfa á Jay Leno og þegar hann sagði orðin brutust út fagnaðarlæti meðal áhorfenda hans, en hann var að tala um mæspeis í sambandi við þingmann sem reyndi að draga "14 ára" tálbeitu bandarísku alríkislögreglunnar á tálar, er mæspeis útlenskt einkamál.is?

... ég fór að pæla í nótt, á meðan ég beið eftir því að sofna, þegar þið hellið á milli glasa þá verður alltaf eitthvað eftir í gamla glasinu/bollanum, hversu mikið verður eftir? ef ég ætlaði að hella einum desilítra "á milli" glasa/bolla en alltaf nota nýtt glas (og bolla þegar glösin klárast) hversu mörg glös þyrfti ég? ég geri ráð fyrir að það sé hægt að mæla það sem verður eftir í glasinu sem hellt er úr og að það magn ræðst af því hvers kyns vökvinn er, sýróp til dæmis skil meira eftir sig en til að mynda soðið vatn ... glasið gæti líka haft einvher áhrif, pappaglas vs. glerglas, og auðvitað skiptir "hellarinn" sjálfur máli, hvað fer mikið útfyrir? ég komst að þeirri niðurstöðu að allt klárast að lokum og ef það nennir enginn að hella neinu þá gufar vatn upp og maurar éta sýróp, ég þyrfti bara að redda maurum og svo sofnaði ég ... alltof seint:)

... ég vaknaði í morgun nokkrum mínútum eftir að ég fór að sofa og fór niður á Tjörn með litlu frænku minni og stóru systur, við vorum með fjögur heil brauð sem við fengum gefins í bakaríi:) það tekur langan tíma að rífa niður fjögur brauð og það var mikið um að vera í vatninu, tveir svanir fóru að rífast og einn þeirra elti hinn fram og aftur með bakkanum ... ég varð fyrir gusunum og það var andavatnslykt af mér í allan dag ... ég get ekki ákveðið mig hvort ég fíli svani eða ekki? kannski verður sú spurning til þess að ég verði andvaka aftur í nótt?

... ég fékk gefins trékassa um helgina sem ég veit ekki hvort ég vil eiga og ef ég vil eiga hann hvað ég eigi að gera við hann ... hann er stór og gæti litið vel út ef ég málaði hann með málingunni sem ég keypti í gær ... ómeðvitað er ég jafnvel búin að taka ákvörðun nú þegar, ég þarf ekki að mála neitt annað blátt:)

Ást og virðing