mánudagur, mars 16, 2020

Fyrsti dagur samkomubannsins 2020

Ég er ekki nægilega vel að mér í sögu til að segja frá því hvenær (eða hvort) samkomubann hafi áður verið hér á landi. Mér finnst eins og hafi lesið um slíkt þegar Spænska veikin gekk yfir um 1920 en ég veit ekki hvort það er rétt. Né heldur hvernig borgarbúar tóku því. Kannski mundi ég vita það ef ég læsi fjölmiðla af einhverju viti?
Þetta eru væntanlega líka upplýsingar sem ég ætti að geta flett upp en, kalt mat; þær skipta ekki máli akkúrat núna. 

Það er samkomubann á Íslandi í mars 2020. Það er verið að telja inn í verslanir. Messum, tónleikum, sýningum og alls konar viðburðum hefur verið frestað og aflýst næstu vikurnar og það gera allir sitt besta að forðast alla hina. Fyrir innhverft fólk eins og mig skiptir þetta ekki svo miklu máli. Undanfarið hef ég meira að segja verið að grínast með að ég hafi verið að æfa mig fyrir þessar aðstæður allt mitt líf. Einvera hræðir mig ekki en einvera verndar ekki heldur og fyrir suma er hún hrikaleg. Eins er óvissan hrikaleg. Hvernig smitast veiran nákvæmlega? Hvers vegna verða sumir bara slappir en aðrir deyja? Hvers vegna er ekkert annað í fjölmiðlum og endalaust verið að hamra á hversu margir hafi smitast og dáið? En hvernig væri hægt að vara alla við ef það væri ekki stöðugt verið að búa til fréttir um ástandið? Hvenær lýkur þessu? Hvernig verður sagt frá þessu tímabili í sögubókum framtíðarinnar? Hvers vegna óttumst við þessa veiru svona mikið en hunsum þær 300 milljónir sem veikjast af malaríu á hverju ári? Milljón einstaklingar deyja árlega út malaríu og flestir sem deyja eru börn undir fimm ára aldri. Rúmlega 9 milljónir deyja úr hungri, 25 þúsund á dag og 75 milljónir hafa sýkst af HIV frá upphafi þess faraldrar og þrátt fyrir ný lyf og tækniframfarir deyja enn 140 þúsund á ári úr fylgikvillum HIV.

Vesturlönd eru séra Jón og sömuleiðis gagnkynhneigðir, fullorðnir Vesturlandabúar. Það er líklega svarið. Ég er séra Jóna. Ég þvæ mér um hendurnar, hósta í olbogabótina eins og venjulega og knúsa ekki fólk sem er lasið. Ekki frekar en venjulega. Og í staðinn fyrir að fylgjast með fréttum safna ég þjóðfræðiefni um Covid 19, lögum til að syngja í 20 sekúndna handþvotti og klósettpappírsbröndurum. Ég skoða spegilmynd óttaslegins samfélagsins sem er í upplausn og hlæ.

En mikið stendur hið opinbera upplýsingateymi sig vel, Þórólfur, Alma og Víðir. Og ég er afskaplega hrifin af slagorðinu þeirra, við erum öll almannavarnir.

Lifið heil og hraust.

Góðar stundir.

mánudagur, mars 09, 2020

Kaupmannahöfn

Síðasta miðvikudag flaug ég til Kaupmannahafnar til að sitja COPM námskeið með fimm vinnufélögum mínum. Ég var í Kaupmannahöfn sumarið 2010 með fólkinu mínu. Við vorum sjö saman, þrjú fullorðin og fjögur börn og áður en við fórum við Köben höfðum við verið viku á Jótlandi þar sem við fórum í Legoland og Lalandia. Í Kaupmannahöfn fórum við í Tívolí og í dýragarðinn og Rundeturn og spiluðum og skemmtum okkur í alla staði mjög vel.

Ég fór með mömmu og pabba og bróður mínum í sambærilega ferð þegar ég var á svipuðum aldri og krakkarnir voru þá og man hana ennþá. Ég var líka í Köben þegar ég var unglingur á leið í lýðháskóla á Jótlandi. Þá var ég með kort sem vinur hans pabba var búinn að merkja inn alla borgarhlutana sem ég átti ekki að skoða. Stórir hringir með krossum yfir Ystegade, Christaniu og Nørrebro svo forvitni unglingurinn færi sér ekki að voða á röltinu. Ég naut borgarinnar þá en í síðustu viku var fyrsta skipti sem ég skoðaði mig um sem fullorðin einstaklingur án þess að hafa fyrirmæli um hvað mætti og mætti ekki. Nýju vinnufélagar mínir eru sérlega skemmtilegt og almennilegt fólk sem er gaman að ferðast með. Þær þekkja alla borgina, tala dönsku þó að ég hafi sjálf farið að segja nokkrar setningar á föstudagskvöldinu (eftir tvo heila daga á námskeiði sem fram fór á dönsku!) var mjög gott að vera með heimamönnum.


Ég fór að hugsa um það þegar ég var á röltinu, t.d að skoða Litlu hafmeyjuna - sem er sannarlega lítil, ég held ég hafi séð fyrir mér Frelsistyttuna á grjóti? - um hvað það er nákvæmlega sem breytist þegar við verðum fullorðin? Núna skoðaði ég að vísu Nørrebro, enda hverfið gerbreytt, en spennan yfir að skoða borgina var sú sama og þegar ég var unglingur. Ég fann tilfinningar sem ég tengdi við að skoða aðrar borgir eftir að ég eltist. Þegar ég labbaði um og reyndi að týna mér í París, London og New York. Ég hlustaði meira að segja á nokkrar plötur sem ég hef ekki hlustað á lengi. Að vísu núna í þráðlausum heyrnartólum og á Spotify ekki af kassettu í vasadiskóinu en hugrenningarnar voru þær sömu.

Hvenær vitum við hvenær við verðum fullorðin í alvörunni? Eru það árin? Gráu hárin? Ég er orðin 42 ára en segist stundum enn ætla að gera alls konar þegar ég verð orðin stór. Ég tek ennþá ákvarðanir sem eru misvel ígrundaðar og er ennþá að kynnast sjálfri mér. Þegar ég var tvítug hélt ég að eftir fertugt myndi ég ekki þyrsta eins í að ferðast og kanna og upplifa - ef ég hugsaði það eitthvað yfir höfuð. Þegar ég var tvítug hélt ég líka kannski að eftir fertugt myndi ég vera með’idda, vita hvað ég væri að gera og hvert ég stefndi en sannleikurinn er sá að ég er enn að þykjast. Ég keyri ennþá stundum of hratt, borða popp í kvöldmat, fyllist enn eirðarleysi og dreymi um hluti sem eru ekki viðeigandi þrátt fyrir að allt sé fertugum fært.

Mig langar aftur til Kaupmannahafnar einhvern daginn og finnast ég vera 15 árum yngri.