miðvikudagur, mars 18, 2009

Mætt á aukavakt, var í fríi í gær og náði upp smá svefni með því að sofa næstum til hádegis :) afskaplega ljúfur dagur, svaf lengi, fór út með hundinn, fór í kaffi, skrifaði bréf og fór svo með hundinn í hundaleikskólann þar sem hann var eins og engill í sjéfferbúningi - annað en í síðustu viku þegar hann bara nennti þessu alls ekki og vildi miklu frekar leika við hina hundana en að spá eitthvað í að læra að leita ;)

Síðasta törn var biluð, hvað er fólk að vesenast þessa vitleysu um miðjan mars? svo fór ég líka seint að sofa nánast á hverju kvöldi þannig að ég var líka þreytt á hverjum einasta morgni ... en það var alltaf þess virði :) fór til dæmis á gagnfræðaskóla reunion og hitti fullt af fólki sem ég hef ekki hitt lengi, lengi og næst ætla ég að ákveða mun fyrr að ég ætli að fara og jafnvel redda mér fríi daginn eftir svo ég þurfi ekki að fara heim jafnsnemma ;)

... og nei, þetta er ekki ellimerki að fara heim að sofa í staðinn fyrir að mæta ósofin daginn eftir í vinnuna, það er af mannúðarástæðum sem ég mæti ekki ósofin í þessa vinnu ;)

Lifið heil

miðvikudagur, mars 11, 2009

Þá er mánudagur hjá mér :) ekki alvöru mánudagur heldur var ný vaktatörn að byrja, morgunvaktir næstu sex daga og í dag er ég þreytt ... afskaplega sybbin og búin að lofa mér að fara að sofa klukkan níu í kvöld til að vera ögn ferskari í fyrramálið ;)

... hvort það gengur eftir kemur í ljós en stefnan er huggun í bili :)


Svo eru brandarar líka góð hugmynd við syfju:

Siggi, pabbi vinar míns, sá sumarbústað auglýstan til sölu og sá sem veitti upplýsingar í síma sagði að þetta væri ágætis bústaður. Málið vandaðist hins vegar þegar Siggi spurði hvort það væri verönd við bústaðinn.
-Verönd, hvað er það?
Það er svona pallur þar sem maður getur setið úti og borðað.
-Nei, það er ekkert svoleiðis.
En salernisaðstaða?
-Það er fínasti kamar rétt hjá.
En ekkert klósett inni?
-Nei.
Þá heyrðist húsfreyjan spyrja í bakgrunni hver væri í símanum.
-Æ, þetta er einhver kall að sunnan sem vill éta úti en kúka inni.


Góðar stundir

mánudagur, mars 09, 2009

Eitt af því besta við að eiga hund er að þú fattar að veðrið er aldrei eins slæmt þegar þú ert lögð af stað og það virðist vera áður en þú ferð út :) þegar þú VERÐUR ekki að fara út að ganga í klukkutíma sama hvernig viðrar gefurðu veðri alltof lítinn séns, finnst mér - eða kannski er það bara ég? kuldaskræfan og innipúkinn? :)

annars er ég eiginlega hætt að vera kuldaskræfa og innipúki ... og eftir síðasta sumar þá er mér nokk sama um rigningu líka, þó mér finnist hún ekki beint góð, alltaf, þá er ekkert að henni ;) samt var frekar mikið rok áðan, mér var ekkert kalt nema bara á þeim hlutum andlitsins sem ég varð að hafa útúr til að komast leiðar minnar ... var einmitt að velta því fyrir mér þegar ég var úti við Gróttu og gekk eins og ég væri að ýta bíl til að komast áfram í rokinu hvort fólk myndi ekki skilja mig ef ég færi í göngutúra í +10 metrum á sekúndu með hjálm? Hjálmur myndi fullkomna kósí cocoon-fílinginn en það myndu kannski ekki allir skilja það? svo gæti líka verið að hjálmur taki á sig meiri vind en húfan þannig að hálsinn þarf að hafa meira fyrir að halda höfðinu uppi? kannski kaupi ég mér bara skíðagleraugu? :)

ég sló ekki vinnumet í síðustu viku, metið er 93 tímar minnir mig (þá mínus skólavinna), ég náði 84 tímum en afþakkaði eina aukanæturvakt og skellti mér í tvö partý í staðinn á laugardagskvöldinu, byrjaði hjá HAG félaginu og endaði í konudagspartý hjá fyrrum Júgóslövum - fékk að heyra það nokkrum sinnum um kvöldið að núna væri ég útlendingurinn ;) ég skemmti mér afskaplega vel, dansaði við lifandi ethnótónlist í nokkra klukkutíma, hlustaði á júgóslavnesku heilt kvöld og fékk pakka og rós því ég er kona ;) fyndið að fara til annars lands eina og eina kvöldstund án þess að fara til útlanda, mig langar aftur :)

Ég byrjaði á að segja hvað það er gott að eiga hund en það er líka afskaplega ljúft að eiga kött og þegar loðkúturinn fer að mala þá skiptir mig engu máli hvernig veðrið er, mig langar ekkert út ;)

Góðar stundir

fimmtudagur, mars 05, 2009

Ég slæ kannski vinnumet þessa vikuna, fimmtudagur og þegar ég fer heim í kvöld verð ég búin að vinna 64 klukkutíma í þessari viku ... og hún er ekki búin :)

En í morgun var ég að hlusta á FM 95.7 í bílnum ... fyrir einhvern misskilning en það reyndist hin besta skemmtun. Ég hló og hló og hló og hló :)

Það var einhver spurningarkeppni í gangi, með einföldum spurningum sem "geta þó snúist fyrir sumum" samkvæmt spyrlinum.

Spurning eitt:
Hvert er eftirnafn sænsku tennishetjunnar Björn sem vann Wimbeldon fimm sinnum?
Þetta gat þriðji keppandinn loksins en gisk hinna voru skemmtileg, Blomkvist og Larson og stelpan lýsti hetjunni sem manni "sem var alltaf með sídd í hárinu" :)

Næsta spurning:
Hvaða stóra eyja er útifyrir austurströnd Afríku og hefur meðal annars verið gerðar teiknimyndir um hana?
Gaurinn sem gat Björn Borg fékk að svara aftur og það varð að segja honum fyrsta stafinn í nafninu og að teiknimyndin hefði verið um dýralíf en þá gat hann auðvitað Madagaskar með þeim orðum að hann hefði verið rosalega tæpur þarna - ehhh, já, útvarpsstrákurinn var búinn að segja "mmmmaaaa" og "mmmmaaaaddddd" nokkrum sinnum ;)

Þriðja spurningin var langbest, útskýringin á henni alla vegana:°
Hvað var viðkvæmasti líkamshluti Akkilesar?
Innhringjandinn svaraði "táin á honum" en spyrillinn leiðrétti hann með því að segja hællinn og stákurinn breytti svarinu strax. Útvarpsmaðurinn sem var ekki að spyrja hló því sá sem spurði hafði sagt honum svarið og þá spyr stelpan í útvarpinu hvort þeir vissu söguna á bakvið hælinn? Jújú, þeir héldu það nú!

Það er sko alltaf talað um að ef þú ert veikur í einhverju þá er það þinn Akkilesarhæll. Spyrillinn mundi ekki hvaða skrímsli það var sem Akkiles var að berjast við en það brotnaði á honum ökklinn í átökunum og það varð hans bani ... jahá! Svo bætti þessi mannvitsbrekka því við að Herkúles hefði ekki haft neinn Akkilesarhæl og að hann hefði komið á eftir Akkiles :)

En þetta var ekki búið þó ég hafi verið fegin því að vera komin á áfangastað til að geta stoppað bílinn ég hló svo mikið. Það voru tvær spurningar í viðbót en ég held að þessi Akkilesarumræða hafi verið eitt það fyndnasta sem ég hef heyrt í útvarpi lengi :)

... kannski var þetta bara svefngalsi? en hrikalega fannst mér þetta fyndið og varð að deila því með ykkur :)

Lifið heil og hlæið á hverjum degi ;)