miðvikudagur, desember 21, 2011

Eitt af þessum lögum sem ég get hlustað á aftur og aftur ...... en núna get ég ekki hlustað almennilega á það því ég er í vinnunni og missti annað heyratólið ofaní kaffibollann :/


Lifið heil :)

þriðjudagur, nóvember 08, 2011

svaf ágætlega í gær en núna þegar það er bara tæpur klukkutími eftir af vaktinni þá er ég farin að rembast aðeins við að halda mér vakandi, þrátt fyrir hávaða í vinnunni ...

þetta lag hjálpar pottþétt ;)
fattaði síðustu nótt að ég er búin að vera lasin núna rúmlega þrjár vikur þannig að ég pantaði tíma hjá lækni áður en ég fór að sofa og fékk strax tíma 9:20 hjá stelpu sem getur varla hafa verið nægilega gömul til að vera læknir - ég er hins vegar farin að hljóma eins og gamla fólkið þannig að það er augljóslega ekkert að marka mig? ég sagði henni hvað væri að hrjá mig og hvernig þetta hefði þróast. hún hlustaði mig og heyrði "berkjuhljóð", skoðaði eyrun og þrýsti á eitlanna ... þetta venjulega og sagði svo að það eina í stöðunni væru sýklalyf.

er það í alvöru ennþá það eina í stöðunni? er ekki hægt að gera neitt nema láta fólk fá sýklalyf? hún vissi ekki hvað var að mér almennilega, viðurkenndi að hún vissi ekki hvað orsakaði ýmis einkenni, til dæmis kláða á iljunum og höndunum, en ætlaði samt að skrifa uppá sýklalyf. þegar ég sagði sem er að þegar ég tek sýklalyf verð ég yfirleitt veikari af þeim en af pestinni sem plagar mig sagði hún að þá gæti hún bara látið mig hafa astmapúst þannig að ég yrði fljótari að jafna mig þegar ég er búin að reyna á mig (verð móð eins og lungnasjúklingur með þessa hálsbólgu) og mig myndi þá líka svima minna þegar ég næ illa andanum ... púst?

veit ekki almennilega til hvers ég ætlaðist? kannski að hún myndi taka blóðprufu og sjá hvort þetta væri bara flensa eða eitthvað annað? ef þetta er bara flensa þá fer hún væntanlega þó það taki tíma? en ef þetta er eitthvað annað sem versnar? kannski mega læknar almennt ekkert vera að eyða peningum í blóðprufur? kannski mega þeir bara ávísa sýklalyfjum/pústi og sterakremi (á kláðan sko) en ekki eitthvað flóknara?

en jú, hún sagði mér að vísu líka að láta mér batna, ég er að spá í að fara eftir þeim læknisráðum


en ég er líka að spá í að gera það pústlaust


lifið heil og hraust

föstudagur, ágúst 19, 2011

Þessi væri sko velkominn í afmælið mitt! Þvílíkt stuð og gleði :)Life is supposed to be silly, not so serious!


Horfði á þetta í vinnunni og já, ég dansaði með honum, það er ekki annað hægt ;)

Haldið danspartý og verið glöð!

miðvikudagur, júlí 20, 2011

Rhythm is a dancer

hvernig er hægt að það séu komin mörg ár síðan ég hlustaði á þetta?

áttundi/níundi bekkur ... I'm serious as cancer when I say rhythm is a dancer!skólaböll í menntaskóla ... Think of me and burn, and let me hold your hand (what???)
... og eftir að hafa séð þetta myndband get ég ekki annað en verið fegin að ekkert okkar hafi átt vídeóupptökuvél þegar þetta lag var vinsælt annars væru til óvéfengjanlegar sannanir fyrir því að við dönsuðum þetta útum allt aftur og aftur og aftur og aftur ...


öss ... ekki góð tónlist en vá hvað þetta virtust vera fín lög á sínum tíma ;)

Góðar stundir

mánudagur, júlí 04, 2011

mig hefur verið að dreyma alveg rosalega mikið undanfarið, óvenjulega mikið, enda mikið að gerast þessa dagana.

um daginn dreymdi mig að ég væri með fólkinu sem ég umgekkst mest á menntaskólaárunum og það var heilmikið að gerast, bæði þá og í draumnum. við vorum í turni og alltaf endalaust á leiðinni upp og niður og inn og út og sækja þennan og skutla þessum, baka og elda og borða og drekka ... bara eins og við vorum alltaf að gera nema við vorum ekki í turni þá, aðallega heima hjá þeim sem átti foreldra í útlöndum og síðast í íbúð á Seljaveginum ... þetta var afskaplega fínn draumur en þegar síminn klukkan hringdi sex um morguninn (á laugardegi nota bene, ónáttúrulegt í alla staði) var ég verulega djúpt í draumnum ennþá. ég settist upp og ætlaði frammúr þegar vinur minn sagði að ég gæti ekki farið því við ætluðum að nota símann minn til að hringja í þann sem við vorum að sækja því þá gætum við hringt ókeypis innan kerfis því það átti enginn inneign ... það var ekkert okkar með síma á þessum tíma þannig að inneignarvandamál voru ekki okkar vandamál en í draumnum var það sjálfsagt. ég sagðist verða að fara því ég yrði að mæta sjö en þau mættu auðvitað fá símann minn lánaðan þó ég færi.

þegar ég var hálfnuð að bursta tennurnar fattaði ég að það myndi engum hjálpa þó ég skildi símann minn eftir á miðju rúminu mínu, ekki fyrr.

í gær settist ég upp og röflaði um vatn á gluggunum, lokaði þakglugga, röflaði meira, spjallaði og fór svo að hrjóta ... man ekki eftir neinu af þessu því ég var sofandi og mér var sagt að ég hefði gert þetta ... en auðvitað trúi ég ekki orði því ég hrýt ekki

dásamlegt lag ... flutt af manninum með rödd guðslifið heil

föstudagur, júlí 01, 2011

kannski ætti ég bara að hlusta á útvarpið í ferðinni? ég á mp3 spilara sem nær útvarpssendingum ... kannski er það málið til að virkilega upplifa ferðalagið? samasama sig fólkinu og stöðunum? finna fyrir landinu og þjóðinni?


eða auðvitað ekki?

miðvikudagur, júní 22, 2011

Vaya Con Dios hefur verið í uppáhaldi hjá mér í mööööörg ár ... og þetta lag er alveg frábært, settu það í botn og ég mana þig til að sleppa því að dilla þér!
ég er búin að vera að reyna að muna hvar ég var að passa þegar ég heyrði fyrst í þessari hljómsveit ... minnir að það hafi verið einhvers staðar með Kollu Skafta?? kannski var ég ekki að passa? ekki viss :)

annars er ég alveg að verða óþolandi útaf þessari ferð til Bandaríkjanna í haust ... margbúin að pakka í huganum, spá í hverju ég ætla að fara, hvað ég ætla að taka með mér og núna er ég að spá í hvaða tónlist ég á setja í spilarann, hvað ætli ég muni vilja hlusta á þegar ég krúsa í gegnum Illinois eða Missouri, Kansans, Oklahoma, Texas, Nýju Mexikó, Arizóna og Kalíforníu?

það verður eitthvað með Johnny Cash það er alveg víst, nokkur lög en kannski ekki Get Rhythm þó það sé afskaplega gott lag. þegar ég gekk á Hvannadalshnjúk var ég nefnilega ekki með spilara og fékk þetta lag á heilann þegar við gengum í línunni í einhverja 6 klukkutíma ... og þá kunni ég ekki allt lagið ... fékk aaaaaðeins leið á því :)og ég veit að þetta er Joaquin Phoenix ekki Johnny Cash, Joaquin er bara svo deadsexy og fer svo vel með þetta lag ;)


Góðar stundir

sunnudagur, júní 19, 2011

ég er viss um að ef það er til Rödd Guðs þá hljómar hún eins og röddin í Eddie Vedder og þessi mynd, Into the Wild ... hún er ein af þessum myndum sem ég hugsa reglulega um en hef bara séð hana einu sinni og orðið svolítið síðan. sumar myndir eru þannig.mæli með henni ... held ég ;)


Góðar stundir

fimmtudagur, júní 16, 2011

ó hvað ég hló upphátt :)en afhverju gerir fólk þetta? ég man alltaf eftir símtali í þátt sem var rosalega seint um kvöldið - ég man að það var seint því ég var í herberginu mínu við hliðina á mömmu og pabba og það voru allir farnir að sofa þannig að ég gat ekki hlegið upphátt, sem varð líklega til þess að samtalið var enn fyndnara en það hefði annars verið?

kannski var þetta þátturinn Kvöldsögur ... með Eiríki Jónssyni? en hvað um það.

það hringdi kona inn, auðheyrinlega með sígó í annarri og símann í hinni og glasið væntanlega ekki langt undan, eflaust sterkt blandað miðað við hremmingarnar sem aumingja konan var að lýsa:

þáttastjórnandinn: góða kvöldið

konan: já góða kvöldið *drafandi rödd og aðeins fjarlæg eins og hún er að gera eitthvað annað en að tala í símann* það er eitt sem ég skil ekki

þ: nú?

k: já, ég fór út með köttinn áðan og hann vildi ekki labba

þ: hvað segirðu vildi kötturinn ekki labba?

k: nei, bara harðneitaði og lagðist niður

þ: og var það ekki í lagi?

k: nei auðvitað ekki því ég fór út með hann *langur smókur* ég fór með hann í göngutúr

þ: já einmitt það *heyrist að hann er farinn að brosa*

k: já og ég varð að draga hann

þ: ha? dróstu köttinn? hvernig dróstu hann?

k:*sagt á innsoginu* ég var með hann í bandi *þessu fylgdi langur útblástur*

þ: varstu með hann í bandi? *heyrist að þáttastjórnandinn er að rembast við að kæfa flissa*

k: nú auðvitað! ég ætlaði með köttinn í göngutúr *eilítið hneyksluð á skilningsleysinu sem mætir henni* hvernig ferð þú með köttinn í göngutúr?

þ: ég hef aldrei gert það, fara kettir ekki bara sjálfir í göngutúr? þarf að vera með þá í bandi?

k: alls ekki, það er alveg í lagi að setja þá í band *alvön því greinilega að fara með ketti í göngutúra* en það sem ég skil ekki er að hann vildi ekki ganga

þ: nei, ekki það *farið að ískra svolítið í þáttastjórnandanum*

k: *heyrir í gegnum áfengis/lyfjamókið að það er ekki verið að taka hana alvarlega* nei! og ég varð að draga hann alla leið

þ: alla leið? *stundi gaurinn uppúr sér án þess að hlæja upphátt*

k: já, ég varð að gera það, kötturinn neitaði að standa í lappirnar *farin að vera pirruð á að þurfa að endurtaka sig til að fá lausn sinna vandamála*

þ: einmitt *svolítil þögn á meðan þáttastjórnandinn reynir að ná andanum til að hlæja ekki upphátt* og fórstu langt?

k: nú, fram og til baka!! *augljóslega alveg búin að fá nóg af þessum vanvita þáttastjórnanda sem ætlaði greinilega ekki að hjálpa henni neitt*

þ: *sprakk úr hlátri og ég er viss um að það komu tár*

... ég veit ekki hvernig samtalið endaði því ég hló svo mikið að ég heyrði ekki meira en ég man ennþá eftir þessu og ég hef oft séð þessa konu fyrir mér með köttinn í bandinu að draga hann "fram og til baka" ... og hérna er myndbandið

já og sem betur fer svaf ég yfir mig í dag, ég er á enn einni næturvaktinni ... hefði átt að fagna minna í morgun


Góðar stundir

miðvikudagur, júní 15, 2011

klukkan er að verða þrjú og ég var að vakna, eftir næturvakt að vísu þannig að ég er ekki alger slúbbert. ég svaf samt yfir mig. ætlaði að vera vöknuð um hádegið til að slá garðinn og gera alls konar gagnlegt í dag. ég næ að slá garðinn og fara í afmæli og fara á ítölskunámskeiðið mitt. alls konar gagnlegt verður að bíða morgundagsins en ég get auðvitað farið í BYKO þegar ég er búin að fara með grasið á Sorpu til að undirbúa gagnlegheit morgundagsins er það ekki?

en fyrst verð ég að slá garðinn, er ekki örugglega sumarveður? ekki bara gluggaveður? vona að það er ekki of kalt, ég er í kvartbuxum og neita að skipta, það er kominn 15. júní og kvartbuxur geta ekki verið of bjartsýnar :)


Já og:

Innilega til hamingju með afmælið Gréta mín!


Lifið heil

laugardagur, júní 11, 2011

ég er á næturvaktinni og sjónvarpið er í gangi, eins og stundum áður en eftir enn þá eina endursýninguna á Stop-Loss kom mynd sem ég hef ekki séð áður sem heitir Grey Gardens. mér fannst hún mjög merkileg og núna langar mig til að sjá upprunalegu heimildamyndina um mæðgurnar.það er eitthvað við þær sem er ... finn ekki orðið, það er ekki heillandi eða sorglegt eða beint áhugavert því mér finnst það ekki hljóma rétt. það er samt eitthvað við þær ...


en núna ætla ég heim að sofa, lifið heil

fimmtudagur, júní 09, 2011

Þá er ég komin með netið heima hjá mér, núna fer ég ábyggilega að blogga eins og vitlaus aftur í staðinn fyrir að gera allt hitt sem ég þarf að gera. sýni facebook kannski líka meiri áhuga ... ég byrja líklega að twitta - eða nota ég kannski bara twitter?

núna er ég að fara að gefa blóð, þeim vantar blóð þannig að endilega látið sjá ykkur í dag eða sem fyrst.

og nei, ég er ekki orðin húsmóðir ennþá. ég reyndi að borða AB mjólk áðan sem var best fyrir 25. apríl, ég efa það ekki en hún var ekki beysin með seríósi 9. júní.

Lifið heil og hafið sumarið í hjartanu fyrst það er ekki úti

mánudagur, júní 06, 2011

Er þetta spurning um að fatasmekkurinn minn sé að breytast? Ég er að bíða eftir að vélin með rauða þvottinum klárist svo ég geti hengt fötin upp og sett aðra vél á bið með ljósbrúnum, bláum og grænum fötum. Þvotturinn fer á bið svo hún fari í gang áður en ég kem heim og bíður mín búin, full af hreinum fötum sem ég get hengt upp án þess að bíða eftir að hún klárist. Þetta kallast skipulag.

En kannski er ég bara að verða fullorðin? Morgunmaturinn var afgangur af lummum sem ég bakaði í morgunmat í gærmorgun ... en það gæti líka verið tilviljun og hreint alls ekkert merki um þroska því mér tókst að eyðileggja tvær lummur með því að hita þær þangað til þær voru nánast orðnar að deigi aftur.


Góðar stundir

laugardagur, júní 04, 2011

Ég var að spá hvort ég ætti að kíkja á Friendsþættina? horfa á þá frá upphafi kannski? ég hef ekki séð nema nokkra þeirra en þeir eru frekar fyndnir, var að horfa á þá í sjónvarpinu áðan og hló mikið :)

Þeir byrjuðu 1994, þá voru þessi lög vinsæl - smá blast from the past :)

Lifið heil

föstudagur, júní 03, 2011

Góðan og blessaðan og gleðilegt sumar :)


Ég sló garðinn á miðvikudaginn. Þegar ég mætti á vaktina var grenjandi rigning þannig að ég gerði ekki ráð fyrir að geta slegið en svo birti til og sólin fór að skína. Þegar vaktin var búin var allt orðið þurrt svo ég til að slá hraðamet í garðslætti áður en ég átti að mæta á námskeið um kvöldið - ég er að læra ítölsku, frábær kennari sem kennir líka frönsku þannig að ef ykkur langar á námskeið í öðru hvoru málinu, stutt, þægilegt og skemmtilegt námskeið á mjög fínu verði hafið endilega samband og ég læt ykkur fá tölvupóstfang ;)

Ég náði sumsé að setja hraðamet, fara í Sorpu með afraksturinn, fara í sturtu á merkilega stuttum tíma og garðurinn lítur meira að segja ekki út fyrir að hafa slegið sig sjálfur ... það getur gerst.

Annars bara ... ég er að fá netið heim til mínu aftur á næstu dögum þannig að ég verð hugsanlega, mögulega duglegri að blogga bráðum? Sjáum til ;)

Góðar stundir

þriðjudagur, mars 22, 2011

Miður mars og er ekki aðeins of mikið af snjó? eða of mikið af birtu þannig að við sjáum snjóinn of mikið kannski? ég er að minnsta kosti farin að hlakka til vorsins og sumarsins og alls þess sem stendur til að gera á næstunni :)

ég er í vinnunni, aðalvinnunni en ég var neyðarstarfsmaðurinn frá átta til tvö í annarri vinnu áður en ég kom hingað. Orðin alveg rosalega svöng og í matinn er djúpsteikt grísakjöt í drekasósu með köldu núðlusalati og brauði ... ég sagði samstarfsmanni mínum að drekasósa væri búin til úr drekamjólk, held hann hafi trúað mér augnablik :)

annars rakst ég á þetta blogg um það sem ég póstaði síðast og svo er ég alltaf að hugsa um eitt af uppáhaldsljóðum afa Grandads. Það er eftir W. H. Davies og heitir Leisure:


What is this life if, full of care,
We have no time to stand and stare?—

No time to stand beneath the boughs,
And stare as long as sheep and cows:

No time to see, when woods we pass,
Where squirrels hide their nuts in grass:

No time to see, in broad daylight,
Streams full of stars, like skies at night:

No time to turn at Beauty's glance,
And watch her feet, how they can dance:

No time to wait till her mouth can
Enrich that smile her eyes began?

A poor life this if, full of care,
We have no time to stand and stare.Lifið heil

föstudagur, mars 18, 2011

Stal þessu af bloggi hjá ókunnugum manni, mér fannst þetta mjög merkilegt ...
Vona annars að lífið fari eins vel með ykkur og mig þessa dagana ;)

Góðar stundir

mánudagur, janúar 31, 2011

Nýtt ár og síðasti dagur fyrsta mánaðar þess og ég er er ekkert búin að blogga ... kannski það sé síðbúið áramótaheit að blogga í hverjum mánuði?

Jú, það er gott plan :)

Fór í bústað á Flúðum með Brókunum síðustu helgi, fimm Brækur auk viðhengja og barna, óvissuferð á föstudagskvöldinu, spádómar og innivera í slagviðrinu á laugardeginum, grill og pottur á laugardagskvöldinu og dólað sér heim með viðkomu á gulrótarbóndabæ í gær ... vinna í dag og það var eiginlega hálfsárt að vakna í morgun, nennti því einhvern veginn barasta alls ekki neitt ;)

... en þegar ég er þreytt hugga ég mig við að samkvæmt spádómum helgarinnar stend ég á krossgötum og framtíðin er hrikalega björt sama hvað ég ákveð að taka mér fyrir hendur - og ég hef ákveðið að trúa því ;)


Góðar stundir