fimmtudagur, júní 16, 2011

ó hvað ég hló upphátt :)



en afhverju gerir fólk þetta? ég man alltaf eftir símtali í þátt sem var rosalega seint um kvöldið - ég man að það var seint því ég var í herberginu mínu við hliðina á mömmu og pabba og það voru allir farnir að sofa þannig að ég gat ekki hlegið upphátt, sem varð líklega til þess að samtalið var enn fyndnara en það hefði annars verið?

kannski var þetta þátturinn Kvöldsögur ... með Eiríki Jónssyni? en hvað um það.

það hringdi kona inn, auðheyrinlega með sígó í annarri og símann í hinni og glasið væntanlega ekki langt undan, eflaust sterkt blandað miðað við hremmingarnar sem aumingja konan var að lýsa:

þáttastjórnandinn: góða kvöldið

konan: já góða kvöldið *drafandi rödd og aðeins fjarlæg eins og hún er að gera eitthvað annað en að tala í símann* það er eitt sem ég skil ekki

þ: nú?

k: já, ég fór út með köttinn áðan og hann vildi ekki labba

þ: hvað segirðu vildi kötturinn ekki labba?

k: nei, bara harðneitaði og lagðist niður

þ: og var það ekki í lagi?

k: nei auðvitað ekki því ég fór út með hann *langur smókur* ég fór með hann í göngutúr

þ: já einmitt það *heyrist að hann er farinn að brosa*

k: já og ég varð að draga hann

þ: ha? dróstu köttinn? hvernig dróstu hann?

k:*sagt á innsoginu* ég var með hann í bandi *þessu fylgdi langur útblástur*

þ: varstu með hann í bandi? *heyrist að þáttastjórnandinn er að rembast við að kæfa flissa*

k: nú auðvitað! ég ætlaði með köttinn í göngutúr *eilítið hneyksluð á skilningsleysinu sem mætir henni* hvernig ferð þú með köttinn í göngutúr?

þ: ég hef aldrei gert það, fara kettir ekki bara sjálfir í göngutúr? þarf að vera með þá í bandi?

k: alls ekki, það er alveg í lagi að setja þá í band *alvön því greinilega að fara með ketti í göngutúra* en það sem ég skil ekki er að hann vildi ekki ganga

þ: nei, ekki það *farið að ískra svolítið í þáttastjórnandanum*

k: *heyrir í gegnum áfengis/lyfjamókið að það er ekki verið að taka hana alvarlega* nei! og ég varð að draga hann alla leið

þ: alla leið? *stundi gaurinn uppúr sér án þess að hlæja upphátt*

k: já, ég varð að gera það, kötturinn neitaði að standa í lappirnar *farin að vera pirruð á að þurfa að endurtaka sig til að fá lausn sinna vandamála*

þ: einmitt *svolítil þögn á meðan þáttastjórnandinn reynir að ná andanum til að hlæja ekki upphátt* og fórstu langt?

k: nú, fram og til baka!! *augljóslega alveg búin að fá nóg af þessum vanvita þáttastjórnanda sem ætlaði greinilega ekki að hjálpa henni neitt*

þ: *sprakk úr hlátri og ég er viss um að það komu tár*

... ég veit ekki hvernig samtalið endaði því ég hló svo mikið að ég heyrði ekki meira en ég man ennþá eftir þessu og ég hef oft séð þessa konu fyrir mér með köttinn í bandinu að draga hann "fram og til baka" ... og hérna er myndbandið

já og sem betur fer svaf ég yfir mig í dag, ég er á enn einni næturvaktinni ... hefði átt að fagna minna í morgun


Góðar stundir

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ó vá, kjánahrollurinn sem ég fæ þegar ég hlusta á útvarp Sögu er með ólíkindum, bæði þáttastjórnendur og viðmælendur(sem er alltaf sama fólkið) er algerlega út úr kú...

Nafnlaus sagði...

og já, bloggið mitt er ekkert gamalt eða dautt eins og þú vilt halda fram :P

Deeza sagði...

Aaahahahahhaha! Þessi kisi er ógeðslega fyndinn :)