laugardagur, september 12, 2009

Sá Jethro Tull í gær :)

Ójá :)

Fór heim og hlustaði á meira Jethro Tull eins og fólk gerir. Ég keypti bolinn á tónleikunum. Ég geri það alltaf, ég er í þessum 10% sem þeir prenta boli fyrir. Svarta, stærð L. En ég fór ekki í hann til að hlusta á Jethro Tull þegar ég kom heim. Þurfti þess ekki til að muna eftir tónleikunum enda nýkomin heim.

Ég leitaði líka að myndbrotum á youtube með gítarleikaranum Florian Ophale, ég er barasta hálfskotin í honum eftir gærkvöldið. Ótrúlega flottur gítarleikari, eins og Sleipnir en bara með átta fingur, rosalega hraðskreiðir puttar. Nokkuð viss um að Florian hafi samt bara verið með fimm putta, bara búinn að æfa sig mikið.

Annars hef ég komist að því að ég er hálfgerð grúppía svona inní mér. Alveg merkilegt hvað ég kætist öll og gleðst þegar ég sé einstakling sem mér finnst flottur, skemmtilegur, frumlegur, fallegur, gáfaður, hæfileikaríkur ... bæði karlmenn og konur, einstaklingur er bara karlkynsorð.

Sá einmitt David Sedaris á miðvikudaginn síðasta og það gladdi mig afskaplega mikið. Bara að sjá hann. Og meira þegar hann byrjaði að lesa ritgerðina sína. En eins og ég hef komið inná áður hérna á blogginu þá myndi ég ekki fyrir mitt litla vilja hitta eitthvað af þessu fólki í eigin persónu. Ég myndi roðna, stama eitthvað óskiljanlegt eða segja eitthvað afskaplega kjánalegt hátt og skýrt þannig að ég gæti ekki einu sinni logið mig útúr því, kannski slefa smá eða skyrpa, tala of lengi eða tala of lítið, afsaka mig eins og bjáni og flýja af hólmi ... ójá, ég vil alls ekki hitta fólk eins og aðrar grúppíur. Auk þess er ég ekki í hóp, það er bara ég sem kætist, inní mér, ekki útum allt og upphátt, yfirleitt, þannig að það er kannski eitthvað annað orð yfir fólk eins og mig? Aðdáandi sem vill alls ekki hitta hið dáða ...

Ég hitti einu sinni Horst Tapper, manninn sem lék Derrick, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, við anddyrið á gömlu fríhafnarbúðinni sem var sirka þar sem gleraugnabúðin er núna, ranamegin við innganginn ekki rúllustigamegin. Þá var flugstöðin teppalögð og ekki eins björt í minningunni og hún er núna en ég man afskaplega skýrt hvað Horst var ljós, í ljósum fötum með ljósa húð og ljóst hár og með rosalega útstæð augu. Ekki bara smá útstæð heldur eins glær fiskaaugu ... hafði aldrei séð svoleiðis þá og ekki viss um að ég hafi séð svoleiðis síðan?

Systir mín var að læra þýsku á þessum tíma og var búin að kenna mér að segja "ég heiti" og að ég væri ellefu ára gömul og ætti tvær systur og einn bróður. Lillabó var svo ýtt fram sem sönnun fyrir tilvist bróðursins og fékk að taka í höndina á Derrik líka. Systurnar voru ekki með okkur en ég held að Derrick hafi séð að ég var ekki að ljúga. Hann sagði eitthvað við mig á þýsku en ég var búin að segja allt sem ég kunni, tvisvar, þannig að þegar hann var búinn að klappa mér á kollinn og hlæja góðlátlega fór ég aftur til mömmu.

Kannski þolir fólk betur að gera sig að fífli þegar þau eru krakkar? eða hugsar ekki um það?Blessuð sé minning hans, þið hin: lifið heil