Síðasta miðvikudag flaug ég til Kaupmannahafnar til að sitja COPM námskeið með fimm vinnufélögum mínum. Ég var í Kaupmannahöfn sumarið 2010 með fólkinu mínu. Við vorum sjö saman, þrjú fullorðin og fjögur börn og áður en við fórum við Köben höfðum við verið viku á Jótlandi þar sem við fórum í Legoland og Lalandia. Í Kaupmannahöfn fórum við í Tívolí og í dýragarðinn og Rundeturn og spiluðum og skemmtum okkur í alla staði mjög vel.
Ég fór með mömmu og pabba og bróður mínum í sambærilega ferð þegar ég var á svipuðum aldri og krakkarnir voru þá og man hana ennþá. Ég var líka í Köben þegar ég var unglingur á leið í lýðháskóla á Jótlandi. Þá var ég með kort sem vinur hans pabba var búinn að merkja inn alla borgarhlutana sem ég átti ekki að skoða. Stórir hringir með krossum yfir Ystegade, Christaniu og Nørrebro svo forvitni unglingurinn færi sér ekki að voða á röltinu. Ég naut borgarinnar þá en í síðustu viku var fyrsta skipti sem ég skoðaði mig um sem fullorðin einstaklingur án þess að hafa fyrirmæli um hvað mætti og mætti ekki. Nýju vinnufélagar mínir eru sérlega skemmtilegt og almennilegt fólk sem er gaman að ferðast með. Þær þekkja alla borgina, tala dönsku þó að ég hafi sjálf farið að segja nokkrar setningar á föstudagskvöldinu (eftir tvo heila daga á námskeiði sem fram fór á dönsku!) var mjög gott að vera með heimamönnum.
Ég fór að hugsa um það þegar ég var á röltinu, t.d að skoða Litlu hafmeyjuna - sem er sannarlega lítil, ég held ég hafi séð fyrir mér Frelsistyttuna á grjóti? - um hvað það er nákvæmlega sem breytist þegar við verðum fullorðin? Núna skoðaði ég að vísu Nørrebro, enda hverfið gerbreytt, en spennan yfir að skoða borgina var sú sama og þegar ég var unglingur. Ég fann tilfinningar sem ég tengdi við að skoða aðrar borgir eftir að ég eltist. Þegar ég labbaði um og reyndi að týna mér í París, London og New York. Ég hlustaði meira að segja á nokkrar plötur sem ég hef ekki hlustað á lengi. Að vísu núna í þráðlausum heyrnartólum og á Spotify ekki af kassettu í vasadiskóinu en hugrenningarnar voru þær sömu.
Hvenær vitum við hvenær við verðum fullorðin í alvörunni? Eru það árin? Gráu hárin? Ég er orðin 42 ára en segist stundum enn ætla að gera alls konar þegar ég verð orðin stór. Ég tek ennþá ákvarðanir sem eru misvel ígrundaðar og er ennþá að kynnast sjálfri mér. Þegar ég var tvítug hélt ég að eftir fertugt myndi ég ekki þyrsta eins í að ferðast og kanna og upplifa - ef ég hugsaði það eitthvað yfir höfuð. Þegar ég var tvítug hélt ég líka kannski að eftir fertugt myndi ég vera með’idda, vita hvað ég væri að gera og hvert ég stefndi en sannleikurinn er sá að ég er enn að þykjast. Ég keyri ennþá stundum of hratt, borða popp í kvöldmat, fyllist enn eirðarleysi og dreymi um hluti sem eru ekki viðeigandi þrátt fyrir að allt sé fertugum fært.
Mig langar aftur til Kaupmannahafnar einhvern daginn og finnast ég vera 15 árum yngri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli