Þegar ég fór í vinnuna í morgun ... fyrir næstum því sólarhring síðan ... bjuggu fimm einstaklingar í húsinu mínu að staðaldri, þrír kvenkyns og tveir karlkyns. Aðra hvora helgi, sýnist mér, fjölgar okkur um næstum því helming því tveir krakkar, strákur og stelpa, mæta í kjallarann og kríta broskalla og parísa á hellurnar í garðinum. Núna nýkomin heim úr vinnunni heyrist mér á öllu að við séum orðnir sex íbúar í húsinu en hvort kynjahlutfallið sé ennþá okkur konunum í hag eða hvort karlarnir hafa náð okkur í fjölda veit ég ekki, það er ekki hægt að greina kyn nýfæddra barna á rödd þeirra:)
Á að gefa nágrönnum sínum sængurgjöf? væri það ekki viðeigandi? ég vona að það verði ekkert loftborað á morgun, börn þurfa ekki að vera fædd inní Vísindakirkjufjölskyldur til að verðskulda rólegheit fyrsta sólarhringinn sinn í heiminum ...
Þetta var merkileg vakt í kvöld ... vaskurinn stíflaðist, það varð að skipta um alla kútana þó við hefðum ekki selt sérstaklega mikinn bjór, ég sullaði öllum tegundum sulls á mig því ég mætti þreytt og varð þreyttari, ég braut glös, missti öskubakka, hitti ekki í ruslið, sprautaði rúðuúða framan í mig, brenndi mig á a) grillinu b) kaffivélinni c) sjóðandi heitu vatni, ég henti út tveim stykkjum af rónum, bað frænda tveggja krakka sem voru að klára samræmduprófinn í dag vinsamlegast um að yfirgefa svæðið ásamt krökkunum þegar klukkan var að verða miðnætti og krakkarnir höfðu hjálpað honum nægilega mikið með bjórinn hans (og ekki snert á kakóinu sínu) til að tilkynna mér hverju þau væru að fagna (samræmduprófalokum) og að ég væri besta vinkona þeirra "í öllum heiminum", ég rakst aftur á hel***** járnið í veggnum og fékk gat og mar á framhandlegginn (gerist að vísu fáránlega reglulega), klemmdi mig aftur á hel***** járninu þegar ég var að læsa húsinu (yfirleitt klemmi ég mig EÐA fæ marblett, ekki bæði), læsti mig úti og lyklana inni - eftir lokun, reif ruslapoka á leiðinni í ruslagáminn og var búin að hjóla heim þegar ég fattaði að ég hefði gleymt hjólahjálminum á tröppum kaffihúsins og varð að hjóla hjálmlaus aftur til baka til að ná í hann ... það var samt alveg í lagi því leiðin á kaffihúsið er öll niður á móti, leiðin heim hins vegar virtist þrisvar sinnum lengri en venjulega og var öll upp í móti ... hefði átt að skilja hjálminn eftir þarna því þá myndi ég hafa fullkomlega gilda afsökun fyrir því að kaupa mér nýjan:) þessi sem ég á er svona "alvöru" hjálmur, merktur TREK en hann er fáránlega óþægilegur og mér líður eins og skjaldböku með hann á höfðinu ... hann er straumlínulagaður til að ná meiri hraða en AFHVERJU er hann gerður straumlínulaga? ég held ég hafi aldrei farið nægilega hratt til að réttlæta lögunina samt hjóla ég á útopnu niður eina bröttustu brekku Reykjavíkur á hverjum morgni:) hjálmurinn á að passa og allar ólar eru rétt stilltar en ég hef komist að þeirri niðurstöðu að höfuðið sjálft sé ekki nægilega straumlínulagað frá náttúrunnar hendi til að þola lögun hjálmsins, ég er með ferkantaðan haus sem á að vera kyrr eða á rólegu rölti, þannig er ég hönnuð og þannig voru forfeður mínir hannaðir - hef ég minnst á það að forfeður mínir fyrir austan voru sumir hverjir með svo ferkantaðan haus að hestar báru þá ekki?
Góðar stundir
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli