Búin að vera að endurraða aðeins hérna á blogginu mínu, mér þykir of vænt um það til að leyfa því að grotna niður og verða "ónýtt" - kominn tími á viðhald sumsé ;)
Held líka að ég taki bloggið framyfir Facebook því þeir sem koma hingað og lesa hafa væntanlega áhuga á að koma hingað og lesa, þá er ég ekki að ausa persónulegum upplýsingum um mig yfir sakleysingja sem hafa kannski barasta engan áhuga á að vita hvað ég er að gera dagsdaglega ... EÐA hafa mikinn áhuga á því sem ég er að gera dagsdaglega??! Spurning :)
Er á annarri næturvaktinni, hálfu rólegri en síðasta nótt, sem er gott því ég meiddi mig í hnéinu í dag og er alveg draghölt. Finnst ég vera svolítið eins og Daniel Larusso í lokabardaganum þegar hann getur ekki stigið í fótinn þannig að hann gerir það eina í stöðunni, fer í trönustöðuna og vinnur bardagann!
En ekki hvað?! ... ég er að vísu að drepast í hægri fætinum en talandi um trönusparkið þá rakst ég á þessa færslu um hvort sparkið myndi virka í alvörunni eða ekki. Svona fyrir þau ykkar sem hafið áhuga. Ég ætla ekki að nota það í nótt. Sparkið sem sagt.
Annars dreymdi mig alveg rosalega furðulega í dag þegar ég náði loksins að sofna. Ég var í lest eða rosalega löngu húsi að leita að einhverju með manni sem ég þekki ekki en ég var greinilega afskaplega skotin í honum, í draumnum ... veit samt ekki alveg hvað heillaði því ég skildi hann ekki, ekki eitt einasta orð. Hann talaði ungversku eða tyrknesku eða eitthvað og var svona 15 árum yngri en ég og svona lítill og mjór og brothættur. En við vorum sumsé að leita að einhverju og þessi kærasti minn í draumnum átti að vera að hjálpa mér en hann hafði þann leiða ávana að stífla öll klósettin sem við komumst í tæri við þannig að ég varð alltaf að losa stífluna áður en við gátum haldið áfram. Þetta var samt ekkert ógeðslegur draumur því klósettin voru öll afskaplega hrein og fín og það var bara hreinn klósettpappír sem stíflaði þau, ekkert subb nema vatnið sem sullaðist um allt.
Þegar ég vakanði var draumurinn enn að væflast fyrir mér, var svo raunverulegur að ég var ekki viss hvort ég hefði kannski verið að leita að einhverju með manni sem ég skildi ekki þannig að ég gerði það sem ég geri yfirleitt þegar ég man draumana svona vel, ég kíkti á draumasíðuna en það er ekkert skráð undir að leita eða lest eða Ungverji EN það er til lukku að tala við útlending (stendur ekkert að hann þurfi að skilja þig eða þú hann) og ef við vorum í útlöndum (sem mér fannst eiginlega því allt umhverfið svo skringilegt, samanber að mér fannst ég vera í lest), þá verð ég að fara að taka ákvarðanir því ég er í ójafnvægi ... veit samt ekki hvort það gildir þar sem ég var bara í útlöndum en ekki í ferð? En svo að lokum er færsla um salerni:
Að dreyma salerni er fyrir andlegri hreinsun. Salernir [sic] sem flæðir upp úr er merki um að eitthvað sé að angra þig og að þú þurfir að líta í eigin barm og skoða hvað veldur. Sértu að þrífa salerni er merki um að þú þurfir að passa upp á skapið á næstunni.
og þetta getur barasta alveg passað, er þetta ekki nákvæmlega það sem ég var að blogga um síðustu nótt? ég er sumsé ekki berdreymin heldur dreymir mig það sem ég veit nú þegar bara í dularbúningi!
Áhugavert ;)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli