þriðjudagur, júní 04, 2024

Vinahópar

Ég hitti gamla vini í gær. Þau eru auðvitað alls ekki gömul, það er bara langt síðan við vorum að hittast reglulega. Daglega er líklega betra orð því í minningunni vorum við alltaf saman.

Vinahópurinn hittist í jarðarför. Ég hef nokkrum sinnum sagt við fólk, og meint það innilega, að ég hefði viljað hitta það við aðrar aðstæður. Jarðarfarir eru einmitt samkomur sem er erfitt að fagna því að vinahópurinn sé samankominn á ný öllum þessum árum seinna.

Ég veit hvers vegna fullorðið fólk hittir vini sína ekki eins oft og unglingar. Við erum að vinna og sinna heimilum og fjölskyldum. Við höfum tekið að okkur alls konar ábyrgðir í vinnu og félagsstörfum sem tæma batteríin þannig að okkur dettur kannski síður í hug að hringja í vin á virku kvöldi og stinga uppá ísbíltúr eða fjöruferð. Við veljum farveginn sem líf okkar flæðir eftir, meðvitað eða ómeðvitað, og þegar við höfum gert það sem við erum að gera nægilega lengi hafa bankarnir slípast til. Straumurinn hefur grafið sig niður og við flæðum sjaldan, jafnvel aldrei, yfir bakkana og búum til litlar sprænur sem við getum leyft okkur að fljóta eftir með gömlum vin eða vinkonu. Ekki nema við skipuleggjum það með fyirvara og höggvum skarð í bakkann til að hleypa okkur úr straumnum eina og eina kvöldstund. 

Stundum er skarðið hoggið fyrir okkur og við sameinumst gömlum vinum eitt síðdegi og syrgjum eitt okkar sem við munum aldrei hitta aftur.

Mig langar til að flæða yfir bakka mína oftar. Helst af öllu vil ég ráða því sjálf, hitta skemmtilegt fólk við gleðilegar aðstæður og upplifa samverustundir sem koma í veg fyrir að ég fari öll aftur í sama farveginn.


Njótið dagsins og farið í bíltúr

Engin ummæli: