Ég talaði ekki oft við hann eftir að ég varð fullorðin, leiðir okkar lágu sjaldan saman, en þegar ég var barn og unglingur man ég eftir mörgum samtölum um alls konar. Hann var eiginmaður vinkonu mömmu og ég þekki tvo yngri syni hans, af fimm systkinum, ágætlega.
Hann sagði mér frá traktorum og skrítnum dýrum í útlöndum. Hann vissi alls konar um mótorhjól, kunni að fljúga flugvélum og hafði séð öll lönd heimsins ofan frá, sem mér fannst stórmerkilegt.
Ég veit ekki hvers vegna hann hafði þolinmæði fyrir mér en hann var óeigingjarn á tíma sinn og hluti. Hann átti öll möguleg verkfæri og tæki. Hann gerði einu sinni gat í leðurbelti fyrir mig með al (sem ég hafði aldrei áður heyrt um) og lánaði mér vírklippur þegar mig vantaði svoleiðis í einhverju dúfnakofaævintýri.
Honum fannst heldur ekki mikið mál að lána mér hjól. Lítið blátt og rautt hjálpar dekkja laust hjól á þykkum hvítum dekkjum sem synir hans áttu en hann leyfði mér líka að nota það.
Ég man ennþá tilfinninguna þegar ég lyfti fótunum af malbikinu, hélt jafnvægi og byrjaði að stíga pedalana.
Algert og fullkomið frelsi.
Ég held ég hafi aldrei þakkað honum fyrir að kenna mér að hjóla og víkka sjóndeildarhring minn.
Hvíl í friði L.S.S.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli