mánudagur, júní 17, 2024

Þjóðhátíð og egg

Þjóðhátíðardagurinn minn var bæði venjulegur og óvenjulegur en hvorki þjóð- né hátíðlegur.

Ég umpottaði blóm og bætti klifrugrindum í pottinn því plantan er klifurplanta og alltaf að leita sér að stöngulfestu (þar sem hún er hvorki með hendur né fætur leitar hún ekki með þeim).

Svo borðuðum við brauðbollur og skúffuköku sem við keyptum til að styrkja dóttur vinkonu minnar. Þær mæðgur eru að fara í keppnisferðalag til Danmerkur í ágúst þar sem sú yngri mun keppa í klifri. Treysti á að hún finni bæði hand- og fótfestu því hún er ekki planta.

Við færðum húsgögn aftur því við börum ekki alveg sátt við feng súíið. Þetta er betra núna.

Svefnsófinn er enn stór og leitar sér mögulega að tímabundnu fóstri.

Við pöntuðum gistingu fyrir væntanleg ferðalög á meðan við borðuðum páskaegg sem gleymdist.

Og þegar við komum heim um kvöldmatarleytið var búið að grýta húsið með eggjum. Núna vildi ég að ég vissi hvort þetta hafi verið prakkarastik, umhverfisvænn þjóðhátíðarflugeldur eða á ég óvin sem tímir samt lífrænum brúneggjum á mig? Lífræn egg eru afskaplega úthverfa- og efri millistéttarlegt vopn þannig að ég velti fyrir mér hvort ég hafi mætti í veislu í eins kjól og önnur? Eða tekið óvart uppáhaldsskáp í sundi? Eða ræktinni? Borðað síðustu snittuna? Eða ekki verið nægilega dugleg við að skera fíflana úr garðinum? Ég var reyndar að lesa að það eigi að láta þá í friði því býflugur leita í þá og þeir lækna jarðveginn og skila af sér mikilvægum efnum í moldina. Kannski missti ég þráðinn í samtali og fór að tala um eitthvað ótengt umræðuefninu og móðgaði manneskju sem mundi eftir mér þegar hún gekk framhjá húsinu mínu með lífrænu eggin sín í fjölnotapokanum sem var keyptur til að styrkja viðskiptalán til kvenna í landi þar sem konum bjóðast fá eða engin tækifæri?

Eða hanfahófskennt prakkarastik algerlega ótengt mér og minni framkomu?

Gleðilega hátíð.
Splatt!

Engin ummæli: