miðvikudagur, júní 26, 2024

Alíslenskir froskar

Það eru víst froskar í Garðabæ, ekki bara prinsar.

Einu sinni átti ég frosk. Það var alveg óvart. Ég samþykkti að passa Magnús fyrir vinkonu mína sem var með hann heima hjá sér í lítilli stúdíóíbúð ásamt tveimur köttum. Kettirnir voru afskaplega hrifnir af froskinum en það var ekki gagnkvæmt þannig að Magnús flutti til mín. 
Það átti að vera tímabundið en hvorki vinkona mín né fyrri eigandi sóttu hann. Magnús var hjá mér lengi en ég bjó líka með ketti þannig að hann endaði heima hjá mömmu og pabba. 
Magnús var ágætt gæludýr en ekki beint skemmtilegur. Það kom löngu seinna í ljós að eigandinn hét víst Magnús ekki froskurinn og ég hef ekki hugmynd um hvað hann kallaði Magnús áður en hann sendi hann í ævilanga pössun til ókunnugra.

Ég vissi bara tvennt um Magnús þegar ég tók hann að mér. Ekki þrennt því ég klikkaði alveg á að spyrja hvað hann var kallaður.
Í fyrsta lagi að hann borðaði lifandi fæðu, orma og maðka til dæmis eða rækjur í bandi sem var hægt að sveifla til eins og þær væru lifandi.
Í öðru lagi að einu sinni hafi verið keyptur annar froskur svo Magnús yrði ekki einmana. Hann var einn í búrinu þegar ég fékk hann og fékk að vera einn áfram því Magnús át þennan félaga sinn. 

Hann óttaðist greinilega ekki að vera einmana.
Pabbi fyrirgaf Magnúsi aldrei að vera mannætufroskur og skipti sér aldrei af honum.

Eitt að lokum.
Ég reyndi aldrei að kyssa Magnús. 

Góðar stundir.

Engin ummæli: