sunnudagur, júní 02, 2024

Lýðræði

Þá er kominn nýr forseti sem ég er viss um að muni standa sig vel. Þau hefðu öll staðið sig með prýði og vissulega hefði forsetaembættið farið uppá annað level í glæsileika ef Ásdís Rán hefði unnið.
Viktor hefði kannski eignast stærri frysti. Kannski góð hugmynd, kannski ekki.




Undanfarnar vikur hef ég oft heyrt að fólki finnist fáránlegt hvað mörgum hafi dottið í hug að bjóða sig fram. Mér finnst það hins vegar frábært.
Það er ekki aðeins aðdáunarvert að fólk hafi hugrekki til að heyja kosningabaráttu í heimi þar sem öllum finnst þeir hafa rétt á að segja hvað sem er - virk í athugasemdum hafa fengið að pikka sig södd undanfarið. Heldur líka hvað lýðræðið er nálægt okkur og öll geta boðið sig fram sem finnst að rödd þeirra eigi að heyrast.

Ég er ekki ósátt við Höllu Tómasdóttur sem forseta, hún er vel máli farin, kemur vel fyrir og er frambærilegur fulltrúi þjóðarinnar en. Það er eitt smá en.
Í lýðræði höfum við öll rödd en er strategískt atkvæði lýðræðislegt? Er lýðræðislegt að kjósa þann sem kannanir sýna að kemur næst þeim frambjóðanda sem þú vilt ekki að verðu forseti? Og hverjir voru spurðir í þessum könnunum? Ég þekki engan sem fékk símtal eða tölvupóst með spurningum um hvern þau hyggðust kjósa. Ég hef verið að gera könnun á því nefnilega, óvísindalega auðvitað og með hreinu slembiúrtaki úr þeim hóp sem ég hitti daglega.

Ég veit það ekki, ég veit ekkert um pólitík, en sýna niðurstöðurnar raunverulegan hug þjóðarinnar?

Þetta eru of margir pólitískar færslur. Dag eftir dag. Þeim verður að linna og ég er því samþykk.

Góðar stundir

Engin ummæli: