Ég hef verið að læra grísku því það er mikilvægt að geta sagt að kóngulær drekki mjólk og að ég sé í mínum eigin nærfötum. Ég hef ekkert notað grísku síðan ég kom til Korfú en í kvöld lærði ég orðið Φλοίσβος (borið fram: fleezvos) sem þýðir öldugjálfur. Ég lærði það ekki á Duolingo samt.
Núna er ég að velta fyrir mér hvenær ég skipti yfir í pólsku því næst stefni ég á ráðstefnu í Pólland í október. Skipti ég daginn eftir að ég kem heim? Strax í kvöld? Daginn sem ég fer heim?
Þar sem ég skrifa þetta man ég að ég er að fara í eina ferð fyrir október. Í september fer ég til Sviss í mótorhjólaferð … ætti ég að læra þýsku þangað til? Hvað ef við tökum stefnuna á Ítalíu? Eða Frakkland?
Það er erfitt að hafa svona mikið val og of lítinn tíma til að læra.
Lifið heil
Engin ummæli:
Skrifa ummæli