sunnudagur, maí 19, 2024

Deyfðarskrun

Ástæðan fyrir því að mig langar til að viðhalda þessu bloggi er meðal annars vegna þess að ég er með óþol fyrir samfélagsmiðlunum. Á sama tíma legg ég mig fram um að vera virk á þeim því ég er alltaf að gefa út bækur. “Alltaf” hljómar feikilega fullorðinslega en ég er líka alltaf hluti af hóp og hef átt fjórar sögur í fjórum bókum á einu og hálfu ári. 
Við höfum líka alltaf verið mörg um að auglýsa bækurnar en einn daginn mun ég standa ein að útgáfu, mögulega með útgáfufyrirtæki sem bakhjarl en sjálfsútgáfa er alltaf möguleg. Tölfræðin er nefnilega ekki hliðholl nýjum rithöfundum og aðeins um 1% innsendra handrita (óumbeðinna handrita) er LESIÐ. Ekki rætt um samning eða ritsjórn eða útgáfu. Langflest handrit sem eru send til forlaga eru sjálfkrafa flokkuð óopnuð í pósthólf merkt “óþekktur sendandi” eða “með óumbeðnu wordskjali” eða “handrit eftir óþekkt wannabe sem telur sig hafa ferska rödd og hefur heyrt of oft að það sé ekkert ómögulegt og telur sig hafa eitthvað uppá dekk að gera” … mögulega er pósthólfið einfaldlega merkt “rusl”.

En, ef þú kemur þér á framfæri gætu líkurnar aukist. Ef þú ert með sögur í safnritum, lest upp í útgáfuhófum, tranar þér fram á samfélagsmiðlum, sendir handrit í samkeppnir og heldur alltaf áfram að skrifa verður mögulega tekið eftir þér. Þá hafa forlögin kannski samband við þig.

Vá, hvað þessi síðasta setning er tvíræð.

En já. Ég þoli ekki glansmyndina og deyfðarskrunið sem stimplast inn í undirmeðvitundina og hefur áhrif á okkur eins og allur annar áróður. 
Samt geri ég nákvæmlega það sama hér á þessu bloggi og mér býður við að gera þar. 

Ég skrifa ekki um það sem heldur fyrir mér vöku. 
Ég skrifa ekki um kvíða eða vanlíðan eða það sem ég skammast mín fyrir. 
Ég skrifa ekki um tilfinningakrísurnar sem framkalla niðurgang. Ég er nefnilega ein af þeim sem finn fyrir tilfinningum í maganum og hef alltaf öfundað fólk sem nagar bara neglurnar undir álagi. Það hlýtur að vera betra að stinga höndunum í vasana en að vera föst á dollunni heilu og hálfu sólarhringana. 

Líf annarra virðist alltaf vera betra en mitt þegar ég skoða samfélagsmiðla. 
Ég geri sjálf í því að láta líta út fyrir að mitt líf sé bara þrælfínt þakka þér kærlega fyrir á mínum miðlum - klikkaði að vísu aðeins á að auglýsa ferðina til Korfú.
En ég fór í alvöru. 
Þó að ég hafi ekki sett inn neinar myndir. En ég setti mynd á þessa síðu sem undirstrikar það sem ég er að segja. Ég skrifa bara um hið góða.

Líf okkar allra er auðvitað alls konar. Það kemur ekki öllum allt við og líklega væri afskaplega leiðinlegt að fylgjast með gráum hversdagsleika allra í kringum okkur. Fá að vita í smáatriðum um eðlismassa, tíðni áferð hægða, meðtaka upplýsingar um líkþorn, exem, flösu og styðja náungann í baráttunni við andremmu, svitalykt og táfýlu. 
Auðvitað kúkum við öll rósailm og vöknum með eplakinnar. 
Sérstaklega áhrifavaldar.

En kannski ætti ég að vera hugrakkari hér?
Kannski ætti ég að birta skáldaðan texta? 
Óritskoðuð, ógagnrýnd verk í vinnslu?

Eða halda mig við gulan mat og hversdagsheimspeki?


Hvíl í friði elsku M.M.

Engin ummæli: