Þar sem ég er í ritlist sótti ég um að fá að skrifa skáldaðan texta í staðinn fyrir heimildaritgerð. Ég óttaðist að heimildaritgerð í heimspeki yrði mér ofviða. Þessi saga var mögulega erfiðari. Við vorum að lesa verk eftir alls konar heimspekinga (námskeiðið hét Sálgreiningu, heimspeki og menning) og ég ákvað að snúa útúr. Já. Stærstu hugsuðir aldarinnar og ég var með stæla. Ég bjó til nýjan heim með sömu kenningunum og lita samfélagið okkar en ég breytti þeim. Í staðinn fyrir að manneskjan sé til dæmis metin út frá kyni, kynþætti, aldri og þess háttar var virði manneskjunnar reiknað út frá framlegð til samfélagsins. Til að ganga lengra með kynleysið þérast allir og eru óskaplega formlegir … mér fannst það skemmtileg hugmynd. Þangað til ég fór að skrifa … ég lærði aldrei að þéra, varð að læra það. Það er líka rosalega erfitt að skrifa án þess að nota hún og hann. Erfiðara en ég hélt.
Það sem var enn erfiðara var að skrifa um heim án þess að útskýra hann. Leyfa öllu að flæða fram án þess að infodömpa allri baksögunni. Það er allt eins og það er en ég útskýri ekki neitt. Í lokaútgáfunni er samt ein manneskja sem er gersamlega óþolandi því hún segir alltaf hið augljósa. Hefði viljað sleppa henni, gera hana í það minnsta skemmtilegri eða viðkunnanlegri en þá hefði ekki verið nein leið til að koma öllu fyrir í 4000 orðum.
Sagan er nákvæmlega 4000 orð.
Og ég er búin að skila.
Nú á ég skilið góðar stundir.
Með þökkum fyrir lestur og söng.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli