fimmtudagur, maí 02, 2024

Illa þetta og hitt

Ég vakna snemma á morgnanna og fer út að labba með Blíðu. Á virkum dögum kem ég oft við í Orkunni á Dalvegi og fæ mér kaffi á leiðinni á heiðina og spjalla stundum við starfsmennina sem eru á næturvakt. Þegar Iceland Engihjalla var opið á næturnar kom ég iðuleg við þar og kynntist starfsmönnunum. Það myndast sérstakt samband milli fólks sem er vakandi á nóttunni og núna kemur fyrir að ég hitti þau annars staðar sem er líka skemmtilegt. Gaman að labba inn í Nettó í Mjóddinni og fá knús frá portúgalskri stelpu sem ég veit ekki hvað heitir. Ég var greinilega mikið í Iceland á nóttunni.
Í morgun fór ég á Dalveginn. Þegar ég labba inn stendur maður mín megin við afgreiðsluborðið og er að segja frá upplifun sinni af einhverju bílabraski. Strákurinn sem er á vaktinni þessa vikuna sat við bílalúguna og haka hans hvíldi á hnefa vinstri handar. Hann var næstum með lokuð augun og leit ekki út fyrir að vera að hlusta á einræðu mannsins. Strákurinn er yfirleitt afskaplega indæll og nennir alltaf að spjalla við alla. Ég hugsaði með mér að sögumaðurinn hlyti að hafa verið lengi við afgreiðsluborðið fyrst starfsmaðurinn var alveg hættur að sýna viðbrögð. 

Ég gekk að afgreiðslukassanum, strákurinn stóð upp, afgreiddi mig orðalaust og settist aftur við bíllúgugluggann. Það er eina sætið sem er í boði í búðinni. Ég var með heyrnartólin mín að hlusta á sögu þegar ég gekk inn en þegar ég kem að kaffivélinni var ég orðin forvitin að heyra um hvað hinn viðskiptavinurinn var að tala. Ég má vera forvitin um miðja nótt, það er hollt varnarviðbragð líkama míns að vita hverjir eru í kringum mig þegar það eru fáir á ferli.

Ég henti einhverjum áttahundruð kalli í boðið. Hann var illa skrítinn, maðurinn. Hann vissi greinilega alveg hvað ég var að gera og ég vissi hvað ég var að gera. Það þarf eitthvað annað til að ég viti ekki hvað ég er að gera. Þetta var illa vel úthugsað skilurðu.

Svo kom löng þögn. Ég gaut augunum á starfsmanninn sem væri undir venjulegum kringumstæðum búinn að svara einhverju. Ekki orð og hann sat enn eins og hann væri sofandi við gluggann.

Þetta er einmitt eitthvað annað. Það verður einfaldlega að gera eitthvað við menn sem eru svona illa ómeðvitaðir um hvernig allt virkar.

Kaffið mitt var tilbúið og ég gat ekki legið lengur á hleri. Þegar ég gekk út var maðurinn enn að nota “illa” til áhersluauka og ég sá að bílalúgan var opin. Fyrir utan hana sat maður í bíl og var greinilega að tala við illa klára manninn inn í búðinni.

Er þetta eitthvað sem fólk gerir bara? Talar við félaga sína í gegnum bílalúgu á bensínstöð sem hvorugur vinnur á klukkan fimm á fimmtudagsmorgni?

Mér finnst það illa steikt.


Góðar stundir

Engin ummæli: