fimmtudagur, maí 30, 2024

Forsetakosningar, dýr og ábyrgð

Við munum kjósa nýjan forseta á laugardaginn. Það gaus í gær við Sýlingafell. Það er ekkert annað í fréttunum og ég er alltaf að hugsa um kindurnar sem eru fastar í Grindavík.
Ég þori ekki að reyna að komast að því hvort það sé búið að bjarga þeim eða ekki því ég óttast að þær eru enn lokaðar inni, einar og vanræktar með lömbin sín. Eru þær allar bornar? Ég skil að bændur vilji vera heima, í sínum eigin fjárhúsunum, í sauðburðinum en hefði ekki verið hægt að gera einhverjar ráðstafanir? Hefðu þeir ekki mátt vera heima áfram? Manneskjur bera ábyrgð á húsdýrunum sínum því við rænum getu þeirra til að bera ábyrgð á sjálfum sér með því að gera þau okkar. 

Mannskepnan er samt ekkert sérlega góð í að taka ábyrgð. 

Í mörg hundruð á ræktuðum við dúfur og gerðum þær að þjónum okkar. Létum þær fljúga með skilaboð langar vegalengdir og þær sem voru háðastar manneskjum fengu að lifa. Kynslóð fram af kynslóð ræktuðum við frelsið úr dúfum og gleymdum þeim svo þegar póstþjónusta kom til sögunar. Hentum þeim frá okkur því við fengum nýrra og betra dót.

Núna eru dúfur kallaðar fljúgandi rottur í stórborgum og við þolum ekki að þær eru sífellt að betla mat. Hvað eiga þær annað að gera? Þær voru ræktaðar til að leita til manneskjunnar eftir mat. Við ræktuðum frelsið úr þeim.
Líffræðilega kunna þær ekkert annað og það er okkur að kenna.

Ég tek ábyrgð á því að þessi færsla var ekkert um kosningarnar eins og til stóð. Ég skrifa kannski um þær á morgun.

Takið ábyrgð og verið almennilegt fólk

Engin ummæli: