miðvikudagur, maí 22, 2024

Hallgrímskirkja

Ég var að klára að lesa Þetta rauða, það er ástin eftir Rögnu Sigurðardóttur. Við vorum að tala um verk hennar síðasta laugardag og ég hafði aldrei lesið neitt en er að breyta því. Ég byrjaði á Vinkonur eftir sama höfund áðan. Allt annar bragur á henni en hún byrjar vel og ég get líka mælt með þeirri sem ég var að klára.

Það stendur alltaf til hjá mér að skrifa nokkur orð um bækur sem ég hef verið að lesa en mér finnst það afskaplega erfitt. Hvernig er hægt að gera heilli bók skil í nikkrum orðum? Ef ég klára bókina kann ég að meta hana, í um það bil 98% tilfella. 2% bóka les ég því ég hef einsett mér að gefast ekki upp af einhverjum ástæðum en ég trúi því að lífið sé of stutt fyrir vondar bækur.

Þar sem þetta er ekki bókagagnrýni (ég mun gera það einn daginn en þangað til get ég sagt að ég las Þetta rauða, það er ástin alla, án einhvers utanaðkomandi þrýstings) ætla ég að skrifa um eitt sem ég fattaði þegar ég var að lesa.

Bókin gerist að mestu leyti í París en sumar senurnar eru á Íslandi. Elsa aðalpersónan segir líka frönskum vinum sínum frá Íslandi. Simone de Beauvoir er að skrifa bækurnar sínar, Picasso heldur málverkasýningu með Françoise Gilot upp á arminn og stríðið hefur áhrif á vöruframboð á Íslandi þannig að sögutíminn er í kringum 1950.
Elsa segir að það búi 140 þúsund manns á Íslandi og að Hallgrímskirkjan sé í byggingu. Ég fletti kirkjunni upp og komst að því að hún var vígð 1986. 
Það var byrjað að byggja hana 1945. 
Það er fullt af fólki eldra en fyrsta skóflustungan að Hallgrímskirkju og mín kynslóð er líklega sú fyrsta sem hefur litið á þessa kirkju sem órjúfanlegan hluta af Reykjavík.

Mér fannst þetta merkilegt og vildi endilega deila þessu með vindinum.

Vitavörðurinn kveður, lifið heil


Engin ummæli: