föstudagur, maí 17, 2024

23 færslur í röð

Mér datt í hug að telja hvað ég væri búin að blogga í marga daga í röð. Þetta er 23. dagurinn.

Ef ég væri pabbi myndi ég sleppa því að skrifa í dag því hann hafði mikla óbeit á tölunni 23. Að vísu eru þetta ekki alveg 23 dagar í röð því ég klikkaði á þriðjudaginn (þegar ég var í endurskoðunargírnum fyrir happdrættið og steingleymdi blogginu). Þannig að ég er ekki að steypa mér í ógæfu með að skrifa þetta og ég held ég sé ekki að fara að skrifa neitt sem þolir ekki dagsljós. Ég er ekki mikið í því hvort sem dagurinn er venjulegur eða óhappadagur.

Pabbi forðaðist allt sem tengdist 23, dagsetningar, sætisnúmer, hótelherbergi og hann tók meðvitað aldrei ákvörðun þann 23. hvers mánaðar.

Konan sem var gjaldkeri í fyrirtækinu hans bað hann aldrei um að skrifa undir neitt eða spurði hann álits þann 23. Hún skildi hann. Talan sem hún forðaðist var 11. Hún gerði aldrei neitt mikilvægt 11. hvers mánaðar, sat ekki í sæti númer 11 og gisti ekki á hótelherbergi númer 11. Hennar forðun var samt meiri en pabba því hún forðaðist líka allar tölur sem gengu upp í 11 - 22, 33, 44 o.s.frv. Mögulega því hún vann við tölur allan daginn.

Ég held ég eigi ekki óhappatölu en ég er hrifin af tölunni 49 og öllum hinum sem ganga upp í 7. Veit ekki hvað það er? Kannski vegna þess að framburðurinn á 7 er svo gerólíkur tölunni:

Sjö - 7

Get ekki útskýrt það ef þú sérð það ekki. 
Ekki í stuttu máli að minnsta kosti.


Lifið heil og góðar stundir

Engin ummæli: