mánudagur, maí 20, 2024

Hvítasunnuhelgin

Það var líklega 1993.
Við mamma vorum einar heima. 
Pabbi var í veiðiferð með vinum sínum og bróðir minn farinn í sveitina. Systur mínar voru báðar fluttar að heiman.

Veðrið var ömurlegt. Rokið þeytti rigningardropum sem voru allir yfir 30 í BMI í gluggana og þakið söng. Pabbi norpaði edrú á árbakka einhvers staðar og króksetti orma. Bróðir minn treysti á að hesturinn rataði heim yfir Héraðsvötnin í myrkrabyl sem skall fyrirvaralaust á.

Við mamma vörðum allri helginni saman í þögn. Þegar við töluðum saman endurtókum við hvað þetta var notalegt. 
Við vissum hvorki hvað var að gerast við ánna né fyrir norðan.
Við lásum bækur. 
Mamma málaði og ég skrifaði. 
Við borðuðum vatnsmelónur og vínber og ristað brauð.

Þetta var ein besta helgi sem ég hef upplifað á ævinni.



Lifið heil og njótið augnablikanna.

Engin ummæli: