föstudagur, maí 31, 2024

Mér er létt

Það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði fréttasíðu í morgun var frétt um Hermann Ólafsson útvegsbónda á Stað við Grindavík.

Hann tók við kindum og rekur nú rolluhótel.
Það er til hitt fólk.



Það gleður mig.

Lifið heil

fimmtudagur, maí 30, 2024

Forsetakosningar, dýr og ábyrgð

Við munum kjósa nýjan forseta á laugardaginn. Það gaus í gær við Sýlingafell. Það er ekkert annað í fréttunum og ég er alltaf að hugsa um kindurnar sem eru fastar í Grindavík.
Ég þori ekki að reyna að komast að því hvort það sé búið að bjarga þeim eða ekki því ég óttast að þær eru enn lokaðar inni, einar og vanræktar með lömbin sín. Eru þær allar bornar? Ég skil að bændur vilji vera heima, í sínum eigin fjárhúsunum, í sauðburðinum en hefði ekki verið hægt að gera einhverjar ráðstafanir? Hefðu þeir ekki mátt vera heima áfram? Manneskjur bera ábyrgð á húsdýrunum sínum því við rænum getu þeirra til að bera ábyrgð á sjálfum sér með því að gera þau okkar. 

Mannskepnan er samt ekkert sérlega góð í að taka ábyrgð. 

Í mörg hundruð á ræktuðum við dúfur og gerðum þær að þjónum okkar. Létum þær fljúga með skilaboð langar vegalengdir og þær sem voru háðastar manneskjum fengu að lifa. Kynslóð fram af kynslóð ræktuðum við frelsið úr dúfum og gleymdum þeim svo þegar póstþjónusta kom til sögunar. Hentum þeim frá okkur því við fengum nýrra og betra dót.

Núna eru dúfur kallaðar fljúgandi rottur í stórborgum og við þolum ekki að þær eru sífellt að betla mat. Hvað eiga þær annað að gera? Þær voru ræktaðar til að leita til manneskjunnar eftir mat. Við ræktuðum frelsið úr þeim.
Líffræðilega kunna þær ekkert annað og það er okkur að kenna.

Ég tek ábyrgð á því að þessi færsla var ekkert um kosningarnar eins og til stóð. Ég skrifa kannski um þær á morgun.

Takið ábyrgð og verið almennilegt fólk

miðvikudagur, maí 29, 2024

Rúmur mánuður

Ég hef bloggað daglega í rúman mánuð. Sumar færslurnar hafa verið afleitar, aðrar ágætar. Sumt hef ég hugsað í einhvern tíma annað ekki nema í nokkrar mínútur. Flest hefur hvarflað að mér þegar ég er að velta fyrir mér um hvað ég eigi að skrifa.

Þegar ég opna forritið á kvöldið man ég nefnilega sjaldnast allt það sniðuga sem mér datt í hug um daginn og ætlaði að blogga um.

Markmið næsta mánaðar er að skrifa hjá mér það sem mér dettur í hug í staðinn fyrir að finna uppá einhverju þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin og man að ég á eftir að blogga.

Gott plan.
Stefni á að fylgja því að mestu.

Sjáum til og verið sæl og blessuð.

þriðjudagur, maí 28, 2024

Daglegt líf

Það eru ekki alltaf jólin. Sem betur fer. Hvernig stæðu bankareikningarnir okkar ef svo væri? Við myndum heldur ekkert njóta jólanna, þau yrðu hversdags.

Ein sú mesta gæfa sem hverjum getur hlotnast er að mínu mati að geta hlakka til næsta dags. Það er ekki sjálfgefið. Það þarf ekki að hlakka til dagsins í heild en eitthvað hlýtur að vera tilhlökkunarefni?

Að fara í hreinan stuttermabol, að greiða sér án þess að greiða í gegnum flækju eða greiða sér til að losa flækju, við erum öll svo ólík. Að sjá hvernig veðrið verður. Að finna lyktina af öspunum. Að vekja hundinn og fagna þegar það bætist enn einn stolinn tennisbolti við dótakörfuna. Það gerist ekki á hverjum degi en þá eru jólin hjá Blíðu.

Ætli það sé í einhverjum sjálfshjálparbókum að skrifa þakklætisdagbók og hlakka til næstu hversdags-micro-jóla?

Góðar stundir

mánudagur, maí 27, 2024

Ný orð

Þegar ég er undir miklu álagi lendi ég stundum í því að nota röng orð. Ég er ekki ein um það. Að muna ekki orð getur meira að segja verið einkenni álags samkvæmt skólabókunum. Það getur sömuleiðis verið vísbending um alls konar taugasjúkdóma sem ég held ekki að hrjái mig því ég fer að hengja handklæðið aftur á ofninn inná baði og ekki hitagrindina um leið og ég fer að sofa betur.

En mér finnst líka gaman að nota ný orð sem mér finnst að ættu að vera til því þau eru svo lýsandi.

Bjartskýjað þegar það sér ekki til sólar í gegnum þykk ský en birta sólarinnar sést samt í gegnum skýin.

Steinaber á er nánast þurr á.

Trampólínfokrok er óvænt rok á árstíma þegar ekki er vanalega búist við stormi og engum dettur í hug að festa lausamuni. Það er líka bæði gaman að segja og skrifa trampólínfokrok.

Og fleiri. Ég læt ykkur vita.

Lifið heil og notið orðin ykkar.

sunnudagur, maí 26, 2024

Sunnudagskvöld

Helgin var svakalega skemmtileg.

Brúðkaup á föstudag, dásamlegt fólk, fyndin skemmtiatriði, æðislegur matur og ástin, öll þessi ást.

Furðusagnahátíð og allt fólkið þar. Mikið óskaplega er þessi bókmenntakimi prýddur fallegum mennskum blómum.

Ég er engu nær um hvað mig langar til að skrifa en ég verð alltaf vissari um að ég muni gera það. Öðruvísi en til þess að skila inn verkefnum.

En næsta vika er heilir fimm dagar. 
Langt síðan síðast og þrjár vikur í næstu fjögurra daga helgi. 
Það verður í lagi. Ég mun auðveldlega lifa á þessari helgi fram að næstu.


Góðar stundir

laugardagur, maí 25, 2024

IceCon 2024

Í dag tók ég í fyrsta sinn þátt í Furðusagnahátíð og skemmti mér konunglega. Ég var ekki viss um að komast og skráði mig bara í morgun en núna er ég áskrifandi að fréttabréfinu og ætla að taka helgina frá um leið og dagsetningar fyrir hátíðina 2026 verður ákveðin.

Fyrir áhugasama lesendur vitavarðarins getið þið séð upplýsingar á heimasíðu hátíðarinnar.

The past can not be changed but history can change and is changed by those that tell the story - umorðuð ummæli Kirsty Logan í pallborðsumræðum um söguna (sagnfræði).

Góðar stundir

föstudagur, maí 24, 2024

Brúðkaup Kristófers og Emie Jane

Í dag 24. maí fór ég í brúðkaup Kristófers og Emie Jane. Veðrið var hrikalegt, slagveður og trampólínfokrok en allt annað var hlýtt og notalegt, rómantískt og fallegt.
Ég er þreytt í kinnunum af að brosa og óska dásamlegu brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn og hvort annað.




fimmtudagur, maí 23, 2024

Speculative non fiction

Í haust er ég vonandi að fara á námskeið þar sem við lærum um speculative non fiction. Þar sem ég er strax komin í smá fráhvörf frá skólanum (það er komin heil vika) og finnst erfitt að það sé ekkert að gerast á Canvas (skólasmáforritinu) hef ég verið að skoða speculative non fiction. 

Eins og fólk gerir til að undirbúa næstu önn. 

Þetta hefur ekki einu sinni verið viðburðasnauð vika.

Ég væri líklega búin að kaupa skólabækurnar ef ég hefði ekki haft neitt að gera.

Hvað myndi ég gera allan daginn ef ég hefði ekkert að gera?


Góðar stundir


miðvikudagur, maí 22, 2024

Hallgrímskirkja

Ég var að klára að lesa Þetta rauða, það er ástin eftir Rögnu Sigurðardóttur. Við vorum að tala um verk hennar síðasta laugardag og ég hafði aldrei lesið neitt en er að breyta því. Ég byrjaði á Vinkonur eftir sama höfund áðan. Allt annar bragur á henni en hún byrjar vel og ég get líka mælt með þeirri sem ég var að klára.

Það stendur alltaf til hjá mér að skrifa nokkur orð um bækur sem ég hef verið að lesa en mér finnst það afskaplega erfitt. Hvernig er hægt að gera heilli bók skil í nikkrum orðum? Ef ég klára bókina kann ég að meta hana, í um það bil 98% tilfella. 2% bóka les ég því ég hef einsett mér að gefast ekki upp af einhverjum ástæðum en ég trúi því að lífið sé of stutt fyrir vondar bækur.

Þar sem þetta er ekki bókagagnrýni (ég mun gera það einn daginn en þangað til get ég sagt að ég las Þetta rauða, það er ástin alla, án einhvers utanaðkomandi þrýstings) ætla ég að skrifa um eitt sem ég fattaði þegar ég var að lesa.

Bókin gerist að mestu leyti í París en sumar senurnar eru á Íslandi. Elsa aðalpersónan segir líka frönskum vinum sínum frá Íslandi. Simone de Beauvoir er að skrifa bækurnar sínar, Picasso heldur málverkasýningu með Françoise Gilot upp á arminn og stríðið hefur áhrif á vöruframboð á Íslandi þannig að sögutíminn er í kringum 1950.
Elsa segir að það búi 140 þúsund manns á Íslandi og að Hallgrímskirkjan sé í byggingu. Ég fletti kirkjunni upp og komst að því að hún var vígð 1986. 
Það var byrjað að byggja hana 1945. 
Það er fullt af fólki eldra en fyrsta skóflustungan að Hallgrímskirkju og mín kynslóð er líklega sú fyrsta sem hefur litið á þessa kirkju sem órjúfanlegan hluta af Reykjavík.

Mér fannst þetta merkilegt og vildi endilega deila þessu með vindinum.

Vitavörðurinn kveður, lifið heil


þriðjudagur, maí 21, 2024

Páskaliljur

Páskaliljurnar í garðinum mínum eru loksins farnar að blómstra og það er ekki langt í túlípanana.
Spurning hvort þeir verði á undan fíflunum sem skreyta grasflötina?

Þá er ég að tala um fíflin sem blómstra og breytast í biðukollur. Ekki fíflin sem skreyta margar æðstu stöður samfélagsins.

Góðar stundir

mánudagur, maí 20, 2024

Hvítasunnuhelgin

Það var líklega 1993.
Við mamma vorum einar heima. 
Pabbi var í veiðiferð með vinum sínum og bróðir minn farinn í sveitina. Systur mínar voru báðar fluttar að heiman.

Veðrið var ömurlegt. Rokið þeytti rigningardropum sem voru allir yfir 30 í BMI í gluggana og þakið söng. Pabbi norpaði edrú á árbakka einhvers staðar og króksetti orma. Bróðir minn treysti á að hesturinn rataði heim yfir Héraðsvötnin í myrkrabyl sem skall fyrirvaralaust á.

Við mamma vörðum allri helginni saman í þögn. Þegar við töluðum saman endurtókum við hvað þetta var notalegt. 
Við vissum hvorki hvað var að gerast við ánna né fyrir norðan.
Við lásum bækur. 
Mamma málaði og ég skrifaði. 
Við borðuðum vatnsmelónur og vínber og ristað brauð.

Þetta var ein besta helgi sem ég hef upplifað á ævinni.



Lifið heil og njótið augnablikanna.

sunnudagur, maí 19, 2024

Deyfðarskrun

Ástæðan fyrir því að mig langar til að viðhalda þessu bloggi er meðal annars vegna þess að ég er með óþol fyrir samfélagsmiðlunum. Á sama tíma legg ég mig fram um að vera virk á þeim því ég er alltaf að gefa út bækur. “Alltaf” hljómar feikilega fullorðinslega en ég er líka alltaf hluti af hóp og hef átt fjórar sögur í fjórum bókum á einu og hálfu ári. 
Við höfum líka alltaf verið mörg um að auglýsa bækurnar en einn daginn mun ég standa ein að útgáfu, mögulega með útgáfufyrirtæki sem bakhjarl en sjálfsútgáfa er alltaf möguleg. Tölfræðin er nefnilega ekki hliðholl nýjum rithöfundum og aðeins um 1% innsendra handrita (óumbeðinna handrita) er LESIÐ. Ekki rætt um samning eða ritsjórn eða útgáfu. Langflest handrit sem eru send til forlaga eru sjálfkrafa flokkuð óopnuð í pósthólf merkt “óþekktur sendandi” eða “með óumbeðnu wordskjali” eða “handrit eftir óþekkt wannabe sem telur sig hafa ferska rödd og hefur heyrt of oft að það sé ekkert ómögulegt og telur sig hafa eitthvað uppá dekk að gera” … mögulega er pósthólfið einfaldlega merkt “rusl”.

En, ef þú kemur þér á framfæri gætu líkurnar aukist. Ef þú ert með sögur í safnritum, lest upp í útgáfuhófum, tranar þér fram á samfélagsmiðlum, sendir handrit í samkeppnir og heldur alltaf áfram að skrifa verður mögulega tekið eftir þér. Þá hafa forlögin kannski samband við þig.

Vá, hvað þessi síðasta setning er tvíræð.

En já. Ég þoli ekki glansmyndina og deyfðarskrunið sem stimplast inn í undirmeðvitundina og hefur áhrif á okkur eins og allur annar áróður. 
Samt geri ég nákvæmlega það sama hér á þessu bloggi og mér býður við að gera þar. 

Ég skrifa ekki um það sem heldur fyrir mér vöku. 
Ég skrifa ekki um kvíða eða vanlíðan eða það sem ég skammast mín fyrir. 
Ég skrifa ekki um tilfinningakrísurnar sem framkalla niðurgang. Ég er nefnilega ein af þeim sem finn fyrir tilfinningum í maganum og hef alltaf öfundað fólk sem nagar bara neglurnar undir álagi. Það hlýtur að vera betra að stinga höndunum í vasana en að vera föst á dollunni heilu og hálfu sólarhringana. 

Líf annarra virðist alltaf vera betra en mitt þegar ég skoða samfélagsmiðla. 
Ég geri sjálf í því að láta líta út fyrir að mitt líf sé bara þrælfínt þakka þér kærlega fyrir á mínum miðlum - klikkaði að vísu aðeins á að auglýsa ferðina til Korfú.
En ég fór í alvöru. 
Þó að ég hafi ekki sett inn neinar myndir. En ég setti mynd á þessa síðu sem undirstrikar það sem ég er að segja. Ég skrifa bara um hið góða.

Líf okkar allra er auðvitað alls konar. Það kemur ekki öllum allt við og líklega væri afskaplega leiðinlegt að fylgjast með gráum hversdagsleika allra í kringum okkur. Fá að vita í smáatriðum um eðlismassa, tíðni áferð hægða, meðtaka upplýsingar um líkþorn, exem, flösu og styðja náungann í baráttunni við andremmu, svitalykt og táfýlu. 
Auðvitað kúkum við öll rósailm og vöknum með eplakinnar. 
Sérstaklega áhrifavaldar.

En kannski ætti ég að vera hugrakkari hér?
Kannski ætti ég að birta skáldaðan texta? 
Óritskoðuð, ógagnrýnd verk í vinnslu?

Eða halda mig við gulan mat og hversdagsheimspeki?


Hvíl í friði elsku M.M.

laugardagur, maí 18, 2024

Vinkonur

 Í dag hitti ég hóp af stelpum sem ég hef kynnst í ritlistarnáminu. Við spjölluðum í næstum fimm klukkutíma og ég hefði viljað vera lengur með þeim. 

Ég hef stundum kviðið því að klára námið en eftir svona daga veit ég að það verður allt í lagi.


Góðar stundir, með þökkum fyrir lestur og söng

föstudagur, maí 17, 2024

23 færslur í röð

Mér datt í hug að telja hvað ég væri búin að blogga í marga daga í röð. Þetta er 23. dagurinn.

Ef ég væri pabbi myndi ég sleppa því að skrifa í dag því hann hafði mikla óbeit á tölunni 23. Að vísu eru þetta ekki alveg 23 dagar í röð því ég klikkaði á þriðjudaginn (þegar ég var í endurskoðunargírnum fyrir happdrættið og steingleymdi blogginu). Þannig að ég er ekki að steypa mér í ógæfu með að skrifa þetta og ég held ég sé ekki að fara að skrifa neitt sem þolir ekki dagsljós. Ég er ekki mikið í því hvort sem dagurinn er venjulegur eða óhappadagur.

Pabbi forðaðist allt sem tengdist 23, dagsetningar, sætisnúmer, hótelherbergi og hann tók meðvitað aldrei ákvörðun þann 23. hvers mánaðar.

Konan sem var gjaldkeri í fyrirtækinu hans bað hann aldrei um að skrifa undir neitt eða spurði hann álits þann 23. Hún skildi hann. Talan sem hún forðaðist var 11. Hún gerði aldrei neitt mikilvægt 11. hvers mánaðar, sat ekki í sæti númer 11 og gisti ekki á hótelherbergi númer 11. Hennar forðun var samt meiri en pabba því hún forðaðist líka allar tölur sem gengu upp í 11 - 22, 33, 44 o.s.frv. Mögulega því hún vann við tölur allan daginn.

Ég held ég eigi ekki óhappatölu en ég er hrifin af tölunni 49 og öllum hinum sem ganga upp í 7. Veit ekki hvað það er? Kannski vegna þess að framburðurinn á 7 er svo gerólíkur tölunni:

Sjö - 7

Get ekki útskýrt það ef þú sérð það ekki. 
Ekki í stuttu máli að minnsta kosti.


Lifið heil og góðar stundir

fimmtudagur, maí 16, 2024

Veik eður ei

Mér er búið að líða sérkennilega í allan dag og veit ekki hvort það sé vegna þess að ég er að verða veik eða einfaldlega þreytt. 
Ég veit ekki einu sinni hvar “ég finn til” … afskaplega skrítin tilfinning. 

Var í vinnunni, er búin að æfa pólskuna mína og núna ég ætla snemma að sofa.

Góða nótt

miðvikudagur, maí 15, 2024

Útgáfuhófi lokið

Mikið svakalega eru útgáfupartý skemmtileg!

Ég er meyr og ánægð og stolt og glöð og sátt og þakklát. Ég er þakklát fyrir óteljandi margt í kvöld og nei, ég fékk mér ekki of mikið af veitingunum. Þetta eru sannar tilfinningar.

Ég er þakklát fyrir að þekkja og vinna með svona frábæru fólki, fyrir að þetta hafi tekist hjá okkur. Þakklát fyrir Hörpu Rún kennara okkar sem leiddi okkur í gegnum allt ferlið og studdi okkur fallega, faglega og dyggilega. Þakklát fyrir að svo margir hafi komið í kvöld, keypt happadrættismiða og keypt bókina. Ég er þakklát fyrir alla sem komu til að styðja mig og fyrir að fá gjöf frá yndislegri stelpu til að veita mér innblástur í áframhaldandi skrif.

Það er gaman að vera rithöfundur og ég stefni á fleiri kvöld eins og í kvöld.

Takk öll aftur og góðar stundir 

14. maí þann 15.

Í gær steingleymdi ég að blogga. Ég var upptekin við að fá nöfn og fjölda happdrættismiða til að stemma við upphæðina sem hefur safnast á reikningnum okkar fyrir útgáfu Gestabókar. 

Ég er ekki endurskoðandi. Það gekk ekki að finna villuna þannig að ég byrjaði uppá nýtt. Þá kom allt rétt og ég gat farið að sofa.

Ég skil ekki hvernig ég endaði sem gjaldkeri.

En fyrst ég gleymdi gærdeginum mun ég í dag blogga bæði fyrir og eftir útgáfuhófið.

mánudagur, maí 13, 2024

Millilending, Prag

Vissir þú að Prag er rökréttur millilendingarstaður þegar flugvél fer frá Korfú til Íslands?

Ég vissi það ekki. Af hverju lendir þarf leiguflugvél í sérferð að millilenda? Já, til að taka bensín.

Flugfélagið er tékkneskt.

Ég er viss um að þetta verði allt í lagi. Fullkomlega eðlilegt að dæla bensíni á flugvél með um það bil 200 farþegum … var það ekki einu sinni alveg stranglega bannað?

Mögulega er ég óviss með framkvæmdirnar því í vélinni hef ég verið að hlusta á The Gulag Archipelago  eftir Aleksandr Solzhenitsyn og við erum núna komin austur fyrir járntjaldið.

En við erum á leið heim.
Við verðum komin heim eftir nokkra klukkutíma.


Góðar stundir

sunnudagur, maí 12, 2024

Að skipta um tungumál

Eins og ég skrifaði um daginn hef ég verið að nota Duolingu daglega undanfarið. Síðustu 219 dagana til að vera nákvæm.
Ég hef verið að læra grísku því það er mikilvægt að geta sagt að kóngulær drekki mjólk og að ég sé í mínum eigin nærfötum. Ég hef ekkert notað grísku síðan ég kom til Korfú en í kvöld lærði ég orðið Φλοίσβος (borið fram: fleezvos) sem þýðir öldugjálfur. Ég lærði það ekki á Duolingo samt.

Núna er ég að velta fyrir mér hvenær ég skipti yfir í pólsku því næst stefni ég á ráðstefnu í Pólland í október. Skipti ég daginn eftir að ég kem heim? Strax í kvöld? Daginn sem ég fer heim?

Þar sem ég skrifa þetta man ég að ég er að fara í eina ferð fyrir október. Í september fer ég til Sviss í mótorhjólaferð … ætti ég að læra þýsku þangað til? Hvað ef við tökum stefnuna á Ítalíu? Eða Frakkland?

Það er erfitt að hafa svona mikið val og of lítinn tíma til að læra.


Lifið heil

laugardagur, maí 11, 2024

Gleðilega árshátíð

Í kvöld er árshátíð í vinnunni minni. Við fögnum á gríðarlega fallegum stað og mig langar til að vera lengur.

Opa!




föstudagur, maí 10, 2024

Sögunni skilað

Það tókst. Ég kom endinum á söguna og vona að hún gangi upp sem smásaga. Ég er löngu búin að lesa hana of oft til að bera skynbragð á hvort hún sé góð eða ekki en ég hef átt sérlega erfitt með hana af mörgum ástæðum.
Þar sem ég er í ritlist sótti ég um að fá að skrifa skáldaðan texta í staðinn fyrir heimildaritgerð. Ég óttaðist að heimildaritgerð í heimspeki yrði mér ofviða. Þessi saga var mögulega erfiðari. Við vorum að lesa verk eftir alls konar heimspekinga (námskeiðið hét Sálgreiningu, heimspeki og menning) og ég ákvað að snúa útúr. Já. Stærstu hugsuðir aldarinnar og ég var með stæla. Ég bjó til nýjan heim með sömu kenningunum og lita samfélagið okkar en ég breytti þeim. Í staðinn fyrir að manneskjan sé til dæmis metin út frá kyni, kynþætti, aldri og þess háttar var virði manneskjunnar reiknað út frá framlegð til samfélagsins. Til að ganga lengra með kynleysið þérast allir og eru óskaplega formlegir … mér fannst það skemmtileg hugmynd. Þangað til ég fór að skrifa … ég lærði aldrei að þéra, varð að læra það. Það er líka rosalega erfitt að skrifa án þess að nota hún og hann. Erfiðara en ég hélt.
Það sem var enn erfiðara var að skrifa um heim án þess að útskýra hann. Leyfa öllu að flæða fram án þess að infodömpa allri baksögunni. Það er allt eins og það er en ég útskýri ekki neitt. Í lokaútgáfunni er samt ein manneskja sem er gersamlega óþolandi því hún segir alltaf hið augljósa. Hefði viljað sleppa henni, gera hana í það minnsta skemmtilegri eða viðkunnanlegri en þá hefði ekki verið nein leið til að koma öllu fyrir í 4000 orðum. 

Sagan er nákvæmlega 4000 orð.
Og ég er búin að skila.

Nú á ég skilið góðar stundir.
Með þökkum fyrir lestur og söng.

fimmtudagur, maí 09, 2024

Endir

Mér gengur ekki að enda söguna mína og ég á að skila henni á morgun. Hversu opinn má endir smásögu vera? Hversu mikið eyðileggur lélegur endir fyrir góðri sögu? Ef sagan er lokaverkefni í heimspekinámskeiði er í lagi að skilja alla enda eftir lausa? Má ég enda á spurningu? Hver ætti að svara henni? Hver spyr?

Hvað þarf að standa hér til að það teljist sem bloggfærsla?

Lifið heil

miðvikudagur, maí 08, 2024

Breytingar

Í vinnunni hitti ég fólk daglega sem þarf að takast á við miklar breytingar. Umrótarbreytingar og ég tala um þær. Hlusta á fólk tala um það sem hefur breyst, gott og vont, og hvað fólk er sjálft að gera til að breytast. Aðlagast breytingunum.

Ég tala um breytingar á fyrirlestrum. Ég minnist yfirleitt á þær í öllum fyrirlestrum og ég held fyrirlestur tvisvar á önn sem heitir einfaldlega Breytingar. Ég grínast með að uppáhalds spakmæli mitt sé:

Ef ekkert breytist breytist ekkert

Einu sinni skrifaði ég það á pappakassa sem ég notaði fyrir bókahillu eftir að líf mitt breyttist töluvert. Það var til að auðvelda sjálfri mér nýju kringumstæðurnar. Sannfær mig um að það væri gott að hlutirnir breyttust. 
Þá eins og núna hataði ég breytingar. Ég þoli þær ekki. 

Það fylgir því að lifa að breytast. Vissulega kýs ég frekar að breytast en að deyja en ég væri til í að það væri ekki annað hvort eða.


Góðar stundir

þriðjudagur, maí 07, 2024

Gestabók

Ég hef verið í námskeiðinu Á þrykk þessa önn og lokaverkefnið okkar er útgefin bók. Á námskeiðinu skrifum við bók, ritstýrum, prófarkarlesum, setjum bókina upp, veljum forsíðumynd, pappír, hönnum allt, fjármögnum, auglýsum (@gestabok_), seljum og höldum útgáfuhóf. 

Bekkurinn gerir þetta saman en eins og í öllum hópverkefnum eru sumir sem draga vagninn og aðrir sitja í honum. Þessa önn hef ég verið einhvers staðar á milli, hvorki dregið vagninn né setið í honum. 
Suma daga hef ég hreinlega haft nóg með að verða ekki undir honum.

En ég hef selt slatta af happdrættismiðum og það er enn hægt að kaupa miða.



Þér er boðið!! Happdrætti til styrktar útgáfu vorbókar ritlistarnema - Gestabók 🥂

Hátt í hundrað vinningar í boði - listaverk, leikhúsmiðar, bækur fyrir börn og fullorðna og margt fleira.

Miðaverð er 1.500 kr. Hægt er að skrá sig í happdrættið með því að millifæra á reikninginn hér að neðan og skrifa athugasemd á þessa færslu eða senda skilaboð á Gestabók á Facebook eða Instagram. Einnig má senda skilaboð beint á höfunda bókarinnar.

Kennitala: 451012-0960
Bankareikningur: 0133-15-007037


… hvíslaði vitavörðurinn að vindinum


Lifið heil

mánudagur, maí 06, 2024

Gleymni

Því meira sem er að gera hjá mér því gleymnari verð ég. Það á líklega við um flesta en ég var að velta fyrir mér áðan hvort það sé eitthvað hlutfall verkefna sem er eðlilegt að gleymist? Svona eins og Dunbar kenningin um félagsleg samskipti. Það hefur verið reynt að afsanna hana en í rúm 30 ár hefur hún staðist allar prófanir. Dunbar kenningin er sú að manneskjan getur verið í eðlilegum, daglegum samskiptum við um það bil 150 einstaklinga og sinnt um það bil  fimm nánari samskiptum.

Hver ætli talan sé varðandi verkefni? Hversu mörg verkefni getur einstaklingurinn munað eftir áður en hann fer að gleyma? Hverjar eru breyturnar sem hafa áhrif? Stærð verkefnanna? Fjölbreytni þeirra? Umhverfisþættir? Truflanir? Þreyta? Innri áreiti og andlegir þættir?

Þá er ég að tala um meðal manneskju sem er ekki á þeim stað að vita ekki hvort hún sé að koma eða fara ef hún er í úlpunni.

Kannski rannsaka ég þetta þegar ég er orðin stór. Kannski skrifaði ég um þessar vangaveltur í kvöld til að ég myndi síður gleyma því.

Góðar stundir.

sunnudagur, maí 05, 2024

Cinco de mayo

Ég var að lesa um cinco de mayo því ég var ekki alveg viss hverju væri verið að fagna. 
Merkileg lesning. 
Þjóðhátíðardagur Mexíkó er 16. september því 1810 lýsti Miguel Hidalgo yfir sjálfstæði landsins frá Spáni. 5. maí er til að minnast sigurs Mexíkó á her Frakka árið 1862 í bardaga við Puebla. Dagurinn er einmitt líka kallaður Dagur Puebla bardagans. 
2000 Mexíkóar á móti 6000 Frökkum, 100 Mexíkanar létust og 500 Frakkar. Sigurinn var ímyndar-sigur mexíkönsku þjóðarinnar á Frakklandi og leiddi að lokum til þess að Benito Juárez forseti komst aftur til valda, með aðstoð Bandaríkjanna. 

5. maí er helst fagnað í Bandaríkjunum, eiginlega ekkert í Mexíkó (nema í borginni Puebla), með hefðbundnum mat, tónlist, dansi og fjölskylduskemmtunum. Ástæðan fyrir því að þessi dagur er svona merkilegur í Bandaríkjunum er sú að sigur Mexíkana á stórveldinu Frakklandi hafði áhrif á bardagaþrek hermanna í borgarastyrkjöldinni sem þá geisaði norðan landamæranna. Ef þeir geta það í Puebla getum við það líka!

Þannig er það.

Þýðir ekkert að fara til Mexíkó í maí sem sagt og búast við skrúðgöngum.

Gott að vita, lifið heil

laugardagur, maí 04, 2024

4. maí 2024

Í dag er alþjóðlegi kvenhjóladagurinn og Skutlurnar fagna því. Við erum mótorhjólaklúbbur og við erum stelpur, það er no brainer.

Mögulega hefði ég átt að ljúka daglega blogginu mínu af áður en ég fór að skála fyrir vel heppnuðum degi? En dagurinn var sérlega vel heppnaður. Tæplega fjörtíu konur á jafnmörgum hjólum, tvö löggumótorhjól (takk kærlega Bjössi og Matti!), það rigndi ekki og pylsur í Auðbrekkunni. 

Unnur Magna magnaða tók myndir og Kittý ofurskutla og kílómetradrottning bjó líka til myndband.

Núna er veisla og ég ætla að snúa mér að henni.


Skál og lifið heil!

föstudagur, maí 03, 2024

Lystigarðurinn

Ég var að hugsa í dag um hvernig ég skrifa. Mér finnst ég oft ráfa frá einum punkti til annars, skoða þetta og hitt, pæli í þessu og hinu en kemst aldrei að beinni niðurstöðu.
Mögulega eru þessar vangaveltur tengdar því að mér tekst ekki að skrifa góðan endi á smásögu sem ég er að skrifa í heimspeki námskeiði (spurðu mig endilega hvernig er að vera í svona skemmtilegu námi). 
Sagan er of stór fyrir plássið sem hún fær (4000 orð) en ég er samt að reyna að troða henni í það rými.

Um helgina lítur út fyrir að ég þurfi að drepa einhverjar elskur mínar …




fimmtudagur, maí 02, 2024

Illa þetta og hitt

Ég vakna snemma á morgnanna og fer út að labba með Blíðu. Á virkum dögum kem ég oft við í Orkunni á Dalvegi og fæ mér kaffi á leiðinni á heiðina og spjalla stundum við starfsmennina sem eru á næturvakt. Þegar Iceland Engihjalla var opið á næturnar kom ég iðuleg við þar og kynntist starfsmönnunum. Það myndast sérstakt samband milli fólks sem er vakandi á nóttunni og núna kemur fyrir að ég hitti þau annars staðar sem er líka skemmtilegt. Gaman að labba inn í Nettó í Mjóddinni og fá knús frá portúgalskri stelpu sem ég veit ekki hvað heitir. Ég var greinilega mikið í Iceland á nóttunni.
Í morgun fór ég á Dalveginn. Þegar ég labba inn stendur maður mín megin við afgreiðsluborðið og er að segja frá upplifun sinni af einhverju bílabraski. Strákurinn sem er á vaktinni þessa vikuna sat við bílalúguna og haka hans hvíldi á hnefa vinstri handar. Hann var næstum með lokuð augun og leit ekki út fyrir að vera að hlusta á einræðu mannsins. Strákurinn er yfirleitt afskaplega indæll og nennir alltaf að spjalla við alla. Ég hugsaði með mér að sögumaðurinn hlyti að hafa verið lengi við afgreiðsluborðið fyrst starfsmaðurinn var alveg hættur að sýna viðbrögð. 

Ég gekk að afgreiðslukassanum, strákurinn stóð upp, afgreiddi mig orðalaust og settist aftur við bíllúgugluggann. Það er eina sætið sem er í boði í búðinni. Ég var með heyrnartólin mín að hlusta á sögu þegar ég gekk inn en þegar ég kem að kaffivélinni var ég orðin forvitin að heyra um hvað hinn viðskiptavinurinn var að tala. Ég má vera forvitin um miðja nótt, það er hollt varnarviðbragð líkama míns að vita hverjir eru í kringum mig þegar það eru fáir á ferli.

Ég henti einhverjum áttahundruð kalli í boðið. Hann var illa skrítinn, maðurinn. Hann vissi greinilega alveg hvað ég var að gera og ég vissi hvað ég var að gera. Það þarf eitthvað annað til að ég viti ekki hvað ég er að gera. Þetta var illa vel úthugsað skilurðu.

Svo kom löng þögn. Ég gaut augunum á starfsmanninn sem væri undir venjulegum kringumstæðum búinn að svara einhverju. Ekki orð og hann sat enn eins og hann væri sofandi við gluggann.

Þetta er einmitt eitthvað annað. Það verður einfaldlega að gera eitthvað við menn sem eru svona illa ómeðvitaðir um hvernig allt virkar.

Kaffið mitt var tilbúið og ég gat ekki legið lengur á hleri. Þegar ég gekk út var maðurinn enn að nota “illa” til áhersluauka og ég sá að bílalúgan var opin. Fyrir utan hana sat maður í bíl og var greinilega að tala við illa klára manninn inn í búðinni.

Er þetta eitthvað sem fólk gerir bara? Talar við félaga sína í gegnum bílalúgu á bensínstöð sem hvorugur vinnur á klukkan fimm á fimmtudagsmorgni?

Mér finnst það illa steikt.


Góðar stundir

miðvikudagur, maí 01, 2024