sunnudagur, júní 30, 2024

Árið hálfnað

Á morgun er 1. júlí og þá er árið hálfnað. Ekki endilega nákvæmlega hálfnað en mánaðarlega hálfnað. Sex mánuðir búnir og sex eftir.

Hvernig var fyrri hluti ársins? Hvernig vel ég að seinni hlutinn verði? Hvað gerðist gott síðustu sex mánuði? Hverju hefði ég viljað breyta? Hvað lærði ég undanfarna sex mánuði sem ég get nýtt mér til að gera næstu sex mánuði betri? Hvað vil ég gera aftur? Hvaða mistök gerði ég? Hefði ég getað komið í veg fyrir þau? Get ég borið kennsl á mistök áður en ég geri þau næstu sex mánuði? Hvernig ætla wg að gera næstu sex mánuði eftirminnilega? Hvað langar mig til að gera til gera hvern dag góðan? Mun ég hætta að blogga daglega fyrsta vetrardag eins og ég ætlaði þegar ég hóf þessa tilraun fyrsta sumardaginn? Hverjar voru bestu bækur ár sem ég las síðustu sex mánuði? Hvað var það skemmtilegasta sem ég gerði? Hvað er ég að fara að gera skemmtilegt á næstunni? Hvað ætla ég að hafa í matinn Anna kvöld?

Allt góðar spurningar. 
Ég ætla að sofa á þeim.

Takk fyrir fyrst sex.

laugardagur, júní 29, 2024

Finnska tónlistargetraunin

Spyrjið mig eða spyrjið google frænku.

Mæli með henni á öllum mannamótum - og líka Tartýum ef þið eruð svo heppin að fá boð í slík.

Góðar stundir 

Tarty 4

Þessa helgi er Tarty 4 haldið í Götu hjá Guðrúnu Erlu Skutlu og Einari Hrolli Sleipnismanni. Þerta er fjórða árið sem þessir öðlingur bjóða okkur heim til sín í Götu og þetta eru bestu partý ársins.

Útieldhús, pallur með þaki, kamínur, tónlist, æðislegur matur, frábær félagsskapur og alltaf gaman.

Ég er svo afskaplega þakklát fyrir að geta og mega kalla þau vini mína. 
Megið þið öll eiga eins góða vini og Guðrún Erla og Einar eru vinum sínum.

Góðar stundir.

fimmtudagur, júní 27, 2024

Náttúrumeðferð

Síðan 2015 hef ég verið hluti af evrópsku og alþjóðlegu náttúrumeðferðarsamfélagi. Fólkið sem sinnir náttúrumeðferð er dásamlegt fólk. Mig langar til að hitta þau og umgangast daglega en mig langar líka til að skrifa og á meðan ég er enn að finna tíma til að ná heilum nætursvefni á veturna þegar ég er í skólanum líka þá verð ég að sleppa einhverju.

Þess vegna fór ég ekki á GATE4 2024 sem var haldið síðustu helgi í Lettlandi. En ég fékk bol og buff frá bestu vinkonu minni sem fór og skein eins og stjarna.

Ég var hins vegar á IATC9/GATE3 sem var haldið í Noregi fyrir tveimur árum. Algerlega frábær ráðstefna sem situr enn í mér. 
Síðan þá hafa tvö, Alex frá Spáni og Þýskalandi og Carina frá Noregi, unnið að því að gefa út allar greinarnar frá ráðstefnunni og eru að biðja fólk um að styðja útgáfuna. 700 blaðsíður, verður aðgengileg á netinu og troðfull af ótrúlega áhugaverðu efni.
Núna í fyrsta sinn vildi ég að einhver kíkti hingað til vitavarðarins en ég ætla samt að setja inn hlekkinn á fjaröflunarsíðuna:

Verið með og breytið heiminum.

Lífið heil.

miðvikudagur, júní 26, 2024

Alíslenskir froskar

Það eru víst froskar í Garðabæ, ekki bara prinsar.

Einu sinni átti ég frosk. Það var alveg óvart. Ég samþykkti að passa Magnús fyrir vinkonu mína sem var með hann heima hjá sér í lítilli stúdíóíbúð ásamt tveimur köttum. Kettirnir voru afskaplega hrifnir af froskinum en það var ekki gagnkvæmt þannig að Magnús flutti til mín. 
Það átti að vera tímabundið en hvorki vinkona mín né fyrri eigandi sóttu hann. Magnús var hjá mér lengi en ég bjó líka með ketti þannig að hann endaði heima hjá mömmu og pabba. 
Magnús var ágætt gæludýr en ekki beint skemmtilegur. Það kom löngu seinna í ljós að eigandinn hét víst Magnús ekki froskurinn og ég hef ekki hugmynd um hvað hann kallaði Magnús áður en hann sendi hann í ævilanga pössun til ókunnugra.

Ég vissi bara tvennt um Magnús þegar ég tók hann að mér. Ekki þrennt því ég klikkaði alveg á að spyrja hvað hann var kallaður.
Í fyrsta lagi að hann borðaði lifandi fæðu, orma og maðka til dæmis eða rækjur í bandi sem var hægt að sveifla til eins og þær væru lifandi.
Í öðru lagi að einu sinni hafi verið keyptur annar froskur svo Magnús yrði ekki einmana. Hann var einn í búrinu þegar ég fékk hann og fékk að vera einn áfram því Magnús át þennan félaga sinn. 

Hann óttaðist greinilega ekki að vera einmana.
Pabbi fyrirgaf Magnúsi aldrei að vera mannætufroskur og skipti sér aldrei af honum.

Eitt að lokum.
Ég reyndi aldrei að kyssa Magnús. 

Góðar stundir.

þriðjudagur, júní 25, 2024

Hinsti spölurinn

Í dag fylgdi ég manninum sem kenndi mér að hjóla hinsta spölinn.
Ég talaði ekki oft við hann eftir að ég varð fullorðin, leiðir okkar lágu sjaldan saman, en þegar ég var barn og unglingur man ég eftir mörgum samtölum um alls konar. Hann var eiginmaður vinkonu mömmu og ég þekki tvo yngri syni hans, af fimm systkinum, ágætlega.
Hann sagði mér frá traktorum og skrítnum dýrum í útlöndum. Hann vissi alls konar um mótorhjól, kunni að fljúga flugvélum og hafði séð öll lönd heimsins ofan frá, sem mér fannst stórmerkilegt.

Ég veit ekki hvers vegna hann hafði þolinmæði fyrir mér en hann var óeigingjarn á tíma sinn og hluti. Hann átti öll möguleg verkfæri og tæki. Hann gerði einu sinni gat í leðurbelti fyrir mig með al (sem ég hafði aldrei áður heyrt um) og lánaði mér vírklippur þegar mig vantaði svoleiðis í einhverju dúfnakofaævintýri.
Honum fannst heldur ekki mikið mál að lána mér hjól. Lítið blátt og rautt hjálpar dekkja laust hjól á þykkum hvítum dekkjum sem synir hans áttu en hann leyfði mér líka að nota það.
Ég man ennþá tilfinninguna þegar ég lyfti fótunum af malbikinu, hélt jafnvægi og byrjaði að stíga pedalana.
Algert og fullkomið frelsi. 

Ég held ég hafi aldrei þakkað honum fyrir að kenna mér að hjóla og víkka sjóndeildarhring minn.

Hvíl í friði L.S.S.

mánudagur, júní 24, 2024

Öpp

Ég er með nokkur öpp í símanum. Hugsanlega of mörg? Stundum næ ég í app, nota það einu sinni og svo dagar það uppi. Oft opna ég það aldrei aftur en eyði því ekki fyrr en eftir dúk og disk.
Ég notaði til dæmis alltaf bara norsku veðurspána en var með nokkur önnur sem virkuðu aldrei. Líklega orðin úreld en ég lokaði þeim alltaf bara aftur og opnaði annað app, án þess að eyða því sem virkaði ekki. 
Ef til vill bjóst ég við að það myndi batna ef ég léti það bíða?

En, núna er ég búin að finna algerlega frábært app sem ég vona að haldi áfram að vera frábært. Það heitir Betra veður.

Mæli með því.
Reikna líka með betra veðri með þetta í vasanum.

Kveðja vitavörðurinn

sunnudagur, júní 23, 2024

Sviss

Í haust fer ég til Sviss með fleira fólki. Við ætlum að leigja okkur mótorhjól og ferðast um, ekkert ákveðið ennþá annað en flugið til Zurich og hjólin. Ég verð á Ducati Multistrada. Hef aldrei prófað þannig en geri ráð fyrir að það verði ótrúlega gott hjól. Ég er sannfærð um að ferðin verði frábær.
Þess helgi byrjuðum við aðeins að ferðast á Google Maps. Höfum aldrei gert það áður því yfirleitt kaupum við bara flug, vitum nokkur vegin í hvaða átt við ætlum þegar við lendum og leggjum af stað. 
Kemur í ljós hvort er betra en gæti skeð að það lengi ferðalagið að gera þetta svona? Og ég fæ að sjá miklu meira en ef við hefðum bara valið átt því ég skoða svo mikið af myndum.

En ég ætla samt í ferðalagið. 
Ég er með ímyndunarafl en mig langar til að finna lyktina. Hún finnst ekki af myndum.

Lifið heil.

laugardagur, júní 22, 2024

Instagram live

Tvö sem eru með mér í ritlistinni opnuðu á beint instagram streymi áðan úr pottinum sem þau voru í vestur á Ströndum. 
Karólínu var boðið að vera í Steinshúsi á Nauteyri og bauð Sölva með sér. Þau voru með ljóðaupplestur og listamannaspjall í beinni útsendingu úr pottinum. Á morgun verða þau með upplestur einhvers staðar sem hluti af Snæfjallahátíðinni sem er verið að halda í fyrsta sinn þessa helgi. Kannski stefni ég á að mæta á hana næstu Jónsmessuhelgi?
Það hljómar í það minnsta vel að stefna á eitthvað ferðalag að ári liðnu í tilefni af sumarsólstöðum (laugardagur) og Jónsmessunni (þriðjudagur).

Gott plan!

Og góðar stundir.

föstudagur, júní 21, 2024

Grímuklætt söngfólk

Á föstudögum eru þættir á Stöð tvö með grímuklæddu fólki. Þau eru í svakalega íburðamiklum og flottum búningum á meðan þau syngja og svo giska dómararnir á hver þau eru.
Ég hef stundum horft með mömmu og dáumst bæði að búningunum og atriðunum sem eru sum sérlega flott.
Við reynum samt aldrei að giska hver er undir grímunni. Það skiptir engu máli. Við þekkjum þetta fólk ekkert frekar án grímunnar.
Það hljóta að vera fleiri eins og við. Þessi þáttur er keyptur, textaður og sýndur á besta tíma fyrir fólk sem kann að meta búninga. 
Ég skil hvers vegna Íslendingar halda bæði uppá Hrekkjavöku og Öskudag.

Góðar stundir

fimmtudagur, júní 20, 2024

Bókin

Mér var sagt að það væri 50% afsláttur í Bókinni þessa dagana. 

Ætli það sé ekki eins og fyrir nammifíkil að vita að það af 50% afslætti á nammibarnum?

Ég þarf ekki fleiri bækur.
Ég þarf ekki fleiri bækur.
Ég þarf ekki fleiri bækur.
Ég þarf ekki fleiri bækur.

En er hægt að eiga of margar bækur?

Kannski ef þær væru allar leiðinlegar?


Góðar stundir


miðvikudagur, júní 19, 2024

Bókablogg

Hef aðeins verið að velta fyrir mér að skrifa bókablogg en er ekki komin að neinni niðurstöðu. Helst hugsa ég að ég myndu ekki nenna að pikka svo mikið inn í símann - ég er líka alltaf að gera einhverjar klaufalegar innsláttarvillur.

Kannski blogga ég um bækurnar sem ég les ef ég bæ að logga mig inn hingað í tölvunni.

Kannski ekki.

Lífið er svo spennandi!

Lifið heil

þriðjudagur, júní 18, 2024

Þriðjudagur

Vegna þess að 17. júní var í gær, á mánudegi þá er þetta bara fjögurra daga vinnuvika. Ég hef hlakkað til hennar. Það eru bara þrír vinnudagar eftir.

Ég kann vel við vinnuna mína, ég vinn með algerlega frábæru fólki og vinnan er skemmtileg en mér finnst hún fækka tímunum sem ég hef á hverjum degi til að gera aðra hluti. 

Á morgun fer ég að vísu aðeins fyrr úr vinnunni en það er til að fara til kvensjúkdómalæknis og ég væri alveg til í að sleppa við það.

En annað kvöld verða bara tveir vinnudagar eftir í þessari viku.

Ætli vitaverðir verði þreyttir á sinni vinnu líka?


Lifið heil 

mánudagur, júní 17, 2024

Þjóðhátíð og egg

Þjóðhátíðardagurinn minn var bæði venjulegur og óvenjulegur en hvorki þjóð- né hátíðlegur.

Ég umpottaði blóm og bætti klifrugrindum í pottinn því plantan er klifurplanta og alltaf að leita sér að stöngulfestu (þar sem hún er hvorki með hendur né fætur leitar hún ekki með þeim).

Svo borðuðum við brauðbollur og skúffuköku sem við keyptum til að styrkja dóttur vinkonu minnar. Þær mæðgur eru að fara í keppnisferðalag til Danmerkur í ágúst þar sem sú yngri mun keppa í klifri. Treysti á að hún finni bæði hand- og fótfestu því hún er ekki planta.

Við færðum húsgögn aftur því við börum ekki alveg sátt við feng súíið. Þetta er betra núna.

Svefnsófinn er enn stór og leitar sér mögulega að tímabundnu fóstri.

Við pöntuðum gistingu fyrir væntanleg ferðalög á meðan við borðuðum páskaegg sem gleymdist.

Og þegar við komum heim um kvöldmatarleytið var búið að grýta húsið með eggjum. Núna vildi ég að ég vissi hvort þetta hafi verið prakkarastik, umhverfisvænn þjóðhátíðarflugeldur eða á ég óvin sem tímir samt lífrænum brúneggjum á mig? Lífræn egg eru afskaplega úthverfa- og efri millistéttarlegt vopn þannig að ég velti fyrir mér hvort ég hafi mætti í veislu í eins kjól og önnur? Eða tekið óvart uppáhaldsskáp í sundi? Eða ræktinni? Borðað síðustu snittuna? Eða ekki verið nægilega dugleg við að skera fíflana úr garðinum? Ég var reyndar að lesa að það eigi að láta þá í friði því býflugur leita í þá og þeir lækna jarðveginn og skila af sér mikilvægum efnum í moldina. Kannski missti ég þráðinn í samtali og fór að tala um eitthvað ótengt umræðuefninu og móðgaði manneskju sem mundi eftir mér þegar hún gekk framhjá húsinu mínu með lífrænu eggin sín í fjölnotapokanum sem var keyptur til að styrkja viðskiptalán til kvenna í landi þar sem konum bjóðast fá eða engin tækifæri?

Eða hanfahófskennt prakkarastik algerlega ótengt mér og minni framkomu?

Gleðilega hátíð.
Splatt!

sunnudagur, júní 16, 2024

Af stærðum

Einu sinni keypti pabbi sjónvarp. Hann var að vísu sá eini sem keypti sjónvörp þegar ég var að alast upp en þau voru öll skynsamlega stór og pössuðu í sjónvarpsherbergið, sem við kölluðum Gryfjuna því það lágu sex tröppur niður í hana úr stofunni. Þegar hann keypti sjónvarpið sem ég er að hugsa um valdi hann skjá með góðri upplausn og það sem honum fannst vera meðalstórt í búðinni. Heim komið leið honum eins og hann sæti á fyrsta bekk í bíói. Skjárinn var risastór og sófinn svo nálægt að honum fannst hann alltaf vera að hreyfa höfuðið til að sjá allt sem var að gerast. 
Hann hafði líka töluverðar áhyggjur af því að það væri tilgerðarlegt að vera með svona stóran flatskjá.

Stjúpdóttir mín flytur aftur heim um mánaðamótin og ætlar í HR í vetur. Þegar hún flutti út keyptum við svefnsófa í herbergið hennar svo hún ætti alltaf samastað hér ef hún vildi, þyrfti eða væri á landinu í einhvern tíma. Þetta er fínn sófi en ekki endilega góður til lengri tíma þannig að hún kemur með rúmið sitt þegar hún flytur inn.

Þessi sófi er núna kominn inn í stofu og það er ekki lengur hægt að skipta um skoðun. Það er ekkert pláss til þess. Mér fannst hann aldrei svona stór áður. Hann var alls ekki svona stór í Húsgagnahöllinni. Hann var frekar stór í herberginu en hann var augljóslega samt bara tveggja sæta sófi undir glugganum. 
Núna er hann á miðju stofugólfinu og ég er viss um að hann sé bæði þriggja sæta og tæplega tveggja metra hár. 
Hann byrgir útsýni út á götu.

Svefnsófinn okkar er ekki tilgerðarlegur. Hann er of stór, það borgar sig pottþétt ekki að móðga hann. Hann er líka ábyggilega skapvondur eins og gerist þegar fólk tekur stera.

Ég vona bara að ég venjist honum eins vel og pabbi vandist skjánum sínum og ég ætla að hugsa vel um hann. Það er ekki honum að kenna hvað hann er stór.

Kær kveðja,
Vitavörðurinn og sterasófinn

laugardagur, júní 15, 2024

Sturlungadagurinn

Í dag var árlegi hjólarúntur Sturlunga. Algerlega frábært veður og meira að segja hlýr vindur á Suðurstrandarveginum. 

Þessi mynd er ekki síðan í dag en vegna þess hvað hún er flott tók Unnur Magna ljósmyndari hana ábyggilega.




Öll komu heil heim

föstudagur, júní 14, 2024

Fleiri orðapælingar

Við tölum um stuttbuxur og stuttermaboli. Hvers vegna er ekki samræmi í því? Hvers vegna notum við ekki orðin stuttbolur eða stuttskálmabuxur?

Lífið heil

fimmtudagur, júní 13, 2024

Strandlengjan

Í dag fór ég að velta fyrir mér af hverju við förum ekki niður á strönd á Íslandi. Við erum vissulega með Strandvegi í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Vík, Garðabæ og á Sauðárkrók. Það eru líka Strandgötur í Hafnarfirði, Sandgerði, Neskaupstað, Ólafsfirði, Patreksfirði, Tálknafirði og Eskifirði og á Akureyri, Stokkseyri og Hvammstanga (fleiri?) en tölum við um ströndina? Mér er sagt að Akranesingar fari á ströndina þegar þeir fara niður á Langasand en fara ekki allir hinir Íslendingarnir, hringinn í kringum landið, niður í fjöru? 

Hafa einhverjir Íslendingar farið í fjöruferð á Tene?


Sólarkveðjur, sandur og ajór.

miðvikudagur, júní 12, 2024

Dagurinn hennar mömmu

Mamma á afmæli í dag og auðvitað söng ég fyrir hana. Ég dansaði meira að segja smá en ég dansa fyrir hana á hverju einasta kvöldi svo það var ekki sérstaklega í tilefni dagsins. 

Allt sem mig langar til að skrifa í tilefni dagsins þvælist í höfðinu á mér og ég ætla að láta nægja að óska mömmu innilega til hamingju með daginn sinn.

Fagnið hverju ári og gleðjist með fólkinu ykkar 

þriðjudagur, júní 11, 2024

Skúli Óskarsson

Þegar ég var þriggja ára setti Skúli Óskarsson heimsmet í kraftlyftingum. Hann var frægur og mér fannst hann algerlega æðislegur. Ég átti úrklippubók og safnaði myndum af honum og límdi fallegustu límmiðana mína á blaðsíðurnar. Mér er sagt að ég hafi gengið um með þessa bók og sýnt fólki hana í óspurðum fréttum. Með þessum orðum: “finnst þér hann ekki ógeðslegur?” 

Held ekki að það hafi varla verið mín eigin orð því mér hefur alltaf fundist hann frábær. Sjarmerandi. Fyndinn og myndarlegur en núna er hann fallinn frá. Það hefði verið gaman að hitta hann í eigin persónu en ég hef gert það að lífsreglu að hitta helst ekki átrúnaðargoð mín. Ég kýs að upphefja þau á þann hátt að engin manneskja getur staðið undir því.


Blessuð verði minning Skúla Óskarssonar 

mánudagur, júní 10, 2024

Aphantasia

Það sjá allir hlutina mismunandi fyrir sér en ég gerði alltaf ráð fyrir að það gætu allir séð eitthvað fyrir sér. Ég get ímyndað mér lyktir og hljóð og snertingu og bragð líka. Það getur verið listir nema kannski þegar ég finn bragð af einhverjum mat sem ég er ekki búin að búa til en er viss um að muni smakkast vel. Það gengur ekki alltaf upp en er samt yfirleitt tilraunarinnar virði.

Ég var hins vegar að læra um eitthvað sem heitir aphantasia. Fólk með aphantasíu getur ekki séð hluti á fyrir sér. Það sér ekki mynd af tjaldi og finnur lyktina af grasinu í fortjaldinu eða sér litinn innaní því eða getur fundið fyrir hitanum þegar sólin fer að skína. Það bara vantar. Ef ég væri með aphantasíu myndi ég ekki sjá Blíðu fyrir mér þegar ég hugsa um hana heldur orðið Blíða. Orðið sjálft.

Mér finnst afskaplega erfitt að ímynda mér þetta þrátt fyrir að vera einstaklega góð í að sjá hlutina fyrir mér. Þegar ég reyni að sjá Blíðu fyrir mér sem orðið Blíða sé ég litla nefið á henni stinga sér útum ð-ið eða að naga kommuna yfir í-inu.

Stórmerkilegt alveg.


Lifið heil.

sunnudagur, júní 09, 2024

Loksins mótorhjólaveður

Það komu nokkrir góðir dagar í maí en síðan er búið að vera ansi kalt. Auðvitað er hægt að klæða sig betur en ef eg klæði mig of mikið finnst mér erfitt að hreyfa mig og það er einfaldlega ekki eins gaman og að rúnta um í smá hita. Það þarf ekki að vera sól en helst ekki rigning.

Já. Ég á pollagalla en aftur, það er skemmtilegra að hjóla þegar það er gott veður. Eins og í dag. 

Sem betur fer átti ég erindi á Eyrabakka á opnun sýningarinnar hennar Nínu um Konurnar á Eyrabakka
Mæli með, bæði sýningunni og bókinni.

Góðar stundir.

laugardagur, júní 08, 2024

Innsæi

Í dag fór ég í útskrift hjá frænda mínum. Ég þekki hann ekki mikið en hann er sérlega frambærilegur og ég er þessi gamla frænka sem fylgist með honum á samfélagsmiðlum mömmu hans og kaupi alls konar þegar hann er að safna fyrir keppnisferðalögum. Eins og gamlar frænkur eiga að gera.

Hann hefur mikinn áhuga á Ásatrú og ég hjálpaði honum aðeins með verkefni tengt henni síðasta vetur. Ég var þess vegna búin að ákveða hvaða bók mig langaði til að gefa honum en þegar ég hélt á henni fannst mér hún ekki vera rétta gjöfin. Mér fannst hún alls ekki passa en gat ekki sagt hvers vegna ekki. Hann gæti sótt hana á bókasafn, hún var ábyggilega úrelt, kannski var hann bara spenntur fyrir Ásatrú útaf þessu eina verkefni?

En ef innsæið sagði mér að þessi bók myndi ekki virka hvað ætti ég þá að gefa honum? Skartgrip auðvitað!

Einmitt. Ég hef jafnmikið vit á skartgripum og snákar hafa á skóm. Mér gekk hins vegar ekkert að fá mig ofan af þessari skartgripahugmynd. 
Þannig að ég fór að leita. 
Að skartgrip fyrir 16 ára strák. 
Rökrétt. 

Alls ekki.

Í veislunni í dag spurði föðurbróðir minn útskriftarfrænda minn hvað hann ætlaði að gera í haust. Svarið kom án hiks. Hann langar til að verða gullsmiður.

Innsæi mitt klikkaði ekki í dag

Kannski er vitavörðurinn skyggn?

Hlustið með lifrinni, inn, út, inn, inn, út.

föstudagur, júní 07, 2024

Nýfædd börn

Ég man þegar frændsystkini mín fæddust og mér finnst alls ekki langt síðan. Vitsmunalega veit ég að þau eru öll að verða ansi fullorðin en tilfinningalega eru þau ennþá svo lítil að það er hægt að lyfta þeim og alls ekkert skrítið að stinga uppá að fara í einhvern leik eða lita. Þegar ég hitti þau eru þau fullorðin.

Þrjú frændsystkini eiga núna sín eigin börn sem þýðir d ég er bæði afa- og ömmusystir. Það er magnað.

Nýjasti ættingi minn fæddist síðastliðna nótt, stór, sterkur og sprækur. Velkominn í heiminn elsku frændi.

Lifið heil

fimmtudagur, júní 06, 2024

Geymslur

Hvernig ákveðum við hverju við viljum halda og hvernig ákveðum við hvað er óþarfi?

Vitavörðurinn spyr.

Það virðast allir vera með þetta á hreinu.

Góðar stundir

miðvikudagur, júní 05, 2024

Japönsk orð

Í kvöld fór ég í bíó og sá Snertingu, nýju mynd Baltasars Kormáks eftir samnefndri bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þetta var afskaplega falleg mynd og ég mæli með því að sjá hana. Alls ekki eins sorgleg og ég bjóst við og ég þurfti varla að nóta tissjúin sem ég fór með.

Eitt það merkilegasta við myndina var hversu líkur Tom Hanks mér fannst Egill Ólafsson vera. Aftur og aftur fannst mér ég vera að horfa á Hollywood mynd með Tom Hanks í aðalhlutverki, ekki íslenska mynd. 

Á næstu önn fer ég á námskeið þar sem ég læri að skrifa um menningarafurðir almennilega. Þá geri ég kannski aðra tilraun til skrifa um þessa mynd.

En í kvöld ætla ég að láta að nægja að skrifa um japönsk orð. Eitt sem var minnst á í myndinni var kodokushi, óttinn við að deyja án þess að hafa einhvern hjá sér. Annað orð var hibakusha, fórnarlamb kjarnorkuárásir. 

Ég á mér nokkur uppáhalds japönsk orð sem þýða eitthvað ákveðið en eru ekki til nema sem setningar í öðrum tungumálum. Eitt þeirra er tsundoku. Þau eru fleiri en ég er líka afskaplega þreytt og þyrfti að fletta upp stafsetningunni.

Góðar stundir


þriðjudagur, júní 04, 2024

Vinahópar

Ég hitti gamla vini í gær. Þau eru auðvitað alls ekki gömul, það er bara langt síðan við vorum að hittast reglulega. Daglega er líklega betra orð því í minningunni vorum við alltaf saman.

Vinahópurinn hittist í jarðarför. Ég hef nokkrum sinnum sagt við fólk, og meint það innilega, að ég hefði viljað hitta það við aðrar aðstæður. Jarðarfarir eru einmitt samkomur sem er erfitt að fagna því að vinahópurinn sé samankominn á ný öllum þessum árum seinna.

Ég veit hvers vegna fullorðið fólk hittir vini sína ekki eins oft og unglingar. Við erum að vinna og sinna heimilum og fjölskyldum. Við höfum tekið að okkur alls konar ábyrgðir í vinnu og félagsstörfum sem tæma batteríin þannig að okkur dettur kannski síður í hug að hringja í vin á virku kvöldi og stinga uppá ísbíltúr eða fjöruferð. Við veljum farveginn sem líf okkar flæðir eftir, meðvitað eða ómeðvitað, og þegar við höfum gert það sem við erum að gera nægilega lengi hafa bankarnir slípast til. Straumurinn hefur grafið sig niður og við flæðum sjaldan, jafnvel aldrei, yfir bakkana og búum til litlar sprænur sem við getum leyft okkur að fljóta eftir með gömlum vin eða vinkonu. Ekki nema við skipuleggjum það með fyirvara og höggvum skarð í bakkann til að hleypa okkur úr straumnum eina og eina kvöldstund. 

Stundum er skarðið hoggið fyrir okkur og við sameinumst gömlum vinum eitt síðdegi og syrgjum eitt okkar sem við munum aldrei hitta aftur.

Mig langar til að flæða yfir bakka mína oftar. Helst af öllu vil ég ráða því sjálf, hitta skemmtilegt fólk við gleðilegar aðstæður og upplifa samverustundir sem koma í veg fyrir að ég fari öll aftur í sama farveginn.


Njótið dagsins og farið í bíltúr

mánudagur, júní 03, 2024

Ástarsögufélagið

Ég er einn af stofnmeðlimum Ástarsögufélagsins. Í kvöld hitti ég tvær úr því ágæta félagi og maður lifandi hvað það er margt spennandi á döfinni.

Ég mun án efa skrifa um það á þessa síðu því eitthvað verður vitavörðurinn að hvísla að vindinum. 

Lifið heil

sunnudagur, júní 02, 2024

Lýðræði

Þá er kominn nýr forseti sem ég er viss um að muni standa sig vel. Þau hefðu öll staðið sig með prýði og vissulega hefði forsetaembættið farið uppá annað level í glæsileika ef Ásdís Rán hefði unnið.
Viktor hefði kannski eignast stærri frysti. Kannski góð hugmynd, kannski ekki.




Undanfarnar vikur hef ég oft heyrt að fólki finnist fáránlegt hvað mörgum hafi dottið í hug að bjóða sig fram. Mér finnst það hins vegar frábært.
Það er ekki aðeins aðdáunarvert að fólk hafi hugrekki til að heyja kosningabaráttu í heimi þar sem öllum finnst þeir hafa rétt á að segja hvað sem er - virk í athugasemdum hafa fengið að pikka sig södd undanfarið. Heldur líka hvað lýðræðið er nálægt okkur og öll geta boðið sig fram sem finnst að rödd þeirra eigi að heyrast.

Ég er ekki ósátt við Höllu Tómasdóttur sem forseta, hún er vel máli farin, kemur vel fyrir og er frambærilegur fulltrúi þjóðarinnar en. Það er eitt smá en.
Í lýðræði höfum við öll rödd en er strategískt atkvæði lýðræðislegt? Er lýðræðislegt að kjósa þann sem kannanir sýna að kemur næst þeim frambjóðanda sem þú vilt ekki að verðu forseti? Og hverjir voru spurðir í þessum könnunum? Ég þekki engan sem fékk símtal eða tölvupóst með spurningum um hvern þau hyggðust kjósa. Ég hef verið að gera könnun á því nefnilega, óvísindalega auðvitað og með hreinu slembiúrtaki úr þeim hóp sem ég hitti daglega.

Ég veit það ekki, ég veit ekkert um pólitík, en sýna niðurstöðurnar raunverulegan hug þjóðarinnar?

Þetta eru of margir pólitískar færslur. Dag eftir dag. Þeim verður að linna og ég er því samþykk.

Góðar stundir

Kosninganótt

Ég er ekki að fylgjast með tölunum en er frekar spennt að sjá hver verður forseti þegar ég vakna á morgun. Ekki mikið spennt. Ekki eins og ég eigi afmæli á morgun en smá spennt.

Stundum vildi ég að ég hefði meiri áhuga á pólitík en í sannleika sagt vantar hana í mig. Það er ekkert við stjórnmál sem mér finnst spennandi nema mögulega í sjónvarpsþáttum þar sem er búið að slípa og pússa og þjappa alls konar málum í hálftíma langan úrdrátt. Stjórnmálasaga er líka ágæt, þegar það er hægt að lesa um atburði á nokkrum blaðsíðum sem var marga mánuði eða ár að raungerast.

Það er á svona kvöldum, þegar ég ætti að vera vakandi og spennt, sem ég er svo ánægð að hafa hætt í fjölmiðlafræði. Það skiptir mig ekki máli hvenær ég fæ að heyra fréttirnar, það sem gerist gerist.

Megi einhver fambjóðandi vinna.