fimmtudagur, desember 23, 2010

Gleðileg jól öll sömul og vonandi hafið þið það sem allra, allra best um hátíðarnar! :)



Ég bjó til jólakort á netinu áðan sem ég ætla að deila hérna með ykkur í von um að þið brosið eða jafnvel hlæið því það gleður og lengir lífið ;)

Lifið heil og góðar stundir :)

sunnudagur, nóvember 14, 2010

Ég bara á ekki til orð yfir þetta ... fólk sem dansar við kettina sína? Really??



Þið sem hafið verið að benda á mig og hlæja að tendensum sem flokkast undir að vera crazy cat-lady, ég er EKKI svona :D

Merkileg nótt í vinnunni og alveg í takt við fólk sem dansar við kettina sína ... og það er ekki einu sinni fullt tungl?


Lifið heil, andlega og líkamlega

laugardagur, október 23, 2010

Þá er ég byrjuð á nýrri törn og nei, ég fékk ekki að fara beint heim á sunnudagsmorgninum eins og ég vonaði heldur varð að vinna aðeins áfram. Merkilegt hvað það er auðvelt að vinna áfram á dagvöktum og kvöldvöktum en erfitt að halda áfram með næturvakt eftir að það er kominn dagur. Verður auðveldara eftir því sem líður á vaktina finnst mér en það er samt alveg ofsalega erfitt og þreytan sem kemur yfir mig er allt önnur eðlis en þreytan sem ég finn fyrir um kvöld eða eftir miðnætti. Skringilegt :)

Talandi um skringilegt þá dreymdi mig um daginn að ég væri með kameldýr og strút í skottinum á bílnum hans pabba en ég fer einmitt á honum þegar ég fer með Prins Kát og Frú Kolku í göngutúra. Kameldýrið var mjög rólegt og yfirvegað og hljóðlátt en strúturinn var alveg afskaplega erfiður og sprettharður og hávær ... svolítið eins og Frú Kolka og Prins Kátur :) en ég hafði aldrei hugsað um þau sem strút og kameldýr þannig að auðvitað fletti ég þessu upp á draumasíðunni en þar er ekkert minnst á strúta heldur bara fugla og páfugla og svo er bara talað um úlfalda ... en þar sem kameldýr er tegund af úlfalda þá gildir það væntanlega að þung byrði verði sett á mig en að ég muni komast vel undan henni ... jahá!

Og til að halda skringilegheitunum áfram þá er hérna ein drómedarafrétt frá Ástralíu sem er frekar skringileg ... einhvern vegin á ég erfitt með að ímynda mér drómedara eða kameldýr (eða einhvers konar úlfalda af tegundirnar eru fleiri??) að missa sig í ástarbríma. Úlfaldar eru einfaldlega ekkert sérstaklega sexý dýr finnst mér.

Góðar stundir

sunnudagur, október 17, 2010

Afhverju ertu að láta yfirmann þinn vera Skeletor í lúgunni?

Jamms, stundum get ég bara ekki svarað spurningum þjónustþega minna. Ekki vegna þess að mig langi ekki til þess heldur hef ég bara ekki hugmynd um hvað fólk er að meina :)

Fimmta næturvaktin og bara rétt rúmur klukkutími eftir, ef ég verð heppin. Gæti dregist eitthvað að komast heim en ég vona vona vona að ég fái að fara þegar vaktin mín klárast og þurfi ekki að vinna "inní" næstu. Kemur í ljós, það eru veikindi ...

Annars var okkur hvolpinum boðið að vera með á björgunarhundaæfingu í dag og við skemmtum okkur alveg konunglega :) Kátur fékk að elta fígúrant (?) og fékk í verðlaun að leika við ókunnuga hundakonu sem gaf honum lifrapylsu og svo fékk hann pylsu hjá öðrum sem var að hvetja hann til að gelta - ekki á hverjum degi sem aumingja kallinum er hrósað fyrir mælsku sína þannig að þetta var alveg frábært í alla staði :)

Við blotnuðum samt ansi mikið þrátt fyrir að hafa ekki verið allan daginn eins og allir hinir því ég leyfði mér nefnilega að sofa aðeins eftir næturvaktina, sem betur fer annars væri ég enn ónýtari núna en ég er. Hvolpurinn varð alveg tvöfaldur af feldbleytu og ég blotnaði í gegn næstum alls staðar þó ég hafi verið mjög vel klædd. Það ringdi hlussudropum, á hlið.

Núna sefur hvolpurinn inní hlýjunni og dreymir lifrapylsu og hundadót en ég er að vinna og hlusta á Skeletor/yfirmanninn semja tónverk á steypuveggina sem umkringja hann ...


Gæti samt auðviað verið verra ;)

föstudagur, október 15, 2010

Og þá hefst fjórða næturvaktin ... og stefnir í færslumet í október :)



Fór að sjá Finnska hestinn í kvöld og mér fannst sýningin alveg frábær :) hló mikið og oft og mæli barasta hiklaust með sýningunni ... sérstaklega fyrir þá sem eru ekki sannfærðir um að allt muni batna og verða gott með inngöngu Íslands í Evrópusambandi. Ódýrara að fara á leikrit en að heimsækja sjávarþorp eða sveitir landa sem verða hlýta öllum tilmælum frá Brussel, sama hve fáránlega þau eru, í enn meiri mæli en við þurfum nú þegar að gera ... en ég ætla ekki að ræða það hér hvað mér er illa við þessa sameinuðu Evrópu, ég verð bara pirruð :D

Ætla ekki að vera pirruð í nótt því þá get ég kannski ekki sofnað á morgun og ég verð að geta sofnað því dagurinn stefnir í að vera rosalega skemmtilegur og þá er ekkert gaman að vera þreytt og úrill ;)

Og til að gleðja mig var ég að rifja upp Madeira :) vorum að ræða vegakerfi hérna í vinnunni og ég mundi eftir jeppaferð sem við fórum í þegar við vorum úti og ég er ekki viss um að mágur minn sé ennþá alveg búin að jafna sig. Hann tók ábyggilega nokkur þúsund myndir þegar við vorum úti en ekki eina einustu í jeppaferðinni því hann sat frosinn frammí og hugsaði líklega um það eitt að lifa af bíltúrinn ekki einhverjar myndatökur ;) Hérna er mótorhjólablogg sem ég fann með myndum af vegunum á eyjunni, ekki eins slæmum og sumum sem við fórum þannig kannski skiljanlegt að Ási var fremur taugaóstyrkur á köflum?

Annars mæli ég með því að skoða bloggið hjá Orson ef þið hafið áhuga á mótorhjólaferðalögum eða ferðalögum alemnnt, hann tekur rosalega flottar myndir ;) Ég er aðeins búin að skoða bloggið (ok, aðallega myndirnar) en ég held að þetta sé bara einn gaur þó hann tali um sig sem Team Orson? Það er alltaf bara mynd af einu hjóli, einum matardisk og engu fólki ... hmmmm ... og bloggarinn virðist eiga fullt af peningum til að ferðast um og leigja mótorhjól útum allan heim.

Já, ég get vel hugsað mér að vera svoleiðis gaur ;)

En áfram til að gleðja þá mæli ég hiklaust með því að þið farið í sleðaferðalag niður brekkurnar í Funchal ef þið komist til Madeira - hérna eru nokkur myndbönd á YouTube af sleðaferðum :)


Lifið heil

fimmtudagur, október 14, 2010

Búin að vera að endurraða aðeins hérna á blogginu mínu, mér þykir of vænt um það til að leyfa því að grotna niður og verða "ónýtt" - kominn tími á viðhald sumsé ;)

Held líka að ég taki bloggið framyfir Facebook því þeir sem koma hingað og lesa hafa væntanlega áhuga á að koma hingað og lesa, þá er ég ekki að ausa persónulegum upplýsingum um mig yfir sakleysingja sem hafa kannski barasta engan áhuga á að vita hvað ég er að gera dagsdaglega ... EÐA hafa mikinn áhuga á því sem ég er að gera dagsdaglega??! Spurning :)

Er á annarri næturvaktinni, hálfu rólegri en síðasta nótt, sem er gott því ég meiddi mig í hnéinu í dag og er alveg draghölt. Finnst ég vera svolítið eins og Daniel Larusso í lokabardaganum þegar hann getur ekki stigið í fótinn þannig að hann gerir það eina í stöðunni, fer í trönustöðuna og vinnur bardagann!
En ekki hvað?! ... ég er að vísu að drepast í hægri fætinum en talandi um trönusparkið þá rakst ég á þessa færslu um hvort sparkið myndi virka í alvörunni eða ekki. Svona fyrir þau ykkar sem hafið áhuga. Ég ætla ekki að nota það í nótt. Sparkið sem sagt.

Annars dreymdi mig alveg rosalega furðulega í dag þegar ég náði loksins að sofna. Ég var í lest eða rosalega löngu húsi að leita að einhverju með manni sem ég þekki ekki en ég var greinilega afskaplega skotin í honum, í draumnum ... veit samt ekki alveg hvað heillaði því ég skildi hann ekki, ekki eitt einasta orð. Hann talaði ungversku eða tyrknesku eða eitthvað og var svona 15 árum yngri en ég og svona lítill og mjór og brothættur. En við vorum sumsé að leita að einhverju og þessi kærasti minn í draumnum átti að vera að hjálpa mér en hann hafði þann leiða ávana að stífla öll klósettin sem við komumst í tæri við þannig að ég varð alltaf að losa stífluna áður en við gátum haldið áfram. Þetta var samt ekkert ógeðslegur draumur því klósettin voru öll afskaplega hrein og fín og það var bara hreinn klósettpappír sem stíflaði þau, ekkert subb nema vatnið sem sullaðist um allt.

Þegar ég vakanði var draumurinn enn að væflast fyrir mér, var svo raunverulegur að ég var ekki viss hvort ég hefði kannski verið að leita að einhverju með manni sem ég skildi ekki þannig að ég gerði það sem ég geri yfirleitt þegar ég man draumana svona vel, ég kíkti á draumasíðuna en það er ekkert skráð undir að leita eða lest eða Ungverji EN það er til lukku að tala við útlending (stendur ekkert að hann þurfi að skilja þig eða þú hann) og ef við vorum í útlöndum (sem mér fannst eiginlega því allt umhverfið svo skringilegt, samanber að mér fannst ég vera í lest), þá verð ég að fara að taka ákvarðanir því ég er í ójafnvægi ... veit samt ekki hvort það gildir þar sem ég var bara í útlöndum en ekki í ferð? En svo að lokum er færsla um salerni:

Að dreyma salerni er fyrir andlegri hreinsun. Salernir [sic] sem flæðir upp úr er merki um að eitthvað sé að angra þig og að þú þurfir að líta í eigin barm og skoða hvað veldur. Sértu að þrífa salerni er merki um að þú þurfir að passa upp á skapið á næstunni.

og þetta getur barasta alveg passað, er þetta ekki nákvæmlega það sem ég var að blogga um síðustu nótt? ég er sumsé ekki berdreymin heldur dreymir mig það sem ég veit nú þegar bara í dularbúningi!

Áhugavert ;)

miðvikudagur, október 13, 2010

Ég er á fyrstu næturvakt af sex í nótt og mig langar ekki sérlega til að vera hérna.

Það er bankamaður í einum klefanum, fullorðinn gaur sem er að drepast úr frekju en kannast bara ekkert við það að hafa nokkurn tímann verið frekur, aldrei barasta. Jájá, ég myndi halda að það flokkaðist undir frekju að gala og berja og heimta og hóta í fleiri klukkutíma en auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér ;)

Svo gæti líka verið að ég sé pirruð á honum vegna þess að ég er svolítið pirruð í nótt? Hann eyminginn getur ekkert gert að því að hann sé óþolandi gerpi sem hagar sér eins og leikskólabarn, það er auðvitað áfengið í honum sem er að tala ... en hann ætti auðvitað að vita betur en að innbyrða það. En þar sem hann hefur ekki vit á því þá á ég að hafa vit á því að leiða hann hjá mér frekar en að pirrast. Get það bara ekki því ég er pirruð.

Ég þoli ekki þegar ég er alveg sannfærð um eitthvað sem er bull, ég þoli ekki þegar ég eigna öðrum tilfinningar án þess að spyrja viðkomandi að því hvort ég sé að eigna honum réttar tilfinningar og verð svo öll pirruð þegar ég (auðvitað!!) hef rangt fyrir mér og ég er leiðrétt, ég þoli ekki þegar ég gríp eitthvað á lofti en fatta svo að því var kastað en hefur ekki vængi (ok, þessi samlíking er ábyggilega aðeins of djúp til að meika sens en ég er að meina þegar einhver segir eitthvað og ég tek því á ákveðin hátt en það var ekki meint þannig, það var ekki "meint" yfir höfuð heldur bara sagt, í rælni, afþvíbara ... og ekkert á bakvið það), hættið að segja hluti sem þið meinið ekki!
Og fyrst ég er byrjuð á tuðinu þá ég þoli ekki að þurfa að bíða, mig langar ekki til að bíða eftir hlutunum, bara alls ekki neitt. Ég er fröken óþolinmóð þó ég láti ekki mikið á því bera alla jafnan. En ég veit líka að það væri ekkert gaman að neinu ef það gerðist allt strax, þá væri heldur ekki hægt að líta yfir farinn veg og dást að því hvað vinna og þrautseigja hefur skilað ef fólk þarf ekki að vinna og sýna þrautseigju til að fá hlutina ...

En ég ætla bara að anda með nefninu áfram og klára vaktina og fara svo heim til Fídels að sofa og vakna örugglega minna pirruð ... verð að minnsta kosti ekki mikið pirraðri ;)


Góðar stundir og spyrjið áður en þið ætlið öðrum ... spyrjið jafnvel ykkur sjálf ef þið eruð ekki viss :)

sunnudagur, október 03, 2010

Ég á við smá vandamál að stríða. Sumir myndu segja, bara eitt? eða bara smá? en ég er bara að tala um eitt tiltekið vandamál í þetta sinn:)
Og það er smá, að minnsta kosti miðað við hvað gengur og gerist ... þó er ég kannski ekki með besta viðmiðið miðað við vandamálin sem ég sé 18 daga í mánuði ... en já, þetta vandamál er ekkert mikið eða merkilegt eða óyfirstíganlegt.

Það tengist þessum 18 dögum í mánuði sem ég er að vinna. Hefur ekkert með vinnuna að gera miklu frekar dauðu stundirnar á milli þess sem ég sinni vinnunni og sit við tölvuna. Þá er ég logguð inn á Facebook og fletti henni stundum svona hingað og þangað, opna einn prófíl og sé að við eigum sameiginlega vini og opna annan prófíl og skoða hitt og þetta og svo er fólk að setja inn myndir og statusa og ... já, ég er svona laumu-stalker fjölda fólks án þess að ætla mér það.

Þetta væri kannski í lagi ef ég væri að kommenta á myndir sem ég skoða hjá fólki en ég geri það afskaplega sjaldan, en ég set oftar "like" á hitt og þetta ... en oftast statusa þannig að ég er hrædd um að fólk líti á mig sem einhvers konar Facebook-fíkil? sem ég er ekki því Facebook er bara ögn skemmtilegri afþreying en að leggja kapal og ég sakna þessi ekki baun á frívöktunum mínum ...

... og ekki að ég haldi að einhver sé í alvöru að eyða tíma í að spá hverjir séu fíklar og hverjir ekki en ætli það séu ekki allir að spá eitthvað í hverjir skoði efnið þeirra? og svo fær fólk eitt "like" frá mér á alls konar statusa sem eru um hitt og þetta. Síðan hitti ég fólk sem ég hef ekki talað við í lengri, lengri tíma og veit eitthvað fáránlega skringilegt um þeirra líf, að einhver hafi klárað að prjóna eitthvað eða skipt um dekk eða lent í einhverju sem ég slysaðist til að sjá því ég var á rólegri vakt daginn sem það gerðist en ég hef ekki hugmynd hvort viðkomandi eigi tvö eða þrjú börn eða hvað þau heita ... ;)

Bara að spá, því það sem ég ætlaði alltaf að blogga um voru hlutir sem ég hefði hugsanlega sett í status á Facebook ef mér hefði ekki þótt það of persónulegt og skrítið að auglýsa svona "opinberlega" en auðvitað er blogg ekkert minna opinbert. Mér bara finnst það ekki eins opinbert því færri lesa bloggið en laumast um á Facebook í skjóli nætur og myndu vita skringilega hluti um mig :)

Góðar stundir

laugardagur, september 25, 2010

Jæja :)

Sumarið var gott :) eins og þau eru yfirleitt er það ekki? sól og hiti og alltaf eitthvað að gerast og til einhvers að hlakka ... en það er líka þannig um vetur, bara ekki eins hlýtt.

Er búin að hugsa um að blogga í fleiri, fleiri daga, jafnvel vikur en núna þegar ég er búin að skrá mig inn man ég ekki eftir neinu? Það kemur alltaf reglulega að ég hugsa "hahaha, ætla að blogga um þetta" eða "einmitt, ég verð að blogga um þetta" en núna ... ekkert. Eins og Kathleen Kelly sem gat aldrei sagt neitt þegar hún lenti í fólki sem móðgaði hana, gat aldrei svarað fyrir sig heldur varð alveg blankó.

Ég er amk á lífi og það er gott. Veturinn virðist ætla að vera mjög spennandi líka, fullt af námskeiðum og verkefnum og meira að segja utanlandsferð. Jújú, ég er aftur að fara til Ungverjalands í nóvember sem forráðamaður lítillar frænku. Geri fastlega ráð fyrir að það verði eins gaman og síðast en hugsanlega eilítið meira taugatrekkjandi því núna er GLÁ ekki bara að fara að æfa heldur að keppa á risastóru alþjóðlegu móti sem þær fimleikastelpurnar horfðu á síðast þegar við fórum. Keppnin verður laugardaginn 27. nóvember og byrjar klukkan 14:00 og þær eru þrjár íslenskar sem verða með. Jamms, spennan er orðin mikil nú þegar :)

... og ég ætla að muna eftir að taka nesti því það er ekkert hægt að kaupa þarna á mótsvæðinu nema skringilegt alls konar sem litlar stelpur borða ekki ... já, stórar stelpur litu sumt hornauga líka en þannig er það stundum ;)


Jújú, hafið það endilega sem allra best.

fimmtudagur, júlí 15, 2010

P.P.Arnold - Angel Of The Morning



Þetta lag er eitt af mínum allra, allra uppáhaldslögum ... búin að hlusta á það margoft í gegnum tíðina og er alltaf til í að hlusta á það aftur.

Sumarið er búið að vera afskaplega gott og það er bara rétt hálfnað, geri fastlega ráð fyrir að það haldi áfram að vera frábært. Vona að fleiri hafi það gott en ég :)

Lifið heil

miðvikudagur, maí 26, 2010

Fjórar vaktir eftir svo sumarfrí. Ég tel þessa vakt sem ég er að vinna ekki með því ég er meira en hálfnuð með hana. Ég ætla ekki að vinna annars staðar í þessu sumarfríi og ég fer til útlanda og ætla í útilegur, þetta verður bara snilld :)

Lillibó skipti um olíusíu og olíu á hjólinu mínu í gær ... ég vildi að ég gæti sagt að ég hafi gert eitthvað sjálf en ég aðallega fylgdist bara með og hélt uppi samræðum. Ok, ég talaði og hann hlustaði, held ég ;) kannski hlustaði hann ekki neitt en ég talaði heilan helling og fylgdist með auðvitað þannig að ég geti gert eitthvað af þessu sjálf á næsta ári ... eða vitað betur hvað hann er að gera þegar hann gerir þetta á næsta ári, aftur :)

Annars er ekki sérlega gott að vera bara notandi á öllum sviðum. Ég nota rafmagn en hef ekki hundsvit á því hvernig það virkar, sama með pípulagnir, ég vil bara að vatnið komi og fari eins og mér hentar og fari þangað sem það á að fara. Hugsa að flestir séu þannig að vísu, við göngum bara að rafmagni og vatni sem gefnu í okkar samfélagi. Ég keyri bílinn minn og mótorhjólið og veit nokkurn vegin hvað er í gangi en samt ekki ... ekki ef ég ætti að útskýra það í einhverjum smáatriðum eða gera við eitthvað sem er ekki nánast algerlega idjótprúff (kælivatn, olía, rúðupiss til dæmis).

Tölvan ... dæs.

Ég þarf kannski að kaupa mér nýja svoleiðis því mín er alltaf að "blue screena" - physical memory dump eitthvað etc. Mér finnst ekkert gaman að vera tölvulaus en mér finnst tölvuvesen enn leiðinlegra. Tölvuvesen er í mínum huga eins og tannvesen og skattaskýrslan. Sem betur fer gerir skásystir mín alltaf skattaskýrsluna mína þannig að ég get sleppt því að hugsa um hana, takk Sara ;) og tannlæknirinn minn er frændi minn og sérfræðingur í barnatannlækningum, hann er svo ljúfur að pabbi sofnaði einu sinni í rótarfyllingu hjá honum - það versta við að fara til hans er að hlusta á það sem er að gerast ;) en tölvur ... dæs.

Og það sem ég kann ekki eða vil ekki lendir alltaf neðst á to-do listanum hjá mér, ég verð að fara að gera eitthvað í þessu. Vildi samt óska að það væri hægt að kaupa tölvur sem bara virkuðu, endalaust. Það væri hægt að fara á netið, sama hvað þú ert mikill illi þá er netið bara í tölvunni og þú þarf bara að ýta á OK eða Yes og tölvan er tengd. Það væri hægt að vera í ritvinnslu og skrifa skjöl sem hægt væri að senda og skoða í öðrum tölvum, hægt að horfa á DVD myndir og skoða ljósmyndir án þess að sækja sér kaffibolla í hvert sinn sem tölvan opnar nýja mynd ... vinnsluhraði? innra minni? hvað sem það heitir, bara að það virki :)

Afhverju er ekki bara búin til tölva sem getur orðið "klassísk", með öllu sem venjulegur notandi þarf á að halda, ekkert fansí, ekkert brothætt eða flókin, ekki uppfærð eða tjúnuð eða með aukahlutum sem 95% notenda notar hvort sem er ekki neitt. Eins og Ural mótorhjólin, þau eru klassísk, þau virka, komast frá A til B og það er hægt að gera við þau með kúbeini, WD40 og teipi.

Mig langar í Ural tölvu.

Góðar stundir

föstudagur, maí 07, 2010

Ég fór í leikhús í gærkvöldi og það var alger snilld, ég hló eiginlega allan tímann og ég get ekki annað en mælt með sýningunni. Ef þið komið því við ættuð þið endilega að kíkja á Gerplu í Þjóðleikhúsinu :)



Sýningin var ekki bara fyndin heldur líka rosalega "gáfuleg" ... búningarnir voru einfaldir en voru um leið fjölbreyttir, allir eins í grunninn þannig að allir gátu verið allt bara með því að setja á sig belti eða vesti eða grímu eða sjal. Búningarnir voru sumsé aukahlutirnir ekki alklæðnaður. Sviðsmyndin var einföld en notuð í allt ... strönd Noregs, ó hvað ég hló :) Já, ef þið komist, farið að sjá Gerplu :)

Næst er það Íslandsklukkan á laugardaginn - Halldór Laxness vika hjá okkur :D

og svo auðvitað Amadou og Mariam næsta miðvikudag, sem minnir mig á það að ég er með einn auka miða á tónleikana ef einhver vill kaupa hann af mér? Ég er handviss um að tónleikarnir verði alveg frábærir og eftir 10 ár verður kominn hópur á Facebook "Ég sá Amadou og Mariam á Listahátíð 2010" ;) ef þið hafið áhuga á að kíkja til Afríku eina kvöldstund verið endilega í bandi!

Góðar stundir

miðvikudagur, maí 05, 2010

Jæja, þá er komið að mánaðarlegu færslunni minni ... nah, ég blogga ekki svo sjaldan? næstum jú, en ekki alveg ;)

Mótorhjólið er komið á götuna og ég er afskaplega ánægð með það, fór í ferð með vinkonu minni í gærmorgun í glampandi sólskini og bongóblíðu. Krýsuvíkurleiðina framhjá Kleifarvatni, Suðurstrandarveginn að Strandakirkju (þar sem við sáum seli!!), á leiðinni til Þorlákshafnar var frábært útsýni yfir á eldgosið. Útsýnið þaðan var líklega betra en nær gosinu því við sáum það rísa uppúr skýjabakka ... ótrúlega flott ;)

Svo var auðvitað komið við í Litlu kaffistofunni á leiðinni heim eftir einn hring um Þorlákshöfn (rosalega eru margar lyktir í þeim bæ!) ;)

Eftir þrjár vikur fer ég í sumarfrí og ég er ekki að fara að vinna annars staðar. Ég verð í fríi í heilan mánuð, verð úti í tvær vikur af þeim tíma og tvær vikur að dóla mér innanlands ... þegar ég kem heim á ég einmitt viku eftir af fríinu og ég er að hugsa um að leggjast út, bókstaflega :)

Sjáum til og kannski set ég inn myndir á eftir af ferðinni í gær, ef þær heppnuðust ...


Lifið heil

miðvikudagur, apríl 07, 2010

Gleðilega páska gott fólk :) ég vona að þið hafið haft það jafngott um helgina og ég?
Ég var óvænt í fríi aaalllllaaaa páskana og kunni það eiginlega ekki ;) alls ekki vön þessu og kann það eiginlega ekki lengur að vera í fríi á sama tíma og allir aðrir :)

... en ég vona að þetta páskahret fari að klárast ... eða taki þetta almennilega út, erfitt að klæða mig rétt þegar ég verð að skafa nokkra sentimetra af snjó af bílnum fyrir sjö á morgnanna og labba út í vor klukkan þrjú á daginn :)

Vona að þið hafið það sem allra, allra best og lifið heil

þriðjudagur, mars 30, 2010




Naaaa ... ég hef ekki ennþá farið að sjá gosið af óviðráðanlegum orsökum en þar sem það er í tísku verð ég að eiga mynd af mér með gosinu er það ekki? Jafnvel að hugsa um að setja myndina sem prófíl mynd á Facebook en það mun væntanlega kosta það að ég þurfi að viðurkenna að ég hafi ekki farið að sjá gosið og að ef vel er að gáð er ég á stuttermabol á myndinni. Þá mun kannski einhver halda að ég sé einn af vitleysingunum sem varð að láta ná í sig vegna vanbúnaðar eða einhverjir sem trúa myndinni mun líða illa yfir að láta Windows Paint plata sig ... sjáum til :)

En ég mun fara að sjá gosið og sjóða mér egg á hrauninu ... kannski spagettí líka? ekki eins grand og Hótel Holt en sniðugt samt að borða heitt nesti á gosstaðnum er það ekki? ;)


Góðar stundir

föstudagur, mars 26, 2010

Heimasíminn er fundinn! :)

Ég er svo þakklát fyrir þetta blessaða eldgos og þegar ég fann símann varð ég enn þakklátari því annars hefði hann ekki fundist fyrr en ... ja, maí?

Síðan eldgosið hófst hef ég ekki heyrt orðið Icesave og þó að umfjöllun um gosið hafi verið fyrsta atriði allra frétta alla vikuna verður það seint þreytt því gosið er alltaf að breytast, færast, aukast, springa og spreyja - allt afskaplega spennandi :)

við vorum að tala um að kíkja á það í byrjun næstu viku, þegar helgarumferðin er búin og áður en næsta helgi byrjar og þegar veðrið er víst betra en það á að vera um helgina? þannig að ég fór að finna til dót og getiði hvað var á milli legghlífanna minna og göngusokkanna? Jú mikið rétt, heimasíminn! :)

Og ég man líka afhverju hann endaði þar :) ég var að tala í símann og það var ógeðslega kalt þannig að ég byrjaði að hita vatn í te og ætlaði að finna mér hlýja sokka til að hafa það kósí. Í því sem ég opnaði skúffuna með hlýju fötunum endaði símatalið og ég skipti símanum út fyrir þykka ullarsokka sem hafa samt ratað aftur í skúffuna án þess að ég hafi orðið símans vör - skemmtilegt ;)


En núna eru komnar reglur varðandi frágang símans og ætlast ég til þess að allir fylgi þeim eftir - sérstaklega Fídel sem er alltaf að blaðra í símann þegar ég er ekki heima ...


Góðar stundir og gleðilegt gos :)

miðvikudagur, mars 03, 2010

Það þýðir ekkert fyrir ykkur að ætla að hringja í heimasímann minn, ég er búin að týna honum. Aftur.

Ég man ekki fyrir mitt litla hvenær ég notaði hann síðast en hef grun um að það hafi verið á síðustu dagvaktartörn sem bakup-vekjaraklukka en hvað hefur orðið af honum eftir það vita himnarnir einir. Þetta hefur komið fyrir áður. Oftar en ég kæri mig um að upplýsa því ég bý ekki í stórri íbúð. Af einhverjum ástæðum legg ég þennan blessaða síma alltaf frá mér nákvæmlega þar sem samtalinu lýkur en fer ekki með hann þangað sem "hann á heima". Núna er hann sumsé batteríslaus og svarar ekki innkalli.

Hann gæti verið hvar sem er. Ég hef fundið hann frammá palli, í vasanum á sloppnum mínum (sem ég nota tvisvar á ári), inní frysti (honum varð ekki meint af ótrúlegt en satt), í sokkaskúffunni, í bókaskápnum, fataskápnum, eldhússkápnum, bakvið rúmið (sem gæti að vísu verið eftir að hafa notað hann sem vekjaraklukku), ofaní föndurkassa og hingað og þangað sem hann á ekkert erindi.

Ef hann finnst (ef ég hef ekki óvart hent honum sumsé) þá verða settar reglur um frágang símans á þessu heimili. Þangað til verðið þið að hringja í gemmsann eða sleppa því auðvitað :)

Lifið heil

mánudagur, mars 01, 2010

Þorrablótið heppnaðist barasta alveg ágætlega :) ég skemmti mér mjög vel og allir sem mættu og ég hef talað við síðan sömuleiðis ... en ef ég tengist þessum undirbúningi aftur á næsta ári á einhvern hátt þá ætla ég að sleppa súrmatnum (öllu nema pungunum, þeir kláruðust) og vera bara með "venjulegan" þorramat. Þessi súrmatur er fáránlega dýr og ég sá ekki að hann hefði vakið mikla lukku á þorrablótinu ... ég borða hann ekki þannig að ég bjó til súpu fyrir mig og þá sem vildu smakka (ég er ekki að kalla annað fólk gikki, bara mig). Það virtust flestir vera mjög hrifnir af þessari súpu og það fór miklu meira af henni en súrmatnum þannig að næst verður súpa og harðfiskur, rúgbrauð, flatkökur, hangikjöt og súrir pungar þannig að það megi kalla þetta þorrablót ;)


annars er það að frétta af mér að ég er orðin hálfopinber bloggari! Ég var nefnilega beðin um að vera með á Eyjubloggi um bíómyndir :) ég fæ að skrifa um rómantískar gamanmyndir því ... já, ég þjáist satt að segja af smávegis skvísuræmnablæti ... en það er ekkert að því þegar einhver er tilbúinn að borga í bíó fyrir mig ;)

ég ætla sumsé í bíó í vikunni en núna er ég að hnoða saman grein um Waitress - hún er ein af nýju uppáhaldsmyndunum mínum. Keri Russel sem ég þoldi ekki sem Felicity brillerar sem kúguð eiginkona sem dreymir um að strjúka að heiman. Hún fattar svo að hún er ólétt (eftir að eiginmannsfíflið hennar fyllti hana eitt kvöldið) og fellur fyrir kvensjúkdómalækninum sínum ... og bakar guðdómlega góðar bökur sem flytja þá sem borða þær á æðra plan og nefnir þær eftir atburðum í lífi sínu, samanber Bad Baby Pie AKA I Don't Want Earl's Baby Pie - þær breyttu nafninu í Bad Baby því það gekk ekki að skrifa hitt nafnið á matseðil dagsins ;)

... og núna er ég búin að skrifa slatta um myndina á tveim mínútum en er búin að vera að rembast við álíka langan texta miklu, miklu lengur á hinum staðnum ... fæ ekki skilið afhverju höfuðið á mér er svona feimið við Eyjuna en frjálst á Blogspot - þetta er nákvæmlega jafnopinberir miðlar!! fyrsta færslan á Bíóeyjunni var um The Proposal og það er varla að ég þekki stílinn hjá sjálfri mér því ég ritskoðaði allt sem ég sagði aftur og aftur og aftur ...

en hvað um það, þið getið fylgst með þessu hérna og ég held að þetta eigi eftir að vera mjög skemmtilegur vefur :)


Góðar stundir


P.S. skvísuræma er sumsé það sama og skvísuskrudda bara um bíómyndir ekki bækur, skvísuskrudda er íslenska orðið fyrir chicklit þannig að skvísuræman er þá íslenska orðið fyrir chickflick??? ég er ábyggilega ekki að búa þetta til en ég hef samt ekki séð þetta ræmu-orð neins staðar? skvísuskruddu-orðið fann ég hins vegar á blogginu hennar Sólrúnar og hún er massaklár þannig að það orð er pottþétt alvöru :)

miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Ég er búin að finna sal eða láta sannfæra mig um að einn ákveðinn salur sé akkúrat réttur fyrir okkur án þess að hafa séð hann sjálf. Ég er búin að panta þorramatinn en þjónustufulltrúinn er ekki búin að hafa samband við mig til að ganga frá greiðslu og afhendingartilhögun. Ég er að setja fólk í að koma með tónlist og græjur og hvetja fólk með tölvupósti til að hafa samband og láta vita af eða á. Ég er búin að finna rétta húsið á tölvutæku korti og gera hring utanum það og setja rautt "X" yfir húsið sem já punktur is segir að sé húsið. Ég sendi slóð á kort með fyrsta tölvupóstinum en var ekki búin að fara í vettvangskönnun og sjá ruglið á Jáinu. Húsið sem þeir merktu við stendur við allt aðra götu og er númer 17 ekki 5 ... það er í sama hverfi en ekki finnst mér það alveg nægilega nákvæmt ;)

Ég er búin að gera innkaupalista og fá lánaðann pott til að sjóða súpuna í. Ég er búin að lausáætla gos og snakkneyslu á haus en ég veit ekki hversu margir hausarnir verða þannig að ennþá er ég ekki búin að versla neitt.


... finnst skyndilega eins og aðeins of margir endar séu lausir til að ég geti bara farið að hlakka til. Ekki auðvelt að vera ferðköntuð meyja stundum en ég hlakka samt til, svona inní mér ;)

kannski væri ég ekkert að hafa áhyggjur af þessu ef ég væri ekki á næturvöktum? of mikill tími til að hugsa og ekki réttur tími til að gera nokkurn skapaðan hlut í neinu nema skrifa lista :)

en gaman hins vegar að vera á næturvöktum þegar það eru ólympíuleikar hinum megin á hnettin, viðstöðulaus útsending frameftir allri nóttinni og skemmtileg tilbreyting frá endursýndum kóreskum bardagamyndum og kínverskum hrollvekjum á stöð 2. Ofsalega fyndist mér blóðugt að borga áskrift af stöð 2, endalausar endursýningar og endalausar auglýsingar inná milli - ef þú borgar fyrir sjónvarpsstöð áttu þá ekki að sleppa við að horfa á auglýsingar í miðjum þáttum? ég skildi það alltaf með Skjá einn því þeir voru með opna ókeypis dagskrá en stöð 2 er bara gráðug, þú borgar 10 þúsund kall á mánuði til að horfa á uppáhalds þættina þína en alltaf þegar þeir eru að komast á flug er gert hlé til að auglýsa það hvernig þú getir borgað fyrir að spara. Ég myndi segja upp áskriftinni ef ég hefði hana, það er frábær leið til að spara hugsa ég ;)


Lifið heil

þriðjudagur, janúar 19, 2010

Ég er að skipuleggja þorrablót ... vitið þið um sal sem er leigður út til þess arna?


... mig vantar þannig :) fyrir laugardagskvöldið 20. febrúar næstkomandi þannig að ef þið vitið um stað, verið í bandi ;)


Góðar stundir

laugardagur, janúar 16, 2010

Alveg er það merkilegt hvað vatnsmelónur eru góðar í alvörunni en vondar sem nammibragð. Afhverju eru framleiðendur yfir höfuð að búa til nammi með vatnsmelónubragði þar sem bragðið er eiginlega ekki til sem bragð heldur áferð? Ég smakkaði vatnsmelónutyggjó um árið og ojbarasta! Og núna var ég að smakka vatnsmelónumentos úr svona rainbowmentospakka og kunni alls ekki að meta það:/

Ég sá regnbogamentosið við kassann í búðinni áðan og þar sem ég er búin að sofa alltof lítið miðað við vakaðan tíma undanfarið og átti heilan vinnu"dag" framundan þá átti ég hann skilið, ég átti hann svo mikið skilið að ég hefði getað keypt tvo :) sem hefði ekki verið sérlega sniðugt því hugmyndin er betri en raunin ... pakkinn er miklu betri vinstra megin þannig byrjið endilega á þeim enda þegar þið kaupið ykkur óvænt regnbogamentos ;)

Alltaf merkilegt hvað gerist þegar heilinn er í hægagangi, ekki í gír sumsé heldur malar í rólegheitunum og ekkert sérstakt er að gerast sem krefst einbeitingar, eins og þegar ég stóð í röðinni við kassann áðan. Það kom einmitt eitt afskaplega skemmtilegt fyrir um daginn þegar heilinn var ekki sérlega virkur. Ég fór með Frekjunni á Ölstofuna í síðustu viku, klukkan var rétt um tíu og það var setið á flestum borðum en ekki öllum. Við vorum að spjalla um hitt og þetta, eins og fólk gerir og útundan mér var ég að fylgjast með hóp af mönnum sem voru að safnast saman nánast við hliðina á borðinu okkar. Þeir voru greinilega samstarfsmenn af einhvers konar tegund og of margir til að rúmast á einu borði allir saman. Þeir stóðu því í hnapp með bjórglösin sín og spjölluðu um einhvers konar torkennilega hluti eins og gröf og mælieiningar og burðarþol ... þeirra málsnið var svo allt, allt annað en mitt að ég hlustaði bara ómeðvitað en heyrði ekki það sem þeir voru að segja, skildi þá sumsé ekki þannig að orðin flæddu bara umhverfis okkur Frekjuna og við héldum spjallinu okkar áfram.


Svo allt í einu sé ég útundan mér þar sem einn maðurinn lyftir upp hægri hendinni og mér finnst hann benda með henni á mig og segja: "sjáið þessa kúrfu hérna" og ég móðgaðist þetta þvílíkt! Ég hvítnaði af hneykslun! Hvernig vogaði hann sér að kalla mig þetta!! Hann þekkir mig ekki neitt og veit ekkert hver ég er! Ég er líka viðskiptavinur á þessum stað og það hefur enginn rétt til að kalla mig ljótum nöfnum!! Hver heldur hann eiginlega að hann sé?!

Svo fattaði ég að ég væri líklega bara búin að vera of mikið í vinnunni undanfarið.

Í vinnunni minni heyri ég nefnilega oft orðið kúrfa nema það er skrifað kurva og sagt á útlensku, það er eina orðið sem ég skil í annars torkennilegum orðaflaumi en ég veit að orðið kurva er niðrandi og ljótt orð og er ósjaldan notað um konur og oft beint sérstaklega til mín ;)

Rosalega fannst mér þetta fyndið þegar ég hafði jafnað mig á hneyksluninni ... og eftir að ég hafði sagt Frekjunni frá misskilninginum (hún sá auðvitað á svipnum að mér var skyndilega ekki skemmt) flissuðum við báðar eins og smástelpur í hvert sinn sem mennirnir notuðu orðið kúrfa :)

Gaman að þessu, en kannski hefðuð þið þurft að vera þarna? ;)


Góðar stundir

fimmtudagur, janúar 07, 2010

Þá er nýja árið byrjað almennilega :)

... og hérna kemur einn góður til að gleðja ykkur - sem finnst svona fyndið ;)

During a recent password audit at a company, it was found that one staff member was using the following password:

"MickeyMinniePlutoHueyLouieDeweyDonaldGoofySacramento"

When asked why the password was so long the reply was that it had to be at least 8 characters long and include at least one capital.



Lifið heil

föstudagur, janúar 01, 2010

Hérna væri viðeigandi að skrifa áramótafærslu, reifa atburði ársins, afrek og vonbrigði, gleðiefni og hryggðarefni, þakka þeim sem eiga þakkir skyldar og hunsa jafnframt þá sem eiga það skilið en ég er ekki týpan í það ... þannig að ég ætla ekki að láta verða af því á þessum mjög svo opinbera vettvangi.

Ég ætla hins vegar að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs með von um að nýja árið færi allt það í skauti sér sem þið hafið lofað ykkur sjálfum :)



Gleðilegt ár :)