mánudagur, janúar 21, 2008

Góðan og blessaðan daginn og gleðilegan mánudag:)

Mér finnst ég ekki sérlega gjörn á að kvarta á þessari síðu, ég vona að minnsta kosti að þetta sé ekki aðallega væl án þess að ég taki eftir því? Núna hins vegar verð ég að væla svolítið því ég er búin að fá hundleið á ... frekju/tillitsleysi/yfirgangi/tilætlunarsemi íslenskra kvikmyndahúsa! Ég fór að sjá Duggholufólkið síðasta laugardag með tveim litlum frænkum. Myndin er fín og ég get alveg mælt með henni svo ég byrji nú á jákvæðu nótunum:) Mér finnst nauðsynlegt að styrkja íslenskar myndir með því að fara á þær þannig að fólk haldi áfram að gera þær og ég er jafnvel alveg tilbúin til að borga aðeins meira til að sjá þær. EN. Það er alltaf eitt EN - í þessu tilfelli aðeins fleiri að vísu:) Fyrsta EN-ið:

- á undan myndinni voru ótextaðar auglýsingar fyrir 7 eða 8 erlendar myndir, aðeins ein auglýsinganna var fyrir barnamynd en hinar voru nokkrar bannaðar börnum. Ein myndanna sem var auglýst var Atonement sem gerist í Seinni heimstyrjöldinni. Hún er bönnuð börnum og hér er listi yfir ástæður, sumar eins og spítalinn er í trailernum. Frænkurnar voru ekkert hræddar enda vorum við að spjalla á með auglýsingarnar runnu sitt skeið, en ég beið með öndina í hálsinum eftir því að það kæmi eitthvað sem ég vil ekki að þær sjái.

- þegar myndin byrjaði var hár á tjaldinu miðju, þvert yfir myndina. Það hvarf í hléinu en fyrra hluta myndarinnar var skipt í tvo helminga, sitthvoru megin með hárið.

- hléið kom rétt á eftir hápunkti myndarinnar, eftir að draugurinn birtist í annað sinn og "means business". En ég er orðin vön hléum þannig að ég ætla ekki að kvarta yfir þeim. Þau eru alltaf illa tímasett en á barnasýningum er í lagi að þau séu því þá er gráupplagt að fara á klósettið og í sjoppuna.

- eftir hlé hélt myndin áfram þar sem frá var horfið. Morguninn eftir nóttina sem draugurinn birtist og í því sem sönnunargagnið birtist á skjánum, sönnunargagnið sem sannar að draugurinn hafi í alvörunni komið um nóttina!!! Þá kveiknuðu ljósin og slökknaði á myndinni!!!! Við urðum að bíða í nokkrar mínútur áður en myndin fór aftur í gang og þá var hún komin framhjá þessu atriði! Ég var að fylla inní eyðurnar fyrir frænkurnar, spinna hluta af sögunni eins og ég hafi alveg vitað hvað kom á milli?? Ef það kemur svona fyrir þá verður í minnsta lagi að spóla aðeins aftur svo við fáum að sjá öll atriði myndarinnar.

- seinni hlutinn var stóráfallalaus og skemmtilegur. Myndin endaði og endatextarnir (hvað heitir þessi texti, allar persónurnar og myndatökuliðið etc. tilgreint?) byrjuðu að rúlla upp skjáinn en ljósin kviknuðu ekki. Það leið og beið og enn var myrkur í salnum en myndin augljóslega búin. Hafið þið farið með börn í bíó? Þau eru alltaf með húfur og vettlinga og úlpur og sum fara úr skónum og missa nammið sitt og það er alls ekkert grín að koma sér út úr bíósal í myrkri. Það var ekki fyrr en allur textinn var búinn og það var einfaldlega ekki til meiri filma að ljósið kviknuðu. Þá var hægt að finna húfur og vettlinga sem lágu á gólfinu í myrkrinu og koma sér útúr salnum, viss um að vera með allt.

Ég er ekki sátt, það hefur yfirleitt verið eitthvað smá klúður í hvert sinn sem ég hef farið í bíó undanfarið (loftljósin loga eftir hlé, texti myndarinnar rúllar með auglýsingunum etc.) en þetta var bara fáránlegt. Blóðugt að borga fyrir þetta, ég er jafnvel að hugsa um að hætta að fara í bíó, bjóða frændsystkinum bara heim og ráða ljósum og myndum alveg sjálf.

Ég er samt alveg búin að jafna mig og ég varð ekkert eins pirruð og ég hlýt að hljóma en skrifa þetta vegna þess að þetta er ... dónaskapur. Ef þið þekkið einhver sem ber ábyrgð á svona hlutum eins og ég útlistaði hérna að ofan má endilega kynna mig fyrir þeim einstakling. Bíóstjórnendur hafa eflaust eitthvað sér til málsbóta og ég vil endilega fá að heyra hvað það er ... en bönnuðu fullorðinsmynda- auglýsingarnar á undan barnamyndinni finnast mér ófyrirgefanlegar, að sýna þær ber aðeins vott um græði kvikmyndahúseigenda.

Virðingafyllst,
Syneta

4 ummæli:

VallaÓsk sagði...

úff það er svo svekkjandi að fara í bíó og lenda í svona vitleysu...finnst extra fáránlegt að sýna úr bönnuðum myndum á undan barnamynd eða reyndar finnst mér fáránlegt að sýna úr bönnuðum myndum á undan öllum myndum sem eru óbannaðar!!!

Nafnlaus sagði...

Alveg sammála, enda eru bíóhúsin að deyja út, akkúrat út af svona klúðrum. Þá er skemmtilegra að vera með dvd, popp og kók held ég.

Gummi

Nafnlaus sagði...

Kreditlistinn?

theddag sagði...

Algjör óþarfi að sýna treilera úr bönnuðum myndum á barnasýningum.