fimmtudagur, apríl 27, 2006

Mér finnst að þeir sem lesa inn á auglýsingar fyrir þætti/myndir/hluti sem heita enskum nöfnum þurfi að æfa framburðinn sinn eilítið ... ég veit að ég er að vera hrokafull því enskan er alls ekkert auðvelt tungumál frekar en nokkuð annað mál sem fólk hefur ekki alist upp við að tala en samt finnst mér að ef auglýsingin er öll á íslensku og bara nafnið er á ensku þá ætti kannski að æfa nafnið sjálft nokkrum sinnum? Ég hlusta stundum á sjónvarp án þess að horfa á það og um daginn var alltaf verið að auglýsa einhverja mynd sem hét, að ég hélt, Failure To Lunch og ég eyddi heilmiklum tíma í að velta þessu fyrir mér, um hvað gæti þessi mynd mögulega verið? fólk sem stóð sig ekki í hádeginu? fólk sem klikkaði á hádegismat? en svo sá ég auglýsinguna og gat lesið hvað myndin hét í alvörunni, Failure To Launch, sem að sjálfsögðu er allt annar tebolli:) sama kom fyrir í kvöld, ég er nokkrum sinnum búin að heyra auglýsingu fyrir nýjan þátt á Skjá einum sem ég hélt að héti One Thread og mér fannst það frekar asnalegt nafn á lögguþætti en svo kom í ljós áðan að þátturinn heitir alls ekkert One Thread heldur Wanted!! :)

en að öðru, Seifur er í heimsókn hjá okkur Fídel þessa vikuna því pabbi hans er í London:) Hann er ábyggilega helmingi stærri en hann var um jólin enda hefur hann fengið mikinn og góðan mat fyrir norðan hjá afa sínum og ömmu og núna er hann orðinn hinn myndarlegasti köttur, meira að segja loppurnar á honum eru stærri og það er lengra á milli eyrnanna á honum - heilinn hefur ábyggilega stækkað við að vera útiköttur:) Seifur kom í gærkvöldi og þeim (kisunum) hefur núna tekist að horfa á hvorn annan í heilan sólarhring, hvorugum hefur tekist að pissa í friði hingað til og þeir eru mjög meðvitaðir um hvað hinn fær að borða og hversu stóran harðfisksbita hinn fékk:)

uppþvottaburstinn minn er orðinn blár, ekki burstinn sjálfur heldur hárin og ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað ég gerði við hann? ég á það til að gera hluti án þess að muna það seinna þannig að ég hef sjálfa mig grunaða um að hafa þrifið málningadós eða eitthvað með burstanum en ég man bara ekkert eftir því núna ... ef burstinn sjálfur væri blár myndi ég gera ráð fyrir að ég hefði keypt nýjan en þetta eru bara hárin:) ... ég henti bláhærða burstanum því ég á fleiri vegna þess að ég mundi að mig vantaði uppþvottabursta þegar ég fór í Bónus um daginn ... ég mundi bara því miður eftir því nokkrum sinnum í röð og keypti bursta í hvert skipti:)

ég fór líka í heimsókn til vinar míns í dag:) mjög skemmtileg heimsókn, ég ætlaði ekki að vera lengi en ég var það samt og ég ætla að fara aftur:) það var líka gaman að hitta eiginkonu hans sem ég er hef heyrt svo mikið um og jafnvel talað við í síma en aldrei séð, alltaf gaman þegar það er komið andlit og persónuleiki við nafn sem ég hef heyrt svo oft:)

ég bakaði súkkulaðiköku áðan fyrir staffakaffi í vinnunni á morgun en samt langar mig til að fá mér bita núna, er rangt að vígja kökur of snemma?:) ég komst líka að því að ég er orðin hálfgerður aumingi því það varð að hræra mjög mikið bæði í deiginu og kreminu og ég er með vott af blöðru á milli litlaputta og lófans ... kannski er þetta merki um að ég sé ekkert sérlega góð húsmóðir fyrst ég fæ blöðrur við að nota einfalt "heimilstæki"?:)

ég ætla að setja inn myndir á myndasíðuna mína bráðum, hún hefur verið í dvala of lengi þó ég hafi alveg verið að taka myndir, mér fannst einhver veginn eins og ég hefði ekki verið að gera neitt undanfarið en það er bara ekki alveg rétt, ég hef bara ekki verið að fara í útilegur og þannig sem er ekkert skrítið því það er vetur:) ég læt vita þegar ég er búin að setja nýjar myndir inn:)

ég kom ekki í fréttunum á EnnEffEss í kvöld þó að það hafi komið myndatökumaður í vinnuna í gær og myndað okkur að störfum, ég hef væntanlega verið klippt út því ég roðnaði meira að segja á handarbökunum þegar myndavélinni var beint að mér:)

... og það spila víst ALLIR póker í Svíþjóð! finnst ykkur ég vera kryptískur bloggari?:)

Með ást og virðingu

Engin ummæli: