miðvikudagur, desember 10, 2003

I’M BACK!!!



Núna geta allir tekið gleði sína aftur... eða réttara sagt núna get ég tekið gleði mína aftur og þið hin sem eruð í prófum getið skemmt ykkur við að lesa nýuppfært blogg þangað til ykkar eru búin:)
Merkilegt að þegar ég er að flýta mér þá finn ég aldrei samstæða sokka, yfirleitt skiptir það engu máli hvort sokkarnir passa saman eður ei vegna þess að ég er í skónum allan daginn en ég er þannig gerð að það fer í mig... einhver brenglun sem ég er viss um að fleiri þjást af en eru ekki jafnhugrakkir og ég, þora þar af leiðandi ekki að viðurkenna það:)
Ég er ekki aðeins hugrökk heldur ætla ég að deila með ykkur kenningunni minni um staka sokka og Öskubuskugenið, auðvitað er ég með kenningu um það! ég er með kenningu um allt sem máli skiptir í mannlegu samfélagi:

Grunnbirtingarmynd Öskubuskugensins er hvarf annars sokksins eftir þvott, þetta er sammannlegt og finnst meðal flestra einstaklinga um allan heim með aðgang að þvottavél... og sokkum. Þú þværð haug af sokkum en endar alltaf með nokkra staka sem passa ekki við neinn annan - margir álíta, ranglega, að þetta sé verk húsálfa eða búálfa en þeir eru aðallega í týndum lyklum, ónýtri mjólk og almennu pirrelsi (öðru en stakir sokkar) við að koma sér úr húsi þegar maður er orðinn of seinn:) en ef þú hefur gert á hlut þeirra lendirðu stundum í því að finna eitthvað í niðurfallinu þínu sem var kannski einu sinni hár og sápa en er núna farið að stofna verkalýsfélag og helsta baráttumál næstu kosninga er að reka þig úr íbúðinni:) hús- og búálfar koma sem sagt hvorki nálægt sokkunum né skónum þínum - ef þú ert farinn að týna öðrum skónum getur vel verið að Öskubuskugenið þitt sé að þróast.
Fólk fæðist með genið á vissu stigi, hjá mörgum stelpum stökkbreytist það á unglingsaldrinum, eins og sjá má á ungum stúlkum sem haltra um miðbæinn á einum hæl seint á laugardagsnóttum vegna skorts á riddurum á hvítum hestum sem myndu bera þær í leigubílaröðina og sjá til þess að þær komist heim heilu og höldnu... hjá strákum hefur þessi stökkbreyting hins títtnefnda gens ekki orðið, eða er ekki eins marktæk og þeir kunna þar af leiðandi ekki að haga sér nálægt Öskubuskum í öngum sínum, komnar úr skónum, sveittar eftir dans og ringlaðar eftir gleði næturinnar, og halda sig fjarri.
Sumir strákar eru hins vegar með fremur þróað gen, þeir eiga eingöngu staka sokka, týna skónum sínum, öðrum eða báðum, og finna hjá sér þörf fyrir riddaramennsku í einhverri mynd, hvort sem þetta er meðfætt, afleiðing stökkbreytingar eða líffræðilegrar þróunar gensins. Þessir kunna að öllum líkindum að haga sér í návist þessara drottninga næturinnar. Einhvern tímann seinna á ævinni kann að vera að þessir drengir óska sér það heitast að eiga "kósí-kvöld" með sinni heittelskuðu og heimta heilalausa stelpubíómynd í tækið... það eru til lyf;)

ég er að fara að borða hreindýrasúpu í brauði:) var ég búin að minnast á hvað er gaman að það skuli vera kaffihús í fjölskyldunni? áður en ég fæ samt hreindýrasúpu verð ég að búa til auglýsingu um að það sé til hreindýrasúpa... er í lagi að hafa mynd af hreindýri á auglýsingunni??? ... sjáum til;)

góðar stundir og megi prófandinn vera ykkur góður

Engin ummæli: