laugardagur, júlí 13, 2024

Hver er maðurinn?

Hvaða maður er á þessari mynd? 
Mér finnst ég eiga að vita það en er búin að leita að myndum af öllum sem mér dettur í hug en þetta er ekki Kafka, Steinn Steinar, Davíð Stefánsson, Grímur Tomsen og … já, ég er búin að googla fleiri en þetta er ekki neinn þeirra.

Veist þú hver þetta er?


Vitavörðurinn kveður.

Dagur tvö - Bakkaflöt á Akureyri

Vindur sem var ekki í kortunum vakti okkur en hjólin voru öll standi. Þau stóðu líka allan daginn um Hofsós, fyrir Tröllaskaga, á meðan við klöppuðum geitum og grísum. Á Siglufirði lögðum við hjólunum í skjóli og borðuðum pizzur áður en við héldum áfram suður í gegnum göng sem gerðu sum okkar drulluskítug. Bara sum hjól og suma galla, sérlega merkilegt.
Ég var með farþega. Sú sem á hjólið sem fór á undan okkur í bæinn. Það gekk ágætlega og það var svo lítið mál fyrir hjólið að bera okkur báðar að ég var sífellt að líta í spegla á til að fullvissa mig um að hún sæti ennþá fyrir aftan mig. Sætið er hins vegar ekki sérlega þægilegt og ekkert sissybar þannig að hún var orðin frekar þreytt þegar við komum á áfangastað þó að ég reyndi að keyra slétt.
Hópurinn fór í kvöldmat á Strikið en við fórum þrjú á Sykurverk og hittumst seinna um kvöldið á Lundabar. Einstakur og skemmtilegur samkomustaður. 

Jájá, þetta bara orðið að ferðasögu. Gaman að því. 
Og ein mynd:


Gunna og grísin.

Það var bíll frá RÚV á staðnum en þó að ég hafi aldrei snert grís áður og grísirnir þrír eltu Gunnu þegar hún var búin að kjassa þá - og þeir smakkað á henni - þótti það ekkert fréttnæmt. 

Aftur er ég fegin að hafa ekki lagt blaðamennskuna fyrir mig. Ég er ekki með neitt fréttanef.

Lifið heil.

föstudagur, júlí 12, 2024

Dagur eitt

Í dag rigndi á okkur. Það blés. Svo komum við í Staðarskála og þar var bara vindur.
Það fór kúpling í Línakradal. Það kom trailer á leið súpur frá Sauðárkróki og náði í hjólið. Við fengum okkur kaffi á North West á meðan við biðum. Ég fékk mér kaffi, Gummi fékk sér eplagos.
Við hjóluðum í andi öflugum kviðum yfir Vatnsskarðið en lentum heilu og höldu á Bakkaflöt og sólin skein.

Góður dagur og margir, margir dagar framundan með frábærum ferðafélögum.









Góðar stundir.

fimmtudagur, júlí 11, 2024

Stóraferðin 2024

Á morgun leggja Skutlur og makar af stað í árlega mótorhjólaferð sem verður að þessu sinni sex nætur.

Við frestuðum brottför um klukkutíma til að vera ekki að leggja af stað í grenjandi rigningu en við munum ekki hjóla norður í þurru á morgun.


Það er alveg ástæða fyrir því að Skutlur eru eini mótorhjólaklúbbur landsins sem hjólar í merktum pollagöllum.

En þetta verður gaman!


Góðar stundir.

miðvikudagur, júlí 10, 2024

Annar frídagur

Í dag fagnaði Lúna þriggja ára afmæli og Birtir, sem er hundur frænda míns, varð fjögurra ára. Lúna var í pössun hjá okkur í nótt og við fórum í langan göngutúr með Blíðu í morgun í tilefni dagsins.
Auðvitað tók ég mynd:

Þær eru viljandi að vera aulalegar á þessari mynd. Getur ekki verið tilviljun að þær séu báðar svo sætar en myndast svona asnalega.

Ég hef aldrei hitt Birti en ég bauðst samt til að passa hann ef þau vantaði aupair fyrir hann - bauð honum sem sagt ekki pössun heima hjá mér. Það yrði allt fokhelt. Blíða er alls ekki hrifin af öðrum hundum þó að hún umberi Lúnu.

Ég hjálpaði líka við að skipta um dekkið á mótorhjólinu mínu. Alltaf að kæra eitthvað nýtt.

Góðar stundir.

þriðjudagur, júlí 09, 2024

Frídagur

Í dag var ég í fríi og ég ætlaði að gera alls konar.

Það tókst ekki og munaði minnstu að ég færi að sofa án þess að blogga. 

Og ég varð að nota freeze streak í fyrsta sinn í Duolingo vegna þess að ég byrjaði ekki á æfingu dagsins fyrr en 23:59.

Ég er algerlega að rúlla þessu fríi upp!
Gleymdu því að ég muni ekki lykilorðin mín. Ég man ekki einu sinni hvar ég vinn!

Hasta mañana.

sunnudagur, júlí 07, 2024

Komin heim …

… eftir algerlega frábæra helgi.

Strax farin að hlakka til næsta árs.

Ljúfa drauma.

laugardagur, júlí 06, 2024

Landsmótið

Var að fatta að ég steingleymdi að blogga í gær. Það var greinilega svo afskaplega gaman á Landsmótinu. 

Það er jafngaman í dag.
Ég blogga bara tvisvar einhvern næstu daga.

Skutlur, mótorhjólaklúbburinn minn, voru að vinna búningakeppnina rétt áðan - við vorum rosalegar! Sérlega áberandi og … eftirminnilegar.

Núna er verið að draga í happdrættinu - Gummi er búinn að vinna tvo vinninga.

Ég bíð spennt!




Lifum fyrir burrið.

fimmtudagur, júlí 04, 2024

Sniglar 40 ára

Í Varmalandi í Borgarfirðinum er verið að fagna 40 ára afmæli Sniglanna á Landsmóti þessa helgi.

Helgin verður frábær, staðurinn er flottur, veðurspáin er góð og það bara þannig að þegar mótorhjólafólk hittist er gaman. 

Fimmtudagar á Landsmóti eru alltaf skemmtilegir og í kvöld er Sniglabandið að spila. Ég tók myndband af stemningunni á dansgólfinu en það er ekki í boði að hlaða því beint upp á þessu síðu þannig að þið fáið bara skjáskot úr myndbandinu.




Passaðu uppá mótorhjólafólk, passaðu mig, líttu tvisvar.

miðvikudagur, júlí 03, 2024

Frí

Það er merkilegt hvað höfuðið fer í frí löngu áður en fríið byrjar.

Ég ætla að leggja mig fram um að gleyma öllum lykilorðum næstu tvær vikurnar. Það er sönnun á að fríið hafi verið nægilega langt. 

Segi ég sjálfri mér.


Góðar stundir.

þriðjudagur, júlí 02, 2024

Umferðamál

Það hafa orðið of mörg slys undanfarið. Óvarlega farið, akstur undir áhrifum og vegakerfið er ekkert sérstakt.

Ég fór samt að velta fyrir mér áðan hvort það sé ekki bara vegna þess að ég þekki fólk sem hefur orðið fyrir áhrifum á ömurlegum slysum? Er ég mögulega farin að vera gömul og líklegri til að bölsótast yfir hlutum sem hafa verið ömurlegir lengi?

Pæling. Ég er ekki viss.

Lifið heil.

mánudagur, júlí 01, 2024

Kosningar

Að hugsa sér að þurfa að kjósa í Bandaríkjunum haustið 2024 og hafa, í augnablikinu, val um glæpamann og mann sem ætti að hafa vit á að draga sig í hlé. 

Ég er á því að það sé betra að taka erfiðar ákvarðanir áður en þær eru teknar fyrir mig. Ég vona til dæmis: 
- að ég hafi vit á að hætta að keyra þegar það er komið gott
- að ég lifi enn svo spennandi lífi að það sé ekki óhuggulegt að taka ákvörðun um að hætta að vinna
- að ég bjóði mig ekki fram í verkefni sem ég mun ekki koma til með að ráða við vegna hópþrýstings eða lélegrar sjálfsþekkingar
- að ég komi til með að þekkja minn vitjunartíma

Líklega er það flókið. 
Ég hef látið hrífast með aðstæðum og samþykkt hluti sem ég hefði ekki gert við aðrar aðstæður. 
Látið undan hópþrýstingi. Það gera það mögulega flestir einhvern tímann en það væri óskandi að leiðtogi heimsálfu hefði vit á að gera það ekki.

Þetta verður eitthvað í haust.

Lifið heil.