Ég fattaði allt í einu áðan að gærdagurinn var ekkert sérstaklega góður þrátt fyrir að ég hafi haldið það í allan gærdag ... þessi fuglasöngur og bjarti himinn um morguninn villti um fyrir mér þannig að ég gerði mér ekki grein fyrir öllu sem gekk á, á meðan á því gekk:)
Dagurinn byrjaði sumsé ágætlega en vinnan var "fjölbreytt" fram að hádegi. Ég þreif klefa, vel og vandlega og í samræmi við það sem hafði gerst í þeim, ég þreif líka klósettin og smá slys sem hafði orðið á einu þeirra. Ég aðstoðaði mann við að setja á sig belti þó það hafi virst nokkuð vonlaust til að byrja með. Beltið náði nefnilega ekki allan hringinn en allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi og með samstilltu átaki tókst þetta hjá okkur ... og ég kýs að tjá mig ekkert frekar um það.
Það var allt tómt um hádegi þannig að ég þreif alla ganga vel og vandlega og sjálfa mig svolítið í leiðinni. Ég er ekkert sérlega fær í beitingu vatnsslangna þannig að ég endaði fremur vot upp að hnjám en allt glampandi hreint og fínt. Eftir hádegi slóraði ég svolítið. Lét það eftir mér að fara í kaffi með bróður mínum og mágkonu því mér fannst ég hafa verið dugleg við þrifin (mig minnir að ég hafi einhvern tímann varpað þessari spurningu fram hér: hvað gerir fangavörður þegar fangana vantar? núna eftir meiri reynslu í starfinu veit ég að fangaverðir þrífa þegar þá vantar og svo mega þeir fara í kaffi:)). Ég fór semsagt í kaffi og fór svo og hitti lögguhundinn Aron. Ég var að klappa Aroni með annarri hendinni og hélt á kaffibolla í hinni.
Aron gelti.
Ég var sem sagt þurr á bakinu þegar ég fór heim í gær en það stóð stutt. Ég fór á æfingu klukkan sex og það er stundum þema, yfirleitt hendur eða fætur. Í gær var takmarkið hins vegar sviti sýndist mér. Þegar kom að síðustu æfingunum var varla hægt að standa því gólfið var orðið rennandi sleipt af svitableytu. Sætt.
En ég fór snemma að sofa og vaknaði fersk í morgun algerlega ómeðvituð um að dagurinn í gær hafi verið nokkuð annað en góður. Þangað til ég fór að hugsa um hann. Það er greinilega ekkert gott að hugsa um liðna daga;)
Lifið heil og í núinu núna:)
þriðjudagur, mars 18, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Nei ekkert að vera að hugsa um liðna daga, leyfum þeim bara að vera góðir fyrst við höldum því fram.
Gott með þig!
Skrifa ummæli