miðvikudagur, september 21, 2005

Geitungatímabilinu 2005 er lokið. Þó það hafi verið lítið spennandi nema undir það síðasta, vegna þess hvað það voru fáir geitungar sem lifðu af einhverja sveppasýkingu, þá er gott að því er lokið ... ég labbaði eftir gangstétt í gær og undir öllum trjánum lágu lík geitunga í fósturstellingunni ... manna-fósturs-stellingu ... ég hef ekki hugmynd um stellingar geitunga í eggjum? koma þeir ekki örugglega úr eggjum annars?
Ætli þeir hafi frosið eða drukknað eða bara dáið því þeirra tími var kominn? Ég er ekki hrifin af geitungum, alls ekki, en það var frekar sorglegt að sjá þá alla liggja þarna í hnipri innan um laufblöðin, ég er alveg búin að jafna mig samt:)

Við erum að mynda Heimskringlu núna í einu blaðinu frá því í september 1914 er að finna eftirfarandi auglýsingu sem myndi að sjálfsögðu misskiljast ef hún kæmi í blaðinu í dag:

SAMKOMA OG HAPPADRÁTTUR
undir umsjón Únítarasafnaðarins
Fimtudagskveldið, 17 September
í samkomusal kyrkjunnar. Samkoman byrjar kl. 8 e.h. Til skemtana verður eftirfylgjandi prógramme:

... svo kemur prógrammið:) ræður og kórar og klassísk tónverk á fiðlur og píanó og orgel etc.
Auglýsingin endar svo á þessum orðum:

Inngangur 50c og þar með fylgir einn dráttur. Komið sem flestir. Skemtidagskrá samkomunnar er fyllilega 50c virði.

Lifið heil

Engin ummæli: