þriðjudagur, apríl 29, 2008

Mér líður eins og það séu að koma jól:)

Ég er nánast algerlega ósofin, er af þeim sökum frekar óglatt og sljó í höfðinu en það er alveg í lagi því ég hlakka svo mikið til morgundagsins og daganna sem á eftir koma:) ég get líka fengið að sofa næstu nætur því ég verð í fríi í vinnunni og væntanlega í algerri afslöppun - væntanlega vegna þess að síðustu nótt í vinnunni var bíómyndin Poseidon á Stöð 2 (Rated PG-13 for intense prolonged sequences of disaster and peril) ... hún er eflaust ekki besta andlega fóðrið fyrir siglingu á skemmtiferðaskipi en ég er með sterk bein og þykkan skráp, jújú:)

Ég næ ekki að klára allt sem stóð til að klára áður en ég færi en mér finnst ég samt hafa komið miklu meira í verk undanfarna daga en ég hefði komið í verk ef ég hefði ekki verið að vinna á næturnar - fyrir utan svefn, þegar ég vinn á daginn geri ég meira af því að sofa en þegar ég er svona á næturvöktum;) það er erfiðara að segja sér að fara að sofa og hvíla sig þegar það er glampandi sólskin og allir vakandi, nánast eins og ég sé að svíkjast um:)

Það stóð til að þrífa almennilega heima hjá mér svo Fídel og passarinn/arnir væru í hreinni íbúð á meðan ég væri úti en það gekk ekki eins vel og til stóð - þá vonandi verður ekki haldið partý heima hjá mér á meðan, ekkert gaman að halda partý í draslaralegri íbúð er það? ... mér finnist samt ekki alltaf vera samhengi á milli þess sem mér finnst um ástandið heima og hvað öðrum finnst, nema náttúrulega að ég þekki bara svona kurteist fólk?:) fólk sem kann ekki við að samsinna mér þegar mér finnst allt líta út eins og eftir sprengjuárás:)

hvað segiði? eruð þið kurteis? eða komið þið aldrei í heimsókn? :)

Góðar stundir

sunnudagur, apríl 27, 2008

Ég held að til að langtíma sambönd gangi upp þurfa þau að samanstanda af tveim einstaklingum (ekki fleirum ef um ræðir ástarsamband á líkamlegu nótunum og ef við erum að tala um aðeins einn einstakling erum við ekki beint að tala um samband í eiginlegum skilningi þess orðs) sem eru eins en ólíkir. Jú, þetta kann að virðast mótsagnarkennt en ég það sem ég er að meina er:

báðir einstaklingarnir borða konfekt/Makkintoss/Appolló lakkrís en annar aðilinn borðar alla góðu molana, hinn alla þá vondu - þá klárast allt að lokum og það verður engin samkeppni um sömu molana

hvorugur einstaklingurinn vill hafa pöddur inni í húsinu sínu en aðeins annar aðilinn drepur þær, hinn hleypur gargandi í burtu og fær hroll uppá hvirfilinn - þá verður húsið pöddulaust en ekki blóðugur bardagi uppá hvor sambandsaðilinn nái að drepa pödduna fyrst

skiljiði hvað ég er að meina?

auðvitað eru fleiri hlutir sem þurfa að ganga upp til að sambönd gangi upp en ég man þá ekki í svipinn ... bæti þeim á listann við tækifæri:)


Góðar stundir

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Gleðilegt sumar:)

Vonandi verður sumarið gott hjá okkur öllum:)

Lifið heil

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Það er ekki langt síðan ég keypti mér dýrt sjampó fyrir dökkhært fólk, ekkert bónussjampó á hundrað kall líterinn heldur alvöru Brilliant Brunette sjampó frá John Frieda - til að vera extra sæt á næstunni.

Það var líka alveg að virka þangað til í gær - í gær eyddi ég meiri pening en fór í sjampóið og litaði hárið á mér ljóst ... er einhver dökkhærð þarna úti sem vill vera sæt á næstunni?

Afsakið blondínur, þið þurfið ekkert svona sjampó til að vera sætar, við erum það nú þegar og sorrý strákar, þetta er stelpusjampó:)

Góðar stundir

laugardagur, apríl 19, 2008

Kominn laugardagur aftur, merkilegt hvað þetta vor ætlar að líða hratt:) yfirleitt þegar eitthvað tilhlökkunarefni er framundan líður tíminn ekki neitt en núna er ég orðin hrædd um að ég nái ekki að gera allt sem ég þarf að gera áður en ég fer út:)

Þrekmeistarinn er í dag og Farandi er að keppa:) ég geri ráð fyrir að Choco Bomburnar rúlli þessu upp og standi sig með prýði, allir að hugsa armbeygjur og uppstig milli eitt og tvö í dag og senda straumana norður á Akureyri:)

Fór í svona dinner'n a show í gærkvöldi, frumsýningu kvöldið áður, út að borða með hinum fangavörðunum á miðvikudaginn, námskeið á þriðjudaginn, fékk Frekjuna í mat á mánudaginn og var í bústað síðustu helgi ... vikan á undan var ekki alveg eins fjölbreytt því ég var að vinna rúmlega 13 tíma vaktir alla vikuna en hún var langt frá því að vera viðburðasnauð ... þegar svo margt hefur gerst og svo margt hægt að segja veit ég ekki á hverju ég á að byrja:)

... hafið þið séð Duel? fyrsta myndin sem Steven Spielberg leikstýrði alveg sjálfur, er það ekki? verð að spyrja Jónas að þessu næst þegar ég hitti hann:) anívei, hún er svona frekar spúkí, maður vs. trukkur og mikið um trukkalúðursblástur og óhuggulegheit. Þegar ég var að labba í vinnuna um daginn, daginn sem trukkabílstjórarnir umkringdu lögreglustöðina, kom einn svona stór vörubíll löturhægt á eftir mér þegar ég var að ganga Snorrabrautina. Trukkurinn var risastór og grár og það sást ekki í ökumanninn en hann lét vita af sér með því að þeyta flautuna sífellt. Ég fór strax að hugsa um Duel og ég fylltist miklum óhug, alveg eins og þegar ég horfði á myndina:) ég var meira að segja farin að hlaupa aðeins við fót til að losna frá honum fyrr - gæsahúð á hnakkanum og allur pakkinn, verð að viðurkenna að ég var barasta slatti hrædd :)

Var þetta ekki skemmtileg saga? ;)

Lifið heil

föstudagur, apríl 11, 2008

Það er tölvuvesen á mér þessa dagana þannig að ég bið fólk vinsamlegast um að sýna biðlund ... þessu verður væntanlega öllu kippt í liðinn um helgina og þá mun ég blogga eins og vindurinn kæru lesendur!

Það eru líka önnur vesen í gangi en engin sem ekki leysast með tímanum og fjúka útí buskann, ég endurtek, eins og vindurinn:)

Lifið heil

sunnudagur, apríl 06, 2008

Þegar ég fór heim úr vinnunni um fimmleytið í morgun var farið að birta - ég hugsa að sumarið sé rétt ókomið:)

og innilega til hamingju Heimir með fréttirnar, þú átt pottþétt eftir að vera mjög góður pabbi:)


Góðar stundir

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Ég vil byrja á að óska Bryndísi innilega til hamingju með daginn:

Innilega til hamingju með afmælið Bryndís mín:)

og strax ætla ég að segja ykkur frá svolitlu öðru, Fídel er svolítill furðufugl. Ég veit þið hugsið, hvurnig getur köttur verið fugl? Hann er auðvitað ekki fiðraður og ég býst ekki við að hann geti flogið, en furðulegur er hann. Það er vatn handa honum um alla íbúðina því hann getur ekki drukkið hvað sem er hvar sem er ... á tímabili síðasta vetur neitaði hann að drekka úr öðru en baðherbergisvaskinum sem var smá vesen. Hann er hættur því núna en það kostaði mikinn grát og gnístan tanna að venja hann af því - minna tanna, hann grét bara - og ég veit ekki einu sinni hvernig hann komst upp á lagið með að fá mig til að setja vatn í vaskinn fyrir hann?

Hérna er hann að drekka úr kertastjökum sem ég var einu sinni með inná baði

Svona kertastjakar virka ekki heima hjá mér því veiðihár eru fara að loga áður en sumir fatta að það er kveikt á kertinu ... en ég lofaði að ræða það ekkert við ókunnuga;)

Núna er Fídel sem sagt með glas hjá matnum sínum, annað við eldhúsvaskinn og eitt við baðherbergisvaskinn. Hann drekkur samt bara í baðherberginu og þá helst úr sturtunni. Ég fór í sturtu i morgun og það var svo kalt að ég opnaði bara rifu til að ná í handklæðið. Ég var að þurrka mér inní sturtuklefanum og hef greinilega verið að slóra of mikið því allt í einu kemur hávært mjálm og loppa innum rifun til að opna hurðina betur:) Þegar ég kem úr sundi situr hann á sturtugólfinu og sleikir upp sundlaugavatnsdropana sem falla af bolnum, ef það liggur eitthvað "í bleyti" í vasknum (eins og þegar eitthvað er fast í potti eftir kærulausa eldamennsku) er það vatn miklu, miklu betra en nokkuð sem var að renna í glasið ... ég veit að ég á ekki að gefa kettinum neitt að drekka sem ég myndi ekki vilja drekka sjálf, en hvað ef hann sækir í það sjálfur? má ég búast við kæru frá Kattavinafélaginu fyrir að vera óvinveitt köttum?

... mér til varnar þá hefur Fídel verið svona alla ævi og ég hef alltaf verið að skamma hann fyrir að haga sér svona en það er ekki hægt að skamma óvita fyrir það sem er í genunum. Ég hef líka ákveðnar skoðanir á því hvernig hlutirnir eigi að vera. Mér finnst til dæmis alls ekkert gott að borða heitt og kalt saman, salat og heitt kjöt til dæmis er bara alls ekkert gott! Pabbi minn er líka frekar sérstakur á stundum, en ofsalega elskulegur:) Hann heyrði til dæmis í fréttunum á mánudaginn að maður hefði verið handtekinn og sæti nú í fangageymslum lögreglunnar. Um kvöldið lét pabbi lét mig vita sérstaklega að það væri glæpamaður í vinnunni minni ... jamms, við fangaverðir hittum stundum glæpamenn í vinnunni okkar;)

Pabbi keyrir smartbíl , hann var að spá í að fara í gær og mótmæla hækkandi olíuverði, smartbíllinn er jú díselbíll. Hann hætti hins vegar við að fara, nokkrar ástæður lágu að baki því. Í fyrsta lagi þá nennti hann ekki út í umferðina, auk þess borgar hann ekkert svo mikið í olíu, bíllinn tekur bara 10 lítra og það endist í rúman mánuð, og besta ástæðan að mínu mati var sú að bíllinn hans lítur út eins og björgunarbátur út frá einhverjum jeppanum:)

Góðar stundir