ég veit ég hef ekki verið dugleg við að blogga undanfarið og ég kenni því alfarið um að núna er febrúar ... og um daginn var janúar og það er erfitt að vera rosalega afkastamikil á öllum sviðum þessa tvo mánuði ársins ... ég hef nefnilega verið afkastamikil á sumum sviðum undanfarið en ekki við að blogga eins og glöggir lesendur hafa væntanlega séð:)
íbúðin mín er myrkvuð núna, ég skrifa þetta við kertaljós, nei, það er að vísu lygi en ég held að 90% af ljósaperunum heima hjá mér séu sprungnar - gerið ráð fyrir viðeigandi skekkjumörkum vegna slakrar kunnáttu minnar í prósentureikningi sem góðviljaðir einstaklingar hafa þó margir reynt að kenna mér ... sú kennsla byrjar yfirleitt á orðunum "sko, þetta er mjög auðvelt ..." þá lokast á mér eyrun og það sem kemur á eftir hefur farið fyrir ofan garð og neðan, aldrei segja "þetta er auðvelt" við mannesku með meinloku:) en, íbúðin mín er sem sagt hrjáð af lýsingarleysi þessa dagana, ekki ljósleysi því jólaljósin heita núna skammdegisljós og eru enn í gluggunum og ekki dissa mig fyrir leti! Þetta eru hvít ljós og ég hef séð þau milljón sinnum í Innlit/Útlit og veit fyrir víst að ég er bara hipp og kúl og flott, íbúðin mín líka:) þau sem sagt gefa birtu en ekki lýsingu, síðustu þrjá, fjóra daga hef ég kveikt ljós og þau hafa horfið þegar peran springur í næstum öllum loftljósum íbúðarinnar ... ég ætla að kaupa perur næst þegar ég fer út í búð en ég hef ekki farið út í búð ennþá þannig að ég hef ekki keypt þær, en á morgun er ég að vinna 8 til 4 og stefnan er tekin á Bónus beint eftir vinnu ... kannski verður aukin lýsing til þess að bloggunum fjölgi? ... kannski verðið þið að bíða þar til vorar eftir daglegum skammti?
Lifið heil og minnið mig á að skrifa um hina djúpvitru speki sem er að finna, ótrúlegt en satt, í kvikmyndinni Con Air:)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli