þriðjudagur, apríl 30, 2024

Duolingo

Ég hef verið að fikta við að nota tungumálaforritið Duolingo í nokkur ár. Ég er með langan lista af tungumálum sem ég hef prufað, nokkrir dagar af finnsku, smá klingonska, smá tímabil á ítölsku og aðeins prufað pólsku og frönsku og þýsku en kann ekki neitt í neinu tungumáli. Lærði að vísu alveg slatta í spænsku og undanfarnar vikur hef ég verið að læra grísku því ég er að fara til Korfú bráðum. Það sem mér finnst merkilegt er hvað orðaforðinn er mismunandi á ólíkum tungumálum. Á pólsku borða hestar epli en á grísku drekka köngulær mjólk. Spánverjar virðast vera sérlega hrifnir af pennum.

Síðan ég náði í forritið hef ég reglulega gleymt því í margar vikur í röð en svo opnað það aftur og haldið áfram.

Síðustu 207 dagana hef ef notað Duolingo á hverjum einasta degi. Ekki misst út einn dag.

Mér finnst það mjög töff, mikil einurð, samviskusemi og dugnaður að gera eitthvað annað en sinna líkamlegum þörfum í rúmt hálft ár!

Ζήστε καλά και να είστε ευτυχιομένοι

mánudagur, apríl 29, 2024

Hversdagsleg heimspeki

Hvað spyrjum við margra spurninga á dag?

Hvað fáum við mörg svör?

Telst þetta sem bloggfærsla?


Góða nótt 

sunnudagur, apríl 28, 2024

Sjálfsævisögur

Síðasta vor skrifaði ég drög að sjálfsævisögu í námskeiði hjá Oddnýju Eir Ævarsdóttur rithöfundi. Þetta námskeið var algerlega frábært og hún er bæði stórkostleg manneskja og kennari. Ég held að ég muni vinna áfram með drögin einn daginn en þegar ég var að skrifa fannst mér alltaf svo skrítið að vera að skrifa um atburðina sem fleiri en ég upplifðu. Mér fannst erfitt að skrifa bara um það sem mér sjálfri fannst án þess að spyrja aðra hver þeirra upplifun hefði verið.

Upplifun allra er mismunandi, skynþröskuldur ólíkur, fyrri reynsla litar það sem við sjáum og heyrum en samt tölum við um raunveruleika. Hver nákvæmlega er raunveruleikinn þegar við notum öll okkar eigin skynfæri til að finna fyrir honum? Er eitthvað til sem er satt, alveg satt og alltaf satt? Getum við notað orð til að lýsa öllu? Þurfum við alltaf að hafa samanburð til að skilja?

Ætti ég kannski að blogga fyrr um daginn til að skrifa skýrari og betri texta?

Lifið heil og hugsið málið 


laugardagur, apríl 27, 2024

Mávur eða máfur

Það má nota bæði f og v til að skrifa orðið. V er algengara en mér finnst f fallegra.

Mér finnast máfar líka fallegir fuglar en þeir eru svo mikil skaðræðis kvikindi að ég viðurkenni það almennt ekki. Mér eins t stundum betra að þegja um ákveðna hluti en að fá yfir mig fyrirlestrinum hvað þetta eða hitt sé grimmt, ömurlegt, hávært eða ógeðslegt.
Ég er sammála eiginlega öllu um máta. Það er eitthvað miskunnarlaust við þá, eigingjarna og hættulegt en á sama tíma finnst mér þeir fallegir, hreinir, sterkir og bjarteygðir.

Þegar ég var lítil gáfu granny og grandad máfunum alltaf afganginn af hádegismatnum. Þau kölluðu einn þeirra alltaf Bossy, risastór fugl sem óð í gegnum fugla þvögu á til að ná bestu bitunum og réðst jafnvel á hina máfana til að koma sér betur fyrir. Máfarnir eru óaðskiljanlegur hluti hljóð-myndarinnar í Lerwick þannig að ég finn bæði fyrir heimþrá og nostalgíu þegar ég heyri þá garga. Hljóð þeirra ylja mér.

Ég var að sjá að ég er ekki eini aðdáandi máfa og söngs þeirra. Kannski fer ég að segja frá ást minni á þessum fuglum? Þessi frétt er svo skemmtileg og hún gladdi mig, það eru haldin Evrópumeistaramót í máfaeftirhermun. Mikið er heimurinn fjölbreyttur.

Hlustið á máfana og hugsið til mín 

föstudagur, apríl 26, 2024

Gulur matur

Mamma og hinar konurnar borðuðu kjúklingasnitsel á Frúarganginum í kvöld, með kartöflum, gulum baunum og bernaissósu. Hún fékk sér ábót sem gerist ekki oft en henni fannst maturinn góður. Þær voru fleiri sem þáðu ábót.

Ég sat hjá henni eins og venjulega en í kvöld velti ég fyrir mér hvort það væri einhver gulur matur sem mér þætti ekki góður.
Gular baunir, snitsel, kartöflur, franskar, melóna, mangó, ananas, kartöflumús, bernaissósa, bananar, grasker, ostur, kornflex, ostapopp, osta snakk, egg, gul epli, jackfruit, pasta og rófur. Allt gott.
Mér dettur ekki fleira í hug.
Ég er ekki hrifin af sítrónum en mjög hrifin af límonaði, sítrónusorbet, sítrónuköku og sítrónunammi. Telst það með?

Ábrystur. Hann er svakalega vondur og mögulega eini guli maturinn sem mér finnst alls ekki góður?

Góðar stundir og gleðilega helgi

fimmtudagur, apríl 25, 2024

Gleðilegt sumar



Við lögðum af stað í morgungönguna á heiðinni með fallegan gulan kastbolta með bandi sem ég keypti í gæludýrabúð. Blíða er ekki með þann bolta á þessari mynd. Hún er með tennisbolta sem hún fann einhvers staðar á leiðinni. Líklega þar sem hún skildi nýja boltann sinn eftir. 
Göngutúrinn var aðeins lengri en venjulega, því bæði er veðrið svakalega gott og það er frídagur, en þegar við komum aftur að bílnum var hún komin með tvo tennisbolta.

Blíða á risastórt boltasafn sem hún hefur vandað sig við að stækka undanfarin ár. Ekki einn einasti þeirra hefur verið keyptur.

Blíða með hluta safnsins


Dásamlegi ljúfi hundurinn minn er sértækur plokkari sem trúir á endurnýtingu.


Góðar stundir og njótið dagsins

sunnudagur, apríl 21, 2024

Sumarplanið

Það kom færsla inn á síðurnar sem ég fylgi á Facebook tengdar náminu mínu í ritlist fyrir nokkrum vikum. 

Og áður en ég held áfram. Já, ég er í námi. Aftur. Nei, ég er ekki búin að læra nóg. Já, þetta er mastersnám og já, ég er í fullri vinnu. Loks, annað nei, ég hef aldrei verið í námi án þess að vera í fullri vinnu en ég er hins vegar á fullu að endurforrita sjálfa mig. Ég er alveg búin að eyða nokkrum sjálfvirkum forritum en þetta með vinnuna er frekar neðarlega í kjarnanum og verður að bíða betri tíma.

Færslan var ein, síðurnar sem koma til greina nokkrar, en ég finn færsluna ekki núna. Mögulega var henni eytt því höfundurinn var óviss um skynsemi þess að blogga? Eða að blogga opinberlega? Færslan var krækja á nýja bloggsíðu og ég las fyrsta og eina póstinn. Mér fannst hann góður og umhugsunarverður. Ég byrjaði sjálf að blogga árið 2003 þegar ég var svo feimin að ég leit varla upp og var ekki viss um að ég hefði nokkuð uppá dekk að gera, hvað þá fram á ritvöllinn. Árið 2024 vinn ég við að tala við ókunnuga og halda fyrirlestra og er langt komin með mastersnám í ritlist.

Ég setti ekki slóð á bloggið mitt, þessa síðu, í athugasemdir við færsluna en hef verið að hugsa um blogg síðan og hef ákveðið að halda áfram. 

Það er svo oft sem ég upplifi eitthvað sem mér finnst skemmtilegt eða spennandi en hef ekki lyst á að setja það á samfélagsmiðla. Mig langar ekki til að orðin mín verði deyfðarskruni (e. doom scrolling) að bráð. 
Nei, það er miklu betra að setja færslu hingað þar sem enginn mun koma til með að lesa. Eins og að vera loksins orðin vitavörður og skrifa fyrir vindinn í staðinn fyrir að yfirgnæfa kliðinn á Lækjartorgi.

Lifið heil og góðar stundir.