föstudagur, apríl 06, 2007

Góðan og blessaðan:)

komið kvöld og föstudagurinn langi ... margt hefur gerst undanfarið þannig að nú verður stiklað á stóru :)

ég er að læra á fullu en ekki alveg, alveg nægilega dugleg ... veðrið er of gott þannig að við Zorró höfum verið að styrkja óbyggða- og fjallaeðlið:) við erum alltaf að verða betri í þessari útivist okkar en það er samt lagt í land stundum, við vorum til að mynda næstum búin að drepa okkur á Vífilfelli í gær :/ það var auðvelt upp í móti, við gengum og gengum þangað til við komumst ekki hærra vegna klaka og harðfennis en höfðum ekki áttað okkur á að harðfenni niður í móti er erfiðara en upp í móti aðallega vegna þess að það er erfitt að komast hjá því að horfa niður á leiðinni niður og brekkan leit illa út skal ég segja ykkur ... en við komumst niður, í einu lagi og við ætlum aftur, alla leið upp um leið og snjóa leysir:)

Zorró dreymdi fjallgönguna í allt gærkvöld og mig dreymdi hana líka í alla nótt en ekki aðeins var fjallið brattara, snjórinn harðari og klakinn beittari heldur var ég með ketilbjöllur í báðum höndum, tvær 12 kílóa ketilbjöllur sem kólnuðu þegar á leið og ég gat ekki notað hanskana mína því þá náði ég engu taki á þeim ... þetta var samt ekki beint martröð því ég vissi að ég kæmist niður þó það tæki mig smá tíma og þolinmæði og viti menn þegar ég kom niður var komið sumar, bláber og krækiber (fyrir mig), kanínur (fyrir hundinn) og lítill lækur (fyrir okkur bæði) :)

ég fór á Vorfagnað Boot Camp síðustu helgi, fyrst í forpartý með hópnum mínum þar sem ég var spurð nokkrum sinnum hvort ég væri í Boot Camp og svo í hvaða hóp ég væri ... ég er greinilega ekki lík sjálfri mér þegar ég sjæna mig til:) enda ekkert skrítið, Olga klippimeistari gerði hárið á mér hrikalega fínt, svona elegant rokkara móhíkani með krullum:) svo var ég máluð og í fínum fötum og ekki sveitt og rauð og másandi:) sjálf átti ég erfitt með að þekkja fólkið í partýinu þannig að í fyrstu reyndi ég að sjá alla fyrir mér sveitta og móða þangað til ég áttaði mig á því hvað það var rangt ... næstum því pervertískt:)

hætti því snarlega og minglaði eins mikið og mögulegt var ... gekk ekki sérlega vel að vísu, mér finnst ég vera frekar vinaleg og þrátt fyrir að vera smávegis kjáni í mannlegum samskiptum stundum þá er yfirleitt alveg hægt að tala við mig, er það ekki? :)

ég þekkti engan í þessu partýi og það var mjög erfitt að spjalla jafnvel þó ég vissi fyrir víst að við þekktum sama fólkið (til dæmis þjálfarana okkar), byggjum yfir svipaðri reynslu (tveggja tíma útiæfingar til dæmis eru reynsla) og hefðum að minnsta kosti eitt sameiginlegt áhugamál (ef þú mætir á árshátíð í líkamsræktinni þinni flokkast líkamsræktin undir áhugamál er það ekki?:)) ... en konur mynda múra utanum hópana sína sem er mjög erfitt að brjóta niður án þess að vera hálfgerður hálfviti og hanga eins og hrægammur í kringum þær - ég er hvorki hrægammur né hálfviti þannig að ég talaði aðallega við strákana en fannst ég vera frekar hallærisleg týpa sem kom til að hössla ... það var alls ekki planið það er bara auðveldara að tala við stráka en stelpur ef þú þekkir engan:) stelpur talið við ókunnugar stelpur þó þið séuð með með vinkonum ykkar, sérstaklega ef ókunnuga stelpan er ég:) og strákar þó að ókunnugar stelpur tali við ykkur þá vilja þær ekki allar raðhús, gasgrill og hund í stíl við sófann - ekki ég allavegana;)

afhverju var ég ókunnuga stelpan í partýinu? mig langaði á árshátíðina og keypti mér miða full tilhlökkunnar:) um það bil viku fyrir vorfagnaðinn fattaði ég að ég þekkti í rauninni engan sem var að fara, ekki nema í sjón og tæknilega væri ég að fara ein án þess að hafa átt í samræðum við neinn um annað en hvað við værum búin að gera margar endurtekningar, að ég væri ekki að deyja þó ég væri að gelta og harðsperrur síðustu æfingu;) ég ákvað samt að fara því mig langaði til þess, ef ég biði eftir því að fá einhvern með mér í allt sem mig langar til að gera myndi ég líklega hafa gert frekar lítið af því sem ég er búin að vera að gera:) ketilbjöllur eru gleðilegasta íþrótt sem ég hef kynnst, boot camp er frábært, vorfagnaðurinn var mjög skemmtilegur ... og ég get ekki beðið eftir sumrinu og mótorhjólaferðunum sem ég er búin að skipuleggja;)

annað í fréttum? ójá ... en klukkan er orðin margt þannig að ég segi bara að útidyrahurðin mín syngur dúett í nýrri VR auglýsingu:) og bróðir minn er kominn heim frá Afganistan:) Lára og Maja eru hrikalega sætar, hæfileikaríkar og skemmtilegar stelpur sem ég hvet alla til að kynnast, samkvæmt 10 ára frænku minni hef ég gott af páskaeggi því ég er hálfgerður krakki og krakkar hafa allir gott af páskaeggjum, ég varð að hafa mig alla við til að vinna sex ára frænda minn í skák, sex ára frænka mín missti af balletsýningunni sinni því hún var með gubbupest en hún tók því af stóískri ró sem ekkert okkar hinna bjó yfir (mér finnst ennþá hrikalegt að hún skuli ekki hafa fengið að vera með í sýningunni sinni - sem við fórum öll á því henni fannst enn leiðinlegra að við skyldum missa af sýningunni en að hún gæti ekki verið með sjálf;)) og níu ára frænka mín var í þriðja sæti á Ármannsmeistaramóti :)

Fídel er búinn að fela páskaeggið mitt og þó ég hafi byrjað að leita í gær er ég engu nær - hann er mjög laumulegur þegar hann vill vera það:)

lifið heil og njótið páskanna;)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló páskaunginn minn!
ég hef oft lent í því að vera ókunnuga stelpan í partíum og mér finnst það ömurlega asnaleg tilfinning. Ég reyni að lúkka kúl og töff en innst inni grenjar litla stelpan "vill enginn leika við mig?" Þetta er sko ekkert auðvelt.
Annarst allt gott hér og við sjáumst nú vonandi fljótlega. Þú ert allavega velkomin í heimsókn/gistingu ef þú hjólar alla leið til Akureyris.

Nafnlaus sagði...

hmmm ég var sko búin að skrifa heljarinnar ræðu hérna lokaði óvart glugganum í staðin fyrir að vista það...kjáni ég!!!
Fannstu páskaeggið eða fann Fídel virkilegan góðan stað??? En alla veganna þá vona ég að þú slappir vel af og lærir smá í páskafríinu - eða það sem eftir er af því!!!! kv, Valgerður

Nafnlaus sagði...

Hejsan tojsan
Ég sá VR-auglýsinguna áðan; var að horfa á Hack - þetta var allt annar þáttur en ég hafði huga (dèja-vu?), en samt... ekkert sem ég hef nennt að setja mig inn í <;)> En auglýsingin, já, dyrnar stóðu sig mjög vel... hreinar og fínar
...eða var það bara PhotoShoppað eftir á?

ankh

theddag sagði...

Þú ert hetja! Það er sko ekki auðvelt að þekkja ekki neinn og hafa engan til að leika við.

Tók eftir hurðinni þinni í gær og sagði frá

og mótorhjól ... mmmmmm