Jæja, rúsínurnar mínar, kominn fimmtudagur:)
Ég er ennþá lasin, lasnari ef eitthvað er. Þetta er flensa ... fór að lesa mér til um pestir á doktor.is og fann muninn á kvefi og flensu, samkvæmt öllu er ég með flensu, ég er því miður bara búin að vera með 39,5°C síðan á þriðjudaginn þannig að ég á enn eftir einn, tvo hitadaga, höfuðverkurinn er búinn að vera svo slæmur að ég er alltaf að láta hnéin snerta ennið bara til að vera viss um að ég sé ekki með heilahimnubólgu, vöðva- og liðverkir ... var að hugsa um að aflima fyrir neðan mitti í nótt:) ég ætlaði að falla á þrekprófi næsta laugardag (falla já, en sjá hvar ég stend sem er gott) en miðað við að slappleiki og þreyta geti varað í 2-3 vikur sýnist mér ég eiga eftir að falla á æfingum næsta hálfan mánuðinn og ég verð líklega með hita á laugardaginn hvort sem er ... ég var með stíflað nef og hágrét þangað til í gærkvöldi en það er batnað núna, ég hnerraði í morgun og mér er illt í hálsinum, þynglsin í brjóstkassa og hóstinn er ekkert grín, það hljómar eins og ég sé að trekkja eitthvað upp í hvert sinn sem ég anda að mér ... það var árleg bólusetning gegn flensu á þriðjudaginn í vinnunni, hjúkrunarkonan kom klukkan eitt en ég fór heim klukkan tólf ... ekki að ég hafi ætlað að fá bólusetningu, ég er með ofnæmi fyrir henni:)
ég veiktist á svipuðum tíma í fyrra ... og mér batnaði í janúar ... nenni því ekki aftur.
ofsalega margt sem ég hef ætlað að blogga um undanfarið en hef ekki haft tíma (ég á nefnilega alveg skilið að vera lasin miðað við svefnleysið, vinnuálagið og stressið undanfarið, en ég hefði kosið að fá kvef í staðinn fyrir flensu;)), þar á meðal er "fatasagan" sem ég hef sagt þó nokkuð oft síðan 28. september, Myrkvunarkvöldið, en ég er steinbúin að gleyma hverjum ég hef sagt hana? Ég fór á Akureyri síðustu helgi í fyrsta sinn á ævinni (ég fór í sund einu sinni þegar ég var 11 ára en man ekkert eftir því þannig að það telst ekki með:)) og skemmti mér konunglega, strákurinn í búðinni bauð okkur góða kvöldið á laugardagsmorguninn en það er ekki annað tímabelti á Akureyri, hann er bara vanur að vinna á kvöldin:) ég fékk að borða á Greifanum, skoðaði MA á sunnudegi, borðaði Brynjuís, fór í Jólahúsið, í Mollið, inná verkstæði SBA, horfði á hluta úr mynd með Meg Ryan sem breytti skoðun minni á saklausu ljóshærðu leikkonunni um aldur og ævi, bjargaði herðatréi, laumaði laumufarþega í kerru, keypti belti, tók myndir, hló upphátt að ölvuðum manni umkringum vinum sínum sem fannst sá ölvaði ekki eins fyndinn og ég, sá heimskasta ökumann Íslands utanvegar á leiðinni heim og skoðaði svo flottustu stofu landsins og þó víðar væri leitað ... hrikalega gaman og ég þakka samferðakonu minni og móttökunefndinni kærlega fyrir mig:) ... en þið vitið að núna á ég eftir að koma aftur?:)
það hefur tekið mig nokkra klukkutíma með hléum að skrifa þessa færslu en samt er hún samhengislaus, illa skrifuð og löðrandi í innsláttarvillum (mér er illt í fingrunum) ... ég vona heitt og innilega að mér hafi ekki tekist að smita neinn af þessum viðbjóði áður en ég veiktist??!!
Farið vel með ykkur öllsömul og verið góð við náungann, kannski viljið þið að hann komi með safa handa ykkur ef þið veikist:)
Lifið heil og hraust
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli