Gleðilegan mánudag litlu rúsínurnar mínar:)
... þetta er búið að vera mjög furðulegur dagur og það er ekki einu sinni komið hádegi ...
Ég heyrði ekki í vekjaraklukkunni og vaknaði við að mamma hringdi í mig. Að fenginni reynslu gengur mér nefnilega ekki alltaf vel að vakna á mánudagsmorgnum og þó ég hafi farið snemma að sofa í gærkvöldi og sleppt fótboltaæfingu til að geta sofið lengur munaði minnstu að ég svæfi yfir mig. Ég þakkaði mömmu kærlega fyrir að hringja, bað hana að hringja aftur eftir fimm mínútur og skellti á hana. Mitt fyrsta verk í morgun var sem sagt að snooza mömmu mína.
Í gær fór ég með litlu frænkur mínar í Smáralindina og útvarpið var ennþá stilllt á Útvarp Latabæ í morgun. Á leiðinni í vinnuna hlustaði ég á Stumpa Disco Extended Remix Version ... lagið hljómar sem sagt eins og Diskó friskó nema þú skiptir "friskó" út fyrir orðið "strumpa", sömuleiðis öllum öðrum orðum sem ekki eru samtengingar, forsetningar eða smáorð ... svo tóku Strumparnir ekki eingöngu sönginn upp heldur líka samræðurnar um hvernig lagið skildi hljóma þegar upptökunni væri lokið. Strumpadiskó hljómar enn í höfðinu á mér og ég skil ekki afhverju ég hafði ekki rænu á að skipta um útvarpsstöð.
Stuttu eftir að ég mætti í vinnuna mætti maður sem ég hef hingað til ekki haft annað sameiginlegt með en að vinna á sama stað. Hann tilkynnti mér að við værum nú orðin tengd eftir uppgötvun hans um helgina. Systir mín er gift manni sem er sonur manns sem er systkinabarn þessa samstarfsfélaga míns og þannig er ég nú tengd ættinni hans í gegnum systur mína. Hann sannaði þessi tengsl fyrir mér með því að sýna mér myndina af systur minni í Klingenbergsættarbókinni. Ég er skyndilega tengd Klingenbergsættinni, geri aðrir betur á mánudagsmorgni í október?
Furðulegheitunum er ekki lokið, ég opna póstinn minn og sé að "Leynilegur aðdáandi" hefur skilið eftir komment á síðunni minni. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim vini, spéfugli og mannvin sem er að þykjast vera aðdáandi minn kærlega fyrir þessa hvítu lygi. Það eykur óneitanlega á sjálfstraustið að ímynda mér að ég eigi leynilegan aðdáanda, sérstaklega í dag. Ég var svo þreytt í gærkvöldi að ég sofnaði með blautt hárið og var of þreytt í morgun til að fatta mistök mín og hárburstunarleysið fyrr en núna rétt í þessu þegar ég gekk framhjá spegli ... á leiðinni úr kaffi.
Lifið heil og verið góð við allt hitt fólkið
mánudagur, október 30, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
skv. tengdapabba minum tha er mjog merkilegt tho ekki se nema tengjast Klingenbergsættinni. Annars fyndid atvik. Se thig alveg fyrir mer:)
ég er líka af Klingenbergsætt... (hvað sem það en þýðir) þannig að þú er líka tengd henni í gegnum mig!
Skrifa ummæli