Ég er að reyna að brenna diska því mér tókst að fylla tölvuna mína:) ... innst inni hélt ég að það væri ekki hægt en mér tókst það nú samt ... og ég kann ekki að brenna diska af einhverjum ástæðum, ég er búin að missa töluna á því hvað ég hef búið til marga diska sem ekki var hægt að spila á nokkru einasta apparati og enduðu sem folfar:)
á morgun er ég að fara að jólaföndrast eftir vinnu með fólki úr vinnunni ... ef ég næ að klára allt hitt sem ég verð að gera á morgun og skiptir líka máli ... þannig að ég er að hugsa um að fara að sofa bráðum, jamms, alveg rétt strax:)
ég var að æfa mig í að búa til fasta fléttu í sjálfa mig áðan, gekk ágætlega held ég barasta ... lítur vel út að framan að minnsta kosti, hef ekki hugmynd um hvernig þetta er að aftan en hún helst uppi þannig að samkvæmt skilgreiningu er hún föst flétta - flétta er afstæð, það eru til brauðfléttur og fléttulistar í pólitík og blómfléttur og flétta í bókmenntum og flétta eitthvað saman eins og nám og vinnu ... afstæð, eins og ég segi, og ef það sem ég er með á höfðinu helst uppi er auðveldlega hægt að kalla það "fasta fléttu" er það ekki? kettirnir hjálpuðu mér auðvitað eins og með allt annað, hvað myndi ég gera án þeirra hjálpar? Fídel rændi teygjunni og lenti í rosalegum slagsmálum við hana undir eldhúsborðinu, hann var að vera viss um að hún væri almennilega dauð þegar ég setti hana í hárið á mér, Fídel er varðköttur:) Seifur náði greiðunni upp eftir nokkrar tilraunir og faldi hana undir mottu, hann var að bæta liðsmanni í einkaher sinn - allt sem er ekki skrúfað fast fær inngöngu, Seifur er stríðsköttur:) ... þeir eru samt greinilega innikettir, Fídel ræðst á skugga, ég hef aldrei hitt hættulegan skugga og Seifur hættir aldrei að reyna að fela vatnið úr vatnsdallinum undir mottunni með einkahernum, vatn er mjög lélegur hermaður nema gegn parketi auðvitað ... kannski eru þeir ekki svo heimskir?
Lifið heil
þriðjudagur, desember 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli