þriðjudagur, desember 20, 2005

Ég er búin að vera að lesa nokkur blogg í morgun um Miss World keppnina meðal annars ... ég er ekki sérlega hlynnt svona keppnum sjálf en auðvitað getur það verið vegna þess að ég hef aldrei komið nálægt fegurðarsamkeppnum í nokkurri mynd, blessaður Fídel hefur ekki einu sinni farið á kattarsýningu, hvorki sem keppandi né áhorfandi:)

Ef ég væri tengdari fegurðarsamkeppnum væri mín milda óbeit ef til vill ekki til staðar? Ég spila til dæmis ekki golf og skil ekki hvernig fólk nennir að eyða heilum og hálfum dögum á vellinum í leit að lítilli kúlu til þess eins að lemja hana aftur með kylfu og hefja leitina að nýju, ég stunda ekki ísklifur og á bágt með að skilja sport sem er ískalt og lífshættulegt, þar sem íþróttamaðurinn veit að ef hann klifrar ekki alveg 100% rétt getur hann lent í sjálfheldu og/eða gríðarlegum vandræðum ... ég er ekki í pólitík og ég sé sjálfa mig ekki fyrir mér á mannamóti við að verja einhvern frambjóðandann með kjafti og klóm því hann er "frambjóðandinn minn!!". En fólk sem er pólitískt veit, sumt, fátt betra.
Ef þú eyðir miklum tíma og orku í eitthvað áhugamál, ef þínar frístundir fara að mestum hluta til í einhvers konar "sport" (saman hvaða nafni þú kýst að nefna það, golf, ísklifur, pólitík, útlit og líkami) verður það óumflýjanlega hluti af þér. Útlit og líkami er auðvitað hluti af þér fræðilega séð en mjög margir nútímamenn eru eins og Hr. Duffyinn hans James Joyce í The Dubliners: "Mr. Duffy lived a short distance from his body" - ekki illa meint en taka ekki flestir panodil við höfuðverk í stað þess að forðast það sem olli höfuðverknum? En þetta er útúrdúr. Þegar einhver skammast eða lítur niður á það sem þú gerir tekurðu því persónulega því það er verið að dissa þig beint.

Rökrétt allt saman, ef þú ert í fegurðarsamkeppni geturðu talað fallega um fegurðarsamkeppnir, ef þú ert í golfi geturðu talað fallega um golf, ef þú ert í eða hefur verið í fegurðarsamkeppni hefurðu eytt nánast öllum þínum frítíma einhvern hluta ævinnar í að undirbúa þig fyrir keppni þannig að ef einhver vogar sér að segja "fegurðarsamkeppnir eru fyrir heimsk bimbó" tekurðu því persónulega og svarar því líklega til að sá sem það segi sé sjálf/ur heimskt bimbó (jamms, karlmenn geta líka verið bimbó) sem er rétt því mælandinn hefur væntanlega aldrei tekið þátt og hefur engar raunverulega forsendur til að dæma alla keppendur heimsk bimbó og keppnina fáránlega - það myndi enginn æfa stöðugt og einbeita sér í 6 mánuði að brosi, göngu, "persónulegu viðhaldi", líkamsrækt etc. án þess að geta sagt eitthvað fallegt um þetta tímabil ... að því gefnu auðvitað að umræddur keppandi komi tiltölulega heill frá keppni?

Ég las pistilinn eftir Gillz á kallarnir.is, hann hefur óverdósað á vítamíni að mínu mati, orðinn of "healthy", reichkinder eiginlega ... alls ekkert að því en ef við myndum festast í lyftu myndum við eiga það eitt sameiginlegt og þyftum líklega að kveikja eld til að hafa eitthvað til að tala um ... 162 komment á færslunni hjá honum,bæði með og á móti, sum kommentin eru slatta fyndin, :

"ég verð nu bara að segja að þetta er hreynasta snild :´D ég þoli þessa helvítis rauðsokka ekki .. ég er nu samt stelpa og á víst að vera sammála en ég meina okei vill þetta fólk frekar að það sé keft um feitasta og ljotasta manneskja í heimi eða ? =/
Inga ! | 17.12.05 - 9:36 pm | #
"

en þetta komment er samt umhugsunarvert ... það er keppt um innri fegurð í Miss World, þessi "innri fegurð" sem JúBí ("My name is Unnur Birna but you can call me JúBí") var að tala um að væri dæmt eftir, afhverju þarftu að vera í sundbol til að sýna hana? Hvernig fólk ber sig, hagar sér og er innan um aðra er allt "mælanlegt" án þess að sundbolir komi við sögu er það ekki? Hefði JúBí ekki verið alveg jafngóð Miss World án þess að koma fram á sundbol? Hvar verður hún að safna peningum á sundbol einum fata? En það er ekki bara sundbolurinn sem pirrar mig við Miss World heldur líka keppnin sjálf:) Hún snýst um að velja árlega fallegustu stelpuna til að safna peningum til góðgerðamála, Beauty for a Purpose er slagorð keppninnar en hvað kostar að halda hana? Væri ekki betra að halda aðeins minni keppni og nota peningana sem fara í húllumhæið til góðgerðamála? Afhverju "Beauty for a Purpose"? Afhverju ekki "Jojo for a Purpose" og jójóarar ferðast um heiminn til að safna til góðgerðamála, það kunna auðvitað allir að meta fegurð en ég held að á heildina litið kunni fleiri að meta góða jójóara en sæta stelpu sem kemur vel fyrir, þó hún komi vel fyrir á sundbol einum fata ... ég hef aldrei skilið fegurðarsamkeppnir ég viðurkenni það, ég hef heldur aldrei skilið golfmót og framboðstilfæringar en eru nægilega margir í heiminum tilbúnir til að láta pening í staðinn fyrir að sjá eða hitta Miss World? Borgar þessi keppni sig? Er hún aðallega sjónvarpsefni? Lifir keppnin á auglýsingunum sem hún framkallar? Stæði hún undir sér án þess að vera risavaxið húllumhæ? Afhverju sætasta stelpan í sundbol? Afhverju ekki sterkasta stelpan? Síðhærðasta stelpan? Stelpan með lengstu neglurnar? Sem allar koma vel fyrir, gáfaðar stelpur, klárar, góðar í samskiptum, skemmtilegar, allt sem Miss World leitar að en með eitthvað annað til brunns að bera en að líta vel út í sundbol ... golf, ísklifur, jójó, pólitík ... til að verða góð/ur í þessu verður fólk að æfa sig, hafa einhvern hæfileika, einbeitingu, innri styrk, þrautseigju ... til að komast á ólympíuleikana eða á þing þarf að æfa sig og þjálfa í mörg, mörg, mörg ár ... ætli ég sé á móti fegurðarsamkeppnum því það er ekki hægt að æfa sig í að vera sæt/ur? Það geta ekki allir verið með sama hvað þeir æfa sig mikið?

Engin ummæli: