föstudagur, október 28, 2005

Þetta er búið að vera mjög fínn dagur þrátt fyrir asnalega mikinn vetur svona allt í einu ... ég fór með nýju skónna mína til skósmiðs því þeir voru ekki ... eins og ég vildi hafa þá ... í laginu? hélt kannski að þeir væru gallaðir en það er ekki neitt að þeim nema að þeir eru nýjir:) þessi yndislegi skósmiður sem ég held að heiti Þráinn? (er með verkstæði sitt á Grettisgötunni, bakvið Spron?) gerði sér lítið fyrir og nuddaði skónna mína frá toppi til táar, brakaði, hnykkti og nuddaði, hægri, vinstri og núna eru skórnir miklu mýkri og meira eins og ég vil hafa þá í laginu:) og þetta kostaði ekki krónu en "ef það er einhvern tímann eitthvað að skónum þínum kemurðu bara með þá hingað" ... þetta kalla ég þjónustulund! það er nefnilega alls ekki sama hvernig þú segir fólki að það sé heimskt:)

... fór og kíkti á Hannes í vinnuna eftir að skó-nuddið, þaðan í Byko sem sendi mig í Brynju sem sendi mig í Litir og föndur til að kaupa ný blöð í hnífinn minn ... Litir og föndur hættuleg búð ... stórhættuleg:( ég fór líka í Leikbæ á Laugaveginum (hélt að Leikbær væri bara í Skeifunni, Mjódd og Firði Hafnarfirði en hann er líka á Laugaveginum!!) og keypti það sem mig vantaði í fimm ára afmælisgjöf á morgun:) þar sem ég þurfti ekki að fara í úthverfi og austur fyrir Rauðará sparaði ég svo mikinn tíma og bensín að ég ákvað að skella mér á kaffihús:) Tíu dropar, rosalega fínt og kósý og gott kaffi og hlýlegt og þægilegt og sjarmerandi og góð þjónusta og einstaklega skemmtilegir eigendur:) amk einn þeirra en hún var ekki að vinna ... ég verð greinilega að fara aftur ... og aftur og aftur;)

annars lenti ég í svolitlu merkilegu í gær. Ég var að labba eftir götu og allt í einu kom veggur af laufblöðum á móti mér. Ég veit ekki hvert þau voru að fara en þau voru á mikilli ferð, vel skipulögð, í þéttum hóp og alveg örugglega orðin of sein. Þar sem ég stóð þarna á miðri gangstéttinnu með hendurnar fyrir augunum, umvafin laufblöðum eins og býflugnabóndi með hunang í vösunum, leið mér skyndilega eins og ég væri í low budget fellibyljabíómynd (fellibyla eða fellibylja? Maja?) það eina sem vantaði voru mennirnir með laufblaðapokana, vindvélar, ljós og myndavélar ... og auðvitað bikiníið, gengur alls ekki að vera skynsamlega klædd eftir veðri í B-myndum ... og ég þyrfti að vera ljóshærðari ... og bikiníið helst rifið ... rosalega er gaman að þykjast vera kvikmyndastjarna þó það sé bara í augnablik og inní sér:)

Lifið heil

miðvikudagur, október 26, 2005

Það er komið meira en vika síðan ég bloggaði síðast og það var ekki sérlega merkilegt blogg, þannig að spurning um að skirfa eitthvað hérna ... hvað hefur gerst síðastliðna viku? ég fékk aðgang til að dánlóda Desperate Housewifes og á núna alla fyrstu seríuna á tölvunni minni og þeir eru ekkert smá skemmtilegir:) ég fór með fólk í versta tilbrigði sögunnar við Gullna hringinn á laugardaginn; nokkrir Íslendingar búnir að bjóða heilum haug af útlenskum bissnessmönnum til landsins í von um að þeir myndu kaupa kerfi/tæki/vöru-eitthvað sem þeir eru búnir að sitja sveittir við að forrita/búa til/hanna í marga mánuði. Á föstudaginn var einhver mikil kynning á dæminu, matur og svo áfengi .... þegar útlensku bissnessmennirnir voru komnir í glas tilkynntu þeir Íslendingunum að dótið þeirra væri einfaldlega ekki þess virði að borga fyrir, það var ekki "fullklárað", það vantaði að fínpússa of mörg atriði, þessi kynning virtist alveg óundirbúin og þeim datt ekki í hug að kaupa það "en takk kærlega fyrir að bjóða okkur til Íslands" .... mórallinn var vægast sagt ömurlegur á laugardeginum, þynnka og fýla ... en ég vissi ekki hvað var að fyrr en seint, seint um kvöldið, þegar við vorum búin að keyra í um það bil níu tíma og ég var eiginlega búin að lýsa frati í aftursætisbílstjórana (sem voru ósáttir við hvorn annan og gátu ekki valið leiðina sem ég átti að keyra og sama hvaða leið ég fór var einhver ósáttur) og hópinn þeirra og ákvað að njóta þess bara að vera að rúnta um Ísland á svona gullfallegum degi, blankalogn, Þingvallavatn eins og spegill, sólskin, heiðskírt, gufan á Nesjavöllum steig beint upp í lóðrétt ský ... bara ótrúlega fallegur dagur og ég ákvað að njóta hans og gleyma því að ég var með fullan bíl af fýlupokum:) seinasta stopp var á Geysi, hálftími í kaffi en nei ... tveim tímum seinna kemur hópurinn af barnum! og situr á trúnó alla leiðina í bæinn:) þá fyrst frétti hvað hafði komið uppá og gert alla svona fúla, eins og einn Íslendinganna sagði svo eftirminnilega, þvoglumæltur af drykkju með handlegginn um axlir viðmælandans:

"I am very hurt and dishappy, we didn't plan to have you here yesterday, we have been working very hard for months"

... en ég hélt bílnum á veginum:)

ég er búin að vera að pæla í jólagjöfum líka undanfarið og allir fullorðnir fá heimatilbúnar gjafir frá mér þetta árið, fyrir því eru tvær ástæður, fjárhagslegar og tími, ég er bara í einni 100% vinnu og tveim aukavinnum sem eru ekki reglulegar heldur þegar þörf er á mér sem er alls ekki alltaf. Ég hef sem sagt tíma til að sitja heima hjá mér á kvöldin og um helgar og dunda mér og það er vægast sagt frábært:) ... og ég hef einmitt verið að dunda mér mikið undanfarið:) ... svo fór ég að sjá Edit Piaf og vá!! mæli með því:) ótrúlega góð söngkona og verulega merkilegt að hlusta á lögin hennar á íslensku:) ... held að mér finnist bara frekar gaman að fara í leikhús:) núna er ég að hugsa um að fara á Koddamanninn ... ef þeir eru ennþá að sýna hann?

en eitt það merkilegasta sem ég hef gert undanfarið er að á mánudaginn fór ég til meistara í austrænum læknavísindum:) læknirinn minn jók alltaf verkjalyfjaskammtinn og síðast þegar ég fór sagði hann mér að taka 600 mg af íbufeni þrisvar á dag en mér dettur það bara ekki í hug! þannig að ef ykkur vantar Ibufen þá á ég ennþá lyfseðilinn;) í staðinn pantaði ég tíma hjá meistaranum sem ég hafði heyrt svo góða hluti um því ég er tilbúin til að gera ýmislegt til að koma í veg fyrir að eyðileggja líffæri etc. með því að bryðja verkjalyf ... ég bjóst svo sem við að ég myndi finna eitthvað því gaurinn stakk nálum í mig alla en vá ... þegar tíminn var búinn leið mér eins og ég hefði sofið 12 tíma og væri alveg úthvíld (nema hvað ég sofnaði ekkert hjá honum) og var svo vönkuð að hann varð að minna mig á að borga:/ blóðroðnaði að sjálfsögðu;) svo gekk ég út í sólskinið og leið eins og ég hefði verið vafin inn í mjúkt og hlýtt ský ... ég flissaði í tvo klukkutíma, sólheimaglottið er ennþá til staðar:) ég fer aftur næsta mánudag og ég er með steina í eyrunum sem ég á að nudda nokkrum sinnum á dag, heimavinnan mín:) og ég ætla að vinna hana ... bara um leið og ég get komið við eyrun á mér:)

ætla að koma mér í vinnuna, ég hlakka til, fíllinn er loksins búinn, hann klárðaist í síðustu viku;)

góðar stundir

þriðjudagur, október 18, 2005

Bloggdeyfð í mér þessa dagana, var of lengi netlaus og er ekki búin að fatta að ég er það ekki ... nema á laugardaginn þegar ég ætlaði að blogga en allar síðurnar voru "á tali" ... skil það ekki sjálf þannig að ég ætla ekki að velta því fyrir mér, sérstaklega því það er allt í himnalagi núna:) ... en þar sem ég er í vinnunni og á ekki að vera að blogga þá ætla ég bara að láta enn einn Bush-brandarann fljóta, þó að flestir hafi ábyggilega lesið hann nú þegar:)

Þú ert í Texas. Í Houston nánar tiltekið.
Það ríkir í kringum þig mikið öngþveiti, því á hefur skollið mikill fellibylur og orsakað hræðileg flóð.
Þú ert ljósmyndari, þú vinnur hjá stóru dagblaði og ert í miðju þessarar hryllilegu hringiðu.

Staðan er svo að segja vonlaus.

Þú ert að reyna að taka bestu myndir ferils þíns.
Það er brak úr húsum og fólk allt í kringum þig, fljótandi í vatninu.
Sumir dragast undir og koma ekki aftur upp. Náttúran sleppir lausum eyðileggjandi krafti sínum.

Allt í einu sérðu mann berjast um í vatninu nálægt þér. Hann berst fyrir lífi sínu og reynir á örvæntingarfullan hátt að halda höfðinu upp úr vatninu.
Þegar hann flýtur nær þér finnst þér að þú eigir að kannast við hann.
Það rennur allt í einu upp fyrir þér hver hann er.
Þetta er George W. Bush!
Á sama tíma sérðu að ólgandi vatnið er um það bil að færa hann í kaf... að eilífu.

Þú hefur tvo valmöguleika:
Þú getur bjargað lífi G.W.Bush,
Eða þú getur tekið myndir sem myndu án efa vinna þér inn Pulitzer verðlaun. Myndir, sem sýna dauða valdamesta manns í heiminum í dag.

Svo hér kemur spurningin, og mundu að þú verður að svara henni í fyllstu hreinskilni:


Hvort myndirðu velja hágæða litafilmu
eða klassískan einfaldleikann sem svarthvítar filmur bjóða upp á?


Góðar stundir

fimmtudagur, október 13, 2005

Ég hef SVO gaman af Bush-bröndurum!!:) hérna kemur einn sem ég var að fá sendan í tölvupósti og hló upphátt:)

Donald Rumsfeld is giving the president his daily briefing. He concludes by saying: "Yesterday, 3 Brazilian soldiers were killed."

"OH NO!" the President yells. "That's terrible!"

His staff sits stunned at this display of emotion, nervously watching as the President sits, head in hands.

Finally, the President looks up and asks, "Exactly how many is a brazillion?"


Góðar stundir

þriðjudagur, október 11, 2005

... og hvað haldiði? ég er barasta komin með netið heima ... aftur:) þetta reyndist vera bilun hjá Símanum greinilega því þetta virkar núna því Einarinn talaði við þá í gærkvöldi, aftur:)

Kristófer í Gallerý fisk á afmæli í dag þannig að ég kíkti í kaffi - alltaf gaman að fara í heimsókn og í þetta skiptið var ekkert brotið gler eða neitt kaos þannig að ég drakk bara kaffið og gerði ekkert annað:) svo er ég búin að lofa að mæta aftur 19. desember, 2/11. mars og 29. apríl þegar hinir eiga afmæli:) ... Guðfinna sagðist eiga afmæli 2. mars en fattaði svo að hún ætti afmæli þann 11. :) þetta er greinilega ekki bara ég sem er utan við mig, fólk eins og ég flykkjumst greinilega í fiskbúðina - aumingja þeir:)
Kíkti líka á Svarta kaffi ... pælingar í gangi þessa dagana þannig að hugsanlega mögulega mun ég geta linkað á síðuna þeirra í framtíðinni? ef þau ákveða að þau vilji hafa heimasíðu ... mér finnst það góð hugmynd enda er ég alltaf á netinu og leita að öllu þar fyrst ... hvað gera það margir? smá skoðanakönnun í kommentakerfið, finnst ykkur að kaffihús eigi að vera með heimasíðu? mynduð þið fara á kaffihúsaheimasíðu til að athuga opnunartíma, matseðil, myndir frá staðnum og þannig? bara að tékka á því hvort fleiri hugsa eins og ég ... frekar ósanngjarnt samt að spyrja að þessu á netinu því þeir sem lesa þetta eru væntanlega "net-fólk/verjar":)

aníhú, ég er byrjuð að æfa aftur, gafst upp á því að finna eitthvað "skemmtilegt" í nágrenni við mig þannig að ég fór bara í háskólaræktina aftur, ekkert að því og það er hægt að fara í fullt af "tímum" líka, ekki bara í tækin, vissi það ekki fyrr en ég var búin að kaupa kortið þannig að ég er þokkalega sátt:)

en núna ætla ég að koma mér í vinnuna:)

Lifið heil

föstudagur, október 07, 2005

Góðan og blessaðan:)

ég er enn netlaus heima hjá mér en það er víst ekkert að ... farin að halda að ég sé að ímynda mér netleysið? ... annars fínt að vera netlaus núna, ég sakna þess ekkert sérstaklega lengur:) vissi að þetta væri bara spurning um tíma þangað til ég væri búin að afvenja mig daglegu surfi:) en það er frekar svekkjandi að tala við mismunandi fólk og stofnanir og fá alltaf að heyra að það sé ekkert að ... eins og að fara til læknis með verk í hendinni og fá að heyra að ég sé ekki með hendi eða að það sé ekkert að henni eða að hún hafi aldrei verið til staðar ...

en ég var að fá brandara með tölvupósti sem ég held að sumir sem lesa þetta hafa gaman af?

Gamall maður bjó einn í Þykkvabænum. Hann langaði til þess að stinga upp kartöflugarðinn en það var of mikil erfiðisvinna fyrir hann. Sonur hans, Bubbi, var sá sem hjálpaði honum venjulega en Bubbi sat á Hrauninu.

Gamli sendi honum tölvupóst og sagði honum frá vandræðum sínum:
"Elsku Bubbi minn. Mér líður hálf-illa því það lítur út fyrir að ég geti ekki sett neinar kartöflur niður í garðinn þetta árið. Ég er að verða of gamall til þess að stinga upp beðin. Ef þú værir hérna ætti ég ekki í neinum vandræðum því ég veit að þú mundir stinga upp beðin fyrir mig.
Áttu von á helgarleyfi bráðlega?
Kær kveðja elsku sonur, pabbi."

Eftir örfáa daga, fékk hann svar frá syni sínum:

"Elsku Pabbi Í GUÐANNA BÆNUM EKKI STINGA UPP GARÐINN!
Ég gróf dópið og byssurnar þar!
Þinn Bubbi."

Í birtingu morguninn eftir komu hópar lögregluþjóna frá embætti Ríkislögreglustjóra og Selfosslögreglunni og stungu upp öll beðin, en fundu hvorki dóp né byssur. Þeir báðu gamla manninn afsökunar og hurfu á braut. Sama daginn fékk hann annan tölvupóst frá syninum:

"Elsku pabbi. Við núverandi aðstæður gat ég ekki gert betur.
Þinn elskandi sonur Bubbi."



Lifið heil og góða helgi

þriðjudagur, október 04, 2005

Ég var að vinna alla síðustu helgi og ég er ennþá netlaus heima hjá mér þrátt fyrir að hafa reynt allt sem mér dettur í hug til að tengjast ... það vantar tilfinnanlega tæknigenið í mig:)

Í gær ákvað ég að skipta um kattasandstegund. Ég var með svona sand sem var alveg eins og sandur en samt úr einhvers konar efni sem klessist saman í köggla þegar það blotnar, fræðilega rosalega góð hugmynd en þegar kattasandskassinn er inná baðherbergi er það ekki sérlega góð hugmynd ... sturtan er þarna líka og það subbast alltaf einhver sandur útfyrir kassann ... hvað um það, þetta var bara ekki að virka fyrir mig þannig að ég ákvað að nota gömlu góðu tegundina mína aftur. Þegar ég var búinn að tæma allan sandinn út kassanum fannst mér botninn ekki vera nægilega hreinn (??!!) auðvitað er hann ekki hreinn hreinn því hann er alltaf fullur af sandi og nýlega fullur af sandi sem “bráðnar” þegar hann blotnar ... en mér fannst þetta ekkert ganga að botninn væri ekki hreinn þannig að ég ákvað að þrífa kassann nú almennilega að innan ... eins og fólk gerir? kannski ekki? ... ég var búin að vera að þrífa í nokkrar mínútur þegar ég fattaði að nýr kattasandskassi kostar skít á priki og ég var að skrúbba hann að innan ... kannski gerir fólk ekki þannig? En það var orðið of seint því ég var eiginlega búin ... þegar mér fannst kassinn orðin nægilega hreinn þurrkaði ég hann, setti hann á sinn stað og fyllti hann af sandi... þannig að núna sést botninn ekki frekar en áður

Kettirnir kunnu samt að meta þrifin, þeir fylgdust báðir með því sem ég var að gera af mikilli athygli og þegar kassinn var aftur fullur af sandi skiptust þeir á að prófa nýja sandinn og nota hann eins og á að gera... jamms, hreini kassinn er ekki lengur svo hreinn ... ég er eiginlega fegin því að hafa ekki keypt mér nýjan kassa

Lifið heil