miðvikudagur, apríl 27, 2005

Morgunblaðið, fimmtudagur 5. mars 1987 - bls 2:

Víðtæk leit að dreng á Djúpavogi
Elti heimilshundinn út að Búlandsneshöfn

Á sjötta tug manna leitaði þriggja ára drengs á Djúpavogi í gær, sem hafði villst frá heimili sínu. Hann fannst hrakinn og blautur á gangi í mýrlendi nálægt Búlandsneshöfn laust eftir kl. 20.00 í gærkvöldi.
Að sögn Sigurðar Gíslasonar héraðslögregluþjóns var það um sexleytið í gær, sem strákur hvarf ásamt heimilshundinum. Hann hafði verið að leika sér heima við og móðir hans brugðið sér frá í nokkrar mínútur. Ættingjar hófu þegar leit.stákur virðist hafa farið hratt yfir því hann fannst ekki í næsta nágrenni. Þegar myrkva tók var björgunarsveitin köluð til og bæjarbúar flykktust til leitar.
Strákur fannst tveimur kílómetrum fyrir utan bæinn og hafði þá gengið um þýfið og skorið mýrlendi drykklanga stund. Hann hresstist fljótt þegar heim var komið. Gaf hann þá skýringu á ferðum sínum að hann hefði verið að elta hundinn í vinnuna.


Morgunblaðið, 2. september 1987 – forsíða:

Danmörk:
Þjáðist af tölvuveiki
Kaupmannahöfn, Reuter.

Átján ára gamall Dani varð fyrir skömmu svo hugfanginn af einkatölvunni sinni að hann var fluttur á sjúkrahús með “tölvuveiki”. Frá þessu er skýrt í nýjasta hefti dansks læknatímarits.“Sextán ára gamall eyddi hann allt af 16 klukkustundum á dag fyrir framan tölvuskjáinn. Hann gerðist þögull, skorti frumkvæði og hætti að fara í skólann,” sagði í tímaritinu. “Hann dreymdi meira að segja og hugsaði á tölvumáli. Hann varð svefnfælinn og var lagður inn á geðdeild haldinn sívaxandi kvíða.”
Geðlæknar segja að unglingurinn, sem á tölvusérfræðing að föður, hafi haft tölvuskjáinn sinn í vinastað og litið á fólkið í kringum sig sem vélar.


og mánudaginn 9. janúar 1989 byrjaði Stöð 2 að sýna Santa Barbara á hverjum degi:

Santa Barbara
Í fyrsta sinn í sögu íslensks sjónvarps mun Stöð 2 hefja sýningar á daglegum framhaldsþáttum eða "sápuóperu".

Góðar stundir

Engin ummæli: