þriðjudagur, október 05, 2004

Góða kvöldið:)

orðið frekar langt síðan ég bloggaði síðast, næstum því tvær vikur... og meira en nóg hefur verið að gerast til að blogga um en það hefur svo mikið verið að gerast að ég hef ekki haft tíma til þess:) atburðirnir hafa verið misblogghæfir - það sem er merkilegt fyrir mér er ekki endilega merkilegt fyrir aðra og sumt kemur fólki einfaldlega ekki við:)

helgina eftir að ég bloggaði síðast var brotist inn í bílinn minn á Hallgrímskirkjuplaninu, rúða brotin og dóti stolið - ég þoli ekki fólk stundum!! ég færði bílinn niður á Freyjugötuna á sunnudagskvöldinu og á mánudagsmorgninum var ég að þrífa glerbrotin úr honum þegar mér fór að finnast einhver vera að horfa á mig... þegar ég lít í kringum mig voru tveir gamlir menn að horfa á mig útum stofugluggann sinn á annarri hæð svo ég brosi og vinka en þeir hrista höfuðuð, alveg samtaka með sama ólundarsvipnum eins og þeir hafi verið að æfa sig fyrir framan spegilinn ... ok:) þeir halda áfram að glápa og annar þeirra kallar að hann ætli að hringja á lögguna! ég þykist ekki heyra hvað hann var að segja, brosi og yppti öxlum þannig að kortéri seinna er hann kominn útá stéttina - þó hann hafi ábyggilega haldið rakleiðis út þegar hann sá að ég heyrði ekki í honum því hann var á inniskóm og ekki "alveg" klæddur, hann var í fötum jú, en ekki klæddur samt... ég ætla ekkert nánar útí hvað hann hafði greinilega fengið sér að borða ... á nærbolnum:)
"við ætlum að hringja á lögguna!!" sagði hann og benti á mig og upp í stofugluggann sinn þar sem félaginn sat og hristi höfuðið einn og fullur vandlætingar.
"afhverju ætlið þið að hringja á lögguna?" spurði ég, ekki alveg viss hvað hann var að fara.
"það má ekki bara taka dót úr bílnum svona!!" sagði maðurinn og benti á mig og gangstéttina þar sem bílaþrifefnin, svampar og tuskur sátu í poka og fatan, sem efnin etc. áttu heima í áður, núna full af glerbrotum, lá...
"ég á bílinn," segi ég og brosi, "það var brotist inn í hann og ég er bara að taka stærstu glerbrotin saman..."
"átt ÞÚ bílinn!!!!" frussaði hann.
"já, ....."
"þú mátt ekki leggja hérna!!!" segir hann eins og ég hefði lagt bílnum ofaná verðlaunaða rósarunna sem ég hafði að sjálfsögðu ekki gert, ég var í fullkomlega löglegu bílastæði í almenningseign, ekki fyrir einum eða neinum.
"nú? ég...."
"ÞÚ mátt EKKI leggja hérna" greip maðurinn frammí fyrir mér og var orðinn rauður í framan og benti upp og niður götuna.
"auðvitað má ég leggja hérna, stæðið er ómerkt, ég er ekki fyrir neinum og ég á heima í hverfinu" náði ég að segja því hann var líklega að ná andanum og æsa sig upp í almennilegar svívirðingar.
"BÍLLINN ER FYRIR!!!" æpti hann og benti upp í loftið og niður á stéttina.
"ég veit að hann er langur en ég sé ekki að hann sé fyrir...." byrjaði ég að segja en hann greip aftur frammí fyrir mér.
"mér er ANNNSSSKOTANS SAMA, þessi HELVÍTIS BÍLL ER SSSMMMÁN!!!" orgaði maðurinn og benti í allar áttir samstundis!
Ég var farin að hafa áhyggjur af manngreyinu, hann var gamall og hann var fjólublár og æðarnar í enninu á honum voru orðnar á stærð við eftirsóknarverða veiðiorma sem laxveiðimenn skríða á hnjánum til að finna í kirkjugörðum um miðja nótt í rigningu. Ég var óttaðist að þessi nágranni minn myndi enda í kirkjugarðinum sjálfur miðað við hvað hann var orðinn æstur. Það er hægt að segja margt um bílinn minn en hann er ekki smán... ekki í neinum skilningi, glampandi hreinn, nýbónaður, óryðgaður að vísu með brotna rúðu en það var ekki mér að kenna og tímabundið, ákaflega tímabundið:) Ég gat ekki séð að það væri neitt skammarlegt við bílinn, engin hneisa eða vansæmd að hafa hann í götunni miðað við marga aðra bíla sem er lagt sitthvoru megin við bílinn minn á hverju kvöldi, en þessi maður var greinilega ósammála mér. Maðurinn var augljóslega ósáttur við stærð bílsins en það eru þó nokkrir breyttir "fjallajeppar" sem eiga "heima" í Freyjugötunni, ekkert minni en pallbíllinn minn, og ég ákvað að benta manninum á þá staðreynd.
"það eru margir jeppar hérna í götunni...." byrjaði ég en fékk ekki að halda áfram.
"ÞETTA er EKKI jeppi!! þetta er AMERÍSKT!!" hnussaði maðurinn og benti á bílinn minn með báðum höndum.
Þannig að það var ekki bíllinn heldur uppruni hans sem fór fyrir brjóstið á honum, lítið hægt að gera í því hugsaði ég og ætlaði að halda áfram að týna glerbrotin úr sætunum.
"þetta er ekki fjölskyldubíll... ÞÚ mátt EKKI LEGGJA HÉRNA!!!" sagði hann og potaði í mig því ég var greinilega ekki að veita honum næga athygli. Ég var búin að fá nóg af honum og þrátt fyrir eindæma þolinmæði var ég orðin pirruð. Bíllinn minn var of stór vegna þess að ég á ekki fjölskyldu og hann var fyrir því hann var bandarískur!! Ef ég ætti jafnstóran en breyttan japanskan jeppa og fjölskyldu hefði ég ábyggilega mátt leggja í garðinum hans en ég má ekki leggja bandarískum bíl, fjölskyldulaus í almenningsstæði. Maðurinn var samt of gamall og of geggjaður til að ég nennti að æsa mig þannig að ég sagði einfaldlega:
"bíllinn verður farinn eftir hádegið, ég er að fara með hann á verkstæði"
"ÞÚ mátt EKKI LEGGJA HÉRNA!!" gólaði hann aftur og benti.
"bíllinn er að fara á verkstæði, það er búið að brjótast inn í hann, ég hef orðið fyrir umtalsverðu tjóni og mér dettur ekki í hug að legga bílnum mínum aftur í þessu glæpahverfi" sagði ég eins rólega og ég gat og reyndi að horfa í augun á manninum ... það gekk samt ekki því annað augað var að horfa bílinn minn, hitt á bílinn við hliðina og skyndilega mundi ég eftir skraddaranum úr einhverri norrænni barnabók sem var orðinn rangeygur eftir að hafa horft á eftir nálinni með öðru auganu en á efnið með hinu alla ævi. Maðurinn og skraddarinn voru meira að segja svipað klæddir:) en ég fór ekki að hlæja heldur lét mér nægja að horfa á nefið á manninum, en það var jafn "merkilegt" og maðurinn í heild... ég bjóst við að ég hefði gengið of langt með því að segja að glæpahverfi en hann hætti að benda og sagði ekki neitt, heillengi.
"þú mátt ekki vera með bílinn hérna" sagði hann og snéri sér við. Ég vonaði að hann myndi fara heim til sín en hann labbaði aðeins nokkur skref og snéri sér aftur við til að horfa á mig vinna. Fínt, verði honum að því, hugsaði ég og hélt áfram.
Það var búið að hleypa lofti úr dekkjunum og til að geta keyrt hann burtu varð ég að bæta í þau. Ég var með pumpu sem gengur fyrir 5 voltum (bíla-kveikjara-straumur) og pumpar í dekkin, einstaklega flott tæki en býr til hávaða á meðan það pumpar. Um leið og ég setti það í gang byrjaði maðurinn aftur:
"þú mátt ekki vera með þennan hávaða! Hvað ertu AÐ GERA!! ÞÚ MÁTT EKKI VERA MEÐ ÞENNAN HÁVAÐA!!!" kallaði hann og ég er ekki frá því að fingurnir á honum hafi lengst því hann benti svo ákaft á mig og bílinn og stéttina og himininn og bílinn við hliðina og öll húsin í hverfinu.
"viltu...."
"ÞESSI HÁVAÐI ER ÓÁSÆTTANLEGUR!!!!" æpti hann. Ég veit ekki hvar maðurinn var í allt sumar þegar verið var að gera við allar stéttirnar og það voru gröfur og vörubílar og ég veit ekki hvað allan liðlangan daginn að framleiða tíu sinnum meiri hávaða en litla tækið mitt gaf frá sér. En ég var auðvitað fjölskyldulaus stelpa að búa hávaðan til...
"ég þarf að dæla lofti í dekkin til að geta flutt bílinn," sagði ég, "þú vilt það er það ekki? að bíllinn fari eitthvað annað?"

... ótrúlega pirrandi maður sem hélt áfram að horfa á mig og skammast í mér og röfla og hóta að kalla á lögguna því ég var að setja glerbrot á gangstéttina (nei, ég var með fötu og fór varlega...) þetta er lengri saga en þó orðin nægilega löng, þið getið ímyndað ykkur framhaldið ef ég segi að ég var í tvo tíma að vinna hálftíma vinnu og var næstum búin að troða manninum ofan í fötuna mína... en ég gerði það ekki, ég benti ekki einu sinni og það krafðist viljastyrks!! Þið vitið hvernig það er þegar þið eruð að tala við einhvern og viðmælandi ykkar er með einhver kæk eða talar með hreim, ég sjálf fer alltaf að herma eftir:) en ég benti ekki á manninn ...

ég komst að svolitlu í dag varðandi íslenskt mál, ég spái aldrei í neinu en ég á ekki að spá í neitt, þið eigið að spá í það, þið eigið ekki að spá í því:) merkilegt:)

Engin ummæli: