mánudagur, júní 23, 2003

Ég var að pæla, þessi auglýsing fyrir Veet Aqua eða hvað sem það heitir virkar ekki! Það eru þessar stelpur að pakka fyrir safaríferð, ein stoppar aðra þegar hún ætlar að pakka rakvél og bendir henni á Veet Aqua, þarf bara að bæta heitu vatni og tilbúið eftir þrjár mínútur. Það situr hópur af stelpum í bíl að keyra um Afríku eða á að vera Afríka því þær eru í réttum "búningum" fyrir það og stelpan vantrúaða segir: þrjár vikur án raksturs!!! ok. Þetta virkar ábyggilega á fæturnar en þær voru ekki með neinar rakvélar og hljóta að hafa verið orðnar að górillum undir höndunum er það ekki?:)

Eitt það skemmtilegasta sem hægt er að lesa á netinu eru dagbækur Lögreglunnar:) stíllinn á þessum færslum er stundum alger snilld:) af einhverjum ástæðum eru akureyrísku löggurnar oft fyndnastar, þetta er allt þaðan:

Dagbók helgina 20.-23. júlí 2003
Um helgina urðu 11 umferðaróhöpp, öll slysalaus og flest smávægileg. Síðdegis á sunnudag varð allharður árekstur á þjóðveginum með þeim hætti að bifreið nam staðar vegna umferðar á móti en ökumaður hennar hugðist beygja til vinstri heim að bóndabæ. Ökumaður sem á eftir kom tókst að nema staðar en sá sem kom þar á eftir tókst það ekki.

Dagbók helgina 13.-15. júní 2003 - Mjög erfið helgi greinilega:)
Talsvert var að gera hjá lögreglunni um helgina enda mikið um að vera eins og venja er helgina fyrir 17. júní. ... Eins og ævinlega þegar margir koma saman kemur í ljós að misjafn sauður eru í mörgu fé og sannaðist það um helgina. Þurfti lögreglan að hafa talsverð afskipti af fólki vegna ölvunar í miðbænum og á tjaldstæðunum við Þórunnarstræti. Verður það ekki liðið að nokkrir fylliraftar og knæpudólgar spilli fyrir fólki sem hér vill eiga ánægjulegar stundir og gista tjaldsvæðin í bænum
...
Á laugardag var tilkynnt um að sprautað hefði verið úr duftslökkvitæki yfir bifreið við fjölbýlishús í bænum. Maður sem þar var gestkomandi viðurkenndi verknaðinn en kunni enga skýringu á gerðum sínum.
...
Sömu nótt var tilkynnt um mann sem dottið hefði á hjóli og fengið skurð á höfði móts við verslunina Hagkaup.. Reyndist þetta vera sjómaður á leið til skips heldur hífaður. Hafði hann fengið sér hjól til reiðar en ástand hans þannig að hann datt af hjólinu.

Á níunda tímanum á sunnudagsmorgni varð það óhapp að stúlka, sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, hugðist gangasetja bíl. Vildi þá ekki betur til en svo að bifreiðin, sem var í gír, fór í gang og lagði af stað og yfir tjald sem var framan við bifreiðina. Í tjaldinu var par og vöru þau föst undir bifeiðinni er að var komið. Náðu lögreglumenn að lyfta framenda bifeiðarinnar þannig að hægt var að draga fólkið undan henni. Voru þau bæði flutt á sjúkrahús en munu sem betur fer ekki hafa slasast alvarlega.

Á sunnudagskvöld tilkynnti vegafarandi um bifreið sem æki í ljósum lögum (þetta stendur í alvörunni! með logum skal land byggja) vestur Víkurskarð áleiðis til Akureyrar. Tilkynnti vegfarandinn þetta til Neyðarlínunnar og reyndi í leiðinni að vekja athygli ökumanns á ástandinu. Þegar það loksins tókst kom í ljós að kviknað hafði í bifreiðinni innan við vinstra afturbretti, líklega út frá rafmagni. Tókst að slökkva eldinn en ökumaður bifreiðarinnar taldi að reykurinn kæmi frá útblástursröri bifreiðarinnar og væri því af eðlilegum ástæðum.

Laust eftir miðnætti á mánudag batt lögreglan enda á þrifabað tveggja ungmenna í gosbrunni niður í bæ. Voru þeir þar á nærbrókum einum fata og undu hag sínum vel. Slík ósiðsemi líðst að sjálfsögðu ekki á almannafæri og lauk baðinu á lögreglustöðinni.

Dagbók helgina 30. maí til 2. júní 2003
Laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags var maður á gangi í Hafnarstræti ásamt nokkrum kunningjum sínum. Bar þá til að á vegi hans varð bifreið sem lagt var við götuna. Í stað þess að leggja lykkju á leið sína fram hjá bifreiðinni eins og gangandi vegfarendum ber hélt maðurinn striki sínu og gekk yfir bifreiðina. Dældaðist þak bifreiðarinnar undan þunga mannsins og kom þá í ljós að valt er á toppnum og missti maðurinn fótanna, féll og lenti við það á annarri bifreið og dældaði afturbretti hennar. Sannaðist nú hið fornkveðna að betri er krókur en kelda og situr maðurinn nú uppi með tjónið á bifreiðunum sem hann verður að bæta.
...
Á sunnudagskvöldið var tilkynnt um pilta sem væru að gera það að leik sínum að eyðileggja sláttuvél á svæðinu sunnan við Norðurmjólk. Þegar lögreglan kom á staðinn var þar Lawnboy sláttuvél í henglum en gerendur farnir af staðnum. Eru upplýsingar um skemmdarvargana vel þegnar.

Dagbók helgina 16. til 19. maí 2003
Næturlíf helgarinnar var með hefðbundnu sniði smá ryskingar hér og þar en pústrar ekki stærri en svo að menn sleikja sár sín án frekari eftirmála.
...
Aðfaranótt sunnudagsins varð umferðaróhapp á Þórunnarstræti. Hafði ökumaður verið að reyna að forðast að aka yfir kött sem hljóp í veg fyrir bifreiðina. Tókst ekki betur til en svo að ökumaður misst stjórn á bifreiðinni sem lenti upp á umferðareyju og umferðarskylti og varð óökuhæf eftir. Það er af kettinum að segja að hann hélt veiðiferð sinni áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Dagbók vikuna 12. til 16. maí 2003
Á mánudagseftirmiðdag varð það óhapp er maður var að taka bensín á bensínstöð að hann gleymdi að aftengja slönguna frá bifreiðinni. Ók hann af stað með þeim afleiðingum að slangan slitnaði og nokkrar skemmdir urðu á bifreiðinni.
...
Á fimmtudagskvöld var tilkynnt um pilta sem farið hefðu bakdyramegin inn á veitingastað í miðbænum og stolið þaðan áfengi. Voru þeir gómaðir áður en þeir náðu að drekka sönnunargögnin og færðir á lögreglustöðina.


Dagbók helgina 9. til 11. maí 2003
Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins stöðvaði lögreglan för bifreiðar með eftirvagn í miðbænum. Var fiskikar með heitu vatni á vagninum og í því þrír menn að baða sig í mestu makindum. Var ökumanni bent á að slíkur farþegaflutningur stangaðist á við umferðarlög auk þess sem þrifabað með þessum hætti bryti í bága við almennt velsæmi.

Dagbók vikuna 5. til 9. maí 2003
Vikan hefur verið óvenju róleg sem þýðir með öðrum orðum að lítið hefur verið um afbrot, slys og óáran af ýmsu tagi sem oft gerir lögreglustarfið erilsamt.
...
Flestir hafa nú tekið fram reiðhjólin og hefur nokkuð borið á því að ófrómir hafi fengið sér hjól til reiðar án vitundar og samþykkis eiganda. Er rétt að brýna fyrir eigendum reiðhjóla að hafa hjólin ávallt læst þegar þau eru ekki í notkun.

Dagbók vikuna 28.apríl til 5 maíl 2003
Aðfaranótt föstudagsins var tilkynnt um innbrot í Veganesti. Vegfarandi hafði orðið var við grunsamlegar mannaferðir og gat gefið greinargóða lýsingu á viðkomandi. Eftir nokkra leit fannst maður sem svarið til lýsingarinnar þar sem hann lá inn í garði leikskóla í næsta nágrenni og í kring um hann þýfi úr versluninni og nauðsynleg áhöld til innbrots. Telst málið upplýst.


Alger snilld:)

Engin ummæli: