mánudagur, nóvember 13, 2006

Það er aftur spáð stormi ... ég er að fara í frí eftir átta daga :)

ég misskil hluti í dag, ekki í fyrsta sinn og því miður held ég að það verði ekki það síðasta ... ég er líka búin að vera stillt inn á ensku í allan morgun af einhverjum ástæðum?
Gaurinn var að vinna hérna við hliðina á mér og segir eitthvað sem ég heyri ekki alveg, fyrir utan eitt orð sem hljómaði eins og stíng eða stíg, þegar ég svara engu (enn að melta það sem hann hafði sagt) lítur hann á mig og segir "police? sting?" og ég fer að velta því fyrir mér afhverju í ósköpunum hann sé að tala um svoleiðis fyrir klukkan níu á mánudagsmorgni? hann var þá að tala um söngvara hljómsveitarinnar Police hann Sting ekki þegar lögreglan gabbar glæpamenn og kemur þeim í fangelsi - hvað er annars íslenska orðið yfir "sting"? er það til?
ég misskildi líka þegar Gaurinn var að tala um The Biggest Looser og sagði að þátturinn væri leikur, ég veit ekki afhverju en ég þýddi "leikur" sem "act" og að þátttakendur væru að leika í þáttunum, að þetta væri ekki raunveruleikasjónvarp ... gleymdi því alveg að "leikur" þýðir líka "game" og maldaði mikið í móinn áður en misskilningur minn uppgötvaðist, hann hélt bara að ég væri að vera með stæla, ekki að sleppa góðu röfli og þannig ... nei, ég var bara föst í meinloku ... ef þú lætur samloku mygla og verða eitraða verður hún þá meinloka? eru kjúklingalanglokur með salmonellu meinlokur? :)

gott að geta glatt sjálfa sig að minnsta kosti:) ... skil samt ekki afhverju ég er föst á ensku í dag? hefur þetta komið fyrir ykkur?

ég setti upp gardínufestingar í gærkvöldi, var loksins komin með rétta stærð af festingum, réttar skrúfur, búin að hlaða borvélina og finna tork skrúfjárn í réttri stærð þegar ég fatta að ég þurfti tæki sem gæti skrúfað fyrir horn til að ná efri skrúfunum beinum inn í vegginn ... nú voru góð ráð dýr en sem betur fer gat ég hringt í riddarann á hvíta hestinum (sem er í raun björgunarsveitarmaður á silfurlituðum Nissan) og hann átti svoleiðis í jeppanum sínum - það er gott að eiga góða vini, sérstaklega þegar þeir skilja spurningar á við "áttu skrúfjárn með olnboga?" :)

talandi um góða vini þá fór ég á Kótilettukvöld með mömmu og pabba og Maju síðasta laugardagskvöld:) það var ofsalega skemmtilegt og margt sem kom á óvart meðal annars það að mjög góður vinur og sessunautur hans pabba míns er fræg útvarpsstjarna sem ég hlusta á mörgum sinnum í viku:) ég hafði ekki hugmynd um að pabbi þekkti hann og mér leið hálfkjánalega allt kvöldið, hrikalegt að fatta að ég er grúppía án þess að hafa gert mér grein fyrir því ... leið líka svona þegar Tim Tangerlini var að kenna uppí skóla, lá við að ég skrópaði til að sýna að ég væri ekki grúppía:)

Lifið heil og vonandi gangið þið heilari til skógar en sumir ...

P.S. mér finnst alltaf sem stelpur séu meirihluti lesenda minna þannig að ég skrifaði fyrst: "vonandi gangið þið heilar til skógar" ... svo fór ég að flissa eins og Hómer Simpson "gangi þið heilar" tíhíhí "brain"!!

Góðar stundir

5 ummæli:

VallaÓsk sagði...

Ég hló og hló þegar ég las þetta...ég skil þetta svo vel því ég festist einmitt svona í annað hvort dönsku eða ensku stundum...gangið þið heilar híhíhíhíhí

Nafnlaus sagði...

Bloggið þitt að lifna.
Enda er spennan í þér að aukast, örfáir dagar í fríið.

Búin að setja upp gardínustengur, get ég þá tekið um axlir þér og horft djúp í augu þín og sagt...
Án þess að þú gjóir augunum undan í átt til svalagluggans.
Eða varstu að horfa á sófann ?
Nei, þetta er aðeins draumur minn.

Já, ég hef fest í tungumáli.
Var erlendis um tíma, eins og oft áður.
Kom heim, eins og alltaf.
Á kassanum í Bónus var ég næstum því búinn að bjóða afgreiðsludömunni góðan dag á undarlegri erlendri tungu.

Setning úr góðri bók, og margar fleiri um ferðalög og ferðalanga þar.
"Vits er þörf, þeim er víða ratar"

Góða ferð, og far heil Guðrún.

"Leynilegi Aðdáandinn."

Nafnlaus sagði...

Gleymdi einu.

Meinloka.... orðið er sjálflýsandi.

Það sem lokar meininu.
Meinloka er auðvitað plástur !
Þessi er stolinn :-)

Notaðu þetta sem lykilorð til að finna mig á Sólstöðublóti.
Ganga á milli manna og biðja þá að segja þér hvað meinloka er ? :-)
Satnad upp og segja þetta í ræðupúlti og gá hver veifar feimnislega ?
Á ég ekki frekar að koma til þín á blóti og spyrja þig hvort þú vitir hvað meinloka er ?

Kveðja,
"Leynilegi Aðdáandinn".

Nafnlaus sagði...

Gardínur eru eintómt bras! Ég veit allavega hvað er hægt að gefa þér í jólagjöf: olnboga á skrúfjárn!
Annars lendi ég reglulega í því að festast í norskunni og það getur verið ansi kjánalegt, sérstaklega þegar Terje er fastur í íslenskunni á sama tíma. Þá verða samskiptin oft frekar furðuleg!
Hvenær er svo sólstöðublótið? Ég bíð spennt eftir að leynilegi aðdáandinn verið afhjúpaður.....
"Allt á kafi í snjó"-kveðjur frá Akureyri

Nafnlaus sagði...

Mmmmmmm lettur......... á gamla mátann með sultu og ora grænum, það er bara málið ;)