miðvikudagur, september 20, 2006

Gullfallegt sólsetur, logn og fínt í fyrramálið væntanlega, samkvæmt sjómannahjátrú forfeðra minna að minnsta kosti;)

Ég sótti bíl bróður míns í réttingu í dag - hann klessti hann ekki sjálfur heldur var klesst á hann kyrrstæðan, tvisvar! Stundum er fólk ekki í lagi, hvernig geturðu ekki séð rauðan sjö metra langan, upphækkaðan, 38" dekk, Ford F350 pallbíl? Getur auðvitað verið að ég taki alltaf eftir þessum bílum vegna þess að ég er með pallbílablæti (fyrir þá sem eiga ekki málhreinsunarvini þá er blæti íslenska orðið yfir fetish og vegna þess að ég kann hvorki málfræði né stafsetningu þá legg ég mig fram um að nota íslensk orð og hugtök þegar ég get) og þó að ég sé farin að fíla Ara minn ágætlega þá er hann ósköp mikil píka greyið:) Ég saknaði Silveradosins míns mikið og vegna þess að það er svo mikið um sniðugar tilviljanir í heiminum sá ég einmitt Chevy Suburban á leiðinni heim með stuðaralímmiða sem á stóð:

I'd rather push a Chevy than drive a Honda!:D

... það sá heldur enginn Silveradoinn minn úr bílnum sínum þannig að hann var dældaður allan hringinn að lokum (kannski hefur klikkaði nágranninn minn gengið á hann með kylfu?) og það var endalaust verið að atast í honum, Willisinum líka en Ari litli fær að vera í friði ... hann er líka svo lítill að það tekur enginn eftir því að hann er til:) ég er að hugsa um að útbúa stuðaralímmiða á hann:

Ég verð Hummer ef ég verð duglegur að borða grautinn minn! :)

Það þýðir víst lítið að spá í það afhverju menn reyna ekki við mig og vera með pallbílablæti, það fer ekki saman ... yfirleitt keyri ég farartæki sem líta út fyrir að vera eign kærasta frekar en mín og það hjálpar ekki að ég á eingöngu föt sem hylja nærfötin mín, allir bolirnir ná alla leið upp og niður, ég hef gert samning við hárið á mér: ég bögga það ekki, það böggar mig ekki.

Gagnkvæmur skilningur er af hinu góða.

Fyrir utan það á ég það til að missa eitthvað vanhugsað útúr mér eins og í dag þegar ég var að taka mjög þrönga beygju á Þingholtunum á hinum yndislega en frekar stórvaxna Fordpallbíl bróður míns:

Svakalega er stórt undir mér, ég verð að punkta beygjuna ...

Farþegi minn pissaði í sætið.

Góðar stundir

Engin ummæli: